28.4.2006 | 20:30
Að berjast í bönkum
Ég spjallaði örlítið um matarinnkaup hér fyrir nokkru, mikilvægur útgjaldaliður sem borgar sig að fylgjast vel með, en húsnæði og kostnaður því tengdur er ekki síður stór útgjaldaliður, og gjarna stærsta einstaka fjárfesting sem einstaklingar fara í á ævinni.
Það er því mikilvægt að vel til takist og ekki síður að fjármögnunin sé góð, því það eru víst fáir sem kaupa sér húsnæði án þess að taka stóran hluta þess að láni.
Þá hefst bankabaslið, fyrst auðvitað að finna einhvern sem vill lána, og ekki síður mikilvægt á hvaða kjörum lánið fæst.
Ég ætla að deila aðeins með ykkur reynslu minni af þessu öllu saman.
Það er reyndar rétt að taka það fram að reynsla mín frá Íslandi í þessum efnum var afskaplega þægileg og einföld. Ég keypti íbúð með gömlu Byggingarsjóðsláni áhvílandi, krotaði nafnið mitt á það, og borgaði afganginn á árinu. Síðan borgaði maður af þessu skilvíslega á þriggja mánaða fresti og þegar ég seldi íbúðina, ríflega 8 árum seinna, hafði höfuðstóllinn hækkað um 500.000 eða svo. En ég kvarta ekki, mér leið vel í íbúðinni, afborganirnar voru hóflegar og lánið var miklu lægra hlutfall af heildarverði íbúðarinnar en verið hafði í upphafi.
Hér í Kanada er þetta dulítið öðruvísi, að stofni til það sama, maður fer og finnur einhvern sem vill lána manni (helst 2 eða fleiri) og síðan er að ákveða hvernig lán maður vill taka, og síðan að reyna að prútta örlítið um vextina. Hér er engin verðtrygging, en vextir eru ákaflega mismunandi og það þýðir ekki að verðbólgan eti upp lánið, þó að það geti tæknilega gerst.
Algengt er að lán hér séu með vexti bundna aðeins til eins árs. Að ári liðnu ferðu aftur í bankann og þarft að semja upp á nýjan leik um hvernig lán og vexti þú kýst.
Dæmi um vexti og mismundi lán má sjá t.d. hér: Rétt er að hafa í huga að stýrivextir seðlabankans hér hafa nýverið verið hækkaðir upp í 4% og verðbólgan er ca. 2%.
Lántakendur velja síðan fasta vexti til ákveðinna ára, eða breytilega vexti, allt eftir því hvað hverjum hentar og hvort menn hafa trú á því að vextir komi til með að hækka eða lækka, en það er með það eins og jólagjafirnar, að vandi er um slíkt að spá.
Það er því alveg ljóst að þó að verðtrygging sé ekki til staðar, þá vilja bankarnir auðvitað hafa eitthvað fyrir sinn snúð, enda líklega ekki hægt að ætlast til annars. Því lengur sem þú vilt festa vextina, því hærri verða þeir. Engan hef ég heyrt tala um að binda vextina til 25 ára, sem er algengasti lánstíminn hér. Því meiri sveigjanleika sem þú vilt hafa í auka- eða uppgreiðslum, því hærri vextir. Loks er rétt að geta þess að ef þú ætlar ekki að borga í það minnsta kosti 25% af kaupverðinu með eigin fé, þá krefjast bankarnir hér að þú kaupir greiðslutryggingu, hún getur verið frá 1. til 3. % af lánsupphæðinni, greiðist aðeins einu sinni og bankarnir bjóðast til að bæta henni við heildarupphæðina.
En besti hlutinn er eftir. Ef þér tekst að vekja áhuga fleiri en einnar lánastofnunar á því að lána þér, þá er hægt að labba á milli, bera saman kjörin og segja hvað hinir eru að bjóða. Ég held að uppáhaldssetningar mínar þessa vikuna séu: "I can do better than that" og "I'll match that".
Hér gildir að sjálfsögðu að hafa góða greiðslusögu, og hafa nokkuð gott eiginfé, vera með öðrum orðum álitlegur lántakandi. Með þessu móti tókst mér að krækja mér í húsnæðislán sem er langt undir þeim % sem póstað er á heimasíður bankanna og nokkuð lægri en mér voru boðnir í upphafi. Er að sjálfsögðu ákaflega stoltur af þessum samningahæfileikum mínum.
En það sem er ekki síður gott og eykur vellíðunartilfinninguna hérna, er að það er enginn falinn kostnaður. Konan í bankanum varð hálf skrýtin á svipinn, þegar ég fór að ympra á hvort að það væri einhver kostnaður? Svona er maður nú mikill íslendingur í sér.
Það eru engin lántökugjöld, engin stimpilgjöld. Bankinn gefur okkur meira að segja 500 dollara, sem er ætlaður upp í lögfræðiskostnað við húsakaupin og lántökuna, svona til að segja til hamingju með nýja húsið.
Já, allur peningurinn sem við tökum að láni fer í að borga húsið, stórkostlegt ekki satt?
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Dægurmál, Bloggar, Vinir og fjölskylda | Breytt 30.4.2006 kl. 14:45 | Facebook
Athugasemdir
Þetta er athyglisvert og greinargott. Er ekki athugandi að koma þessu betur á framfæri við íslenska húsnæðiskaupendur, til dæmis með því að fá þetta birt í Mogga sem aðsenda grein? Eða vita allir Íslendingar að þetta er svona í útlöndum?
Bestu kveðjur,
KGA
Kristján G. Arngrímsson, 29.4.2006 kl. 22:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.