Ef það aldrei hefði orðið?

Gjaldþrot WOW kom flestum á óvart en samt ekki.  En eins og oft var það ekki fyrr en það skall á, sem flestum þótti það augljóst að það hefði legið í loftinu.

En hættumerkin voru vissulega til staðar.

En þegar stór fyrirtæki fara á höfuðið er eðlilegt að menn velti fyrir sér hugsanlegum afleiðingum, og í tilfelli WOW geta þær orðið margvíslegar þó að enn sé of snemmt að segja til um hverjar þær verða.

Það er ljóst að fjöldi mun missa vinnuna.  Ferðaþjónustufyrirtæki munu líklega verða fyrir skelli, rútufyrirtæki, veitingastaðir, bílaleigur, o.s.frv. Einhverjir munu hugsanlega sameinast, aðrir fara á höfuðið.

Íslenska krónan gæti sigið, hagvöxtur horfið, verðbólga aukist, kaupmáttur dregist saman og þar fram eftir götunum.

Þá byrjar umræðan um hvernig þetta gat eiginlega gerst?  Hvers vegna var þetta ekki stöðvað?  Út af hverju er einu fyrirtæki leyft að verða svona stórt og svona mikilvægt?

Undir svona kringumstæðum virðist trú á því að nauðsynlegt (og mögulegt) sé að handstýra efnahagslífinu fá byr undir bæða vængi, ef ekki fleiri.

Ég veit ekki hver sá aðili er sem þessir aðilar telja hæfa um slíkt, hvort það er ríkisstjórn, Alþingi, eða hvort að einhver "stofan" ætti að taka þetta að sér.

En er ekki möguleiki að tilvera WOW hafi á undanförnum árum stuðlað að auknum hagvexti, lægri verðbólgu, meiri kaupmætti, aukinni atvinnu?  Jafnvel svo að Íslenskt þjóðfélag standi betur þó að WOW hverfi á braut, heldur en ef það hefði aldrei komið til sögunnar?

Er þetta svipað og spurningin hvort sé verra að vera í ástarsorg, eða hafa aldrei elskað?

Persónulega hef ég trú á því, þó að ég hafi enga útreikninga til þess að byggja á.  WOW kom til sögunnar á erfiðum tíma og jafði gríðarlega jákvæð áhrif á efnahagslífið.  Tölfræðin segir að yfir 66% fyrirtækja nái því ekki að verða 10 ára.  WOW er í þeim hópi.

Þar með er ekki sagt að þau leggi ekki margt til þjóðfélagsins.  Ekki síst aukna þekkingu og reynslu sem nýtist í starfsemi annarra fyrirtækja, sem stundum verða langlífari.

En ég náði því aldrei að fljúga með WOW.

 


mbl.is Missi ekki trú á markaðsöflunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

 Wow Air varð tæknilega gjaldþrota fyrir löngu síðan. Það er sárt að horfa upp á örlög alls þess fólks sem að því kom, beint og óbeint. 

 Það hlýtur að koma að þeim tímapunkti að ræða þurfi hlutverk og ábyrgð eftirlitsaðila, varðandi þetta löngu dauðadæmda fyrirtæki.

 Forstjóra Samgöngustofu og Ísavia ætti að reka nú þegar. Þvílikir slugsar, að engu tali tekur. Það stóð ekki á því að kyrrsetja flugvél hjá pínulitlu flugfélagi, sem séð hefur um flug út á land í áratugi. Þá virkuðu þessir sjálfumglöðu einskisnýtu burgeisar með leifturhraða og allt var sett í lás há Herði. Á sama tíma hrönnuðust upp lendingargjaldaskuldir hjá WOW, sem námu mörghundruðfaldri upphæð Harðar og hans góða félags. Ákvæði um fjárhagslegt rekstraröryggi til þriggja mánuða var ekki til staðar hjá WOW í a.m.k. eitt og hálft ár, en áfram fékk svikamillan að snúast, undir "vökulu auga eftirlitsstofnanaforstjóraónefnanna". 

 Eftir situr hinn almenni borgari og fyrirtæki landsins með reikninginn. Fari Skúli til fjandans ásamt banksterunum og steingeldum, einskisnýtum eftirlitsstofnanaforstjórum og öðru duglausu bjúrókratíuhyski, sem minna en ekkert gagn er að.

 Góðar stundir, með kveðju að sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 29.3.2019 kl. 22:24

2 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Tómas Wow kom á markaðinn með offorsi og byrjaði á fullu að selja ódýr eða ódýrari en kostaður við að fljúga með þá á staði þar en Icelandair voru búnir að byggja upp síðustu tugi ára og eða voru að byggja upp.

Þetta var gert þ.e. Wow air gerði til þess að drepa niður samkeppnisaðilann Icelandair.

Það að geta sýnt mikinn farþegafjölda er aðal atriðið varðandi ytra útlit og svo hlutabréfasölu þegar til kæmi. Skúli vissi að engin myndi fjárfesta í flugfélögum því það er glapræði og hefur ekki gert í mörg ár á heimsvísu svo að var bara eitt að drepa andslæðingin með köldu blóði þvi máltækið virkar eins dauði er annars brauð.. 

Það þarf engin að hlaupa undir baggann því það var aldrei pláss fyrir annað innlent flugfélag en þeir voru dauðadæmdir í byrjun svo þetta var bara einvígi milli tveggja. Hann náði árangur og gat lemstrað andstæðingi sem mun þurfa næstu áratugi að byggja sig upp.

Það er sorglegt þegar stjórnvöld geta ekki stoppað fyrirtæki sem skuldar okkur og öðrum milljarða.   

Valdimar Samúelsson, 30.3.2019 kl. 11:38

3 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Halldór, þakka þér fyrir þetta. Ég ætla ekki að fullyrða um hvenær WOW varð órekstrarhæft, eða hvenær það hafi hætt að uppfylla öll skilyrði fyrir því að hafa Íslenskt flugrekstrarleyfi.

En ég er sammála því að það er þarft að fara yfir og ræða það mál og komast að því hvernig frammistaða eftirlitsaðila var.

Þó ekki væri nema til að læra af. Ef til vill er ástæða til að einhver taki pokann sinn, en ég ætla ekki að fullyrða neitt um slíkt.  Veit ekki nóg.

En það er líka áhyggjuefni ef einstaklingar og fyrirtæki hafa ekki staðið jafnt fyrir lögum og reglugerðum.

@Valdimar, þakka þér fyrir þetta.  Ég ætla ekki að fullyrða um hvort það er pláss fyrir tvö Íslensk flugfélög eða ekki. Það getur vel verið mögulegt, en auðvitað er markaðurinn ekki stór eingöngu til Íslands, og því hefur "freistingin" til að fara í "hub módelið" verið afar freistandi.

En það er sjálfstætt rannsóknarefni hvernig eftirlitsaðilar og rekstraraðili Keflavíkurflugvallar bregðast við.  Rekstraraðili reynir í sjálfu sér gjarna að vega og meta aðstæður með tilliti til framtíðarviðskipta, en ég hefði haldið að eftirlitsaðili eigi að fara eftir lögum og reglugerðum.

P.S. Ég skil ekki til fullnustu þann gjörning að krefjast þess að ein flugvéla WOW hafi verið stöðugt geymd á Keflavíkurflugvelli.  Sé ekki að það hafi mikla þýðingu, nema í þá átt að gera félaginu erfiðara fyrir.

Hvernig virkar kyrrsetning véla í eigu þriðja aðila, til að ábyrgjast skuldir WOW?

Er leigusali félagsins á einhvernhátt ábyrgðaraðili fyrir lendingagjöldum félagsins? 

G. Tómas Gunnarsson, 30.3.2019 kl. 13:59

4 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Þakka Tómas. Þetta eru góðar spurningar en þegar pólitíkin er komin í þetta þá er lítið um svör. :-)

Valdimar Samúelsson, 30.3.2019 kl. 14:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband