Næstum því eins og í "gamla daga"

Nú er runninn upp föstudagurinn langi.  Ekki veit ég af hverju hann er langur á Íslandi (og Norðurlöndunum)en góður hjá Enskumælandi fólki. Það verða einhverjir aðrir að útskýra.

Hér í Eistlandi er þessi föstudagur stór (suur), en það er ekki langt frá merkingunni langur.

En í minni fjölskyldu hefur oft verið grínast með mismunandi merkingar orða í þeim tungumálum sem við notum.

Þannig hef ég oft sagt krökkunum mínum að í minni barnæsku hafi þessi dagur svo sannarlega verið súr (sami framburður og suur).

Ég var einmitt að hugleiða það yfir kaffibollanum nú í morgunsárið að líklega væri þetta þetta það næsta því sem yngri kynslóðir kæmust að upplifa föstudaginn langa eins eldri kynslóðir gerðu.

Það var fátt í boði.  Allt var lokað. Engar matvöruverslanir (hvað þá aðrar verslanir), bensínsstöðvar, veitingastaðir, eða aðrir samkomustaðir máttu vera opnir.

Ríkisútvarpinu og Sjónvarpinu (1. rás af hvoru) bar að því virtist lagaleg skylda til þess að senda út leiðinlega dagskrá sem "enginn" nennti að horfa á.

Teiknimyndir á föstudaginn langa hefði líkega verið talið guðlast. Popptónlist í útvarpinu sömuleiðis.

En að vísu máttum við fara út og það jafnvel í hópum.  Að því leyti var staðan jákvæðari en hún er í dag. Engin krakki eða unglingur hafði síma, þannig að truflun og "heimkall" var mun erfiðara.

En það var ekkert internet, Netflix var ekki einu sinni orðið að hugmynd, hvað þá YouTube, Spotify og allt þetta.

Um páskadag giltu sömu reglur, en þá var meira súkkulaði í boði, sem gerði hann bærilegri.

Á skírdag máttu skemmtistaðir vera opnir til miðnættis, en það mátti ekki dansa. Eftirlitsmaður frá ríkinu kom og sá um að ekkert slíkt ætti sér stað. 

Skilaboðin frá ríkinu:  Eitthvað af brennivíni er í lagi, svo lengi sem ekki er dansað. Bjór mátti auðvitað engum selja, hvorki þann dag né aðra fyrr en 1989.

Seint á 9unda áratugnum var svo stigið stórt skref í frjálsræðisátt þegar skemmtistöðum var leyft að opna á miðnætti eftir föstudaginn langa og páskadag.  Þó fór það eitthvað eftir sýslumönnum, því þeir gáfu út skemmtanaleyfin.

Um miðjan 9unda áratuginn var útvarpsrekstur gefinn frjáls og Bylgjan og Stöð2 hófu útsendingar.

Svo var slakað á hvað varðaði verslanir, veitingastaði o.s.frv. Hægt og rólega færðist samfélagið áfram veginn.

En það gerðist ekki með því að enginn talað fyrir frelsinu, eða berðist gegn stjórnlyndinu.

Frumvörp um frjálst útvarp og að Íslendingar gætu drukkið bjór voru marg sinnis lögð fram á Alþingi.  En stjórnlyndisöflin höfðu alltaf sigur framan af.

Sjaldan eða aldrei þótti "rétti tíminn" til að taka upp "slík mál".

Nú er svo komið að Íslendingar geta látið "guðlast" rata af vörum sínum. Þeir geta gefið út blöð og framleitt sjónvarpsþætti, þar sem gert er grín að "almættinu", jafnvel sýnt þá á páskum, án þess að eiga það á hættu að ríkiskirkjan kæri þá til lögreglu.

En það er ennþá fjölmargar breytingar sem er þess virði að tala um, berjast fyrir og leggja fram frumvörp um.

Það er ef til vill kjörið tækifæri fyrir foreldra að nota daginn í dag til þess að útskýra fyrir yngri kynslóðum að þrátt fyrir að samkomubann og samgöngulausa hvatningu, þá lifum við góða tíma og velmegun og frjálslyndi eykst jafnt og þétt, þó að stundum hlaupi snuðra á þráðinn.

Ég óska öllum nær og fjær góðs dags og hann verði ekki of "langur".


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Örn Einar Hansen

Árið 1989, var enginn bjór seldur ... heldur var það pilsner, með svolitlu víni í. Sama á sér stað í dag, ef þú kaupir Pilsner eða léttan bjór, er það vatnsblandaður bjór. Hálfgerður óþverri.

Ég man þá gömlu daga, þegar allt var lokað ... og sakna þeirra. Mér finnst að þýskaland og austurríki fari rétt að, í þessu máli. Af hverju, eiga sumir að eiga frí á helgum dögum en aðrir ekki. Þetta á að gilda fyrir alla ... lokað, á þessum dögum. Sunnudagur, á að vera frídagur ... fyrir alla, punktur og pasta.

Hvað varðar trúarbrögð, þá hafa öll trúarbrögð flandrað frá staðreyndum ... engin þessara trúarbragða, eru sönn. En sannleikurinn er, að allir eiga að fá frí ... einn dag í vikunni.  Að helga sunnudaginn, er gott mál ... að leifa ÖLLUM að fá frí, yfir páska, jól og aðra tíma ...er einnig, gott mál.  Að víkja út frá þessu og leifa sumum að eiga frí, meðan aðrir eiga að vera þrælar ... er heldemis bull, kynþáttahatur og rasismi.

Þeir sem flytja til Íslands, eiga að aðlaga sig Íslenskum aðstæðum, ekki þvinga Íslendinga að aðlaga sig erlendum aðstæðum. Getur maður ekki aðlagað sig að þeim aðstæðum, sem fósturlandið hefur ... getur maður farið heim til sín. Einfalt mál.

Örn Einar Hansen, 10.4.2020 kl. 06:25

2 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Örn, þakka þér fyrir þetta.

Bjór var seldur á Íslandi, það er að segja löglega, frá 1. mars 1989.

"Bjórlíkið" hafði reyndar verið bannað áður en til þess kom. Það hefur alltaf verið nægur vilji á Íslandi til að banna ótal hluti.

Ég hugsa að almennt fái flestir 1 eða 2 frídaga í viku. Ekkert að því.

En ég sé enga nauðsyn til þess að það séu alltaf sömu dagarnir. Eða allir séu í fríi á sama tíma.

Hvað um þá sem vinna vaktavinnu?

Í gegnum tíðina hef ég oft unnið á kvöldin og um helgar, jól, áramót og páska og verslunarmannahelgina.

Kvarta ekki undan því hlutskipti mínu því oftast fannst mér vinnan skemmtileg.

En það eru margir sem álíta að aðrir eigi að fara eftir því sem "þeim finnst rétt".

Út af hverju?

Það er fullt af fólki sem finnst "Gufan" "nóg". Er þá engin ástæða til þess að leyfa aðrar útvarpsstöðvar?

Þér er frjálst að skipta ekki við verslanir sem hafa opið á sunnudögum, nú eða setja slíka verslun á fót.

Þú getur líka reynt að berjast fyrir slíku banni.

Persónulega myndi ég aldrei styðja það. 

En jafnvel þó að meirihluti myndi styðja slíkt bann, er varasamt að hugsa sem svo að meirihlutinn eigi ótakmarkaðan rétt til þvinga skoðunum sínum upp á minnihlutann.

Það er ekki þjóðfélag sem ég vil búa í.

G. Tómas Gunnarsson, 10.4.2020 kl. 06:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband