Njáll Trausti nýr leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í NorðAusturkjördæmi

Þá er víst talningu í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í NorðAusturkjördæmi lokið og ljóst að Njáll Trausti er nýr leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu.

Þau úrslit eru reyndar í takt við það sem þeir sem ég enn þekki á svæðinu sögðu.  Þeir töldu næsta víst að Njáll ynni sigur, þó að það sé ekki sjálfgefið að taka við forystu, þrátt fyrir að hafa skipað annað sætið.

En eins og margir sögðu, þá er "þyngdin" í kjördæminu norðanmegin og slík lögmál verða ekki yfirunnin á fáum vikum eða mánuðum.

Njáll Trausti hefur enda verið vaxandi þingmaður.

En frétt um úrslitin má lesa islendingur.is, heimasíðu Sjálfstæðisflokksins á Akureyri.

Ekki er hægt að lesa frétt sem þessa án þess að hugurinn hvarfli að fjölmiðlastorminum sem hefur geysað vegna "skæruliðadeildar" Samherja.

Það er nefnilega ólíkt að tala um að hafa áhrif, reyna að hafa áhrif eða að hafa áhrif.

Ég veit ekki hvað mörg ár eru síðan að ég byrjaði að heyra "sögur" um að Samherji "réði öllu fyrir norðan" og engin þyrfti að láta sig dreyma um að fara í framboð þar án þess að "hljóta blessun" þeirra.

Þeir réðu.

Persónulega hef ég aldrei lagt trúnað á slíkar sögur. 

Ég geri mér fulla grein fyrir því að fyrirtæki á borð við Samherja hefur alltaf ákveðin ítök.  Það segir sig eiginlega sjálft að slík fyrirtæki, af slíkri stærðargráðu, njóta alltaf ákveðinnar athygli og velvilja frá bæði sveitastjórnarfólki sem og þingmönnum.

En ég hef ekki þurft nema að líta yfir þá einstaklinga sem hefur skipað þennan hóp til að gera mér grein fyrir því að fullyrðingar um "völd" Samherja eru orðum aukin.

Hins vegar verða alltaf til einstaklingar, sem og hópar sem reyna að koma "sínum mönnum" á framfæri.  Til þess hafa verið (og verða líklega) notuð fyrirtæki, félagasamtök, alls kyns hreyfingar og "klúbbar".

En það er engin ástæða til að missa svefn, í það minnsta ekki margar nætur í röð, yfir hópi fólks sem telur sig geta "fixað þetta og hitt".

En það er hægt að óska Njáli Trausta til hamingju með sigurinn, hann er vel að honum kominn.

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Þetta er ágætt, Njáll hefur réttar skoðanir í mörgum málefnum. Yrði til dæmis fínn samgönguráðherra.

Það hefur svo verið í fréttum að hann hafi ekki verið Samherja að skapi og því einnig jákvæð úrslit að því leyti.

Ítök og áhrif Samherja fyrir norðan eru áreiðanlega mikil og tekjurnar sem fyrirtækið skaffar mönnum og samfélögum miklar. En það er kannski farið að verða erfitt um vik fyrir margan manninn og komuna að búa við það að hafa lifibrauð sitt af vinnu fyrir fyrirtæki sem er jafn vafasamt og Samherjir óneitanlega virðist vera.

Kristján G. Arngrímsson, 30.5.2021 kl. 06:51

2 Smámynd: Þórhallur Pálsson

Það er kominn tími til að stofnað verði sérstakt Austurlandsframboð, enda borin von að fólk úr öðrum landshlutum vinni að hagsmunamálum landshlutans.  Enda er þar í sumum efnum um andstæða  hagsmuni að ræða.

Þórhallur Pálsson, 30.5.2021 kl. 09:57

3 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján, þakka þér fyrir þetta. Þegar þú talar um "réttar skoðanir", reikna ég með að þú sért að tala um skoðanir sem þú getur tekið undir, eða hvað?  LOL

Eins og ég segi í færslunni þá held ég að áhrif Samherja séu ofmetin, en eins og þú segir þá er um risa stórt fyrirtæki að að ræða, þ.e.a.s. á Íslenskan mælikvarða.

Á vinnumarkaði t.d. á Dalvík er hlutfallslega stærðin ennþá meiri.

Þú segir "virðist vera" og það er rétt.  En það hefur ekki enn verið staðfest á neinn hátt og sannleikurinn getur oft verið flóknari en sýnist við fyrstu sýn.

En í það hefur margt skrýtið gerst á undanförnum árum, bæði hvað varðar Samherjar og fjölmiðla einnig.

@Þórhallur, þakka þér fyrir þetta.  Landsbyggðarkjördæmin þrjú eru öll í ákveðnum vanda hvað þetta varðar.  Þyngdin í þeim er öll nokkuð á skjön.

Það er ekki tilviljun að farið er að ræða aftur um að þörf sé á að þeim verði á einhvern hátt skipt upp.

Hvort að Austurlandsframboð sé rétta skrefið ætla ég ekki að dæma um, enda þekki ég ekki mikið til þar.  En var ekki oft talað um mismunandi hagsmuni í gamla Austurlandskjördæmi einnig?

Það er alltaf vangaveltur um hvað sé besta baráttuaðferðin.

G. Tómas Gunnarsson, 30.5.2021 kl. 13:33

4 Smámynd: Júlíus Valsson

Njáll Trausti treysti sér ekki til að svara spurningunni: "Munt þú samþykkja innleiðingu 4. orkupakka ESB í íslensk lög?". Líklega þarf hann að bíða eftir leyfi BB. 

Júlíus Valsson, 30.5.2021 kl. 17:26

5 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Júlíus, þakka þér fyrir þetta.  Ekki hef ég heyrt hann svara þessu, en ég skil vel þegar stjórnmálamenn víkja sér undan því að svara spurningum sem þessum, þó að það sé ef til vill ekki til fyrirmyndar.

"Read my lips", er eitthvað sem stjórnmálamönnum er gjarnt að forðast.

Þeir telja sig ekki vita undir hvaða kringumstæðum málið verði borið upp og hvort þeir gætu neyðst til að samþykkja "þetta eða hitt".

Stjórnmál eru jú oft talin list hins mögulega og ákveðinn "pólítískur ómöguleiki" er einnig þekktur.

En hitt er svo að samband við "Sambandið" mun ekki ráðast á einu máli, en það þarf að marka lengri tíma stefnu, ef "spægipylsusneiðarnar" þykja ekki góðar.

G. Tómas Gunnarsson, 31.5.2021 kl. 01:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband