Obama í heimsókn

Barack Obama er í dag í sinni fyrstu utanlandsför sem forseti Bandaríkjanna.  Heimsóknin er einmitt hingað til Kanada, eða nánar tiltekið til höfuðborgarinnar Ottawa.

Hérlendir fjölmiðlar hafa verið verið uppfullir af heimsókninni undanfarna daga, enda Obama gríðarlega vinsæll hér í Kanada og samkvæmt skoðankönnum er vinsældaprósenta hans mun hærri hér en í Bandaríkjunum.

Ekki er búist við miklum tíðindum af heimsókninni, en samkvæmt fjölmiðlum mun aðal umræðuefnin vera viðskipti, olía og umhverfismál.

Viðskipti landanna eru mikil og mikilvæg og eftir því sem ég kemst næst eru engin landamæri sem meiri viðskipti fara fram yfir, eða u.þ.b. 1.5 milljarðar dollar á dag.  Það eru því gríðarlegir hagsmunir í húfi, ekki síst fyrir Kanadabúa, en u.þ.b. 2/3 af útflutningi landsins fara til Bandaríkjanna.  Það vakti því nokkurn ugg í brjóstum Kanadabúa þegar Obama talaði um það í kosningabaráttunni að eitt af hans fyrstu verkum yrði að endurskoða NAFTA fríverslunarsamningin.  Bílaiðnaðurinn er t.d. gríðarlega samþættur í löndunum og hafa Kanadamenn lagt til mikla aðstoð við Bandarísku bílafyrirtækin.  Fyrir bæði löndin er frjáls viðskipti því gríðarlega mikilvæg og óttast margir um hag landanna ef aukin verndarstefna verður ofaná.

Loftslagsmál eru einnig talin verða framarlega í umræðunni.  Sérstaklega er líklegt að vinnslan á olíusöndunum hér verði í umræðunni, enda umhverfisrask af henni meira en hefðbundinni olíuvinnslu og vilja sumir Bandaríkjamenn hreinlega banna innflutning á henni.

En heimsókn Obama varir ekki í nema nokkrar klukkustundir, en ef það verður eitthvað áþreifanlegt sem kemur út úr henni er helst reiknað með að tilkynnt verði um samstarfsvettvang á sviði umhverfismála.

En Kanadabúar eru almennt glaðir yfir því að Obama skuli velja Kanada sem fyrsta landið til að heimsækja, en mörgum þótti það nálega móðgun þegar George W. Bush fór í sína fyrstu utanlandsferð sem forseti (sem var þó talin óopinber) til Mexíkó.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Georg P Sveinbjörnsson

Síðan verður nú ábyggilega farið að setja kraft í North American Union skrímslið, mál sem er búið að vera hálfgert hus hush, en er þó búið að vera í undirbúningi lengi.

Georg P Sveinbjörnsson, 19.2.2009 kl. 19:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband