Ætti allur fiskafli að seljast á markaði, eða er mikilvægara að fullvinna meira á Íslandi?

Oft heyrist sú krafa á Íslandi að allur afli ætti að vera seldur á markaði.  Einnig heyrist sú ósk að fullvinna ætti stærri huta aflans á Íslandi.

En fara þessar óskir saman?

Það er auðvitað hugsanlegt, en einnig mögulegt að ef allur fiskur færi á markað drægi úr fullvinnslu á Íslandi.

Þegar samið er við stórar verslunarkeðjur, sem taka þá frá ákveðið kælipláss fyrir vöru í neytendapakkningum, er afar algengt að krafist sé fasts verðs.  Verð vörunnar er þá samningsbundið í t.d. 6 til 12 mánuði. Reglan gjarna sú að því stærri keðja, því lengur er verðið fest.

Í slíkum samningum býðst heldur ekki að afhending sé verulega á reiki.

Því skiptir máli þegar starfað er á þeim vettvangi að hráefnisöflun sé eins örugg og kostur er og verð þess sveiflist lítið.

Það gerir þennan markað enn erfiðari, að eftir því sem ég kemst næst, eiga Íslensk sjávarútvegsfyrirtæki ekkert sterkt vörumerki á neytendamarkaði.  Líklega er það of dýrt að koma á legg?

Þau eru því að framleiða fyrir stærri fyrirtæki, eða gjarna  vörumerki verslanakeðjanna. Ég held að alltaf þegar ég hef keypt Íslenskan fisk erlendis hafi það verið undir vörumerki viðkomandi verslunar, eða án vörumerkis.

Það gerir stöðu framleiðandans erfiðari, enda auðveldara að skipta um birgja í þannig framleiðslu umhverfi.

En það er auðveldara að uppfylla harðar kröfur smásöluaðila, með því að hafa fulla stjórn á aflanum frá "mar til markaðar"?

Eru Íslensk sjávarútvegsfyrirtæki of lítil til að "virka" á alþjóðamörkuðum án þess að þjóna stærri fyrirtækjum?

Það er líklegt, þó að um sé að ræða stórfyrirtæki á Íslandi eru þó smá í alþjóðegu samhengi og það kostar óhemju fé að byggja upp og viðhalda vörumerki á alþjóðlegum smásölumarkaði.

Þó að ég ætli ekkert að fullyrða, er því hægt að sjá fyrir sér þá stöðu, að allur fiskur á markað gerði Íslenskum fyrirtækjum erfiðara um vik að starfa á neytendamarkaði.

En um slíkt er ekki hægt að fullyrða, því enginn veit nákvæmlega hvernig sá markaður myndi haga sér.

Hvernig yrði verðmyndunin?

Nú hefur vinnsla í landi verið að aukast aftur, tækni framþróunin hefur séð til þess. Mér er sagt að frá þeim tíma sem kvótakerfið byrjaði, hafi framleiðni á starfsmann í Íslenskum frystihúsum aukist ca. fimmfalt.

Þó sé jafnvel ekki talið með að fiskurinn sé "unninn lengra".

Það þýðir í raun að af hverjum 10 starfsmönnum sem voru í frystihúsum við upphaf kvótakerfisins, væri ekki lengur þörf fyrir átta af þeim.

Það er enda svo að þegar framleiðni er mæld á milli landa, kemur Ísland yfirleitt hvað best út hvað varðar sjávarútveg, síður í öðrum greinum.

En auðvitað verður þjóðin á einhverjum punkti að velja, áframhaldandi tæknivæðingu, eða "sósíalískan "lúddisma"", með áherslu á önnur sjónarmið.

Mér finnst stundum eins og Íslendingar séu aftur farnir að halda, rétt eins og 2007, að sjávarútvegur skipti littlu máli fyrir velferð þjóðarinnar og hægt sé að nota hann í öðrum tilgangi en að skapa tekjur og arðsemi. Ekki sé áríðandi að reka hann með sem hagkvæmustum hætti.

Slíkt er að mínu mati jafn hættuleg hugsun, nú eins og hún var þá.

P.S. Það skiptir líka máli hvernig aðgangur erlendra aðila er að fiskmörkuðum. Ég verð að viðurkenna að ég þekki ekki nógu vel til umgjarðarinnar, en er eitthvað sem kemur í veg fyrir þátttöku erlendar aðila á Íslenskum fiskmörkuðum?

Allar upplýsingar þar að lútandi eru vel þegnar.

Ef svo er ekki, væri það enn einn þáttur sem gæti gert Íslenskum fisverkendum mun erfiðara að vera í fullvinnslu.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband