26.2.2009 | 04:35
Stjórnlagaþing og breytingar á stjórnarskrá? Er þörf fyrir bæði?
Ég fékk tölvupóst frá ágætis kunningja mínum. Þar talaði hann um stjórnlagaþing og fyrirætlanir í þá veru.
Við erum reyndar sammála því að stjórnlagaþing gæti orðið til góðs á Íslandi, en vissulega er ekki sama hvernig að því er staðið og hvernig því er komið á laggirnar. Sjálfur er ég ekki með neinar mótaðar hugmyndir um hvernig ég vildi sjá kosið til stjórnlagaþings eða hvernig það ætti að starfa.
En það sem kunningi minn vakti athygli mína á er sú þversögn að sú minnihlutastjórn sem nú situr á Íslandi, hefur lýst yfir fyrirætlunum sínum um að koma á stjórnlagaþingi (sjá t.d. hér), en hefur sömuleiðis lýst yfir þeim fyrirætlunum sínum að standa fyrir breytingum á stjórnarkránni eftir hefðbundnum leiðum á Alþingi.
Hvernig má það vera að ríkisstjórn sem hefur vilja til þess að koma á stjórnlagaþingi til að vinna nýja stjórnarskrá, telur þörf á því að breyta stjórnarskránni stuttu áður en stjórnlagaþing tæki til starfa?
Er ekki best að allar breytingar bíði stjórnlagaþings?
Eða er engin alvara á bakvið hugmyndir um slíkt þing?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:45 | Facebook
Athugasemdir
Nákvæmlega. Minnihlutastjórnin virðist ekki átta sig á því hvað stjórnlagaþing er, fyrst hún lætur sér detta þetta í hug.
Gestur Guðjónsson, 26.2.2009 kl. 09:22
Stjórnlagaþing er eitthvað sem allir stjórnmálaflokkar og okkar helstu vitringar þurfa að koma að og vinna í sátt og samlindi sín á milli og við þjóðina í heild. Það má ekki gerast að farið sé í slíka vinnu í einhverjum flýti og flausturskap. Það þarf að gefa sér góðan tíma og vanda til verka. Annars er verr af stað farið en heima setið.
Bestu kveðjur,
Tómas Ibsen Halldórsson, 26.2.2009 kl. 13:48
Ég held að stjórnlagaþing gæti orðið til góðs, en er sammála því að það þarf að vanda undirbúningsvinnuna og það er alveg rétt að flas er ekki til fagnaðar í þeim efnum. Betra að fara hægar og vandlega yfir.
En ég er líka hissa hve mikla áherslu minnihlutastjórn sem ætlað er að sitja í mjög takmarkaðan tíma, leggur mikla áherslu á stjórnarskrárbreytingar. Persónulega þykir mér það ekki rökrétt. En síður er það rökrétt að ætla í breytingar ef ætlunin er að koma á stjórnlagaþingi.
En þetta er vissulega ekki það eina sem virkar lítt rökrétt hjá núverandi stjórn.
G. Tómas Gunnarsson, 26.2.2009 kl. 20:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.