Ný lína í spjallþáttum í sjónvarpi?

Núna þegar ég var að flakka um netið og horfa á Íslenskt sjónvarp þá tók ég í fyrsta sinn eftir að þættir frá INN voru komnir á netið, undir flipanum VefTV hjá www.visir.is

Ég get ekki sagt að ég hafi hrifist af þeim þáttum sem ég kíkti á.  Engu líkara var en að ný stefna hafi verið mörkuð í spjallþáttunum, þ.e.a.s. sú að þáttastjórnendur tali ekki nema við samflokksmenn sína.

Hér má sjá varaformann VG tala við framkvæmdastýru þingflokks VG, hér má sjá þingmann Framsóknarflokksins tala við "Framsóknarmann til 40 ára", og hér má sjá fyrrum þingmann Samfylkingar tala við borgarstjóra Samfylkingarinnar.

Hér má svo sjá sama fyrrverandi þingmann Samfylkingar ræða við núverandi þingmann Samfylkingar og þingmann Sjálfstæðisflokksins um EES/ESB, hér ræðir hann við mann sem ætlaði að bjóða sig fram í prófkjöri Samfylkingarinnar en hætti við og hér ræðir hann við framkvæmdastjóra Landverndar en þingmaðurinn fyrrverandi er formaður "Græna netsins" sem eru umhverfisverndarsamtök innan Samfylkingarinnar.

Þetta gefur orðinu "drottningarviðtöl" því sem næst nýja merkingu, enda má á köflum varla á milli sjá hvorir eru meira fram um að boða "fagnaðarerindi", spyrjendurnir eða viðmælendurnir.

Það hefur verið nokkuð algengt að fjölmiðlafólk leiti eftir frama í stjórnmálum, og ekkert nema gott um það að segja,  en einhvern veginn þykir mér það ekki jafn álitlegt þegar straumurinn liggur í hina áttina og stjórnmálamenn ætla að hassla sér völl í fjölmiðlum

En auðvitað er öllum frjálst að byggja upp sjónvarp eins og þeim best þykir, en ég er hálf hræddur um að þessi tök á stjórnmálaumæðu sé ekki líkleg til vinsælda, alla vegna get ég ekki sagt að ég hrífist af þeim.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband