Það er engin ástæða til að slá af kröfum vegna þess að "það er á netinu", en það er vissulega ástæða til að skoða hvort kröfurnar eru of miklar

Það er mikið rætt um "Uber" og leigubíla og hvort að of mikið sé reynt til að sporna gengn "tækninýjungum" eins og "Uber". Það mátti t.d. lesa frétt um það á Vísi í dag.

Það er full ástæða til þess að skoða hvort að kröfur til þess að mega keyra og reka leigubíl séu og miklar og strangar, en það kemur að mínu mati "Uber", eða sambærilegum þjónustum ekkert við.

Það að eitthvað "sé krúttlegt og og netinu", styðji "deilihagkerfið" eður ei, kemur málinu ekki við.

Það eiga sömu reglur að gilda fyrir alla.

Ef ekki þykir ástæða til þess að leigubílstjórar séu með meirapróf á að fella þó kröfu niður, ef ekki þykir ástæða til þess að þeir sem flytji fólk gegn gjaldi hafi meiri tryggingar en aðrir, á sú krafa ekki að vera til staðar.

Ef það er í lagi að reka þjónustu sambærilega við "Uber", á þá ekki að leyfa hverjum og einum að slengja "Taxi" segli á bílinn sinn og keyra þegar honum hentar? Það þurfi eingöngu að skrá sig hjá þar til gerðum yfirvöldum, t.d. á netinu?

Hver er munurinn?

Það er sjálfsagt að slaka á reglum, en að hlýtur eigi að síður að eiga að gilda fyrir alla.

Svo má velta fyrir sér "eignarrétti" leigubílstjóra á "kvóta".  Margir þeirra hafa keypt leyfi, útgefin af ríkinu á háu verði.

Eiga þeir rétt á skaðabótum, ef "kvótinn" er afnuminn?

Það er ekki óeðlilegt að því sé velt upp.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Ef þeir sem fá úthlutað ókeypis kvótum öðlast þar með eignarrétt, þá hlýtur sama miklu fremur að gilda um þá sem þurfa að kaupa kvótana af ríkinu.

En auðvitað á akstur leigubíla að vera frjáls. Það er engu meiri ástæða til sá sem ekur fólki gegn gjaldi uppfylli meiri kröfu en sá sem ekur fólki ókeypis, sem allir mega gera.

Þorsteinn Siglaugsson, 23.7.2019 kl. 21:00

2 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Þorsteinn, þakka þér fyrir þetta. Ég er ekki að fullyrða neitt um skaðabótaskyldu, en þegar óeðlileg inngrip opinberra aðila, eins og tilfelli leigubílstjóra, þá taka menn viðskiptaákvarðanir sem ekki hefðu ella verið teknar, og "verðmæti" verða til.

Svo má deila um hvort að eðlilegt sé að hið opinbera geti gert slík "verðmæti" verðlaus, eftir eigin geðþótta.  Ég er í sjálfu sér ekki að taka afstöðu til þess, en benti á að það væri ekki óeðlilegt að slíkar spurningar vöknuðu.

En ég held, líkt og þú, að best fari á því að leigubílarekstur sé frjáls, en það er mikill munur á því að gera eitthvað gegn gjaldi eður ei, ekki síst víða í lögum.

Þannig held ég að mér sé ennþá heimilt að aka nokkuð stórum rútum og vörubifreiðum á Íslandi, en eingöngu án gjaldtöku.

Það geta líka gist hjá mér 15 til 20 manns (við þröngan og illan kost), en ég er hræddur um að lög og reglugerðir kæmu í veg fyrir að ég stundaði slíkan rekstur með gjaldtöku alla daga.

En það eiga að vera einfaldar reglur, sem eiga að gilda fyrir alla.

Það má velta fyrir sér t.d. hvort að það eigi að gera kröfu um að leigubílar sé vel auðkenndir (það er hægt að gera t.d. með seglum), þeir hljóta að þurfa eitthvað sem er ígildi sjóðsvélar, mér þætti ekki óeðlilegt að þeir væru skráðir hjá einhverjum opinberum aðila (t.d samgöngustofu) og fengju þar leyfisnúmer. Jafnvel mætti hugsa sér að það númer þyrfti að koma fram á bílnum.

Á að vera skylt að tilkynna leigubílaakstur til viðkomandi tryggingafélags?

Svo þekki ég ekki hvernig Íslensk tryggingarfélög líta á leigubílaakstur, en víða eru tryggingar af leigubílum margfalldir á við það sem er af einkabílum.

Það má enda t.d. reikna út að líklega eru að jafnaði fleiri einstaklingar í leigubíl en einkabíl og því hætta á meira tjóni ef árekstur verður.

Sjálfsagt að auka frelsið í þessum rekstri, en það þarf að huga að einu og öðru áður en lögum er breytt.

G. Tómas Gunnarsson, 24.7.2019 kl. 05:10

3 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Spurningin er sú hvort eitthvað réttlætir að gerður sé greinarmunur á því hvort fólk ekur öðrum gegn gjaldi eða ekki. Það hvað stendur í lögum er þeirri spurningu í sjálfu sér óviðkomandi. Sé ekkert sem réttlætir greinarmuninn, en hann er gerður í lögum, þá þarf vitanlega að breyta lögunum.

Þú talar um að mögulega ætti að gera kröfu um að leigubílar séu auðkenndir, hafi sjóðvél og séu skráðir og með leyfisnúmar. En hvers vegna? Víða um heim starfa farveitur á borð við Uber og bílar þeirra hafa ekkert af þessu. Hvaða vandamál skapar það?

Þorsteinn Siglaugsson, 25.7.2019 kl. 09:19

4 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Þorsteinn, þakka þér fyrir þetta. Það má vissulega velta því fyrir sér hvort að þörf sé fyrir öll lög og reglugerðir, og án efa mætti fækka þeim verulega án þess að megninu af þeim yrði saknað.

En það er heldur engin ástæða til þess að taka þá leigubíla eina út úr, eða hvað?

Allir mega búa til sultur og alls kyns góðmeti, gefa vinum og kunningjum.  En þegar farið er að selja flækist heldur málið. Líklega þarf einnig að breyta þeim lögum.

Allur atvinnurekstur þarf að hafa ígildi sjóðsvélar, meira að segja þeir sem selja í Kolaportinu.  Hví ekki leigubílar?

Persónulega þekki ég ekki Uber til hlýtar, en þeir hljóta að þurfa á flestum stöðum eitthvað sem er "ígildi sjóðsvélar", enda vilja þar til gerð yfirvöld líkega vita eitthvað um veltuna.

Merking getur komið sér vel, svo vitað sé við hvern er átt viðskipti við, og hver raunverulega kom.  Getur reynst erfitt að kvarta undan "hvítum bíl".

Og reyndar hefur rekstur Uber átt sinn þátt í vandamálum og glæpum, en þá ber fyrirtækið enga ábyrgð, ef taka hefur mátt mark á fréttum, enda eingöngu "miðlari".

Þess vegna endurtek ég að það er að mörgu að hyggja, og þá ef til vill frekar rétt að endurskoða allt umhverfi allra fyrirtækja, frekar en bara leigubíla.

En sjálfsagt þarf að byrja einhversstaðar.

G. Tómas Gunnarsson, 28.7.2019 kl. 13:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband