8.2.2019 | 14:16
Er til eitthvað sem er betra en lýðræði?
Víða hefur mátt sjá á undanförnum árum skoðanir í þá veru að lýðræði sé ekki endilega besta stjórnarfarið. Alla vegna ekki þar eða eða hér, svona eftir því hvar menn eru staddir.
Margir nefna til einstaka "einvalda" sem hefur verið velt úr sessi og í kjölfarið hefur fylgt "kaos", upplausn, og oft á tíðum hreinar hörmungar.
Og það er ekki hægt að neita því að í sumum tilfellum er þetta alveg rétt.
Rétt eins leið þeirra sem við nú köllum "lýðræðisþjóðir" er oft vörðuð ofbeldi, afturhvarfi til einveldis, og stundum borgarastyrjöld.
Við getum horft á lýðræðisþjóðir eins og Bandaríkin og Bretland, þar sem þokkalega hefur gengið að varðveita lýðræðið, en ég held að allir viti að þar er um að ræða undantekningar frekar en regluna.
Samt hefur aðeins ein fjölskylda heimild til þess að skipa í stöðu þjóðarleiðtoga Breta. Hvers kyns lýðræði eða jafnrétti er það?
Það sama gidir um þjóðir eins og Danmörku, Svíþjóð, Noreg, Holland, Spán, Kanada, Ástralíu, Nýja Sjáland, Belgíu, japan og einhver fleiri ríki. Svona til gamans má reyndar geta þess, að ef ég man rétt er forseti Frakklands, altaf jafnframt prins í Andorra. Það gildir því um Macron nú ef ég hef skilið rétt.
En eru ríki í Afríku, Asíu og S-Ameríku ekki reiðubúin fyrir lýðræði?
Er betra fyrir þau að hafa "sterka landsfeður" sem eru þess umkomir að ákveða hvað er gott fyrir land sitt og þegna?
Hefur slíkt fyrirkomulag einhversstaðar gefist vel til lengri tíma? Hvar þá?
Er eftirsjá af föntum eins og Ghaddafi og Saddam Hussein?
Vissulega tryggðu þeir ákveðinn "stöðugleika". "Stöðugleika" þar sem ganga mátti að því sem vísu að stjórnarandstæðingar voru drepnir og pyntaðir, varpað á þá efnavopnum, o.s.frv.
Er það "stöðugleiki" sem er eftirsóknarverður?
Er "stöðugleiki" allt sem við sækjumst eftir?
Mörg lýðræðisríki hafa gengið í gegnum erfið tímabil. Þar má til dæmis nefna til sögunnar ríki eins og Þýskaland, Ítalíu, Spán, Portúgal, Austurríki, og Frakkland.
"Vagga lýðræðisins" eins og við oft nefnum Grikkland hefur þurft að ganga í gegnum hernám og herforingjastjórnir.
Á því tímabili sem við köllum gjarna "millistríðsárin" fækkaði lýðræðisríkjum jafnt og þétt.
En er til eitthvað betra stjórnkerfi til en lýðræði?
Eða er eitthvað til í því að lýðræði sé versta stjórnkerfið sem við getum hugsað okkur, fyrir utan öll hin stjórnkerfin sem mannkynið hefur reynt að nota?
Er ekki rétt að reyna að stefna að lýðræði sem víðast og reyna að styðja það hvar sem okkur gefst tækifæri til?
Hvort sem það er í Afríku, Asíu, S-Ameríku, eða hreinlega hvar sem er.
Sá stuðningur mun án efa ekki þýða að að allt verði slétt og fellt, eða að allir hafi það betra en áður. Ekki alltaf, eða alveg strax.
Stundum mun það þýða hörmungar, dauða, sult, og þjáningar.
En ef til lengri tíma litið þýði það að lýðræði eigi möguleika á því að skjóta einhverjum rótum, og ef til vill blómstra í framtíðinni, er það ekki þess virði?
Nú verður hver að svara fyrir sig.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkur: Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 18:54 | Facebook
Athugasemdir
Ég myndi vilja sjá FORSETAÞINGRÆÐI hér á landi þar sem að forseti íslands þyrfti að axla raunverulega ábyrgð á sinni þjóð.
Þó að það þyrfti að kjósa slíkan forseta í tveimur umferðum
eins og tíðkast í frakklandi.
Jón Þórhallsson, 8.2.2019 kl. 14:48
@Jón, þakka þér fyrir þeta. Verð að segja að ég gæti ekki verið meira ósammála þér, og tel alls ekki að nokkurt ríki ætti að taka fyrirkomulagið í Frakklandi til fyrirmyndar.
Íslendingar mættu hins vegar velta því fyrir sér hvort að rétt sé að leggja forsetaembættið niður.
En að er önnur saga.
En það er eðlilegt að um þetta séu skiptar skoðanir.
G. Tómas Gunnarsson, 8.2.2019 kl. 15:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.