Hvað viljum við að börnunum okkar sé kennt í skólanum?

Það hafa verið miklar og líflegar umræður um "kristilegt siðgæði" í Íslensku samfélagi síðustu vikur.  Vitanlega sýnist sitt hverjum.  Nú síðast reis upp GUÐ(ni) Framsóknarflokksins og reyndi að nota þetta mál til að berja á ráðherrum Sjálfstæðisflokksins.  Það kemur líklega ekki á óvart að Framsóknarmenn skuli koma "kristilegu siðgæði" til varnar, enda segja sögurnar að "guðsmenn" ávaxti sitt pund vel innan flokksins og hitt er svo að auðvitað þarf deyjandi flokkur á hjálp kirkjunnar að halda, og vel kæmu sér nokkur atkvæði þaðan og sumir myndu jafnvel ganga svo langt að segja að flokkurinn gæti haft not af smá kennslu í siðgæði, hvort sem það væri kristilegt eður ei.

En nú þegar umræðan um "kristilegt siðgæði" og skólastofnanir stendur sem hæst, væri ekki úr vegi að velta því fyrir sér hvað við viljum að börnunum okkar sé kennt í skólanum?

Nú verð ég að viðurkenna að ég þekki ekki vel til "kristilegs siðgæðis", það jafnvel þótt að ég hafi setið í bíblíusögutímum í "denn", enda "kristilegt siðgæði" eitthvað sem erfitt er að henda reiður á og virðist breytast dag frá degi, og jafnvel eftir því við hvern er talað.  Ég hefði því bæði gagn og gaman af því ef lesendur myndu reyna að útskýra fyrir mér þeirra skoðun á "kristilegu siðgæði" í athugasemdum.

En ég á barn sem fer í skóla næsta haust.  Þá verður Foringinn 4ja ára og tímabært að hann feti menntaveginn.  Ég get verið nokkuð öruggur hér í Kanada að ekkert trúboð fari fram í skólanum hans, nema að ég kjósi að setja hann í kaþólskan skóla, en fyrir því hef ég lítinn áhuga.

En hvað vilja Íslendingar að börnunum þeirra sé kennt í skólanum?:

Vilja þeir að börnunum sé kennt að guð hafi skapað heiminn á 6. dögum og hvílt sig þann 7.?

Eða vilja þeir að þróunarkenningin sé kennd?  Að börnin fái að heyra að mennirnir séu komnir af öpum og allt líf hafi þróast frá einfrumungum?

(Nú þekki ég ekki til, hver skoðun ríkiskirkjunar á Íslandi er í þessum efnum?  Engan kirkjunnar mann hef ég þó opinberlega heyrt hampa "apakenningunni", en ég hefði gaman að heyra opinbera skoðun ríkiskirkjunnar hvað þetta varðar).

Vilja Íslendingar að börnum sé kennt að kynlíf fyrir hjónaband sé synd, eða kjósa þeir frekar að börn þeirra fái góða kynfræðslu og séu uppfrædd um helstu getnaðarvarnir, kynsjúkdóma og þar fram eftir götunum?

Er það ennþá "kristilegt siðgæði" að "óskilgetin" börn séu skörinni lægri og í raun getin í synd?

Vilja Íslendingar að börnum þeirra sé kennt að samkynhneigðir og ástarsambönd þeirra séu eitthvað sem ekki teljist sambærilegt við ástarsambönd gagnkynhneigðra og geti því ekki notið blessunar guðs og kirkjunnar, eða vilja Íslendingar að börnunum sé kennt að allir séu jafnir burtséð frá því hver kynhneigð þeirra er?

Þetta eru nú einungis örfá atriði, en mörg þeirra eru býsna mikilvæg. 

Mér virðist það liðin tíð að ríkiskirkjan móti "siðgæði" þjóðarinnar, heldur virðist þjóðin móta það nokkuð sjálf, og kirkjan gjarna fylgja á eftir, gjarna nokkrum árum eða áratugum síðar, þannig að ég velti því fyrir mér hvort að kirkjan sé til þess fallin að kenna og fræða um siðgæði í dag.  Hlutverk kirkjunnar hefur farið minnkandi í þessum efnum í réttu hlutfalli við aukna menntun og almenna "upplýsingu".

Kirkjunnar mönnum (og Guðna) er tamt að tala um söguna, og vissulega verður ekki fram hjá því litið að kirkjan hefur verið fyrirferðarmikil í Íslenskri sögu, jafnvel svo að mörgum þykir nóg um, en hitt er líka að kirkjan hefur staðið fyrir mörgum góðum málum, en það eru líka margir "sótsvartir" blettir á sögu hennar.  Þannig að sé litið til sögunnar þá eykur það hróður kirkjunnar ekki umtalsvert, alla vegna ekki í mínum huga.

Því meira sem ég hugleiði málið verð ég fullvissa um það að kirkjan á ekkert erindi í skóla, hitt er auðvitað svo, að að sjáfsögðu getur kirkjan staðið að allri þeirri fræðslu sen hún kýs og leyft börnunum að koma til sín.  Þannig hljómaði jú  boðskapurinn einu sinni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Einhvurnvegin grunar mig að þú vitir að fæst af því sem þú spyrð um er kennt eða fullyrt af kirkjunnar fólki, og þá helst af einstaka heittrúarfólki, og er ekki dæmigert fyrir kirkjuna. Mér dettur nú bara í hug, finni hann fölnað laufblað eitt... Skaði. Eins og mér fundust mörg bloggin þín áhugaverð. Eins og foreldrar eigi ekki líka rétt á að börnin fái innrætta góðan hug til náungans, fallega fyrirmynd og traust á góðum guði. Nóg er nú vegið að börnunum samt.

padre (IP-tala skráð) 13.12.2007 kl. 06:23

2 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Aðalspurningin er að mínu mati, og sú sem allir virðast koma sér undan að svara, er hvað er "kristið siðgæði"?  Í hverju er það frábrugðið öðru siðgæði og að hvaða leiti er það betra?

Hvað er að því að breyta textanum í í lögum um skólahald á þann veg að orðin "kristilegt siðgæði" falli þar niður? 

Og um hvað snýst svo trúin?  Hvað boðar ríkiskirkjan? Flestir sem ég þekki aðhyllast þróunarkenninguna, en átti hinn margumtalaði guð þá einhvern þátt í henni? Eru prestar og aðrir kirkjunnar þjónar alfarið hættir að halda því fram að guð hafi skapað heiminn?

Ég gat ekki skilið betur en að einn prestur riíkiskirkjunar predikaði á þann hátt að þeir sem stæðu að Kárahnjúkavirkjun væru að ráðast á sköpunarverk guðs?  Er það almenn skoðun innan  ríkiskirkjunar?

Fyrir hvað stendur ríkiskirkjan?

Allt sem ég spyr um (og svo margt verra en það) hefur kirkjan boðað á einum eða öðrum tíma.  Sumt hefur breyst í tímans rás, hjá flestum en ekki öllum.  En ég stend við þá skoðun að undanfarna áratugi hefur ríkiskirkjan frekar elt "almennt siðgæði" en mótað það.

Foreldrar eiga mun meiri rétt heldur en að börnum þeirra sé innrætt að bera góðan hug til náungans eða traust á góðum guði.  Foreldrar eiga rétt á því að innræta börnum sínum góðan hug til náungans og gera það vonandi allir, en þeir eiga líka að eiga fullt val, um hvort þeir kjósi að börnum þeirra sé innrætt trú á guð eður ei og ef svo hvaða guð. 

Auðvitað getur kirkjan svo rekið sitt fræðustarf, þangað sækja börnin eins og þau (eða foreldrarnir) vilja.  En mín skoðun er sú að foreldrar (og börn) eigi rétt á því að skólastarf sé án trúarlegrar íhlutunar.

Að lokum er þarft að spyrja þá sem telja sig lifa eftir "kristilegu siðgæði", hvað í því breytta orðalagi í lagafrumvarpinu um skólamál, þeir geti ekki skrifað undir?

G. Tómas Gunnarsson, 13.12.2007 kl. 07:08

3 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Stórgóður pistill, og þetta er það sem líka flaug í gegnum huga minn.  Nema þetta svokallaða kristilegt siðgæði, er það sem kirkjunnar menn hafa tekið til handagagns, þá innréttingu mannsins, kærleikann, umburðarlyndið og fórnfýsina, þeir vilja meina að slíkt finnist bara innan raða kirkjunnar, sem er náttúrulega ekki rétt.  Því hver einasti maður hefur fengið eitthvað af þessu, og síðan er bara spurninginn um hvernig sá hinn sami hefur ræktað þessa eiginleika með sjálfum sér.   Málið er að margir kirkjunnar menn rétt eins og aðrir hafa lítið af þessum eiginleikum, eins og sést á hrokanum og illmælginni sem þeir sumir láta út úr sér við samtök eins og Siðmennt og Vantrú. 

En þegar alþingismenn og ráðherra fara að vara við því að ræða þessi mál á vitrænum nótum, þá fyrst er vá fyrir dyrum.  Þá fannst mér eins og ég væri kominn inn í biblíubelti Bandaríkjanna en tilheyrði ekki vestrænni menningu a la Evrópu.

Þvílík forpokun hjá Guðna að hrópa að þessa umræðu þurfi að stöðva strax.  Hvaða umræðu, að biblían sé ekki upphaf og endir alls ?  Að allt sé satt sem þar stendur ? Hvaða sannleika eru þessir menn að verja ?  þegar stórt er spurt ???

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 13.12.2007 kl. 09:08

4 Smámynd: Jakob Ágúst Hjálmarsson

Ég held því fram að gildi þurfi skilgreiningar og að kristilegur fel í sér viðmið sem megi átta sig á. Hvaða heimspekinga eigum við að leiða til vitnis um gildin? Eða felst aðeins það í þeim sem hverjum og einum finnst. Blogga um þetta á http://jagust.blog.is Guðna gengur gott til, kannki ekki gott eitt, en hann meinar það sem hann segir og viðhorf hans eru gild. Hins vegar kunnum við að þurfa íhuga þetta nánar. Dr Hjalti Hugason skirfaði í Moggann held ég um þessa stöðu og er það góð greining á stöðunni. en það er einginn á þessum buxum sem þú telur Tómas.

Jakob Ágúst Hjálmarsson, 13.12.2007 kl. 10:42

5 Smámynd: Kári Harðarson

Það gekk fram af mér því mér heyrðist Guðni vilja þagga þessa  umræðu í staðinn fyrir að taka  hana. 

Í þessu tilfelli getur Guðni ekki þóst vita best þótt hann sé vanur að hafa völd.  Við höfum öll skoðun á þessu, og mér finnst skoðun Guðna vera aftur úr fornöld.  Það er eins og upplýsingin hafi ekki skilað sér út í sveitirnar.

Kári Harðarson, 13.12.2007 kl. 10:54

6 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Bestu þakkir fyrir innleggin.  Ég hefði gaman af því að vita á hvað Íslendingar trúa og fyrir hvað hin Íslenska ríkiskirkja stendur.  Ég fagna því auðvitað ef hún er ekki á þeim "buxum sem þú telur Tómas".  Ef til vill er mér bara svo gjarnt að efast.

En er kristin trú þá bara að verða eins og jólahlaðborð?  Tekur maður bara það sem manni líst á?  Eru engin "grundvallarskilyrði" sem þarf að uppfylla til þess að teljast trúa?

Ég fagna því ef kirkjunnar menn eru ekki á þeim "buxum" að guð hafi skapað heiminn, sömuleiðis ef þeir telja engu skipta hvort kynlíf er stundað fyrir hjónaband eður ei, og engu skipti hvort börn fæðist innan eða utan hjónabands.  En hvaða máli skiptir þá hjónabandið?  Er það bara "eignasáttmáli?

Sömuleiðis fagna ég því ef kristinir Íslendingar eru almennt fylgjandi getnaðarvörnum, fóstureyðingum og fræðslu þar að lútandi.  En ég minni að að eftir því sem ég kemst næst er sá trúarklúbbur sem vex hraðast á Íslandi kaþólska kirkjan.  Þar held ég að menn séu bundnir af skoðunum síns yfirmanns, páfans.  Hann er ekki bara til að tefla við, heldur hefur hann ákveðnar skoðanir á flestum málum og er ekki aldeilis á því að getnaðarvarnir og fóstureyðingar séu tilhlýðilegar.  Er það ef til vill ekki samsvaranlegt "kristilegu siðgæði"?

Það hlýtur líka að vekja fögnuð í samfélaginu ef að prestar eru á þeim "buxunum" að hjónaband og ástir samkynhneigðra séu að öllu leyti sambærileg við ástir og hjónaband gagnkynhneigðra.  Það er þá líklega hægt að gleðjast yfir því um jólin.

En ég hef eins og áður sagði bæði gagn og gaman af þvi að heyra á hvað og hvernig Íslendingar trúa, og fagna því öllum athugasemdum.

G. Tómas Gunnarsson, 13.12.2007 kl. 14:16

7 Smámynd: Kristjana Bjarnadóttir

Hef verið að reyna að átta mig hvers vegna þeir sem halda sig stíft við kristilegt siðgæði geta ekki sameinast um að í því felist: "umburðarlyndi, jafnrétti, lýðræðislegt samstarf, ábyrgð, umhyggja, sáttfýsi og virðing fyrir manngildi". Hvað er það í þessu sem þeir ekki geta samþykkt?

Kirkjan á einnig erfitt að gefa upp afstöðu sína til margra mála sem þú nefnir. Því finnst mér erfitt að samþykkja aðkomu hennar að kennslu barna. Ég vil vita hvað í því felst.

Ekki er ljóst í því kennsluefni sem nú er notað í kristinfræðikennslu hvenær er verið að kenna sagnfræði og hvenær er verið að kenna goðsagnir eða bókmenntir. Þetta verður að vera skýrt, annars taka börnin eitthvað sem staðreyndum sem getur verið erfitt að leiðrétta síðar meir. Að Adam og Eva séu í hugum 15 ára barna persónur mannkynssögunnar og mæti í náttúrufræði í 10. bekk grunnskóla er óásættanlegt á Íslandi í dag.

Það að gera ekki greinarmun á sagnfræði og goðsögnum stuðlar að fáfræði.

Er svar stjórnvalda við ófullnægjandi árangri íslenskra barna í náttúrufræði að krefjast meiri Kristinfræði?

Kristjana Bjarnadóttir, 13.12.2007 kl. 17:13

8 Smámynd: Þorsteinn Valur Baldvinsson

Þjóðkirkjan á Íslandi er ríkisstofnun, og er rekin sem slík.

Starfsmennirnir eru menntaðir hjá Ríkisskólanum, Háskóla Íslands.

Launa og rekstrarkostnaður er greiddur af Ríkissjóð og þeim eru tryggðar tekjur beint og óbeint, með gjöldum sem á almenning eru lögð, með lögum og reglugerðum.

Aukatekna afla þeir með sölu á þjónustu, td fermingarfræðslu ofl slíku.

Á því voðalega erfitt með að sjá einhverja tengingu á milli Kristni og kirkjunnar.

Sé þessa Ríkisstofnun frekar sem úreltan hluta af stjórnun ríkisins á þegnunum, enda heitir ráðuneyti málefnisins, Dóms og kirkjumálaráðuneyti.

Tal Guðna um að stöðva umræðuna, er líklega opinberun á ótta margra stjórnmálamanna, að geta ekki notað tengingu valdsins við æðri mátt, til að réttlæta vonda hluti.

Þorsteinn Valur Baldvinsson, 13.12.2007 kl. 20:26

9 Smámynd: Viðar Eggertsson

Þakka þér góða hugleiðingu G. Tómas.

Viðar Eggertsson, 13.12.2007 kl. 21:41

10 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Flott og tímabær færsla.  Hér er smá sýnishorn af kristilegu siðgæði í höndum gráðugra og misviturra preláta. Þetta er úr Guardian og enginn áróður. 

Þarna eru börnin skotmörk eins og hér, því engum dettur í hug að fara með trúboð inn í framhaldskóla, þar sem fólk er komið með einhvern snefil af gagnrýnni og sjálfstæðri hugsun.  Kirkjan vill leikskólana og grunnskólana í sinn pott eins og Grýla.  Börn, sem hafa ekki vit né getur til að efast um það sem borið er á borð.

Sé lítinn mun á villimennskunni.

Jón Steinar Ragnarsson, 13.12.2007 kl. 22:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband