Bloggfærslur mánaðarins, maí 2006
13.5.2006 | 18:35
Hillary og Rupert
Það er ekki of sterkt tekið til orða að segja að samstarf þeirra Hillary Clinton, öldungadeildarþingmanns og fyrrum forsetafrúar og Rupert Murdoch fjölmiðlamóguls hafi vakið athygli, í það minnsta hérna vestanhafs. Samstarfið er nú ekki yfirgripsmikið, en þýðingarmikið eigi að síður, Murdoch ætlar nefnilega að taka þátt í því að safna peningum fyrir frú Clinton.
Veldi Murdoch´s sem hefur meðal annars fréttastöðina Fox innbyrðis, hefur ekki þótt vera höll undir Clinton hjónin, né heldur Demókrata yfirleitt. Frú Clinton hefur sömuleiðis yfirleitt ekki legið á skoðunum sínum á Murdoch, og hefur meðal annars talið hann vera þátttakanda í "risastóru samsæri hægri manna".
En er þá Hillary gengin í björgin? Stefnir hún að því að verða forseti með hjálp Murdoch? Yrði fjölmiðlaveldi Murdoch´s beitt í þágu frú Clinton og gegn Repúblikönum? Hvað eru Murdoch og fjölmiðlar hans mikilvægir í kosningabaráttu?
Þetta eru auðvitað spurningar sem eru erfitt að svara og varla tímabærar, en það er ljóst að þetta samstarf vekur athygli, og það ekki endilega góða. Auðvitað getur þetta fært Hillary inn á miðjuna, þar sem allir stjórnmálamenn virðast vilja vera í dag.
En eins og sjá má á fréttum, hefur þetta einnig reitt til reiði marga þá er standa lengra til vinstri í Bandarískum stjórnmálum, enda hafa þeir yfirleitt ekki vandað Fox News og Murdoch kveðjurnar. En ef Hillary verður frambjóðandi Demókrata, eiga þeir eitthvert val? Eða koma þeir til með að ná að hindra það að hún nái útnefningu?
Það er langt til kosninga, rétt um 2 og hálft ár, en það er ljóst að þetta útspil Hillary hefur vakið mikla athygli, undrun og jafnvel reiði. En er ávinningurinn meiri en sá stuðningur sem tapast? Það er engin ástæða til að vanmete Murdoch, eða Fox.
Hér er frétt NYT og sömuleiðis frétt úr Globe and Mail.
11.5.2006 | 15:19
Viðburðasnauðir dagar....
Það hefur ekki farið mikið fyrir bloggi hjá mér undanfarna daga. Ég var upptekinn við að klára fréttabréf Íslendingafélagsins hér í Toronto, þarf að ná í það til prentarans nú á eftir og skuttla því í næsta sveitarfélag, þar sem dugleg kona setur það í umslög og svo í póst.
Við notum fréttabréfið til að auglýsa upp viðburði á vegum félagsins, s.s. Kvennahlaupið og 17. júni hátíðarhöld, mánaðarlega bíóið okkar (sem reyndar tekur sér frí yfir sumarið) og svo eitt og annað sem stendur til hjá félaginu, eða meðlimum þess.
Að öðru leyti er nú ekki mikið að frétta, allt gengur sinn vanagang, bestu fréttirnar að við fáum húsið sem við keyptum nú nýverið, afhent fyrr en áður hafði verið um samið, fáum það ahent 26. júní, þannig að það er allavegna komið á það stig að við getum sagt "í næsta mánuði".
Annars heldur lífið bara áfram að vera ljúft, það er grillað alla daga, sólin skín og mér til hrellingar spá allar veðurstofur hér að sumarið verði óvenju heitt. Það verður því að öllum líkum mikil þörf fyrir kalda þetta sumarið, eins og það síðasta. Hitinn hérna getur orðið með eindæmum og ill þolandi fyrir norðurhjara menn eins og mig. Svo verðum við að sjá hvort rafmagnskerfið þoli það þegar öll loftkælingartæki eru botnuð?
En meira um loftslag, rakst á kenningu sem segir að breytingar á lofstlagi sem og elgir, hafi verið valdir að útdauða mammútanna, ekki eru allir sammála, en þessi kenning heldur fram sakleysi mannanna sem hingað til hefur verið kennt um þetta, sjá hér.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 15:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.5.2006 | 00:31
Eru evruvextir hættulegir?
Ég hef nú ekki verið einn af þeim sem hvatt hafa til inngöngu Íslands í ESB, eða verið fylgjandi því að evra verði tekin upp á Íslandi. Þó hef ég ekki tekið neina harða afstöðu, enda ef til vill ekki viðeigandi þar sem ég er ekki búsettur á landinu bláa. En þó vil ég fylgjast með umræðunni.
Þeir sem eru fylgjandi umræðunni hafa gjarna týnt til alls kyns atriði sem myndu verða öllum til góðs ef aðeins við gengum í ESB. Þar hafa þeir t.d. minnst á að matur og ýmislegt annað myndi lækka, enda féllu tollar og ýmis önnur gjöld niður við ESB aðild.
Þessi rök þykja mér ekki sannfærandi, enda væri íslendingum í lófa lagið að fella niður þessi gjöld, ef þeim sýnist svo og um það næst pólítísk samstaða. Það sama gildir um að draga úr niðurgreiðslum til landbúnaðar og gefa innflutning frjálsan. Um það geta íslendingar tekið ákvarðanir þegar þeim henta þykir.
Önnur röksemd hefur verið á þá vegu að stöðugleiki í efnahagslífinu aukist, íslendingar gætu tekið upp evru, gengissveiflur yrðu minni, og við værum með sama gjaldmiðil og okkar stærstu viðskiptalönd.
Þetta vegur vissulega þungt, og hljómar vel. Stærsta viðskiptaland okkar hefur reyndar ákveðið að taka ekki upp evru, hvaða ástæður sem þeir hafa nú fyrir því, þeir telja það ekki henta sínum hagsmunum.
Síðan er oft talað um hve hagstætt það væri fyrir okkur að geta notið þess að hafa sambærileg lánakjör og tíðkast í evrulöndunum. Þáð hljómar vissulega vel. Reyndar hafa mörg íslensk fyrirtæki notað sér slík kjör og tekið lán í evrulöndum til uppbyggingar og útrásar.
En hefði það verið gott fyrir íslenskt efnahagslíf að hér hefði verið svipað vaxtastig og í evrulöndunum síðustu ár? Ef lesin er frétt Morgunblaðsins sem hér fylgir með, þá segir þar að vextir í evrulöndunum séu of "vaxtarvænir" fyrir Danmörku. Hvað hefði þá mátt segja um Ísland? Hvaða áhrif hefðu evruvextir haft á Íslandi, fyrst að danska efnahagskerfið er í hættu að ofhitna af þeirra völdum?
Er ekki skrýtið að margir þeir sömu sem vilja ekkert frekar en evru, eru þeir sem hvað harðast hafa gagnrýnt þennsluna á Íslandi undanfarin ár?
Ég er því enn þeirrar skoðunar að best sé fyrir íslendinga að stand utan ESB og evrusamningsins, en hins vegar er rétt að hefjast handa um að afnema tolla og önnur gjöld, opna fyrir verslun með landbúnaðarvörur, það er öllum til hagsbóta, hitt er líklega affærasælast, í það minnsta enn um sinn, að til sé íslensk króna, efnahagsstýring sé innanlands sem og vaxtaákvarðanir.
OECD varar við hugsanlegri ofhitnun danska hagkerfisins | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
7.5.2006 | 15:51
Ferrari Über Alles
"Skósmiðurinn" klikkaði ekki á heimavelli og kom fyrstur í mark, mér til mikillar ánægju svona í upphafi dags. Kappaksturinn í sjálfu sér ekki tilþrifamikill en sigurinn nokkuð öruggur. Það kom mér nokkuð á óvart hvað margir bílar duttu út, veit ekki hvað margir þeirra voru á seinni keppninni með vélarnar.
En það er ennþá frekar langt í Alonzo, stigalega séð, og meðan hann gerir ekki mistök eða dettur á anna hátt úr leik, þá hefur hann gríðarlega sterka stöðu. Getur leyft sér að koma í mark í 2. eða 3. sæti, ef staðan er slík, á meðan hinir þurfa að berjast allt til enda.
Það var gaman að sjá Massa ná þriðja sætinu, og þannig skilaði keppnin okkur upp í annað sætið í keppni bílsmiða, upp fyrir MacLaren, gott mál.
Raikkonen kom í fjórða sæti, í sjálfu sé nokkuð góður árangur, en ekki nóg. Ef fram heldur sem horfir verður Raikkonen, einn af betri ökumönnum sem aldrei nær að vera heimsmeistari, hann "hittir" einhvern veginn ekki á það. Enda virðist Ron Dennis hafa misst trúna á því að hann geti orðið meistari, ráðning Alonzo sýnir það. Slagorðið "You Have To Have a Finn To Win", heyrist ekki lengur. Það verður því mikilvægt fyrir Raikkonen að velja gott lið fyrir næsta ár, ef að Schumacher hættir ekki hjá Ferrari, er Renault líklega besti kosturinn fyrir hann.
Að lokum verð ég að geta Nico Rosberg, frábær árangur hjá honum, gæti hæglega orðið meistari í framtíðinni, þá vonandi akandi hjá Ferrari, rétt eins og pabbi hans gerði áður fyrr.
Schumacher sigrar með glæsibrag | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.5.2006 | 03:39
Lífið er ljúft
Lífið er óttalega þægilegt þessa dagana. Áreynslulítið ljúft og skemmtilegt. Ég sit hérna við tölvuna, ætti auðvitað að vera að skrifa og brjóta um fréttabréf Íslendingafélagsins hérna í Toronto, en er ekki alveg í gírnum, sötra argentískt rauðvín, narta í smá bita af brie, finn ennþá bragðið af kalkúnanum sem ég grillaði í kvöld og er að velta því fyrir mér hvort ég eigi að fá mér ís eður ei. Skynsemin segir auðvitað nei, en svo er það auðvitað spurningin hvort að hún hefur ekki fengið að ráða einum of oft?
Laugardagskvöld, en það er svo sem hætt að hafa neina sérstaka merkingu, líklega er ég orðinn of gamall til þess, þess utan svo langt frá Íslandi, að menn eru litnir hornauga ef þeir detta almennilega í það. Enda ekki hægt að segja að ég hafi orðið almennilega ölvaður, ja, nema auðvitað þegar ég hef skroppið "heim" síðan ég flutti hingað. Ef til vill er það þess vegna sem ég er farinn að blogga, einhversstaðar verður maður líklega að fá útrás.
Svo þarf maður auðvitað að rífa sig upp eldsnemma í fyrramálið, formúlan byrjar jú um áttaleytið. Það segir líklega það sem segja þarf, að maður er oftast jafn syfjaður þegar maður horfir á formúluna núna, og maður var þegar maður horfði á hana í Frans, fyrir svona 10 árum eða svo. Núna 6 tímabeltum seinna á ferðinni.
En það er vonandi að "Skósmiðurinn" gleði okkur Ferrari aðdáendurna með sigri á Nurnbergring á morgun. Ef fer sem horfir verður hörkubarátta á milli hans og Alonzo. Meira um það á morgun.
6.5.2006 | 17:02
Hitt og þetta, Castro, hirð rauða tzarsins og hvernig einn maður getur breytt lífi margra
Í gær las ég að Castro væri á meðal ríkustu þjóðarleiðtoga heims. Ef ég man rétt var hann á þeim sama lista í bæði fyrra og hittifyrra. Á listanum aukast eignir hans ár frá ári.
En mig minnir að bæði Castro sjálfur sem og aðrir kúbanskir framámenn hafi mótmælt þessu harðlega og talað um slúður og vísvitandi blekkingar, tilraunir til að sverta mannorð Castro´s.
Enda er þessi niðurstaða um ríkidæmi Castro´s víst ekki fengin á vísindalegan máta, enda hleypir hann, sem og flestir aðrir þjóðarleiðtogar, Forbes víst ekki í heimilisbókhaldið. Reyndar er það með marga einræðisherrana, að erfitt er að sjá hvar fjármál þeirra enda og fjármál ríkisins taka við. Launin eru ekki alltaf há, en "hlunnindin" góð. Svo detta á borðið ýmis hlunnindi, svo sem ritlaun. Mér hefur til dæmis skilist að þeir kumpánar Hitler og Stalín, hafi haft svimandi tekjur í formi ritlauna, endu seldust bækur þær er þeir skrifuðu víst í bílförmum. Launatekjur þeirra munu hins vegar ekki hafa verið svo háar, en "hlunnindin" góð.
Þetta leiddi huga minn af bók sem ég las nýlega sem heitir "Stalin: The Court of the Red Tzar" (sjá hér. Bókin var gjöf frá tengdapbba, honum fannst ég ætti endilega að lesa hana, en hann hefur fundið það á eigin skinni hvernig það er að búa undir kommúnisma og í Sovétríkjunum.
Þetta er ákaflega vel skrifuð bók, og þægileg aflestrar, þó að hún geti ekki talist skemmtiefni. Það er auðvitað með eindæmum andrúmsloftið sem virðist hafa ríkt á valdatímum Stalíns. Settir voru kvótar fyrir svæði eða borgir, hvað skyldu margir drepnir, hvað margir sendir í útlegð og þar fram eftir götunum, víða fóru menn svo fram úr kvótunum. Hollustan við Stalín og flokkinn var sterkari en við vini og fjölskyldu, enginn var öruggur, allt laut vilja Stalíns og flokksins.
Stundum finnst mér eins og lítill lærdómur hafi verið dreginn af öllu þessu. Stundum verð ég var við að það er eins og sumir sakni kommúnismans, sem er þó alls ekki með öllu horfinn. Enn fleiri eru þeir sem ekki vilja horfast í augu við hvernig kommúnisminn hefur farið með margar þjóðir og eru á móti því að uppgjör fari fram.
Hér er frétt úr Times síðan í janúar síðastliðnum, einhverra hluta vegna hefur hún ekki farið hátt, alla vegna ekki svo að ég hafi orðið var við. En ef til vill hefur enginn áhuga á þessu lengur.
Á jákvæðari nótum er svo frétt sem ég las á www.globeandmail.com í morgun, en þar segir frá ungum fötluðum dreng frá Ghana, sem hefur með einstökum dugnaði, ekki aðeins breytt sínu eigin lífi, heldur lífinu hjá fjölmörgum fötluðum einstaklingum í Ghana og líklega víða. Fréttina má lesa hér.
Hvet alla til að lesa hana.
5.5.2006 | 17:30
Úr einu í annað - Bölvun? - númer satans? -
Stundum hefur verið talað um að bölvun hvíli á Kennedy ættinni. Það var ekki laust við að mér flygi það í hug þegar ég sá þessa frétt í morgun. Spurning hvort þetta vekur upp einhverja drauga um fyrri bílaóhöpp fjölskyldunnar. En ég velti því líka fyrir hvað hefði gerst ef svipaður atburður hefði hent í Bretlandi. Þannig eru fjölmiðlar mismunandi í mismunandi ríkjum. En hvaða áhrif ætli þetta eigi eftir að hafa fyrir Patrick Kennedy?
En hér eru fréttir úr NYT og Washington Post , þegar eru komnar fram raddir sem tala um "silkihanskameðferð". Nú eru ekki svo margir mánuðir til kosninga í Bandaríkjunum, þær verða 7. nóvember ef ég man rétt. Yfirleitt eru Kennydyar ekki taldir standa höllum fæti í Massachusetts eða Rhode Island, en það er vissulega spurning hvort þetta gæti breytt einhverju þar um?
Sá líka í fréttum að Bubbi Morthens mun halda upp á 50 ára afmælið sitt með tónleikum nefndum 06.06.06, sem mun víst vera afmælisdagurinn hans. Ég er nú ekki einn af stærri aðdáendum Bubba, en hef samt verið á nokkuð mörgum tónleikum hans, og oftast haft gaman af. Það hefur auðvitað verið vonlaust að búa á Íslandi án þess að heyra í Bubba og ég hef trú á því að flestir hafi í það minnsta gaman af einu laga hans, ef ekki fleiri.
En það að einn allra ástsælasti rokkari landsins skuli eiga afmæli þann 06.06.06, finnst mér skemmtileg tilviljun. Þarf frekari vitnanna við, að það er djöfullinn sem spilar í þessari tónlist?
En að öllu gamni slepptu, þá er þetta skemmtileg dagsetning, og ég leyfi mér að óska afmælisbarninu til hamingju, svona fyrirfram.
Tónleikar í sumar í tilefni af fimmtugsafmæli Bubba | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.5.2006 kl. 00:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
4.5.2006 | 15:36
... og klukkan er korter í kosningar...
Það var alla vegna það sem mér datt í hug þegar ég las þessa frétt nú í morgunsárið. Hvað skyldum við eiga eftir að lesa margar svipaðar fram að kosningum?
Nú hef ég ekki fylgst með kosningabaráttunni í Árborg, en það er ekki laust við að mér finnist örvæntingarlykt af þessu.
Auðvitað fagna allir þegar álögur á þá eru lækkaðar, en er þetta nóg til að fólk breyti því hvernig það greiðir atkvæði? Er eðlilegt að lækka álögur á miðju fjárhagsári? Hvernig stendur á því að staða sveitarfélagsins hefur tekið svo miklum framförum á fáum mánuðum?
Ef einhver þekkir til, þá þægi ég frekari útskýringar, t.d. í athugasemdum.
Fasteignaskattar lækkaðir í Árborg | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
3.5.2006 | 17:34
Hálfur sannleikur??
Þegar ég fór í gegnum netmoggann eins og ég geri svo oft, þá datt ég um þess frétt. Vissulega hefur þjóðnýtingin í Bolívíu vakið athygli, sem og þróun mála í S-Ameríku, nýr samningur Bolívíu, Venezuela og Kúbu, svo dæmi séu tekin. Sumar greinar sem ég hef lesið tala um stökk til vinstri og þar fram eftir götunum.
En ekkert í þessarri frétt er rangt. En fréttin er stutt og það sem fær pláss í henni, vekur óneitanlega eftirtekt sem og það sem ekki fær pláss.
Það er ekki laust við að þegar fréttin sé lesin undrist maður áhyggjur Evrópusambandsins yfir orkurisanum Exxon-Mobil, og að þeir hvetji yfirvöld Bolívíu til að róa fjárfesta, en þetta er eina fyrirtækið sem minnst er á í fréttinni.
En þegar lesnar eru fréttir í öðrum miðlum, kemur meira í ljós. Vissulega er Exxon-Mobil á meðal þeirra sem hafa fjárfest i Bolívíu, en þeir eru ekki á meðal stærstu "playerana" þar.
Fremst í flokki er brasilíska fyrirtækið Petrobras, svo koma fyrirtæki s.s. spænsk-argentínska Repsol, bresku fyrirtækin British Gas og British Petroleum, franska fyrirtækið Total og svo fyrrnefnt bandarískt fyrirtæki Mobil-Exxon. Eina fjárfesting Mobil-Exxon í Bolívíu er minnihluti í ónýttri gaslind, þar sem Total hefur ráðandi hlut.
Sé þetta tekið með í reikiningin, skil ég betur hvers vegna Evrópusambandið hefur áhyggjur af málinu og hvetur til þess að fjárfestar séu róaðir. Þá skil ég líka betur hvers vegna það virðist fara meira fyrir yfirlýsingum hjá ESB, heldur en Bandaríkjastjórn varðandi þetta mál. Vissulega hafa Bandaríkin af þessu áhyggjur, en líklega er það meira tengt stækkun áhrifasvæðis Venuzuela, en gasvinnslu "per se".
En þessi þjóðnýting kemur fyrst og fremst illa við Brasilíu og Argentínu, sem og auðvitað hin evrópsku fyrirtæki sem hafa fjárfest þar fyrir stórar upphæðir og sjá hugsanlega fram á að bera skarðan hlut frá borði, eða alla vegna mun minni en þau reiknuðu með. Repsol er t.d. með stóran part að sínum "gasbirgðum" í gaslindum í Bolívíu.
Ekki myndi ég segja að þessi frétt væri röng, en hún segir ekki nema hálfan sannleikann.
Fréttir sem ég vitna til þegar ég tala um aðrar miðla eru úr NYT Globe and Mail Globe and Mail
Yfirvöld í Bólivíu hvött til þess að róa niður erlenda fjárfesta í olíuiðnaði landsins | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.5.2006 | 18:14
Elskan, við erum að drepa börnin
Ég hef nú ekki verið einn af aðdáendum "raunveruleikasjónvarps", og er ekki enn, hef helst reynt að sneiða hjá slíkum þáttum, ekki haft gaman af því að horfa á fólk éta eitthvert ógeð, taka þátt í misgáfulegum þrautum, lifa eins og Robinson Krúsó, eða keppa um hylli hins kynsins.
En í gær þegar ég var eitthvað að "flippa" á fjarstýringunni, datt ég inn á "raunveruleikaþátt" sem fékk mig til að stoppa og fylgjast með. Þátturinn heitir því frumlega nafni "Honey We´re Killing the Kids", sem ég þýddi eins og sjá má í fyrirsögninni.
Þessi þáttur byggðist á því að fimm manna fjölskylda fékk næringarfræðing í heimsókn, fylgst var með því hvað börnin á heimilinu borðuðu og útfrá því var svo gerð tölvuspá um hvernig þau myndu eldast frá núverandi aldri (4, 7 og 10 ef ég man rétt) og til fertugs. Þessar myndir voru ótrúlega sláandi. Síðan var gerð áætlun til 3 vikna um breytt mataræði og aðrar lífstílsbreytingar.
Það var allt að því óhugnalegt að sjá hvernig mataræðið var, og þegar sýnt var hvað borðað var af sykri á hverjum degi. Ekki síður sláandi var að sjá hvernig börnin grétu þegar sjónvarpið var tekið úr herbergjum þeirra, til að minnka sjónvarpsgláp.
Þátturinn endaði síðan með að sýnd var ný tölvuspá um hvernig börnin þróuðust með aldrinum, ef haldið væri við nýja lífsstílinn. Sláandi breyting, og talið að lífslíkur þeirra hefðu lengst um fleiri ár. Líklega er þessum þáttum leikstýrt, í það minnsta að hluta, en það breytir því ekki að það sem ég sá í þættinum í gær, virðist ekki vera svo frábrugðið því sem ég sé hér á götunum á hverjum degi.
Ég fór svo í morgun og googlaði þetta og fann heimasíðu þáttarins og sá að BBC hefur einnig verið með þáttaröð með sama heiti.
Heimasíður þeirra má finna hér og hér
Ég hef ekki hugmynd um hvor sjónvarpsstöðin er upprunalegur hugmyndasmiður þessara þátta, en það skiptir ekki meginmáli, þetta er hins vegar þarft framtak og gott mál að fá fólk til að velta þessu fyrir sér.
Það er ekki laust við að ég hafi litið örlítið skömmustulega á vömbina á mér, og hugsað um að ég yrði að taka mig á, og passa sömuleiðis vel upp á börnin mín.
Væri ekki þörf fyrir sambærilega þætti á Íslandi?
Sjónvarp | Breytt s.d. kl. 18:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)