Jákvæð framþróun eða?

Það þykir líklegt að þeim muni fjölga jafnt og þétt málaflokkunum þar sem meirihluti aðildarríkja Evrópusambandsins ákveður stefnuna og hin ríkin verða að sætta sig við og fylgja þeim.

Með þessu tekur "Sambandið" á sig aukna ímynd sambandsríkis, og ásýnd ríkjabandalags minnkar.

Að mörgu leyti má líklega segja að þetta sé "Sambandinu" til góðs, þ.e.a.s. ef við teljum að sambandsríki sé það sem sé "Sambandinu" hollast að stefna að.

Hinu verður þó varla á móti mælt að þetta dregur úr áhrifum smærri ríkjann, eykur skipandi boðvald "Sambandsins" og dregur enn frekar úr fullveldi aðildarríkjanna en orðið er.

Ég á ákaflega bágt með að skilja hvernig á að halda því fram með góðu móti að aðildarríkin séu fullvalda og enn verður hoggin af fullveldi þeirra stór sneið ef skattamálin falla undir ákvörðunarvald "Sambandsins".

Það sem er þó mikilvægast, hvort sem við erum þeirrar skoðunar að Evrópusambandið eigi að stefna að því að verða sambandsríki eður ei, er að ræða um hlutina eins og þeir eru.

Sem sé að "Sambandið" sé að seilast eftir æ stærri sneið af fullveldi aðildarríkjanna, og að þau hafi í raun ekki óskorað fullveldi.

Svo getum við velt fyrir okkur og rökrætt hvort að fullveldi Íslands sé okkur einshvers virði, hvort og hvað mikið við myndum vilja gefa eftir af því í þeim tilgangi að ganga í "Sambandið".

Eða kjósum við fullveldið og að stand utan þess?

Um þetta eru örugglega skiptar skoðanir.

Ég skipa mér í þann hóp sem vill halda í fullveldi Íslands og hafna aðild að Evrópusambandinu.

 

 

 

 


mbl.is Vill afnema neitunarvald ríkjanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Aukin samþjöppun ótempraðs valds er aldrei góð.

Guðmundur Ásgeirsson, 25.10.2017 kl. 12:55

2 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Guðmundur Þakka þér fyrir þetta. Ég get ekki og  verið alfarið sammála þér þó að veltamdi anarkistinn sem býr innra með mér gæti ef til vill verið það.

En þó að "Sambandið" yrði að sambandsríki yrði valdið varla ótemprað, þó að vissulega sýni margir leiðtogar "Sambandsins" ákveðna "fyrirlitningu" gagnvart kjósendum, enda þyggja þeir vald sitt ekki frá þeim.

En sambandsríki hafa víða gefist vel. Það þarf ekki að leita lengra en til Bandaríkjanna, Þýskalands og svo Bretlands.

En íbúarnir þurfa að fylgja með, það hefur vantað örlítið upp á, t.d. í Bretlandi undanfarin ár, einni á Spáni (sem er þó aðeins sambandslýðveldis ígildi) og mun gera hjá "Sambandinu" ef slíkt yrði keyrt í gegn.

Það er vandamálið. Líklega hefur meirihluti íbúa "Sambandsins" lítinn áhuga á því að verða hluti af sambandslýðveldi.

En þetta þurfa Íslenskir kjósendur að hafa í huga, fyrir komandi kosningar og líklega næstu komandi kosningar.

Hafa þeir áhuga á því að verða hluti af sambandslýðveldi margra Evrópuríkja, eða vilja þeir halda í fullveldi Íslands?

Líklega er það ein stærsta spurninging sem blasir við Íslenskum stjórnmálum á næstu árum.

En flestir Íslensku stjórnmálaflokkanna eru enn í feluleik, tala um viðræður, o.s.frv.

Aðeins Sjálfstæðisflokkurinn og líklega Miðflokkurinn er þokkalega hreinir og beinir þegar kemur að þessum málaflokki.

Aðrir flokkar þora fæstir að segja hvort þeir séu aðildarsinnar eða á móti aðild.  Þeir eru "viðræðusinnar".

Þar á meðal Píratarnir þínir, sem ég persónulega mat nokkuð mikils í upphafi, en hef horft upp breytast í enn einn sósíalistaflokkinn mér eiginlega til nokkurrrar skapraunar.

G. Tómas Gunnarsson, 25.10.2017 kl. 14:45

3 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Píratarnir eru ekki "mínir" á neinn hátt. Ég er til dæmis ósammála meirihluta flokksmanna um ákveðin grundvallaratriði, en svo aftur á móti sammála meirihlutanum um mörg önnur.

Reyndar hefur Pírataflokkurinn mjög skýra stefnu um Evrópumál, sem er sú að afstaða flokksins ræðst af vilja þjóðarinnar. Þar sem vilji meirihluta þjóðarinnar er gegn aðild þýðir það að Píratar eru líka gegn aðild. Það breytist ekki nema kjósendur vilji breyta því.

Guðmundur Ásgeirsson, 25.10.2017 kl. 14:59

4 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Guðmundur Þakka þér fyrir þetta. Einhvern veginn var það fast í huga mér að þú hefðir verið í framboði fyrir Pírata, því taldi ég þá "þína". Ef það hefur verið alnafni þinn eða misskilningur af minni hálfu, þá biðst ég að sjálfsögðu afsökunar á því. Það þyrfti ekki einu sinna "afsökunartískuna" á Íslandi til þess að ég myndi biðjast afsökunar á slíkum mistökum.

Ég hef heldur ekki séð þessa skýru stefnu Pírata hvað varðar "Sambandið", heldur einmitt að Píratar hafi reynt að fela sig á bak við "viðræðusinna" skjöldinn.

Í flestum tilfellum hef ég séð Pírata tala um að greiða atkvæði um að halda áfram viðræðum eða ekki.  Ekki tala um að greiða atkvæði um hvort ganga eigi inn í Evrópusambandið eða ekki.

Þó viðurkenndi Jón Þór Ólafsson (einn af þeim Pírörum sem ég batt vonir við, en ollu hvað mestum vonbrigðum) að um væri að ræða aðlögunarviðræður.

Sbr.: "Þó að talað sé um aðildarviðræður undirstrika ég að viðræðurnar eru meira en aðildarviðræður, þær eru í sjálfu sér líka aðlögunarferli. Þetta kom alveg skýrt fram á fundi sem við Píratar áttum fyrir síðustu kosningar þegar við vorum að kynna okkur þetta mál með aðalsamningamanni Íslands við Evrópusambandið. Það er verið að laga löggjöf Íslands, ekki bara að EES-löggjöfinni heldur að ESB-löggjöfinni."

http://www.althingi.is/altext/raeda/144/rad20150414T164327.html

Svo kemur: "Spurt verði: Vilt þú að rík­is­stjórn­in hefji að nýju samn­ingaviðræður við Evr­ópu­sam­bandið um hugs­an­lega inn­göngu Íslands? Rifjað er upp í grein­ar­gerð að sótt hafi verið um inn­göngu í sam­bandið sum­arið 2009. Um­sókn­ar­ferlið var sett á ís skömmu fyr­ir þing­kosn­ing­arn­ar 2013 af þáver­andi rík­is­stjórn Sam­fylk­ing­ar­inn­ar og Vinstri hreyf­ing­ar­inn­ar – græns fram­boðs. Rík­is­stjórn Sjálf­stæðis­flokks­ins og Fram­sókn­ar­flokks­ins til­kynnti Evr­ópu­sam­band­inu síðan 2015 að Ísland væri ekki leng­ur um­sókn­ar­ríki að sam­band­inu."

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2017/0/29/vilja_kjosa_um_nyjar_vidraedur_vid_esb/

Ekki gott að mínu mati.

Ég myndi segja að þú þyrftir að endurskoða þá skoðun að Píratar hafi skýra skoðun á "Sambandsmálum" og reyndar á mörgum öðrum málum hvað varðar flokkinn, enda sósíalisminn að taka yfir þar, eins og í mörgum öðrum flokkum á Íslandi.

G. Tómas Gunnarsson, 25.10.2017 kl. 15:30

5 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

 Það væri þægilegt ef hægt væri að meta málið á svona einfaldan hátt - fullveldi eða ekki fullveldi. Já eða nei. Svart eða hvítt. Gott eða vont. En nú þegar, eins og ég geri ráð fyrir að þú vitir, eru Íslendingar skuldbundnir til að taka upp helling af löggjöf frá ESB vegna EES.

Og ég veit ekki til þess að Sjálfstæðisflokkurinn - sem þú segir vera hreinan og beinan í þessu máli - hefur eitthvað við þetta valdaframsal að athuga.

Hvenær hættir Ísland að vera "fullvalda"? Er það enn fullvalda þrátt fyrir allt sem EES-aðildin kallar á af breytingum á löggjöf? Eða er þetta spurning um að hafa algjör forráð yfir allri íslenskri löggjöf? Væri það endilega gott?

Í hvaða efnum þurfa íslendingar að vera algjörlega sjálfráða til að hægt sé að tala um fullveldi? (Og hverjir ákveða hvaða efni þetta skuli vera?)

Kristján G. Arngrímsson, 25.10.2017 kl. 15:53

6 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján Þakka þér fyrir þetta. Það má segja að það sem þú nefnir sé ákveðið grátt svæði, en þó ekki.

EEA/EES samningurinn í raun skuldindur Íslendinga (og fleiri) til að taka upp ákveðinn hluta af löggjöf sem "Sambandið" ákveður.

En nota bene, (og það er þetta sem líklega hefur valdið því að lögspekingar töldu að EEA/EES samningur stangaðist ekki á við stjórnarskrá Íslands) ekkert af þessum lögum tekur gildi fyrr en Alþingi Íslendinga hefur samþykkt það með meirihluta atkvæða.

En hvað gerist nú ef Alþingi Íslendinga samþykkir ekki það sem kemur frá "Sambandinu"?

Það getur farið fyrir dómstóla og jafnvel yrði reynt að bæta sektum, en endirinn yrði líklega að EEA/EES samningurinn yrði ógildur

Þannig verður Alþingi Íslendinga að samþykkja öll lög sem koma frá "Sambandinu", annars öðlast þau ekki gildi á Íslandi.

Allt annað yrði upp á teningnum ef Ísland yrði aðili að "Sambandinu", þá getur "Sambandið" stjórnað í ákveðnum málum, svo gott með tilskipunum.

Gott dæmi um það nýverið er "úthlutun" flóttmanna.  Þar ákvað "Sambandið" að "útdeila" flóttamönnum á milli ríkjanna. Sum ríki "Sambandsins" eru ekki sátt við það og horfast jafnvel í augu við refsigaðgerðir og að vera svipt atkvæðisrétti.

Nú getum við haft misjafnar skoðanir á því hvort að Ísland eigi að taka á móti fleiri flóttamönnum eða ekki, en ég er þó þeirrar skoðunar að Ísland geti vel gert það.

En ég vil að það sé ákvörðun Íslendinga, en byggist ekki á tilskipun frá Evrópusambandinu.

G. Tómas Gunnarsson, 25.10.2017 kl. 16:11

7 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

 Það á vissulega að heita svo, að Alþingi þurfi að samþykkja þetta alltsaman, en hefur Alþingi hafnað einhverju? Er þetta skilyrði fyrir samþykkt Alþingis ekki bara pótemkíntjöld?

Förum ekki út í það. Ég held að Íslendingar hafi reyndar með EES beinlinis skuldbundið sig til að taka upp ýmsa ESB-löggjöf, þannig að ef Alþingi samþykkir hana ekki þá erum við að ganga gegn skuldbindingu okkar. Þannig séð erum við eiginlega siðferðilega skuldbundin til að samþykkja allt sem EES krefst af okkur.

Af því að maður á jú að standa við gerða samninga, er það ekki?

Eftir situr spurningin, hvenær verður gráa svæðið, sem þú nefnir, alveg svart? Hver ákveður hvenær það er orðið alveg svart?

Kristján G. Arngrímsson, 25.10.2017 kl. 16:21

8 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján Þakka þér fyrir þetta Það ver mikið meira en að það heiti svo, það verður að vera.  Hingað til hefur meirhluti Alþingis hverju sinni metið málið svo að ekkert sem hefur komið frá Evrópusambandinu stangist að mikið á við Íslenska hagsmuni að það sé þess virði að slíta EEA/EES samningnum.

Íslendingar verða hins vegar að treysta því að alþingismenn á hverjum tíma hafi kjark og þor til að fella lagaákvæði sem myndu stríða gegn hagsmunum Íslendinga svo freklega að EEA/EES samningurinn virkaði léttvægur á móti þeim.

Ég þarf líklega ekki að segja þér frá hvaða pólítíska litrófi, ég teldi líklegra að þingmenn líklegri til að hafa það sterka "hryggsúlu".

Engir samningar vara að eilífu og það er rétt að hafa það í huga að vaxandi efasemda gætir gagnvart EEA/EES samningnum í Noregi og einnig á Íslandi ef marka má það sem ég heyri.

Reyndar er líklegt að hann myndi falla, ef Norðmenn hafa ekki áhuga á því að halda honum við.

Og einstaklingar og þjóðir eiga og þurfa að standa við gerða samninga, þangað til þeir eða þær ákveða að slíta honum.

Í raun er það ekki flóknara en svo og ekkert sem segir að EEA/EES samningurinn verði eilífur.

G. Tómas Gunnarsson, 25.10.2017 kl. 16:30

9 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

 Ja, í ljósi þess hvaða flokkar samþykktu að samningurinn yrði fullgiltur er nú ekki alveg ljóst hverjir væru líklegastir til að hnekkja honum. Að minnsta kosti yrði slíkt erfitt fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Helst að VG gæti staðið teinrétt í slíkri höfnun.

Ég hreinlega sé ekki að Sjálfstæðisflokkurinn mun nokkurntíma standa að því að Alþingi hafni EES-löggjöf og rjúfi þarmeð skuldbindingu sem flokkurinn átti sjálfur stærstan hlut í að koma á.

Kristján G. Arngrímsson, 25.10.2017 kl. 16:49

10 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján Þakka þér fyrir þetta. Upphaf og tilurð EEA/EES samningsins í Íslenskri pólítík er nú all verulega flóknari en þú nefnir í þínu stutta innleggi.

Upphaf samningsins má rekja til ríkisstjórnar Framsóknarflokks, Alþýðubandalags og Alþýðuflokks.  Líkega voru Borgaraflokkurinn og Stebbi Valgeirs einnig með, en ég man það ekki fyllilega, því má þó fletta upp.

Þeir sem mættu í upphafi fyrir Íslands hönd voru Steingrímur Hermannsson og Jón Baldvin Hannibalsson (þetta er eftir minni en næstum því örugglega rétt).

Stuðningurinn breyttist svo við stjórnarskipti. Framsóknarflokkurinn varð á móti samningnum (mig minnir eins og að Steingrímur Hermanns, hafi sagt í ævisögu sinna síðar, að hann hafi talið það mistök af hálfu flokksins), sem hann hafði þó stutt framan af, Alþýðuflokkurinn studdi að sjálfsögðu samninginn (og var í raun eini flokkurinn sem stóð óskiptur að baki honum), Sjálfstæðisflokkurinn studdi samninginginn en þó var hluti flokksmanna á móti honum og Alþýðubandalagið var að mestu á móti þó að einhver hluti hafi ef til vill verið blendin í trúnni (en hvað varðar Allaballana er minni mitt ekki gott). Kvennalistinn var á móti, nema Ingibjörs Sólrún sem sat hjá.

En ef þú segðir við einhvern gamlan Alþýðuflokksmanna að EEA/EES samningurinn hefði að stærstum hluta orðið til að tilstuðlan Sjálfstæðismanna máttu að öllum líkindum búa þig undir langan fyrirlestur, enda líta Alþýðuflokksmenn almennt svo að samningurinn hefði aldrei komist á án tilstillis þeirra.  Ég er reyndar að stórum hluta sammála því, þó vissulega megi ekki líta fram hjá hluta annara flokka.

En sagan er vissulega mikilvæg, en það er framtíðin (og það sem hefur gerst í millitíðinni ekki síður) einnig.  Það sem ég var einfaldlega að vísa til í fyrri færslu er að Sjálfstæðisflokkurinn er líklegastur, eins og staðan er í dag, til að meta hagsmuni Íslendinga aðra og mikilvægari en hagsmuni "Sambandsins" eða EEA/EES samningsins ef í harðbakkann slægi.

En það er einfaldlega mín skoðun og ekki hægt að færa nein "naglföst" rök fyrir því, því slíkt gerist, eða gerist ekki, þegar á reynir.

G. Tómas Gunnarsson, 25.10.2017 kl. 19:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband