Að ríkið styðji fyrirtæki vegna forskots og ofríkis ríkisfyrirtækis

Einhvern veginn finnst mér að fyrirsögnin hér gæti verið yfirskrift þess sem nú er kallað "fjölmiðlafrumvarpið".  Það er að segja um opinbera niðurgreiðslu skattgreiðenda á einkareknum fjölmiðlum.

Þessar hugmyndir eru nokkuð í takt við þróunina á Íslandi, þar sem stjórnmálamenn hafa varla undan við að fá hugmyndir um eitthvað sem þeir vilja að almenningur niðurgreiði.

Allt nema vegi, þar eru komnar fram hugmyndir um að þeir "greiði sem noti".

En út af hverju ganga Íslenskir fjölmiðlar svona illa, að nauðsynlegt sé talið að neyða skattgreiðendur til að leggja þeim lið?

Þar má án efa telja til ýmsar ástæður, en ég hygg að það þyrfti ekki að ræða við marga il þess að sterk staða Ríkisútvarpsins yrði nefnd til sögunnar.

Ég held líka að ef ekkert verður að gert muni sá styrkur ekki gera neitt nema að aukast á komandi árum og hlutföllin á fjölmiðlamarkaði skekkjast enn frekar.

Sívaxandi tekjur Ríkisútvarpsins af útvarpsgjaldi munu sjá til þess, sem aftur gerir stofnuninni kleyft að auka umsvif sín og jafnvel í framhaldinu ná í enn stærri skerf af auglýsingamarkaðnum.

Stóraukin fjöldi íbúa og fyrirtækja, þýðir að sjálfsögðu stórauknar tekjur RUV af nefskattinum.

Margir hafa viðrað þá hugmynd að drage eigi RUV að hluta til eða alveg af auglýsingamarkaði.

Það gæti skilað einhverjum árangri, sérstaklega ef sá tekjumissir yrði ekki bættur upp með öðrum hætti.

En ef árangur á að nást, þarf að minnka umsvif RUV á markaðnum.  Það þarf í raun að draga úr starfseminni.

Ef RUV er með 50% áhorf og er bannað að selja auglýsingar, þá er búið að taka 50% af sjónvarpsáhorfendum af auglýsingmarkaðnum. 

Auglýsingakaupendur fara ekki að kaupa auglýsingar í auknum mæli á Stöð2/Bylgjunni, DV, eða Mogganum til þess að reyna að ná í þann hóp.  Það hefur ekkert upp á sig.

Auglýsendur eru ekki að keppast við að eyða ákveðinni upphæð, heldur eru þeir að kaupa auglýsingar þar sem þeir ná til hugsanlegra viðskiptavina. 

Ef þeir eru að horfa á auglýsingalaust RUV, þýðir lítið að kaupa auglýsingar annars staðar.

Það liggur í hlutarins eðli að þegar einn aðili á markaði nýtur þeirra forréttinda að allir (yfir ákveðnum aldri) þurfa að greiða til hans, óháð því hvort þeir nýti þjónustuna eður ei, þá mun hann til lengri tíma bera höfuð og herðar yfir aðra markaðsaðila.

Svona rétt eins og ein matvöruverslun fengi nefskatt, burt séð frá því hvar menn kysu að versla.

Sú verslun gæti leyft sér lægri álagningu, meira vöruúrval og þar fram eftir götunum, sem myndi svo líklega skila sér í meiri sölu og markaðshlutdeild.

En það eru ekki til neinar einfaldar lausnir til að leiðrétta þetta misrétti.

Ef til vill má hugsa sér að breyta nefskattinum í "fjölmiðlaskatt", sem væri skipt upp í, sjónvarpshluta, útvarpshluta, vefmiðla og dagblöð, sem síðan væri úthlutað úr eftir hlutdeild í neyslu?

Þetta væri ákveðin leið ef einlægur vilji er til þess að fjölmiðlar séu á framfæri skattgreiðenda.

Hitt er svo hvort að þrengja eigi starfssvið RUV? Skilgreina ákveðinn kjarna sem það ætti að sinna?

Svo má líka velta því fyrir sér að ef ekkert Ríkisútvarp væri á Íslandi, væri þá verið að berjast í því að koma því á fót?

Alltaf gott að velta fyrir sér mismunandi möguleikum.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er klárt mál að mínu mati að það á annaðhvort að selja eða leggja niður Rúv, það er ekki sama þörfin fyrir þessu varpi eins og var áður fyrr (öryggisins vegna).

Þessi aðgerð myndi spara skattgreiðendum smá fjárhæð á ári hverju í rúv-ölmusið og síðan væri hægt að hætta við þessa fáránlegu hugmynd sem fjölmiðla-ölmusin er, sem myndi spara okkur aukna skattlagningu.

Málamiðlun gæti verið að hætta öllu fjáraustri í rúv (rúv-ölmusið og allt annað) og láta það keppa á sama máta og aðrir fjölmiðlar hér á íslandi.

Halldór (IP-tala skráð) 6.2.2019 kl. 13:29

2 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

 @Halldór, þakka þér fyrir þetta. Ég held að ég gæti að mestu leyti tekið undir það sem þú segir, en ég hef þó á tilfinningunni að að sé ekki skoðun meirihluta kjósenda á Íslandi.

Þess vegna hafa stjórnmálamenn verið ákaflega feimnir við að viðra slíka skoðun, auk þess sem Ríkisúvarpið er óneitanlega valdastofnun og rekur líklega áhrifamestu fréttastofu landsins, þannig að þannig bæði getur stofnuninni tekist að viðhalda stuðningi við sig, sem og að hræða stjórnmálamenn.

Sterkasti áhorfs/hlustendahópur RUV er einnig sá hópur sem mætir gjarna sem best á kjörstað.

Þannig að fyrir Íslenska stjórnmálamenn er þetta "jarðsprengjusvæði".

Þannig að ég held að eins og þú segir í endann, þá verður alltaf í besta falli um að ræða einhveja málamiðlun.

Hver hún verður ætla ég ekki að spá um, en ég sé ekki fyrir mér að "vald" RUV verði skorið niður á næstunni.

G. Tómas Gunnarsson, 6.2.2019 kl. 13:57

3 identicon

Engin stofnun eða fyrirtæki hefur gott af því að vera með fasta áskrift á skattgreiðendur. Það drepur alla samkeppni og allt frumkvæði. Og greiðendur eru ekki einu sinni spurðir álits. Hvorki fyrir né eftir kosningar.

Sigurður Bjarklind (IP-tala skráð) 6.2.2019 kl. 14:01

4 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Í heimalandi þínu, Kanada, býðst manni auglýsingalaust ríkisútvarp, meira að segja tvær ef ekki þrjár stöðvar. Ég held samt að hlustun á þær sér ekkert afgerandi mest, amk. ekki í sama mæli og hér á Íslandi.

Mikið vildi ég að ruv hyrfi af auglýsingamarkaði. Auglýsingar eru frekar leiðinlegar flestar. 

Þetta er náttúrulega fyrst og fremst pólitískt mál en ekki markaðsmál. Rúv er besti fjölmiðill Íslands og væri faglega séð mjög vafasamt að leggja hann niður.

Kristján G. Arngrímsson, 6.2.2019 kl. 15:43

5 identicon

Það er nú einmitt málið G. Tómas, að fjölmiðlar myndu aldrei leyfa þingmönnum að gera þetta, þú manst nú eftir fjölmiðlafrumvarpinu sem kom fyrir einhverjum árum, það var kaffært af fjölmiðlum og átti aldrei séns á að fara í gegn, þarna sýnir klárlega hvernig fjölmiðlar misnota vald sitt í eigin þágu.

Halldór (IP-tala skráð) 6.2.2019 kl. 16:57

6 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Sigurður, þakka þér fyrir þetta. Það er alveg rétt að það getur leitt til stöðnunar þegar tekjurnar koma óháð því hvernig fyrirtæki standa sig.

@Kristján, þakka þér fyrir þetta, ég held að CBC reki 3 stöðvar, auk fjölda svæðisbundinna stöðva sem koma inn.  Kanada er jú risastórt land. Ég þekki ekki hlustunina en hygg að hún sé verulega mismunandi á milli svæða.  En í Kanada eru svo að mig minnir einhversstaðar í kringum 800 útvarpsstöðvar.

Þannig að þær eru flestar með ákaflega lítinn skerf og eru flestar "local".  En ég held að Bylgjan sé með mesta hlustun einstakra útvarpsstöðva, en RUV með vinningin í samlegð rása  1 og 2.

En ríkisútvarpið Kanadíska hætti að selja auglýsingar einhvern tíma á 8. áratugnum ef frá er talin stutt takmörkuð tilraun nýlega sem var svo aftur hætt við.

En sjónvarpsstöðvar ríkisins selja auglýsingar.  En þetta með að taka út eða takmarka auglýsingar.  hefur ef ég hef skilið rétt verið rætt sem málamiðlun á Íslandi, hvort það verður ætla ég ekki að segja um.

En CBC hefur skýran ramma og það er ætlast til að efni (bæði í útvarpi og sjónvarpi) séu að miklum meirihluta Kanadískt og þekkjanlegt sem slíkt.  Það væri líklega erfitt að krefast slíks af RUV.

Þetta er auðvitað hápólítískt mál, en jafnframt markaðslegt. Sjálfsagt eru mismunandi skoðanir á því hvort að RUV sé besti fjölmiðillinn, enda misjafnt hvað einstaklingar vilja fá frá fjölmiðli.

En þó að engin leið sé til þess að fullyrða neitt hvað gerðist ef RUV yrði lagt niður, má alveg ímynda sér að einver gæti gert enn betur og jafnvel ódýrar, þó að eitthvað yrði öðruvísi, ef RUV yrði lagt niður.  Þá einfaldlega yrði komin allt önnur forsenda fyrir slíkum rekstri.

En eins og ég sagði er engin leið að fullyrða um slíkt.

@Halldór, þakka þér fyrir þetta.  Fjölmiðlar hafa "vald". Það á líka við um einkarekna fjölmiðla. En þess vegna má líka halda því fram að það sé meira áríðandi að engin þeirra sé með yfirburðastöðu á markaðnum.

G. Tómas Gunnarsson, 6.2.2019 kl. 17:49

7 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

En blasir ekki við að ef Rúv verður lagt af munu allar útvarps- og sjónvarpssendingar hætta í einhverjum byggðum landsins? Eða að minnsta kosti munu íbúar þar ekki hafa neina tryggingu fyrir því að útsendingum verði ekki hætt ef stjórnendum fjölmiðla sýnist svo?

Kristján G. Arngrímsson, 6.2.2019 kl. 18:58

8 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Það verður að hafa í huga að fjölmiðlar eru ein af grunnstoðum samfélagsins, ekki ósvipað og skólakerfi, þannig að það er eiginlega ekki hægt að hafa alla fjölmiðla einkarekna með hagnað að leiðarljósi. Það væri ekki hægt að einhverjir landsmenn hefðu engan aðgang að fjölmiðlum.

Einkareknir miðlar sem hefðu engar tekjur af t.d. hlustun á Húsavík hefðu enga ástæðu til að flytja fréttir um Húsavík. Eins og t.d. Stöð 2 sem fjallar eiginlega ekkert um landsbyggðina, af því að hún hefur ekki efni á að hafa fréttafólk úti á landi. Þannig hefur líka Mogginn nýlega sagt upp fréttamanni sínum á Akureyri. Blað allra landsmanna? Ég held ekki. Ekki lengur amk.

Kristján G. Arngrímsson, 6.2.2019 kl. 19:13

9 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján, þakka þér fyrir þetta. Ég hygg að þetta kunni að hafa átt við fyrir einhverjum árum.  Ég þekki þó ekki nógu vel til í byggðum Íslands til að fullyrða um hvernig netsamband er.

En nú til dags er nóg að hafa gott netsamband til að geta notið allra "hugsanlegra og óhugsanlegra" útvarps og sjónvarpsstöðva.

Og er ekki í gangi sérstakt "átak" um ljósleiðarvæðingu Íslands.

Líklega er það betri fjárfesting en RUV.

Sjálfur nota ég eingöngu netið fyrir útvarp og sjónvarp, nema þegar ég er í bílnum.

Það gerist ekki nema einu sinni eða 2svar á ári að ég horfi á "línulega" dagskrá, ef þá það.

Man ekki hvenær ég gerði það síðast.  En jafnvel þá er það yfir netið.

Þess utan, gæti svo hið opinbera stutt dagskrárgerð ef það er það sem skiptir máli.

Það efni getur svo verið aðgengilegt á fleiri en einni stöð, eða í "sörpum"  o.s.frv.

G. Tómas Gunnarsson, 6.2.2019 kl. 19:14

10 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Það er alltaf öðru hvoru eitthvert fólk að krefjast niðurlagningar Rúv. Ég held að þessi krafi stafi frekar af pólitísku ofstæki en gripsviti á fjölmiðlum.

Kristján G. Arngrímsson, 6.2.2019 kl. 19:15

11 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Þjónusta fjölmiðla snýst ekki bara um að hægt sé að horfa á þá,heldur líka og ekki síður að þeir fjalli um mál sem snerta t.d. landsbyggðina, sbr. það sem ég segi um Húsavík hér að ofan.

Kristján G. Arngrímsson, 6.2.2019 kl. 19:16

12 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján, þakka þér fyrir þetta.  Eins og ég sagði áður, er ekkert vandamál að tryggja aðgang að fjölmiðlum, netið dugir til þess.

Þannig koma tekjur frá Húsavík svo lengi sem einhver býr á Húsavík.

Get ekki dæmt fréttir Stöðvar2, sé þær svo gott sem aldrei, heldur ekki fréttir RUV. 

En það er líklega ástæða fyrir því að miðlar eru að draga saman seglin. Staðreyndin, ef marka má umfjöllun, er að tekjur RUV eru að aukast (tugþúsdundir nýrra nefskattsgreiðenda á undanförnum árum) og er auk þess sakað um að undirbjóða á auglýsingamarkaði.

Eitthvað lætur líklega undan.

G. Tómas Gunnarsson, 6.2.2019 kl. 19:22

13 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján, ekki ætla ég að dæma um fréttaflutning frá minni stöðum, um það er ég ekki dómbær, en ég hef séð að meira að segja litlu staðbundnu fjölmiðlarnir kvarta undan samkepninni við RUV á auglýsingamarkaðnum.

G. Tómas Gunnarsson, 6.2.2019 kl. 19:25

14 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Það eru aðallega auglýsendur (fyrirtækin í landinu) sem vilja Rúv áfram á auglýsingamarkaði. Af hverju ætti að svipta fyrirtækin þeirra bestu möguleikum á að ná til viðskiptavina sinna? Hverskonar pólitík væri það?

Kristján G. Arngrímsson, 6.2.2019 kl. 19:56

15 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján, þakka þér fyrir þetta. Ég veit nú ekki hvort að það eru aðallega auglýsendur sem ekki vilja RUV af þeim markaði. Það færi sjálfsagt eftir því hvernig t.d. skattgreiðendur yrðu spurðir.  T.d. hvort þeir vildu þá eða þyrftu að bæta RUV upp tekjumissinn með hærri sköttum.

En eftir því sem markaðshlutdeild RUV er meiri, verða auglýsendur meira á móti því að taka það af markaði, það segir sig eiginlega sjálft.

Ef RUV er svo með hlutfallslega "betri díl" eins og þeir eru sakaðir um, þá er þykir auglýsendum það enn betra.

Þeim þykir ábyggilega heldur ekki verra að nefskattsgreiðendur niðurgreiði fyrir sig kostnaðinn til að ná til markhópsins.  Því það er ein leið til þess að líta á málið.

Hvers kyns pólítík er það?

G. Tómas Gunnarsson, 7.2.2019 kl. 05:24

16 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Maður sem ég þekki sem þekkir vel til í auglýsingabransanum sagði mér að Rúv væri það sem auglýsendur helst vildu birtingu á, þannig að ég trúi því. Af hverju má það þá ekki bara vera þannig? Auglýsendur vilja helst Rúv og það er mest hlutstun á Rúv (þ.e. fjölmiðlaneytendur vilja helst Rúv). Hvers vegna má þá ekki bara láta Rúv í friði fyrst flestir virðast sáttir við það?

Kristján G. Arngrímsson, 7.2.2019 kl. 11:03

17 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján, þakka þér fyrir þetta. Ég dreg það sem þú hefur eftir auglýsingamanna ekki í efa. Sjálfsagt er einhver munur eftir aldri markhópa en heilt yfir hljómar það trúlega.

Ef einhver er með 50% markaðshlutdeild (á útvarps eða sjónvarpsmarkaði) eða þar um bil og (ef áskanir eru réttar) undirbýður aðra aðila, þá er það auðvitað fanta góður díll, ef svo má að orði komast fyrir auglýsendur.

Það segir sig nokkurn veginn sjálft.

En það er spurningin hvort að það sé réttlátt að skattgreiðendur séu notaðir til að koma upp og viðhalda slíku samkeppnisforskoti?

Ef allir Íslendingar 18 ára og eldri og öll fyrirtæki á Íslandi þyrftu að borga  5000 á ári hvort gæti Fréttablaðið ábyggilega gefið út mikið öflugra og betra blað. 

Í framhaldi af því fengið meiri auglýsingar og svo fram eftir götunum.

Ef Bylgjan fengi 5000 kall frá sömu aðilum gætu þeir hugsanlega skipt stöðinni upp og verið með sérstaka stöð sem þjónustaði t.d. eldra fólk, þeir gætu stóreftl dagskrárgerð o.s.frv. Aukið hlustunina og fengið meiri auglýsingatekjur. 

Þeir gætu boðið auglýsendum hlutfallslega betri díl.

Það er þessi aðstöðumunur sem er verið að ræða um og að öllu óbreyttu mun hann aðeins koma til með að aukast.

Má ekki bara láta skattgreiðendur í friði og RUV sé með auglýsingar og safni frjálsum framlögum frá hlustendum?

Það væri varla vandamálið ef allir eru svona himinlifandi með stofnunina.

Gæti jafnvel eflt tengslin við hlustendur.

G. Tómas Gunnarsson, 7.2.2019 kl. 11:27

18 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Er það ekki bara frábær hugmynd að ríkið stofni matvöruverslun og láti fólk greiða henni nefskatt? Það væri hægt að kalla hana "samfélagsverslun", sbr. hugmyndir sumra um að ríkið reki "samfélagsbanka" (banka sem lánar á ósjálfbærum vöxtum til vildarvina valdhafanna).

Þorsteinn Siglaugsson, 9.2.2019 kl. 15:43

19 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Þessi búð yrði auðvitað starfrækt mjög víða, sér í lagi yrði áhersla lögð á að hafa verslun í hverju plássi á landsbyggðinni. Á smærri stöðunum myndu auðvitað þær búðir sem fyrir eru leggja upp laupana, en það er allt í lagi því það er vitanlega betra fyrir fólkið að versla við samfélagsverslun sem selur því vörur á niðurgreiddu verði (sem það borgar reyndar sjálft með nefskatti), og selur því auðvitað bara varning sem er því sjálfu fyrir bestu (í innkaupadeild verða lýðheilsusérfræðingar).

Síðan, ef einhver náungi eins og Tómas Gunnarsson kæmi að einhverjum áratugum liðnum fram með þá hugmynd að leggja samfélagsbúðina niður væri nú auðvelt að kveða hann í kútinn: Eiga Húsvíkingar þá bara ekki að hafa neina matarbúð? (Allir auðvitað búnir að gleyma að á Húsavík var matarbúð fyrir, en ríkið bolaði henni burt).

Þorsteinn Siglaugsson, 9.2.2019 kl. 17:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband