Talandi um eista

Það fer alltaf svolítið í taugarnar á mér þegar íslendingar eru að tala um eista.  Þetta getur reyndar ekki talist eitt af mínum hjartans málum, en samt pirrar þetta mig ofurlítið.  Ef til vill er það undirmeðvitundin sem er þarna að verki, og mér sé það andsnúið að segja fólki að ég sé giftur eista, ef til vill er þetta íhaldssemi og löngun til að halda í það sem ég ólst upp við, eða sambland af þessu tvennu, hver veit.

En ég er sem sé giftur eistlendingi.  Eistlendingar var líka það orð sem ég man fyrst eftir að hafa heyrt notað yfir þá þjóð sem byggir Eistland (sem þá var reyndar partur af Sovétríkjunum sálugu, en heimamenn vilja meina að þeir  hafi hersetið landið), rétt eins og við höfum notað orðið íslendingar yfir okkur sem erum fædd á Íslandi.  En síðan, fyrir nokkru, stuttu eftir að Eistland varð sjálfstætt ríki á nýjan leik, fór þetta að breytast, farið var að tala um eista.  Samsvarandi væri þá líklega að tala um svissa, í stað svisslendinga og ísa í stað íslendinga, því yrði svo líklega snarað yfir á enskuna sem "ices". 

Ekki veit ég hver ber ábyrgð á þessarri breytingu, en vil hvetja hann, eða þá, til að draga þetta snemmendis til baka, og hvetja alla til að nota orðið eistlendingar.  Eins og tíðkast að segja nú til dags, þá gleymdist nefnilega alfarið að hafa samband við hagsmunaaðila.

Eiginlega er þetta partur af miklu stærra máli, sem er alls kyns landa og þjóðaheiti sem við íslendingar höfum stundum bögglast dálítið með, mér er til dæmis ennþá illa við að segja kúbverjar, og held mig yfirleitt við að nota orðið kúbumenn sem tíðkaðist í mínu ungdæmi. 

En það getur verið gaman að velta þessum málum fyrir sér, af hverju segum við t.d. þjóðverjar, en ekki þýsklendingar? En í þessum málaflokki er margt skrýtið og líklega betra að hætta sér ekki lengra í þá sálma.

 En gerið þið það nú fyrir mig að tala um eistlendinga, það hljómar svo miklu viðkunnarlegra.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband