Fullveldi og Sambandið

Aftur og aftur heyri ég umræðu um það að ekkert fullveldi tapist við það að Ísland gangi í "Sambandið".  Margir ganga svo langt að segja að það aukist við inngöngu.

Ég ætla mér ekki að meta það hvort að á einhverjum sviðum aukist fullveldi við það að ganga undir erlent vald.  Það er hugsanlegt ef svo mikið hefur tapast áður.

En hitt er ljóst að ríki sambandsins hafa ekki óskorað fullveldi.  Skýrasta dæmið um það er að þau geta ekki gert samninga við önnur ríki án heimildar "Sambandsins".  

Fríverslunarsamningar ríkja á milli eru t.d. ekki mögulegir, eða því sem næst.  Þannig varð Bretland t.d. að afnema samninga sem það hafði gert við "commonwealth löndin" eins og t.d. Kanada og Ástralíu.   

Ekkert hindrar hins vegar Íslendinga í að gera slíka samninga og hefur Ísland t.d. fríverslunarsamning við Kanada (í gegnum EFTA) og til þess að gera nýlegan loftferðarsamning sömuleiðis.  Þessir samningar væru ekki mögulegir væri Ísland í "Sambandinu".

Hitt er svo annað mál, að sjálfsagt eru margir þeirrar skoðunar að fullveldisframsal, að hluta eða fullu sé réttlætanlegt vegna einhvers ávinnings sem það bjóði.  Það er sjónarmið út af fyrir sig.

En það verður að ræða hlutina eins og þeir eru.  Tala um galla og kosti, ekki halda því fram að ekki sé um neitt fullveldisframsal að ræða.

Þegar menn eru að tala um að fullveldisframsalið sé þegar orðið svo mikið, vegna EES samningsins að Íslendingar eigi þann bestan kost að ganga í "Sambandið" til að endurheimta það, dettur mér alltaf í hug það sem Jón Baldvin Hannibalsson sagði þegar þeirri samningagerð var lokið.

Eftir honum var haft í fjölmiðlum:  Við fengum allt fyrir ekkert.

Skyldi hann hafa haft fullveldisframsal í huga þegar hann talaði um "ekkert"?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband