27.10.2017 | 18:41
Nokkuð sem vert er að hafa í huga
Það eru ótal fletir sem vert er að hafa í huga þegar rætt er um hvort Ísland ætti að verða aðili að "Sambandinu".
Einn af þeim er sá sem hér er rætt um, tollar og önnur gjöld sem leggjast á innfluttar vörur. Þeim vöruflokkum sem bera tolla myndi fjölga gríðarlega ef til þess kæmi að Ísland gengi í Evrópusambandið.
Sumir hafa talað um "Sambandið" eins og það væri fríverslunarbandalag. En í raun er ekki síður rökrétt að tala um það sem tollabandalag.
Fríverslun er vissulega innan "Sambandsins" en þegar kemur að viðskiptum við lönd sem standa utan þess, er allt annað upp á teningnum.
Eins og fram kemur í fréttinni, er líklegt að aðeins fjölgun tollvarða myndi kosta Íslendinga stórar fjárhæðir á ári.
En það er ekki ólíklegt að margir hugsi til þess að ef Íslendingar gengu í "Sambandið" myndi vera hægt að flytja inn ýmsar landbúnaðarvörur á mun lægra verði en þekkist á Íslandi í dag.
Það er í sjálfu sér rétt.
En ef Ísland stendur utan "Sambandsins" og vilji er til þess að aflétta innflutningsbanni á margar landbúnaðarvörur, þá geta Íslendingar hæglega gert það á eigin spýtur, og það er langt í frá að besta verð á landbúnaðarvörum fáist í löndum Evrópusambandsins.
Þannig gætu Íslendingar hæglega átt viðskipti með landbúnaðarvörur við ótal ríki, jafnt utan sem innan "Sambandsins", ef það er vilji þjóðarinnar.
Staðreyndin er sú að vægi Evrópusambandsþjóðanna í heimsviðskiptum fer minnkandi og gerir það líklega enn frekar á komandi árum.
Fyrir Íslendinga mun það mikilvægi enn frekar minnka, þegar Bretland, ein mikilvægasta viðskiptaþjóð landsins gengur úr "Sambandinu".
Sjálfsforræði og fullveldi landsins er auðlind sem hefur gefið vel af sér á undanförnum árum og mun halda áfram að gera það, ef rétt er á málum haldið.
Ég skora á kjósendur að hafa það í huga sér á morgun og gefa ekki þeim flokkum atkvæði sitt sem stöðugt daðra við "Sambandsaðild", þó að þeir kjósi að gefa aðlögunarviðræðum þekkilegri nöfn, eins og aðildarviðræður, könnunarviðræður, eða annað í þeim dúr.
Hærri tollar og stærra bákn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Evrópumál, Utanríkismál/alþjóðamál, Viðskipti og fjármál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.