23.3.2019 | 00:19
Að vera saklaus uns sekt er sönnuð og að allir eigi rétt á verjanda, er það á undanhaldi?
Eitt af skringilegustu málum sem ég hef lesið um undanfarnar vikur, og um leið það sem minnkar trú mína á framtíðinni er krafan um að einn af "deildarforsetum" í lagadeild Harvard háskóla verði vikið úr starfi, vegna þess að hann tók að sér að verja Harvey Weinstein í komandi réttarhöldum.
Það sem er uggvænlegast er að krafan kemur frá nemendum háskólans og einhverjum kennurum, ekki veit ég hve margir þeirra séu úr lagadeildinni, en við verðum að vona að það séu fáir eða enginn.
Þeir virðast þeirrar skoðunar að setja skuli samasem merki á milli meints sakamamanns og verjenda hans.
Þeir líta ekki á svo að verið sé að verja saklausan einstakling (uns sekt hans er sönnuð), heldur eigi hann í raun ekki rétt á verjenda.
Ef til vill er þó það undarlegasta að háskólinn virðist að hluta til "dansa með" mótmælendum.
Þó að vissulega megi ekki draga of miklar ályktanir af einstaka málum færir þetta orðinu háskólasamfélag eiginlega aðra merkingu og setur það niður býsna mörg þrep.
En það má finna ýmislegt um málið á netinu, s.s. NYT, Boston Globe, HuffPost, og svo bregst Mr.Google auðvitað sjaldnast.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkur: Mannréttindi | Facebook
Athugasemdir
Á undanförnum áratugum hafa háskólar breyst mikið sem stofnanir og orðið sífellt meira einsog hverönnur fyrirtæki og nemendur eru "viðskiptavinir" þeirra - og það er samkeppni um þessa viðskiptavini og þess vegna verður að hafa þá góða. Þess vegna fara háskólar að dansa með mótmælendum.
Kristján G. Arngrímsson, 25.3.2019 kl. 22:13
@Kristján, þakka þér fyrir þetta. Að hluta til er þetta rétt, en ég hygg að mestu leyti rangt.
Breytingin er stjórnendum, kennurum og skoðunum þeirra og hræðslu að þakka/kenna.
Ég hygg að það sé megin ástæðurnar.
Skólar eins og Harvard flestir af þeim "stóru", þurfa ekki að "dansa" eftir kröfum "viðskiptavina", enda vísa þeir líklega fleiri frá en þeir hleypa inn ár hvert.
Það væri líklega frekar að þeir væru að dansa með þeim sem koma með stærstu gjafirnar, en nemendum.
En það er tilhneyging, sem kemur líklega ekki síst frá "háskólasamfélaginu" að þetta sé allt hinum "hræðilega markaði" að kenna.
G. Tómas Gunnarsson, 26.3.2019 kl. 20:09
Það er rétt hjá þér að stjórnendur skólanna hafa gengið þarna fremsti í flokki, enda hefur viðskiptavinurinn (nemandinn) alltaf rétt fyrir sér, ekki satt? Reyndar eru það alls ekki allir nemendur sem höggva í þennan knérunn, og þess vegna má heita undarlegt að skólayfirvöld fari í þennan farveg.
Kristján G. Arngrímsson, 27.3.2019 kl. 20:54
@Kristján, þakka þér fyrir þetta. Ég held að það sé rétt að oft fari stjórnendur fremstir í flokki, jafnvel með kennurum.
En krafa nemenda, sem oft eru í minnihluta, getur ekki skýrt þetta. Sérstaklega ekki í þeim skólum þar sem aðsóknin er slík að hafna þarf meirihluta umsækjenda.
Það gerir þessa afstöðu skólayfirvalda enn undarlegri og bendir til þess að þetta sé eitthvað sem sé í raun jafn mikið, eða líklega meira skoðun og vilji skólayfirvaldanna en nemenda
Sem aftur vekur upp spurninguna, hvers vegna?
G. Tómas Gunnarsson, 28.3.2019 kl. 01:36
Að einhverju leyti er þetta ímyndarvörn - þ.e. að verja ímynd skólans fyrir ásökunum sem erfitt getur verið að hreinsa sig af, t.d. um rasisma eða að fara mildum höndum um kynferðisníðinga (sbr. Weinstein). Það er í þessum bisniss eins og svo mörgum öðrum að upplifun nemandans er það sem máli skiptir. Sumir háskólar (hef ég heyrt) eru meiraðsegja farnir að markaðssetja sig með því að bjóða væntanlegum nemendu upp á "upplifun" frekar en nám.
Það er ekki í neinum skætingi sem ég tala um háskóla (amk í USA) sem bisness, það er almennt farið að líta á þá þannig og því fylgir einfaldlega að þeir fara að lúta öðrum lögmálum en ef þeir væru "gamaldags" menntastofnanir. Þessa er raunverulega farið að sjá stað á Íslandi líka, trúðu mér - ég er þar innanbúðar.
Og það er til marks um hversu djúpstæð þessi markaðsvæðing skólanna er, að jafnvel nemendur sem telja sig marxista koma fram eins og harðsvíruðustu neytendur. Kaldhæðnislegt, svo ekki sé meira sagt. En um leið glöggt merki um að kapítalisminn hefur gjörsigrað.
Kristján G. Arngrímsson, 28.3.2019 kl. 07:21
@Kristján, þakka þér fyrir þetta. Ímynd er alltaf viðkvæmt mál, en ætti ekki að þurfa að taka yfir almenna skynsemi.
Harvard er ekki á nokkurn hátt að fara mildum höndum um Weinstein, kemur í raun ekki nálægt honum. En auðvitað á hann sama rétt á góðri vörn og allir aðrir. Hann hefur ekki enn verið dæmdur sekur um neitt, alla vegna ekki eins langt og ég hef fylgst með.
Auðvitað þurfa háskólar tekjur eins og aðrir, sama hvernig eignarformið er er.
Mér sýnist "snjókornamenningin" ekkert síður vera til staðar þar sem hið opinbera borgar megnið af kostnaðinum, t.d. á Íslandi eins og þú nefnir.
En það sem bisness eru það þó aðrir háskólar sem er jafnvel enn frekar ástæða til að hafa áhyggjur af, sbr. þessa frétt: http://www.ruv.is/frett/fjolmargir-plathjukrunarfraedingar-i-svithjod
G. Tómas Gunnarsson, 29.3.2019 kl. 21:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.