18.4.2021 | 02:27
Atvinna, einkalíf og siðanefndir og -vandir einstaklingar
Urskurðir siðanefnda vekja alltaf athygli, en ekki nauðsynlega gleði. Hvort að siðavandir einstaklingar sitji í siðanefndunum eru sömuleiðis skiptar skoðanir um.
En hvaða rétt hafa fyrirtæki til að skipa siðanefndir til að fjalla um athæfi starfsmanna sinna utan vinnutíma?
Fróðlegt væri að heyra álit stéttarfélaga á því.
Ég er sammála því að ýmsu leyti virðist framganga Helga á samfélagsmiðlum rýra trúverðugleika hans sem hlutlauss fréttamanns, og þá óbeint stofnunarinnar sem hann starfar fyrir.
En hvar liggja mörkin á milli vinnu og einkalífs?
Hefur vinnuveitandi rétt á því að krefjast á starfsmaður viðri skoðanir sínar hvergi opinberlega?
Má íþróttafréttaritari "halda með" félagi?
Eftir því sem mér skilst lét RÚV starfsmann sinn á Selfossi "fjúka" vegna svipaðs atviks, en ég treysti mér ekki til segja um hvort það er fyllilega sambærilegt eða ekki, þekki ekki nóg til málsins.
Kennari norður í landi, sem var rekinn fyrir að viðra í frítíma sínum, trúarskoðanir og hvernig "heilög ritning" fjallar um samkynhneigð, var rekinn úr starfi.
En dómstólar töldu rétt hans til að að aðhafast slíkt í frítíma sínum ótvíræðan.
Kennari við háskóla var hins vegar rekinn fyrir að tjá þær skoðanir að konur væru til leiðinda og spilltu fyrir, og dómstólar töldu það lögmæta ástæðu uppsagnar.
Ég þekki ekki hvort að hann ritaði orð sín á Facebook í frítíma sínum eða í vinnunni. Þó skilst mér að um hafi verið að ræða lokaðan hóp.
Þannig að eitthvað eru málin blandin.
Hvar liggja mörkin á milli einkalífs og atvinnu?
Getur framkoma í frítíma, réttlætt atvinnumissi?
Er hægt að banna starfsmönnum að tjá skoðanir sínar?
Ef starfmaður lætur tattúvera hamar og sigð á áberandi stað, gefur það vinnuveitenda rétt til að segja honum upp, vegna þess að táknið gæti sært bæði samstarfsfélaga og viðskiptavini?
Persónulega finnst mér enginn vafi á því að Helgi Seljan hefur brotið siðareglur RUV, rétt eins og mér fannst líklegt að Þórhildur Sunna hafi brotið siðareglur Alþingis.
En hvort að siðareglurnar og siðanefndirnar eigi rétt á sér er allt annar handleggur.
Hvort að það sé lagagrunnur fyrir því að setja starfsmenn undir slíkt, utan vinnutíma, væri fróðlegt að fá úrskurð um.
Þó að í "tísku" sé að setja slíkar reglur segir það lítið til um lögmæti þeirra, það er að segja utan vinnutíma.
En framganga utan vinnutíma getur vissulega skaðað trúverðugleika t.d. fréttamanna, en ég held að engar siðareglur breyti afstöðu þar um. Einstaklingar dæma eftir "eigin standördum".
En ef til vill segir Helgi Seljan okkur ábúðarfullur frá því næst þegar þingmaður verður sakaður um að hafa brotið siðareglur eða næst þegar háskólakennari verður rekinn fyrir að segja einhverja vitleysu á samfélagsmiðlum.
En svo gæti RUV líka haft "siðameistara" sem starfsmenn senda færslur sínar til, og fá samþykki, áður en þeir birta þær á samfélagsmiðlum.
Siðanefnd féllst ekki á endurupptöku | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Fjölmiðlar, Sjónvarp, Trúmál og siðferði | Facebook
Athugasemdir
Jón Ólafsson, "siðfræðingur Íslands", hefur sagt að siðareglur séu gagnslausar fyrir óheiðarlegt fólk - eða fólk sem vill ekki fara eftir þeim. Þær eru fyrst og fremst fyrir fólk sem er heiðarlegt og vill fara eftir siðareglum. Vill bara fá smá leiðbeiningar um hvernig sé best að fara að því að vera sem heiðarlegastur.
Í tilviki Helga Seljan sló svolítið saman kannski siðareglum Rúv og svo almennum réttindum til tjáningarfrelsis. Mér persónulega fannst að Helgi hefði átt að sleppa þessu því að hann blandaði þarna óþægilega saman vinnunni sinni og einkalífi. Svoleiðis getur dregið úr trúverðugleika fréttafólks.
Eða hvað, er kannski bara betra að lesendur/áhorfendur viti hvar fréttamaðurinn stendur? Svona eins og það vissu allir sem vita vildu, þegar ég var íþróttafréttamaður á Akureyri í gamla daga, að ég var borinn og barnfæddur Þórsari. (Ég hafði reyndar svo takmarkaðan áhuga á íþróttum að þetta skipti aldrei neinu máli í rauninni).
Á að vera hægt að reka fólk sem í einkalífinu brýtur siðareglur vinnustaðar síns? Kannski ekki fyrir siðareglubrotið, en það gæti vel verið brot á starfssamningi og þar með réttmæt brottrekstrarsök.
Annars er almennt mjög erfitt að svara svona spurningum um siðferðislegl mál ef maður veit ekki staðreyndir málanna. Td. um kennarann í HR, var hann rekinn fyrir brot á siðareglum eða kannski bjó eitthvað annað að baki? Ef hann með orðum sínum olli samstarfsfólki sínu hugarangri svo það átti erfitt með að vinna vinnuna sína, er hægt að hafa svoleiðis mann í vinnu sem eitrar vinnustaðinn?
Það fer vísast eftir starfssamningnum hans. Til dæmis þarf mjög mikið til að segja upp kennurum á Íslandi, þökk sé öflugu stéttarfélagi, en þetta veldur mörgum skólastjórnandanum talsverðu hugarangri. Samanber kennarann í Gagganum á Akureyri, vann hann ekki dómsmál á endanum?
Kristján G. Arngrímsson, 18.4.2021 kl. 08:32
Mér dettur í hug að kannski sé besta leiðin til að fá fólk til að fara eftir siðareglum á vinnustað að hafa ákvæði í starfssamningi um að fólk eigi að fylgja þessum reglum. Þannig getur brot á siðareglum verið réttlæting uppsagnar, ekki af því að það er brot á siðareglum per se heldur af því að það væri brot á samningi.
Kristján G. Arngrímsson, 18.4.2021 kl. 08:35
Hversu langt má vinnuveitandi ganga í afskiptum af starfsmönnum? Þetta er í rauninni spurningin. Er starfssamningur sem kveður á um að starfsmaðurinn megi ekki tjá tilteknar skoðanir í rauninni gildur samningur? Ég hugsa að launþegahreyfingin myndi gera athugasemdir við slíkt, og finnst raunar líklegt að slík ákvæði séu einfaldlega bönnuð í vinnulöggjöfinni. Í árdaga kapítalismans þekktist það og var raunar algengt að vinnuveitendur skiptu sér af starfsmönnum með þessum hætti, en ég held að tekið hafi verið fyrir slíkt þegar verkalýðshreyfingunni óx ásmegin.
Þorsteinn Siglaugsson, 18.4.2021 kl. 13:30
Þetta fer sennilega soldið eftir eðli starfsins. Hvað með prest sem lýsir því yfir að hann trúi ekki á guð? Er hægt að hafa hann sem prest? Er hann trúverðugur?
Tek fram að þetta er ekki skáldað dæmi.
https://www.bbc.com/news/world-europe-14417362
En vissulega setur vinnulöggjöfin (sem betur fer) skorður við því hvað launþegar mega afsala sér. Samt myndi ég nú halda að það megi alveg ætlast til þess af launþegum að þeir verði ekki uppvísir að því í einkalífinu að vera drullusokkar.
Kristján G. Arngrímsson, 18.4.2021 kl. 13:37
Svo má ganga lengra og taka Kant á þetta og segja að málfrelsi sé mannréttindi og maður hreinlega getur ekki afsalað sér mannréttindum þótt maður vildi það. Ekki frekar en maður getur afsalað sér eigin genamengi.
Kristján G. Arngrímsson, 18.4.2021 kl. 13:41
@Kristján og Þorsteinn, þakka ykkur fyrir þetta. Ég er sammála því að í grunninn snýst þetta um hve langt vinnuveitandi getur gengið í afskiptum af "lífinu utan vinnu".
Ég sé fyrir mér að slíkur "núningur" aukist í framtíðinni, enda "ímynd" og "ásjóna" fyrirtækja æ meira í umræðunni og þykir mikils virði.
En auðvitað er það sem "skiptir máli", mjög misjafnt eftir gerð fyrirtækja.
Má ekki reikna með því að forstjórar olíufélaganna verði með þeim síðustu að skipta yfir á rafmagnsbíla? LOL
En finndist okkur eðlilegt að kveðið væri á um slíkt í starfssamningi?
Ef starfsmaður setur fram umdeildar skoðanir t.d. í blaðagrein, getur hún verið réttlæting fyrir uppsögn?
Í "andrúmslofti samtímans" getur slík greinarskrif valdið fyrirtæki óþægindum og hugsanlega fjárhagstjóni.
Ef það að valda samstarfsfólki sínu "hugarangri" getur verið brottrekstrarsök, opnar það ekki möguleikann á því að til að gera lítill hópur geti sammælst um að fá samstarfsmann rekinn, t.d. vegna þess að einn af þeim ásælist starfið hans?
Eða yrði greitt atkvæði á vinnustaðnum um hvort að viðkomandi héldi starfinu? (sé það ekki fyrir mér).
Það eru margar "ormagryfjurnar" í þessum málum og enginn einn flötur.
Ég get tekið undir að það er erfitt að sjá fyrir sér að vinnuveitandi krefjist að starfsmaður afsali sér málfrelsi.
Þó virðast býsnsa margir atvinnurekendur vilja gera það samanber dæmin hér að ofan.
Svo má líka velta fyrir sér hvort að samfélagsmiðlar séu fjölmiðlar og til dæmis RUV (og aðrir fjölmiðlar) geti ekki gert kröfu um að starfsmenn vinni ekki hjá öðrum, eða haldi út sínum eigin fjölmiðli?
Séu ekki í samkeppni við vinnuveitandann.
En ég tel að þessi málefni eigi eftir að skjóta upp kollinum aftur og aftur.
P.S. Er það að starfa í kirkjunni, ekki eins og hvað annað verkefni? Margir sem leysa af hendi margvísleg verkefni án mikillar sannfæringar.
Ég held að ég myndi ekki vilja vera prestur til lengri tíma, en hefði líklega gaman af því að sjá um predikanir um nokkra vikna skeið. Tölvupóstfangið má finna í hausnum á blogginu. :-)
G. Tómas Gunnarsson, 18.4.2021 kl. 20:21
Maður þarf nú ekki að fylgjast mikið með fréttum (kannski sérstaklega frá USA) um þessar mundir til að vita það að fólk er snemmhendis rekið úr vinnu fyrir ógætileg ummæli á samfélagsmiðlum.
Frægasta dæmið er sennilega um konuna sem sagði eitthvað á facebook áður en hún steig upp í flugvél og það var búið að reka hana þegar vélin lenti á áfangastað.
Ég veit ekki til að neitt banni slíkt. En af hverju er þetta fólk rekið? Af siðferðislegum ástæðum eða viðskiptalegum? Skiptir máli hvort er?
Að sjálfsögðu verður vinnuveitandi að geta losað sig við eitraðan starfsmann sem veldur samstarfsfólki sínu vanlíðan. Annað hvort væri nú. Er hægt að misnota þetta og koma sér saman um að bola einhverjum úr starfi? Nú auðvitað, það hefur hingað til kallast skrifstofupólitík. Stundum einelti. Fer eftir hvernig litið er á það.
Ég er ekki frá því að í allri þessari einstaklingsréttindabaráttu sé alveg farið að gleymast að maður hefur líka skyldur við meðbræður sína og samfélagið.
Kristján G. Arngrímsson, 19.4.2021 kl. 15:59
Smá viðbót við 4. málsgrein hér að ofan: Að sjálfsögðu verður vinnuveitandi að geta losað sig við eitraðan starfsmann sem veldur samstarfsfólki sínu vanlíðan og/eða kemur óorði á fyrirtækið/stofnunina úti í samfélaginu.
Kristján G. Arngrímsson, 19.4.2021 kl. 16:01
@Kristján, þakka þér fyrir þetta. Án þess að fara út í ítarlegan samanburð, tel ég að all verulegur munur sé á vinnumarkaði í Bandaríkjunum og Íslandi hvað varðar vinnumarkað og réttindi á honum.
Hvað samningar og lögjöf á vinnumarkaði segja um uppsagnir vegna skrifa á samfélagsmiðlum þekki ég ekki nógu vel til að ætla að fullyrða neitt um.
Mál kennarans og háskólakennarans benda svolítið í sitthvora áttina.
Svo er aftur spurning um skilgreiningu á "eitruðum starfsmanni" og hvað það er að koma "óorði" á fyrirtæki.
Ef t.d. 100 starfmenn eru hjá einu fyrirtæki, hvað þurfa margir að telja einhver starfmann "eitraðan"? Ræður meirihluti, eða hvaða skilgreiningar gilda?
Allt þetta skiptir máli, því meginreglan á Íslenskum vinnumarkaði er að "ástæðulausar" uppsagnir eru ólöglegar.
Mörg lönd hafa samþykkt ákvæði frá Alþjóða vinnumálastofnuninni (ILO), sem segir: "Atvinnurekandi skal ávallt, með eins góðum fyrirvara og hægt er, upplýsa viðkomandi stéttarfélag og trúnaðarmann um ástæðu uppsagnar starfsmanns. Ef atvinnurekandi, einhverra hluta vegna, bregst þeirri skyldu sinni að upplýsa félagið og viðkomandi trúnaðarmann tímanlega um uppsögn starfsmanns telst uppsögnin ógild. Standi starfsmaður sig ekki í starfi að dómi atvinnurekanda skulu honum send tvö áminningarbréf þar sem fram komi þær aðfinnslur sem atvinnurekandinn telur sig hafa á hann og honum gefinn kostur á að bæta sig. Áður en starfsmanni er afhent uppsagnarbréf skal taka mál hans fyrir og gera honum grein fyrir ástæðunni. Trúnaðarmaður skal í öllum tilfellum eiga rétt á að vera viðstaddur þegar slík mál eru rædd ef viðkomandi starfsmaður óskar þess. Verði atvinnurekandi ekki við þeirri ósk telst áminning eða uppsögn ógild."
Hvernig staðan á því er á Íslandi þekki ég ekki.
Hitt er svo annað mál hvort að margir kæri sig um að vinna þar sem þeirra er ekki óskað.
En sumir eru auðvitað "drekinn" eins og frægt er.
P.S. En auðvitað hef ég gaman af því að sjá þig "berjast" fyrir "réttindum" "auðvaldsins" og fyrirtækja, (LOL) það er gaman að munnhöggast við þig yfir þá "víglínu".
G. Tómas Gunnarsson, 19.4.2021 kl. 16:28
Þetta fer auðvitað líka mikið eftir eðli starfsins. Kennsla er t.d. mjög "delicate" starf því að innbyggt í það er mikið valdaójafnvægi og "efniviðurinn" (nemendur) er í mörgum tilvikum mjög viðkvæmur og afskaplega mikilvægur.
Sama gilir um mörg önnur störf.
Það er auðvitað matsatriði stjórnenda í hverju tilviki hvort starfsmaður er orðinn "eitraður" og hversu margir aðrir starfsmenn líða fyrir samstarfið við hann. Um þetta gilda náttúrulega ekki neinar allsherjarreglur. Vísast verður ósætti um ákvörðun stjórenda og þá kemur til kasta dómstóla, sbr. dæmin um kennarann í Gaggó og þennan í HR.
(Miðað við það litla sem maður veit af þessum málum tveim myndi ég segja að báðir hafi verið réttrækir, en skal bakka með það um leið ef meiri upplýsingar koma fram. Og auðvitað er allsendis ónauðsynlegt að ég hafi skoðanir á þessum tveim málum, en leyfi mér það hérna innan sviga).
Kristján G. Arngrímsson, 19.4.2021 kl. 16:54
@Kristján, þakka þér fyrir þetta. Persónulega lít ég svo á að hvorki hefði verið ástæða til að reka kennarann fyrir norðan, né í háskólanum.
Ég sé heldur ekki nokkra ástæðu til að reka Helga, öðrum kann að þykja svo vegna brots á siðareglum. Störf í fjölmiðlu er svolítið "delicate".
Ég styð rétt einstaklinga til einkalífs og að hafa skoðanir í því.
Rétt eins og þér, finnst mér þó að Helgi hefði betur sleppt þessu. Mér finnst hann svo bíta höfuðið af skömminni, með því að ráðast á Sigrúnu.
Ég lít svo að að enginn hefði getað annað en að finna hann brotlegan gagnvart gildandi reglum. Hann hefði betur einbeitt sér að reglunum sjálfum.
Sigrún var svo valin til starfans af starfsfólki RUV. Valdi starfsfólk RUV viljandi einstakling sem mætti kasta rýrð á, eða taldi fáa hæfari en Sigrúnu til starfans?
En það er að ýmsu æskilegt að eins skýrar línur fáist um réttindi/skyldur starfsmanna.
En hættan er líka að alltof margir missi lífsviðurværi sitt út af einhverjum "heykvíslarmálum" eða ætti ég að kalla þau "Lúkasarguðspjallið" eftir hundinum fræga?
G. Tómas Gunnarsson, 19.4.2021 kl. 18:15
Þér til hugarhægðar eru alveg dæmi hérna um kennara sem viðra forkastanlegar skoðanir opinberlega (á blog.is) en halda samt starfi sínu og eru að mér skilst farsælir kennarar.
Að sjálfsögðu styð ég líka rétt einstaklinga til einkalífs og að hafa skoðanir í því, en það blasir við að málið - t.d. mál Helga Seljan - er ekki svona einfalt. Sama á við um kennarann í HR (ég man eiginlega ekki nógu vel eftir málinu fyrir norðan til að geta haft skoðun á því). Eins og ég þekkti mál HR kennarans held ég að hörð afstaða skólans sé fullkomlega skiljanleg, líka vilji skólans til að fara í dómsmál til að losna við kennarann.
Svo er reyndar til annað dæmi um háskólaprófessor sem er vægast sagt illa liðinn af nemendum og samkennurum en heldur starfinu nú samt. Þú veist væntanlega við hvern ég á, fyrst stafurinn er Hannes. Sá maður hefur að ég held orðið ber að ritstuldi, sem er nú sannarlega goðgá í fræðunum og hefði eitt og sér átt að duga til að hitnaði amk. verulega undir honum, en nei. Að vísu skilst mér að hann sé ekki lengur að kenna skyldufög þannig að nemendur geta forðast að læra hjá honum. Frekar dapurlegt.
Vissulega er alltaf hætta á að heykvíslarnar verði dregnar fram og múgæsing verði til - en þetta er bara ein hlið málsins. Hin hliðin er ekki síður slæm, þegar einstaklingar í krafti réttinda sinna valda heilum samfélögum ómældum skaða. Þá hefðu heykvíslarnar betur verið dregnar fram.
(PS: Togstreitan milli einstaklings og samfélags er jú aldagamalt umræðuefni spekinga eins og okkar og það er einmitt gild ástæða fyrir því hvað þetta er lífsseigt. Það hafa ýmsir reynt að leysa upp þennan "binarisma" með því að segja að "samfélag" sé ekki til í rauninni, aðeins einstaklingar. Svona eins og þegar atferlissinnarnir í sálfræði sögðu að "sál" væri bara úrelt hugtak frá miðöldum.)
Kristján G. Arngrímsson, 19.4.2021 kl. 19:22
@Kristján, þakka þér fyrir þetta. Ef ég man rétt tjáði kennarinn fyrir norðan einmitt hér á blog.is. Þetta hlýtur að þínu mati að teljast "alræmdur glæpavettvangur".
En hans helsti "glæpur" var talinn að hafa sagt að "Samkynhneigð væri synd samkvæmt bíblíunni, og að laun syndararns væri dauði". Ég ætla ekki að segja að ég fari orðrétt með.
Skoðanir hans hugsa ég að hafi verið flestum velkunnar, einnig þegar hann var ráðinn, enda ekki hægt að segja að hann hafi legið á skoðunum sínum í gegnum tíðina.
Hvað Hannes varðar er hann umdeildur, líklega frekar á meðal samkennara en nemenda. Ég hef hitt nemendur sem eru ákaflega ánægðir með hann og svo aðra sem bera honum illa söguna.
Það verður aldrei hægt að setja lög sem taka "yfir lífið allt", ef svo má að orði komast.
En það er áríðandi að setja um "einkalíf", einhvern ramma, hugsanlega mismunandi eftir stéttum.
Atvinnurekendur, t.d. Fjölmiðlar og blaðamannafélagið gætu t.d. komið sér saman um einhverjar reglur. Önnur verkalýðsfélög semdu um öðruvísi takmarkanir.
Ég vann t.d. á vinnustað þar sem einstaklingar sem urðu uppvísir af neyslu ólöglegra efna (utan vinnutíma) voru umsvifalaust reknir.
Ég hugsa að það yrði ekki gert víða í dag, en gæti samt átt við t.d. hvað varðar lögreglumenn.
En ætti að reka lögreglumann sem verður sér til skammar vegna drykkjuskapar og þarf "að gista á vinnustaðnum"?"
"Munkarnir í Miðflokknum", brutu ekkert af sér. Það gerði Ágúst Ólafur hins vegar, þó að það leiddi ekki til kæru. Þórhildur Sunna braut siðareglur.
Flestir virðast telja "brot" "Munkanna" alvarlegust. Persónulega tel ég brot Ágústs vera það.
Þórhildur Sunna gerði að mínu mati lítið meira en að vera í pólítík, þó að vissulega eigi þingmenn að gæta orða sinna.
Hver dæmir um skaðann? Eigum við að treysta á múginn eða lögin?
G. Tómas Gunnarsson, 19.4.2021 kl. 20:08
Ég verð nú að viðurkenna að ef barnið mitt hefði haft kennara sem sagði að samkynhneigð væri dauðasök þá hefði ég sennilega farið að fægja heygaffalinn. Jafnvel þótt þessi orð kennarans hefðu fallið hér á þessum glæpavettvangi og því verið hans prívatskoðun.
En ef t.d. maðurinn sem gerir við bílinn minn (og gerir það vel) hefði sagt þetta í blogginu sínu hefði mér verið sléttsama.
Sama gildir ef um væri að ræða neyslu ólöglegra fíkniefna utan vinnutíma.
Mér fannst hegðun "munkanna" alveg jafn ömurleg og Ágústs Ólafs. Í báðum tilvikum var um að ræða lítilsvirðingu við tiltekna einstaklinga.
Varðandi HHG var ég alls ekki að segja að hann væri réttrækur, en ritstuldur er raunverulega alvarlegt brot í fræðasamfélagi. Ekki skánar það við að sjálfur Hæstiréttur dæmi ritþjófinn sekan og til greiðslu miskabóta. Hannes hefði þar að mínu mati átt að sjá sóma sinn í að láta sig hverfa úr fræðamennsku. En prófessorsstaða er vel launuð og þannig séð kannski skiljanlegt að hann hangi á henni eins og hundur á roði. Síðan þetta mál kom upp hef ég persónulega aldrei getað tekið mark á Hannesi sem fræðimanni.
Kristján G. Arngrímsson, 19.4.2021 kl. 21:34
@Kristján, þakka þér fyrir þetta. Þetta var "prívatskoðun" kennarans og milljóna annara sem taka það sem í bíblíunni stendur alvarlega, þannig að hversu "prívat" hún er, er líklega umdeilanlegt.
Foreldrið í Frakklandi brýndi eitthvað annað en heygaffalinn, þegar honum misbauð hvað kennari dóttur hans var að "bulla". Hann brýndi ungan veikgeðja einstakling.
Hegðun "klaustursbúa" og Ólafs skammarleg. En aðeins Ágúst braut í raun lög, þó að hann hafi ekki verið kærður.
Ég sé ekki að "Munkarnir" hefðu verið kærðir fyrir illmælgi.
En gilda lögin eða múgurinn?
G. Tómas Gunnarsson, 19.4.2021 kl. 21:56
Með þeim fyrirvara að ég er ekki alveg viss um hvað þú átt við með "múgurinn" myndi ég segja að eðlilegt sé að það sé "lýðurinn" sem gildir því að það er jú hann sem setur lögin ef allt er með eðlilegum hætti.
Tökum nærtækt dæmi: Ef Alþingi samþykkir nú lög sem gera kleift að hneppa fólk í lúxusvarðhald í sóttkvíarhóteli þá hugsa ég að það verði vegna þess að þingmenn gera sér grein fyrir að það er vilji "lýðsins" - eða múgsins.
Ef maður er andvígur þessum lögum myndi maður segja að það sé "kosningalykt" af þessum lögum, en ef maður er fylgjandi lögunum myndi maður segja eins og ég sagði hér að ofan að þingmenn geri sér grein fyrir að þetta sé vilji almennings í landinu.
Þetta mál mun held ég reynast mörgum erfitt, ekki síst Miðflokknum sem hefur lagt mikið uppúr því að tala gegn ríkisstjórninni en er nú í slakri stöðu í könnunum (gæti jafnvel dottið af þingi) og má alls ekki við því að tala gegn vilja kjósenda.
Kristján G. Arngrímsson, 19.4.2021 kl. 23:55
@Kristján, þakka þér fyrir þetta. Hver dæmir um hvort lýðurinn vill setja lög sem þessi? Á nú stjórn ríkisins að fara eftir mis vel gerðum skoðanakönnunum?
Ef "múgurinn" hefði ráðið hefði "Munkunum" líklega verið vikið af þingi. Þó er enginn lög sem kveða svo um.
En Alþingi hefði hugsanlega getað sett þau.
Miðflokkinn hef ég ekki séð tala gegn "forvirku gæsluvarðhaldi", þannig að ég sé ekki að hann hafi neinu að tapa frekar en aðrir.
Persónulega sé ég engan lúxus við að vera lokaður inn í litlu herbergi, án þess að eiga rétt á útiveru og geta ekki opnað glugga.
En það er í sjálfu sér ekki meginmáli.
Ég hef hins vegar séð Miðflokkinn tala býsna hart gegn ríkisstjórninni hvað varðar útvegun bóluefna. Ertu viss um að "múgurinn" sé gegn honum þar?
Það er ég ekki.
G. Tómas Gunnarsson, 20.4.2021 kl. 00:56
Siðareglur og nefndir hafa ekki meira vægi en þeim eru gefnar. Stundum skipta þær máli (minnir að t.d. blaðamenn hafi svoleiðis sem þeir taka dáldið mark á), en stundum ekki eins og þegar stjórn viðkomandi apparats lýsir yfir að álit nefndarinnar skipti ekki máli. Stjórnmálamenn eru svo bara bundnir af siðanefndinni sem segir sitt álit á fjögurra ára fresti.
Hins vegar langar mig ekki að vera kennari ef ég ætti það á hættu að Kristján mætti með heykvíslina fyrir utan hjá mér af því að honum líkaði ekki einhverjar skoðanir sem ég kynni að hafa.
ls (IP-tala skráð) 21.4.2021 kl. 21:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.