Kristilegt siðgæði?

Þó nokkrar umræður fara nú fram á Íslandi um "kristilegt siðgæði".  Uppsprettan að þessum umræðum er eftir því sem að ég kemst næst frumvarp um skólastarf sem liggur fyrir Alþingi.

Í framvarpinu er ekki minnst á að skólastarf á Íslandi skuli byggjast á "kristilegu siðgæði, heldur stendur í frumvarpinu, að "umhyggju, sáttfýsi og virðingu fyrir manngildi".  Þetta þykir mörgum hin mesta hneysa.

En er þetta eitthvað sem stangast á við "kristilegt siðgæði"?

Nú verð ég að viðurkenna þá fáfræði mína, að ef ég væri spurður um hvað "kristið siðgæði" væri, þá myndi ég líklega færast undan því að svara, enda langt frá því að ég hefði svarið á hreinu.  Málið er  að (mínu mati að) "kristilegt síðgæði" hefur að mér virðist tekið miklum breytingum í tímans rás, sem og að "kristilegt síðgæði" virðist mismunandi eftir löndum og að í þriðja lagi virðist "kristilegt siðgæði" vera mismunandi eftir því hvaða forsvarsmaður kristilegs trúfélags er að tala, svo ekki sé minnst á það að mismunandi skoðanir virðast oft vera uppi í ríkiskirkjunni um hvað "kristilegt siðgæði" felur í sér.

Ég verð reyndar einnig að nefna, að að mér setur "aulahroll" þegar ég heyri menn tala eins og að kristin kirkja hafi einkarétt að því sem kallað er "siðgæði".

Auðvitað hefur kristin kirkja lagt margt gott til almenns "siðgæðis", því ber ekki að neita.  En hitt ber líka að hafa í huga að siðgæði annarra trúarbragða og menningarheima, rétt eins og fram kemur til dæmis í Hávamálum, hafa ekki síður lagt efni til "siðgæðis" okkar.

Sé litið til þróunarsögu "kristilegs siðgæðis" er til dæmis auðveldlega hægt að hugsa sér að trúarbrögð á við "Ásatrú", hefðu þróast til jafns, ef ekki til betri vegar en kristindómurinn, hvað "siðgæði" varðar.  Um slíkt er þó ekkert hægt að fjölyrða, þar sem slík þróun átti sér aldrei stað, en þó hefur mér virst að nútíma "Ásatrúarmenn" hafi "siðgæði" sem standi "siðgæði" ríkiskirkjunnar ekkert að baki.  Né heldur hefur mér virst að þeir menn sem ég hef kynnst og segja sig trúlausa, séu endilega "siðgæðislausir".

Persónulega er ég þeirrar skoðunar að það sé rangt að ríkisreknir skólar leggi áherslu á "kristilegt siðgæði".  Það er eðlilegra að hinar kristnu kirkjur kenni slíkt, og foreldrar sendi börn sín þangað.  Það gæti hvort sem er gerst með aukakennslustundum (rétt eins og er með sunnudagaskóla) eða með því að kirkjur eða kristin samfélög stofni "einkaskóla", sem byggi þá á "kristnu siðgæði".

Öll þessi umræða sannfærir mig enn og aftur um nauðsyn þess að skilja á milli ríkis og trúfélaga.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Ég spyr einnig "hvað er kristilegt siðgæði"?..og hver er munurinn á því og góðu siðgæði?

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 30.11.2007 kl. 02:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband