Er Samfylkingin í ástandi til að vera í ríkisstjórn?

Ég held að flestir séu þeirrar skoðunar að það styttist í núverandi ríkisstjórnarsamstarfi.  Þó er ekki hægt að neita því að ákveðin rök séu fyrir því að hún haldi áfram og starfi fram að kosningum, hvenær svo sem þær yrðu ákveðnar.

Hins hef ég líka ákveðnar efasemdir um að Samfylkingin sé hæf til þess að vera í ríkisstjórn um þessar mundir.  Þar virðist hver höndin vera á móti annarri, stór hluti flokksins vill slíta stjórnarsamstarfi nú þegar og efna til kosninga í vor.

Ákveðið tómarúm virðist hafa myndast í stjórn flokksins við veikindi Ingibjargar Sólrúnar og virðist svo sem að ákveðin barátta sé hafin í flokknum og menn að reyna að taka sér stöður.  Harðast ganga þeir fram sem hafa orðið undir í valdakaplinum í flokknum, og telja sér líklega trú um að nú sé lag.

Það hlýtur því að vera ljóst að ríkisstjórnin getur varla setið mikið lengur, nema fram komi afdráttarlaus yfirlýsing frá þingflokki Samfylkingarinnar um hvort hann styðji ríkisstjórnina.

Hvað þá tekur við er vissulega nokkuð óljóst, þrátt fyrir ábyrgðarlaust tilboð Framsóknarflokksins um að styðja minnihlutastjórn VG og Samfylkingar og viðræður Össurar og Ögmundar.

Það liggur engan vegin ljóst fyrir hvert slík ríkisstjórn myndi stefna, og ljóst að yfirlýsingar Steingríms J. í Kastljósinu, t.d. um IMF lánið féllu í frekar grýttan jarðveg hjá mörgum Samfylkingar og Framsóknarmanninum.

Það væri sömuleiðist fróðlegt ef fjölmiðlamenn fengju svör hjá þingmönnum Samfylkingar um hvaða verkefni þeir telja ríkisstjórn VG og Samfylkingar geta ráðist í, sem ekki væru framkvæmanleg í núverandi ríkisstjórn.

Skoðanakönnunin sem birtist í gær hefur líklega helt olíu á eldinn, Samfylkingin orðin 4. stærsti flokkurinn og því hefur líklega farið um margan þingmannin.

Þessum pistli er best að ljúka með góðum óskum til Ingibjargar Sólrúnar, von um að hún nái fullum bata sem allra fyrst og taki fram rauða járnhanskann, og komi á skikki í Fylkingunni.


mbl.is Styðja stjórnarslit
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Héðinn Björnsson

Bæði Samfylking og Sjálfstæðiflokkur eru óhæf til stjórnarþátttöku og best væri að Þorvaldi Gylfasyni eða einhverjum slíkum væri falið að mynda stjórn til að stýra landinu fram að kosningum. Þá gætu stjórn landsins tekið á því sem taka þarf á og stjórnarflokkarnir einbeitt sér að því að finna sér nýja leiðtoga.

Héðinn Björnsson, 23.1.2009 kl. 09:07

2 identicon

Ég held að það hafi verið fljótfærni af Samfylkingunni að afþakka boð Framsóknar. Ég efast um að Samfylkingin komi þá að næstu stjórnarmyndun.

VG getur ekki með nokkru móti farið í stjórn með SF öðruvísi en að ganga á bak sinni stefnu í veigamiklum atriðum.

Mest kom mér þó á óvart að Steingrímur skyldi setja stuðning VG á útsölu og vera bara til í hvað sem er, ætti reyndar ekki að koma á óvart því þetta gerir hann alltaf.

Samfylkingin er brunnin held ég.

sandkassi (IP-tala skráð) 23.1.2009 kl. 10:28

3 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Ég er sammála Héðni. Bæti því við, að það er enginn flokkur nú tækur í stjórn, nema Framsókn, sem er búin að uppræta forystu sína og fá nýja. Það þurfa hinir flokkarnir líka að gera. Við þurfum að byrja upp á nýtt, og sannarlega kom á óvart að framsóknarmenn riðu á vaðið.

Merkilegt líka að þegar til kom átti Geir í litlum vandræðum með að vera afdráttarlaus, hann sýndi í dag hvað í honum býr. Sennilega sýnir þetta að hann hefur fyrst og fremst farið undan í flæmingi undanfarið til að reyna að styggja ekki stríðandi fylkingar innan flokksins.

Kristján G. Arngrímsson, 23.1.2009 kl. 18:27

4 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Sjálfstæðisflokkurinn er að því leyti betur til stjórnarsetu fallinn, að þar virðast menn geta unnið betur saman en í Samfylkingunni og stefna í sömu átt.

Í Samfylkingunni virðist hver höndin upp á móti hverri annarri og heiftarleg valdabarátta að brjótast út.

Það er að vísu möguleiki að slíkt hið sama gerist í Sjálfstæðisflokknum, nú þegar Geir hefur lýst því yfir að hann muni ekki sækjast eftir endurkjöri, en ég vona sannarlega að flokksmenn sýni þá skynsemi að hemja sig.

Það er spurningin hvað gerist fram  að kosningum, en mér sýnist þó best ef hægt væri að Geir og Ingibjörg leiddu ríkisstjórn fram að kosningum, ef heilsa þeirra leyfir það,  og vikju svo til hliðar.

Það er mikið að erfiðum ákvörðunum sem þarf að taka og ekki gefið að stjórnmálamenn í kosninga og prófkjörsham séu bestir við þær aðstæður.

G. Tómas Gunnarsson, 24.1.2009 kl. 02:29

5 identicon

Mér datt í hug að fyrir næstu kosningar verða bæði Framsókn og Sjálfstæðisflokkurinn með nýja forystu...sem er það sem fólk vill...nýtt blóð.

 Aðrir flokkar verða líklega með sömu forystuna og því ættum við að sjá næstu ríkisstjórn verða D og B - eitthvað svo ferskt og nýtt :)

Adils (IP-tala skráð) 24.1.2009 kl. 09:55

6 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Það gæti margt verra hent en að Sjálfstæðiflokkur og Framsóknarflokkur tækju aftur við stjórnartaumunum eftir kosningar.

En nýjustu atburðir sýna með eftirminnilegum hætti að Samfylkingin er ekki í ástandi til þess að sitja í ríkisstjórn.  Flokkurinn er eins og hópur vandræðaunglinga sem finnur tök foreldranna vera að gefa sig og ætla að fara sínu fram.

Ekki er ég hissa þó að stjórnarkreppa sé framundan.

G. Tómas Gunnarsson, 26.1.2009 kl. 15:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband