Bloggfærslur mánaðarins, desember 2006
17.12.2006 | 18:51
Af rafmagnsverði
Oft er rætt um rafmagnsverð á Íslandi, ekki síst í tengslum við rafmagnsverð til stóriðju og mismun á því verði og verði til almennings.
Margir eru hneykslaðir á því hver munurinn á því verði er mikill. Þá taka þeir lítið tillit til þess hve mikið magn stóriðjan kaupir og að hún kaupir það allan sólarhringinn, ekki bara þegar þeim dettur í hug, alla daga, allan ársins hring. Það er sömuleiðis lítið rætt um hvað það kostnaðurinn við afhendingu rafmagnsins er mismunandi, það að dreifa henni á ótal hús, eða afhenda á einn stað.
En það þarf líka að borga rafmagnsreikninga hér í Kanada og það sem meira er, rafmagnsreikningarnir eru vel sundurliðaðir og útskýrðir.
Mér datt því í hug að ræða örlítið um nýjasta rafmagnsreikninginn okkar, hér að Bjórá.
Á tveggja mánaða fresti fáum við rafmagnsreikning. Sá nýjasti er sundurliðaður sem hér segir:
655.260KWH @ 5.8c 38.12
345.061KWH @ 5.5c 18.98
Afhending 53.47
Stjórnun heildsölu 7.72
Eldri skuldir rafveitu 6.76
Söluskattur 7.45
Munurinn á verðinu (5.5 og 5.8c 3.30kr og 3.48kr miðað við CAD sem 60kr ) er vegna þess að verðið lækkaði 1. nóvember, það gerist hér að verðið lækkar.
Raunveruleg notkun var 966KWH en er hækkað upp í 1022.322KWH vegna tapsins á leiðinni að Bjórá.
En takið vel eftir liðnum "Afhending" sem er hér um bil jafn hár og rafmagnsverðið. Hann er að hluta til óbreytanlegur, óháð því hve mikið rafmagn við kaupum, enda rafmagnskapallinn alltaf til staðar.
Veit einhver hverjar sambærilegar tölur eru fyrir Ísland? Veit einhver hver er meðalkostnaður við afhendingu rafmagns til einstaklinga, t.d. per KWH? Veit einhver hver er meðalkostnaður afhendingar per KWH til stóriðju?
Að lokum vil ég minnast á að nú er búið að setja upp nýja rafmagnsmæla víðast um Toronto, sem geta mælt rafmagnsnotkun á mismunandi tímum. Dýrasti textinn verður frá 8 til 8, síðan örlítið lægri frá 8 til 10 um kvöldið, og loks ódýrasti textinn frá 10 um kvöldið til 8 um morgunin. Væri ekki ágætt fyrir Íslendinga að velta fyrir sér svipuðu fyrirkomulagi?
P.S. spilling í orkufyrirtækjum er einnig vel þekkt hér í Kanada og má lesa um það t.d. hér og hér.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.12.2006 | 18:07
Fucking - ekki svona hratt
Þegar ég las þessa frétt kom mér í hug bær í Austurríki, en myndir af bæjarskiltum hans hafa farið marga hringi á netinu. Það getur verið erfitt að búa í bæjum með skrýtnum nöfnum, og hefur það einnig í för með sér aukna glæpi, í því formi að óprúttnir aðilar fá mikla löngun til að stela skiltum með nöfnum bæjarins.
Ég er auðvitað að tala um bæinn Fucking, en þar hafa menn stundum viljað skipta um nafn, en hitt er þó líklegra að nafnið hafi í för með sér aukinn ferðamannastraum.
Uppruni nafnsin, alla vegna ef marka má Wikipediu, er frá manni að nafn Focko, og þýðir fólkið hans Fockos.
Hér er svo einnig smá fróðleikur.
Íbúar vilja breyta dónalegu bæjarnafni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.12.2006 | 17:07
Af fátækt
Ég hef fylgst dálítið með fátæktarumræðunni sem hefur staðið yfir nú undanfarna daga.
Það þarf vissulega að gera meira í þessum málum, og það er ekki nóg að ræða þetta nokkra daga árlega fyrir jólin.
En það eru einnig punktar í skýrslunni sem verða að teljast jákvæðir. Jákvæðasti punkturinn er tvímælalaust að fátæktin virðist í minnihluta tilvika vera viðvarandi. Ef 3/4 þeirra sem töldust fátækir árið 2000 eru það ekki lengur árið 2004, ber það vott um að um tímabundna erfiðleika er að ræða, erfiðleika sem fjölskyldunum tekst að vinna sig út úr.
Það hlýtur einnig að teljast jákvætt að fátæktarmörkin hafa hækkað gríðarlega á árunum 1994 til 2004, eða um 50%. Það þýðir með öðrum öðrum orðum að velmegun í þjóðfélaginu hefur aukist gríðarlega. Miðgildi launa sem þessi könnun tekur mið af hefur hækkað verulega.
En þar kemur að því atriði sem mér hefur fundist vanta í umfjöllunina, það er hvað miðgildi Íslenskra launa var árið 2004, og er notað til viðmiðunar í skýrslunni og í framhaldi af því hver eru "fátæktarmörkin"?
Því í raun segir þessi skýrsla ekki neitt um fátækt á Íslandi, en hún er ágætis heimild um jöfnuð á Íslandi árið 2004.
Svo má auðvitað rífast fram og til baka um hve mikill jöfnuðurinn á að vera og sýnist auðvitað sitt hverjum.
Það má líka spyrja hvort að það sé fátækt að geta ekki veitt sér og sínum það sem aðrir geta, þó að viðkomandi komist vel af?
Bestu fregnirnir eru að mínu mati hreyfanleikinn, það að 75% þeirra sem voru fátækir árið 2000 voru það ekki árið 2004, en það er ljóst að fyrir hina verður að leita leiða til að rétta þeirra hlut. Því raunveruleg fátækt er aldrei ásættanleg.
Spurning um hvort sveitarfélögin eigi að koma meira að málum fátækra | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
12.12.2006 | 21:19
Útrás jólaveinanna
Útrás jólasveinanna hefur orðið vart hér í Kanada. Það er morgunljóst að "Foringinn" fékk í fyrsta sinn á ævinni í skóinn í morgun, og þótti það ekki með öllu ónýtt.
Það er því ljóst að markaðsvæði Stekkjastaurs hefur tognað verulega og alþjóðlegt yfirbragð er komið á "reksturinn", enda var litla bókin sem lá í skó drengsins í morgun á Eistnesku.
Hvernig þeim á eftir að vegna í samkeppninni við Sankti Kláus og hina Eistnesku "jólaálfa", eða "Pakkapikku" sem keppa um markaðinn hér á heimilinu á eftir að koma í ljós.
Staðan er þó Íslendingunum hagstæð um þessar mundir, þeir hafa samið um einkarétt á skógjöfum, en "Pakkapikkúarnir" hafa tekið yfir súkkulaðimánaðardaginn og líklegast er að jólagjafir verði á einhvern hátt "joint venture", en samningar þar að lútandi eru vel á veg komnir, en eftir á þó að ganga frá ýmsum lausum endum.
Stekkjastaur kom fyrstur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
12.12.2006 | 20:48
´Tis the season to be jolly - Spakmæli dagsins
Ég fékk þetta spakmæli sent í póstinum í dag. Það á enda afar vel við nú í skammdeginu þegar farið er að kólna. Einfalt að útbúa og uppfyllir flestar þarfir.
Það er aðeins Irish Coffee, sem inniheldur í einu glasi alla fjóra mikilvægustu fæðuhópana, áfengi, koffín, sykur og fitu.
Alex Levine (hver sem það nú var eða er)
12.12.2006 | 20:00
Hljómar ekki vel
Það hljómar ekki vel að Íslendingar tapi fyrir Spænskum sólstrandargæjum í hokkí.
Það er ljóst að ég mun ekki hafa hátt um þetta hér í Kanada, en hér eru flestir þeirrar trúar að Íslendingar hljóti að vera almennt frekar sleipir á skautum, enda á Íslandi kjöraðstæður fyrir íþróttina. Sumir muna jafnvel eftir því að hafa heyrt minnst á Fálkana "'Íslensku" sem unnu fyrstu Olympíugullin sem í boði voru fyrir íshokkí, fyrir Kanada.
En merki ÍHÍ, Íshokkísambandans Íslands, er einmitt ætlað að minna á þá sögu.
En við verðum að vona að Íslendingarnir hressist, og taki til óspilltra málanna á ísnum.
Tap gegn Spánverjum í íshokkí | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.12.2006 | 03:35
Hættum þessu rugli.
Það er löngu tímabært að leggja þessa nefnd niður. Kominn tími til þess að hætta þessu rugli.
Þó að mér þyki ákaflega vænt um Íslenska nafnahefð og hafi lagt mig fram við það að viðhalda henni hér í Vesturheimi, mín börn eru Tómasarbörn, en það þýðir ekkert að ætla að varðveita einhverja hefð, gegn vilja landsmanna.
Þess vegna á að gefa notkun ættarnafna frjálsa, ef Íslendingar hafa almennt ekki áhuga á að viðhalda hefðinni, á ekki að neyða þá til þess. Það er fullt af fólki með ættarnöfn á Íslandi (það má finna þó nokkur til dæmis á Alþingi) og því ekki ástæða til að meina fólki að taka slík nöfn upp.
Skírnarnöfn eru svo annar skrítinn kapítuli, auðvitað á að gefa val á nöfnum alveg frjálst.
Ekki myndi ég skíra mín börn, Mosa eða Sveu, en það þýðir ekki að það sé hin eina rétta skoðun í málinu. Almenningur verður að fá að ráða þessu sjálfur.
Nafnið Kjarrval (ekkert skylt Kjarval) er vel þekkt í minni fjölskyldu og bera þó nokkrir einstaklingar það nafn. Þýðir það að þær fjölskyldur þar sem nafnið er þekkt, fá "einkarétt" á nafninu, þar sem það er ekki fært í mannanafnaskrá?
Einn besti vinur minn heitir Aðils að millinafni, og hefur gert það frá því að ég kynntist honum og líklega nokkuð lengur, er það ekki fullgilt nafn?
Leggjum mannanafnanefnd niður, afnemum lög um mannanöfn og takmarkanir á eftirnöfnum, gerum nafnabreytingar eins auðveldar og hugsast getur (það er jú kennitalan sem gildir) og leyfum almenningi að ráða.
Nöfnin Malm og Aðils fengu ekki samþykki | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
11.12.2006 | 06:41
Líklega koma þeir á langskipum - Líðst forsætisráðherra að vera með tvöfaldan ríkisborgararétt?
Ég var að lesa hér á blog.is, áhyggjur manna (Sjá Andrés og Stefán) yfir því að Norðmenn eða Danir komi á einhvern hátt að vörnum Íslands.
Þó að ég geti vissulega tekið undir að þetta sé ekki óskastaðan, þá get ég heldur ekki skilið að við getum ekki átt samstarf við þessar þjóðir um varnarmál, það skaðar Íslendinga varla meira en það mikla samstarf sem við eigum við þessar þjóðir nú þegar.
Persónulega sé ég ekki meiri ástæðu til þess að líta á Ísland sem fylki í Noregi, komi þeir að vörnum landsins, ekki frekar en ég leit á Ísland sem fylki í Bandaríkjunum á meðan þarlendur her sat í Keflavík.
En eins og Stefán kemur inn á þá eru vissulega sterk Norsk tengsl í Íslensku ríkisstjórninni, það sýnir ef til vill betur en nokkuð annað, hvað þessar þjóðir eru tengdar, og tel ég ekki ástæðu til að líta á það sem sérstaka vá, þó að tengsl ráðherra við Norðmenn séu í talin í færri ættliðum, en flestra annara Íslendinga.
Þó verðum við auðvitað að hafa auga með því að þeir byrji ekki að tala um Geir Haarde sem Norðmann, svona rétt eins og þeir hafa reynt að eigna sér Leif Eiríksson.
En þettar "flúttar" við svipað mál sem er komið upp hér í Kanada, nýr formaður Frjálslynda flokksins er nefnilega með útlendan ríkisborgararétt. Hann er vissulega Kanadabúi, og hefur hérlenda ríkisfestu, enda fæddur hér og uppalinn, en hefur tvöfaldan ríkisborgararétt, hefur einnig Franskan ríkisborgararétt í gegnum móður sína.
Þetta þykir mörgum Kanadabúum ekki góð "latína", finnst ekki forsvaranlegt að maður sem er hreint ekki ólíklegt að verði forsætisráðherra í náinni framtíð, skuli hafa erlendan ríkisborgararétt.
Stephane Dion yrði þó langt í frá fyrsti forsætisráðherran í Kanada sem hefði tvöfaldan ríkisborgararétt, en hann yrði sá fyrsti sem hefði ríkisborgararétt í öðru landi en Kanada og Bretlandi.
Dion hefur sagt að hann ætli ekki að afsala sér franka ríkisborgararéttinum, þó með þeim fyrirvara að ef hann sjái að það fari að há flokknum á atkvæðaveiðum, þá láti hann undan.
En þetta má lesa á vef Globe and Mail.
Sitt sýnist hverjum um þetta og hefur þetta endurnýjað kraftinn í umræðunni um tvöfaldan ríkisborgararétt hér í Kanada, en mörgum þykir að honum sé útdeilt full frjálslega.
En þetta er eitthvað sem Íslendingar geta líka velt fyrir sér, því nú þegar tvöfaldur ríkisborgararéttur er leyfður fyrir Íslendinga, er þetta vissulega staða sem getur komið upp.
11.12.2006 | 05:46
Sjálfsgagnrýni?
Ég get ekki að því gert að ég glotti út í annað, allt að því bæði þegar ég les stuðningsfólk Samfylkingarinnar tala um að Ingibjörg Sólrún hafi komið með þarfa og tímabæra sjálfsgagnrýni inn í Íslenska stjórnmálaumræðu. Eitthvað sem aðrir stjórnmálaflokkar ættu að taka sér til fyrirmyndar.
Hvernig getur það að segja að þjóðin hafi ekki treyst þingflokki Samfylkingarinnar, en nú sé allt breytt, vegna þess að "Ég" er tilbúin, flokkast undir sjálfsgagnrýni?
Útskýringar vel þegnar.
11.12.2006 | 03:53
Fjölmargir miðlar
Eins og frem hefur komið í fréttum og ég reyndar bloggaði um fyrir stuttu, er komin ný alþjóðleg fréttarás, þar sem litið er á fréttirnar frá Frönskum sjónarhóli. Rásin er samvinnuverkefni Group TF1 og Franska ríkissjónvarpsins og kemur Franska ríkið til með að borga brúsann, svona alla vegna að mestu leyti.
En það hefur fjölgað alþjóðlegu fréttarásunum og er jafnvel útlit fyrir að svo verði frekar. Allir þekkja CNN og BBC, nú hefur eins og áður sagði France24 (þessi rás er sögð hafa verið sérstakt áhugamál Chirac forseta og hefur ýmist verið kölluð "Chirac TV" "Jaques TV" eða "Not The English News") bæst í hópinn og sömuleiðis alþjóðleg rás Al Jazeera. Fyrir u.þ.b. ári byrjaðu Rússar að senda út alþjóðlega fréttarás, Russia Today en hún hefur ekki vakið mikla athygli og þykir hlutdræg.
Iran er sagt vera að undirbúa fréttarás, sem yrði kölluð "Press" og Kínversk stjórnvöld eru sömuleiðis sögð vera að hugleiða að setja á stofn rás. Verða ekki allir að eiga eina? Sömuleiðis eru víst einhverjar þreifingar um að setja á sérstaka fréttarás fyrir Afríku, én fjármögnun mun víst vera meira vandamál þar.
Sömuleiðis berast svo fréttir af mikilli útþennslu á Íslenskum fjölmiðlamarkaði, þó þar sé þennslan einskorðuð við prentmarkaðinn. Ljósvakamarkaðurinn þykir varla árennilegur þar.
En nýtt vikublað, og líklega tvö ný dagblöð (þó að þau að einhverju marki byggi á gömlum grunni) er ekki lítil viðbót fyrir þjóð sem eingöngu telur u.þ.b. 300.000.
Það er nokkuð merkilegt að þetta skuli allt vera að gerast í einu, en líklega þykir mörgum að einhver "eyða" sé á markaðnum, en ólíklegt verður að teljast að öll áform gangi upp.
Það er þó ljóst að nýju alþjóðlegu fréttarásunum er ekki ætlað að skila hagnaði, þeim er ætlað að skila áhrifum. Hvað Íslensku miðlana varðar, þá veit ég minna um það, en líklega er þeim þó ætlað hvoru tveggja. Það hafa líklega fáir hug á því að borga lengi með blöðum á Íslenskum markaði, en það hafa fáir efnast á blaðaútgáfu á Íslandi, en það er ekki hægt að neita því að útgáfunni geta fylgt áhrif.
Viðskiptablaðið fimm sinnum í viku | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |