Er fjármagnstekjuskattur góð beita á atkvæðaveiðum?

Það hefur oft verið sagt að það sé alltaf gott á atkvæðaveiðum að ráðast á hina ríku, og lofa einhverju til hinna efnaminni.  Það eru jú miklu fleiri "atkvæði" sem teljast til hinna efnaminni.  Það er líka gott að ráðast á þá sem fara vel með fé sitt og eru sparsamir, enda þeir mun færri en hinir.

Reglulega má heyra tillögur um að fjármagnstekjuskatt beri að hækka, enda séu menn að hafa óheyrilegar tekjur af fjármagni sínu.  Þessar tillögur koma gjarna fram þegar hlutabréfamarkaðir hafa verið á mikilli siglingu og eins þegar vextir eru háir, en síður þegar afraksturinn er minni.

Gott og vel, en það verður að skoða málið frá fleiri en einu sjónarhorni.  Víst er það rétt að vextir eru háir á Íslandi nú um stundir, en það er verðbólgan einnig.  Þannig eru raunvextir ekki nema u.þ.b. 2% af bestu bankareikningum, margir síðri reikningar eru hreinlega í mínus.  Í raun eru menn að borga fjármagnstekjuskatt af því að tapa fé, þegar notaðir eru "síðri" reikningar.

Ef 5 milljónir króna eru geymdar á góðum sparireikningi gefur þessi upphæð u.þ.b. 500 þúsund krónur í vexti, en 400 þúsund er í raun verðbætur.  Raunvextir eru 100 þúsund.  Undir núgildandi skattlagningu eru borgaðar 50 þúsund í fjármagnstekjuskatt.  Ríkið tekur með öðrum orðum helming ávinningsins.

Raunskatturinn er 50%

Ef fyrstu hundrað þúsundin eru skattlaus en 15% skattur af afgangnum, hækkar skatturinn upp í 60 þúsund, 60%.  Eru menn virkilega þeirrar skoðunar að þetta sé það sem vantar til að hvetja fólk til sparnaðar?

Auk þess er verulegt óhagræði af því að vera með frítekjumark í bankakerfinu, flatur 10% skattur á alla vexti er einfaldur í framkvæmd og býður ekki upp á neina "leiki".  Flóknara skattkerfi er aldrei það sem stefna ber að, né eykur það skilvirkni innheimtunnar.

Ef meiningin er að hvetja almenning til sparnaðar væri nær að keppa að því að afnema fjármagnstekjuskatt af almennum sparifjárinnistæðum, enda ekki ástæða til að þeim sem eru sparsamir sé refsað sérstaklega með sköttum á hóflega vexti, hvað þá að hækka þá skatta sértaklega.

Hvað varðar hlutabréfahagnað er vissulega annað upp á teningnum, þar er ávöxtunin oft ríflegri og stundum ótrúlegar %tölur.  Þumalputtareglan er þó sú, að því meiri sem ávöxtunin er, því meiri hefur áhættan verið, þó að sú regla sé alls ekki algild.  Það er líka vert að benda á það að sú áhætta sem menn og fyrirtæki leggja upp í með hlutafé sitt er veigamikill partur í uppbyggingu íslensks efnahagslífs, og á mikinn þátt í þeirri velmegun sem ríkir á Íslandi nú um stundir.

En vissulega er menn oft að hagnast um risavaxnar upphæðir, en er það þar með sagt að  stærri partur þess en nú er sé betur kominn í ranni hins opinbera, heldur en þeirra sem eru að fjárfesta í atvinnulífinu?

Engan man ég heldur tala um að sérstaklega um þörf þess að koma sérstaklega til móts við þá sem tapa stórum upphæðum á verðbréfaviðskiptum, sem gerist þó líka reglulega.  Það er enda ekki ástæða til, því menn verða að gera sér grein fyrir því að um verulega áhættu er að ræða.

Það sem gerist ef um verulega hækkun yrði á fjármagnstekjuskatti er líklega, að hvatinn til sparnaðar og fjárfestinga minnkar, frekari flutningur yrði á fjármagni til svokallaðra "skattaparadísa".  Alls óvíst er að tekjur ykjust að marki, ef nokkuð.

Hitt er svo annað mál, að baráttan gegn því að menn séu að fela fé sitt eða borgi sér frekar út arð en laun, er þessu máli óskyld að mínu mati.  Það verður að finna aðrar leiðir fyrir þá baráttu en að hækka skatta á hinn almenna sparifjáreiganda og einstaka fjárfesta.

Hér má svo lesa pistil Jóhönnu Sigurðardóttur um þetta málefni og meðfylgjandi frétt byggir á.


mbl.is Hefði haft 5,7 milljörðum meira í tekjur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurjón

Ég er bara alveg 100% sammála.

Sigurjón, 13.9.2006 kl. 09:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband