10.2.2008 | 07:31
Heitt vatn og kaldur bjór
Ég hef verið að böðlast í gegnum REI skýrsluna margfrægu og sömuleiðis reynt að fylgjast með umræðunni héðan úr útlandinu.
Ég verð að viðurkenna að ég er eiginlega alveg hlessa.
Það er talað um að betra hefði verið að hlutirnir hefðu verið gerðar svona, farið hefði betur á, æskilegra hefði verið og svo framvegis.
En allir eru sáttir og ætla að vera vinir og þó að mistök hafi verið gerð sem líklega hafi kostað milljónir á milljónir ofan, ákvarðanir funda verið dregnar til baka og þeir hugsanlega ólöglegir, þá er þetta allt í lagi.
Borgarfulltrúarnir ætla nefnilega að gera betur næst.
Ég fæ það einhvern veginn á tilfinninguna að enginn í borgarstjórn hafi vitað hvað gekk á þegar REI málið stóð sem hæst og viti það varla enn, eða hitt að þau vilja ekki segja það.
Vilhjálmur hrökklast úr einum "skotgröfunum" í þær næstu og fáar varnarlínur eftir. Borgarlögmaður eða lögmaður í borginni renna saman í eitt.
Líklega hefði Vilhjálmi farið betur að hugsa meira um Orkuveituna og minna um hvort kaldur bjór væri seldur í ÁTVR. Þegar starfið er erfitt og í mörg horn að líta, er þörf á forgangsröðun.
"Gamli góði Villi" er horfinn og eftir stendur bara gamli Villi, líklega best fyrir hann að yfirgefa sviðið.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.