Það er sem sagt ekki allt í kalda koli?

Það er svolítið merkilegt að þegar ég fylgist með fréttum frá "landinu bláa", en er ekki lengur staddur þar sjálfur, fæ ég oft á tilfinninguna að þar sé allt í kalda koli, þar sé vá fyrir dyrum, þar sé hrun yfirvofandi, þar sé lýðræði fótum troðið, þar sé svo mikil spilling að landið sé á heljarþröm.

Sem betur fer á ég þó vini og kunningja sem fullvissa mig um hið gagnstæða, bæði í símtölum, netspjalli og tölvupóstum.  Þau skipti sem ég hef komið í "heim í heiðardalinn" hefur sömuleiðis blasað við mér samfélag á hraðri uppleið, hröð uppbygging, aukin velmegun og nokkuð blómlegt þjóðfélag.

Reglulega má svo sjá niðurstöður erlendra rannsókna sem segja Ísland eitt af þeim löndum sem best er að búa í, þar sé spilling hverfandi og hér til hliðar má svo sjá að lýðræði er talið standa hvað sterkustum fótum þar.

En reglulega má lesa yfirlýsingar frá samtökum s.s. Þjóðarhreyfingunni (ég hef ekki heyrt öllu "Orwellískara nafn yfir það sem virðist vera fámennur klúbbur óánægðra einstaklinga), hinum ýmsu sérhagsmunasamtökum, sjálfskipuðum "mannréttindastofum" og þar fram eftir götunum, þar sem allt virðist stefna lóðbeint til glötunar, sérstaklega ef ekki verði farið að þeim tillögum sem þessir hópar setja fram.

Hvernig stendur á því að erlendar rannsóknarstofnanir og ýmsir hópar heimamanna hafa svona ólíka sýn á ástand mála?

Getur það verið vegna þess að erlendu rannsóknaraðilarnir hafa engan pólítískan metnað á Íslandi?  Eða getur það verið að það spili inn í að þeir eru ekki að leita eftir að Íslenska ríkið fjármagni  eitt af neitt af áhugaefnum sínum?  Eða spilar það stóra rullu að þeir eru ekki að leitast við að fá kjósendur til að gefa þeim atkvæði sitt í næstu kosningum?

Eða hafa þessir útlendingar ekki hundsvit á Íslenskum málefnum?  Skilja þeir ekki sérstöðu Íslands?

 


mbl.is Lýðræði næstmest á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Ég held að aðallega sé málið að þessi "erlendu aðilar" eru lausir við hina landlægu þrasþörf sem getur gert mann alveg geggjaðan hérna heima ef maður slysast til að fylgjast með "þjóðmálaumræðunni". Meirihluti Íslendinga - þessir sem ekki taka þátt í þessari umræðu - lifir hérna eins og blómi í eggi og verður ekki var við að mikið sé að. Er ekki bara málið að þegar maður horfir á þetta utanfrá þá sér maður bara og heyrir atvinnuþrasarana? (Sem ég skal viðurkenna að tilheyra sjálfur -svona stundum).

Kristján G. Arngrímsson, 23.11.2006 kl. 20:00

2 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Jamm, líklega hefur þú að stórum hluta rétt fyrir þér.  Ég er heldur ekki frá því að þetta sé í genunum, sjálfur get ég varla talist alveg saklaus.  Hvað annað ætti svo sem að valda því að ég eys úr mér, hér á blogginu, sem hreinræktaður kverúlant, gjarna yfir atburðum sem skipta mig litlu og eru að gerast á Íslandi, þúsundir kílómetra í burtu.

En auðvitað er hollt að hafa skoðanir og láta þær heyrast.  Það verður ef til vill svolítið þreytandi ef skrattinn er í sífellu málaður ferskum litum á vegginn.

kveðja

G. Tómas Gunnarsson, 25.11.2006 kl. 02:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband