Bloggfærslur mánaðarins, maí 2006
1.5.2006 | 19:30
Fögnum frjálsu flæði fólks
Það er sjálfsagt að fagna því að frjálst flæði fólks á evrópska efnahagsvæðinu sé nú að fullu í gildi á Íslandi. Þó eflaust hafi mátt finna einhver rök fyrir því að aðlögunartími hafi verið settur á, áður en nýju aðildarþjóðirnar í A-Evrópu fengu full réttindi, get ég ekki séð hvað ætti að réttlæta það að framlengja þessa réttindaskerðingu þeirra.
Mér finnst eilítið skrýtið að sjá verkalýðshreyfinguna tala gegn því að þessu fólki sé gert kleyft að koma hingað til starfa. Hefur ekki verkalýðshreyfingin verið fylgjandi EES samningnum, í það minnsta kosti að mestu leyti? Hafa ekki heyrst sterkar ESB raddir innan úr verkalýðshreyfingunni? Ekki vill verkalýðshreyfingin að íslendingar segi upp EES samningnum? Eða er verkalýðshreyfingin þeirrar skoðunar að EES samningurinn sé eins og hlaðborð eða "dim sum", við veljum bara það sem okkur þykir gott og látum hitt eiga sig?
Ég verð að segja að mér þykir þetta verkalýðshreyfingunni lítt til sóma og sömuleiðis þeim stjórnmálamönnum sem mér virðist vera að fiska á svipuðum slóðum.
Væri ekki nær fyrir verkalýðshreyfinguna að taka vel á móti þessu fólki, keppast um að gæta réttinda þeirra (þeim mun líklega vera skylt að greiða gjald til verkalýðsfélaganna eins og öðrum) og standa fast á því að íslenskum kjarasamningum sé framfylgt.
Ég er líka hálf hissa ef stuðningsmenn EES samningsins og þó sérstaklega þeir sem eru fylgjandi inngöngu Íslands í ESB skuli ekki mótmæla þessum málflutningi verkalýðsforkólfa. Frjálst flæði fólks er nú einu sinni einn af hornsteinum ESB og EES samningsins.
Lög um frjálsa för verkafólks tóku gildi í dag | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
1.5.2006 | 15:37
Arnarhreiðrið - raunveruleikasjónvarp
Ég frétti af þessari vefmyndavél (sjá tengil hér að neðan) núna í gær, taldi rétt að deila henni með sem flestum. Þarna má sjá á stundum svo góða og skýra mynd af frá bakgarði á Hornby Island, Bresku Kolumbíu, að undrum sætir.
En vissulega er það ekki bakgarðurinn sem hefur þetta aðdráttarafl, heldur ernir sem hafa byggt sér hreiður þar. Þetta er víst annað árið í röð sem þeir verpa þarna og nú hefur tekist að varpa þessu beint á netið. Lítill arnarungi átti að hafa komið í heiminn á föstudaginn var, aldrei tókst mér að sjá hann, enda er nú er búið að bera það til baka. Líklegast þykir því að varpið hafi misfarist.
Þetta er stórkostleg sjón, en rétt er þó að vara þá við sem hyggjast fylgjast með arnarparinu, að aðsóknin á síðuna er slík, að erfitt getur verið að ná sambandi við myndavélina. Talið er að um og yfir 100 milljónir heimsókna hafi verið á síðuna á undanförnum mánuði eða svo, þannig að þó að aðstoð frá Microsoft og fleiri stórfyrirtækjum hafi komið til, er síðan gjarna við það að fara á hliðina.
Hér að neðan er tengill á síðuna, annar á frétt Globe and Mail um arnarhreiðrið og sá þriðji og fjórði frá CTV.
P.S. Núna hefur mér reynst ómögulegt að ná sambandi við síðuna í nokkurn tíma, en það borgar sig að reyna.
http://www.infotecbusinesssystems.com/wildlife/
http://www.theglobeandmail.com/servlet/story/RTGAM.20060429.weagle0430/BNStory/Science/home
http://www.ctv.ca/servlet/ArticleNews/story/CTVNews/20060430/overdue_eggs060430/20060501?hub=SciTech
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.5.2006 | 03:04
Blessaður sandurinn sem gerir okkur ríka
Sá í sjónvarpinu, nánar tiltekið á CBC, í gærkveldi nokkuð góða heimildamynd um olíusandinn sem liggur undir stórum hluta af Albertafylki hér í Kanada.
Þetta er ekkert smá magn af sandi, og ekkert smá magn af olíu. Stærðargráðan er líka með ólíkindum. Það þarf u.þ.b. 2. tonn af olíusandi, til að búa til 1 tunnu af olíu, og það er verið að tala um að fljótlega nái framleiðslan 1. milljón tunna á dag, jafnvel talað um 5 milljónir tunna á dag í framtíðinni.
Það er talið að 1.75 trilljón ( 1,750,000,000,000) tunnur af olíu séu þarna í jörðu, sumir segja allt að 2.5 trilljónir, þannig að það er ljóst að það er nokkuð mikið af sandi sem þarf að færa til. Þetta eru meiri olíubirgðir en nokkur önnur þjóð er talin búa yfir, ef Saudi arabar eru undanskildir.
Þessi olíusandur er mun dýrari í vinnslu, en hefðbundnari olíulindir, og var það ekki fyrr en með hækkandi olíuverði, að þessi auðlind varð virkilega álitleg. Þetta hefur nú þegar fært Kanada og Alberta fylki ótrúlegar tekjur, uppbyggingin í Alberta er gríðarleg og fyrir ekki löngu síðan sendi fylkisstjórn Alberta íbúum fylkisins, 400 dollara ávísun, svona til að létta aðeins pyngjuna.
En þetta er auðvitað ekki eintóm sæla. Gríðarlegt jarðrask fylgir þessum framkvæmdum, þeir sem lesa þetta geta dundað sér við að reikna út magnið af sandi sem þarf að færa til miðað við tölurnar hér að ofan. Reynt hefur verið að ganga eins vel frá og hægt er, en manngerð náttúra er aldrei alveg eins og sú sem fyrir var. Einnig hefur verið nokkur gagnrýni á þá staðreynd að gas er notað í miklum mæli við vinnsluna, og segja sumir að "hreinni" orkugjafi, sé þannig notaður til að framleiða "óhreinni". Einnig er gríðarlegt magn af vatni sem er notað við vinnsluna og óttast sumir að það hafi slæm áhrif á vatnsbúskapinn á svæðinu til lengri tíma.
En tæknin við þessa vinnslu er ennþá í þróun, og alltaf er leitað leiða til að gera þessa vinnslu ódýrari og hagkvæmari. Það er hins vegar ljóst að þegar ástand mála er eins og um þessar mundir verður þessi olía æ mikilvægari, bæði fyrir Kanada og ekki síður veröldina alla. Enda má oft lesa fréttir um hvernig bæði Bandaríkin og Kína séu að reyna að tryggja aðgang sinn að olíusöndunum.
Áform eru uppi um að byggja leiðslur frá Alberta til vesturstrandarinnar til að þjóna Kína, og stærstur partur af framleiðslunni fer nú þegar til Bandaríkjanna. Reyndar skilst mér að Kanada sé nú þegar stærsti einstaki birgi Bandaríkjannna hvað varðar olíu, en eitthvað um 17% af þeirri olíu sem Bandaríkjamenn nota kemur frá Kanada.
Set inn hér að neðan nokkra tengla fyrir þá sem vilja lesa meira um þessa auðlind.
http://www.energy.gov.ab.ca/89.asp
http://en.wikipedia.org/wiki/Athabasca_Oil_Sands
http://www.cbc.ca/news/background/oil/alberta_oilsands.html
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)