Toronto - Tallinn, með smá hlykkjum og útúrdúrum

Það var á þriðjudaginn sem fjölskyldan lagði kát í bragði af stað frá Bjórá og upp á flugvöll í Toronto.  Flugvélin átti að fara í loftið um 9. um kvöldið, þannig að við vorum kominn á völlinn rétt um 6.  Allt leit vel út.  Ennþá.

En þá skall á þrumuveður og þegar það birti eftir þá törn, skall á annað skömmu síðar.  Þegar birti eftir það síðara var útlitið orðið allt annað, og það ekki einungis hvað veðrið varðaði.  Icelandairvélin hafði þurft að leita skjóls á flugvellinum í Hamilton og illa gekk að koma henni í loftið þaðan og þegar hún var þó komin, þurfti hún að bíða eftir því að geta lent í Toronto.  Það varð því drjúg bið á flugvellinum og klukkan að verða 1. þegar við loks lögðum af stað til Íslands.

Eins og oft vill verða þegar seinkanir verða var það versta að það var alltaf verið að fresta fluginu um 15 til 30 mínútur, þannig að tíminn varð varla nýttur til neins af gagni (svo sem að setjast niður og fá sér almennilega að borða) og þetta reyndi óþægilega á börnin sem alltaf varð að segja að það væri stutt í það að við legðum af stað.

En þegar um borð var komið byrjaði það vel, við fjögur höfðum 6. sæti fyrir okkur (eftir að flugfreyjurnar voru svo almennilegar að spyrja einn farþega hvort að hann vildi vera svo vænn að færa sig um set og gefa okkur þannig meira pláss), þannig að það var útlit fyrir að börnin gætu haft það gott.  Nýjir sjónvarpsskjáir blöstu við á hverju sætisbaki þannig að það var útlit fyrir að auðvelt yrði að hafa ofan af fyrir börnunum þangað til þau sofnuðu. 

En stundum er útlitið ekki eins gott og það lítur út fyrir að vera.  Sjónvörpin öðru megin við ganginn virkuðu alls ekki og það sem verra var, það var ekki hægt að lyfta örmunum í sætunum þannig að þegar börnin loks sofnuðu, var ekki hægt að búa þeim verulega þægilega hvílu.  Þau sváfu því bæði verr og styttra en ella.

Viðhaldsdeildin hjá Icelandair fær því ekki mjög háa einkunn frá okkur að Bjórá, en starfsfólkið um borð var hins vegar í fyrsta klassa og vildi allt fyrir okkur gera og aðstoðaði okkur á allan hugsanlegan máta.

Það var auðvitað ljóst löngu áður en við lentum í Keflavík að við hefðum misst af tengiflugi okkar til Helsinki.  En starfsfólk Icelandair var reiðubúið með nýja áætlun þegar við lentum.  Hún gekk út á það að fljúga til Osló, og þaðan til Helsinki.  Þar sem krakkarnir voru orðin bæði þreytt og pirruð spurðum við hvort að það væru einhver önnur ráð, t.d. að fljúga til Helsinki daginn eftir.  En ekkert beint flug er til Helsinki á fimmtudögum og allt fullt var í flug þangað á föstudag.  Það varð þó úr að við þáðum boð Icelandair um að við gistum eina nótt á Flughótel í Keflavík og flygjum síðan Osló - Keflavík daginn eftir.  Enn og aftur var afar þægilegt að eiga við starfsfólk Icelandair og það leysti málin á fumlausan og sanngjarnan hátt.

Með þessu náðum við að hvíla börnin og hlaða batteríin og náðum sömuleiðis frábærum kvöldverði í Hafnarfirðinum sem var endurnærandi bæði fyrir líkama og sál.

Fimmtudaginn hófst svo stuttu fyrir kl. 5. um morgunin, pakkað, gengið frá og örlítið úrill börn vakin og klædd.  Síðan var haldið upp í flugstöð.  Eftir frekar erfiða innritun, þar sem starfsfólkið virtist ekki alveg skilja það sem starfsfólkið hafði gert daginn áður komumst við af stað og eftir einhverja seinkun á leiðinni til Osló, stóðst það upp á sekúndu að þegar við höfðum gengið frá Icelandairvélinni að hliðinu þaðan sem Finnair fór frá (með stoppi fyrir vopna og vökvaleit) þá var verið að loka liðinu og við rétt sluppum um borð.

Jóhanna var reyndar orðin svolítið pirruð, enda kanna hún því akaflega illa að vera "bundin" niður við lendingu og flugtak.  En stuttu síðar lentum við í Helskinki og tókum leigubíl beint niður að höfn og keyptum okkur miða í ferjuna.  Upphaflega áætlunin var reyndar að stoppa 2 til 3 daga í Turku, en þar sem seinkunin setti allt úr skorðum, og vinafólk okkar sem ætlaði að ná í okkur á flugvöllinn átti ekki heimangengt, var áætluninni breytt og haldið beint til Eistlands.

Þangað vorum við komin með ferjunni rétt fyrir 9. um kvöldið (Eistland er 3. tímum á undan tímalega séð) og ekki löngu seinna voru börnin farin að úða í sig "ömmumatnum" og stutt eftir það liðu allir út af.

Allir sváfu síðan frameftir í dag og vöknuðu um hádegisbilið.  Eftir stuttan göngutúr um nágrennið eldaði ég síðan Íslenska ýsu handa öllum og nú er kvöldið að færast aftur yfir, Jóhanna sofnuð en Foringinn streytist enn aðeins við.

Fljótlega verðum við svo komin á rétt ról.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband