19.10.2017 | 05:14
Dansað með Skatta Kötu
Ég var að þvælast um netið nú í morgunsárið og sá umfjöllun á Eyjunni um að urgur væri í vinstri mönnum. Þar segir að urgurinn stafi af myndböndum sem má finna á YouTube og mun einnig vera dreift á Facebook (hef ekki séð þau þar enda ekki með reikning þar).
En ég fór auðvitað inn á YouTube og fann umrætt myndband og horfði á það. Það má finna hér að neðan.
Vissulega eru alltaf umdeilanlegt þegar skoðunum og upplýsingum er deilt undir nafnleysi. Persónulega hef ég reynt að tileikna mér þá meginreglu að hlusta á það sem sagt er eða sýnt án þess að það skipti mig meginmáli hver segir það eða hvort ég viti hver það er.
En ég tek undir það að betri stíll og meiri reisn sé að koma fram undir nafni. Þó hefur marg oft verið rætt um nauðsyn þess að hægt sé að koma fram upplýsingum með nafnleynd, enda ekki óalgengt á Íslandi að eingöngu sé "hjólað í" (gríðarlega vinsælt orðfæri nú um stundir) manninn en ekki málefnið.
Ég get ekki séð að myndbandið sé í neinum meginatriðum rangt, þó að ég hafi ekki farið og "staðreyndatékkað" það.
Það er reyndar athyglisvert að lesa mjög góða umfjöllun á Visi.is, samhliða, ég vil hvetja alla til þess að leggja þann lestur á sig. Umfjöllun Visis má finna hér.
Þar er góð umfjöllun um hugsanlegar breytingar á skattkerfi, og segir m.a.:
"Gert er ráð fyrir að nýju þriðja þrepi verði bætt inn í tekjuskattskerfið og að allir þeir Íslendingar sem hafi 25 milljónir króna eða meira í árslaun, en þeir eru 946 manns samkvæmt gögnum frá Hagstofunni, verði í því skattþrepi. Þess má geta að umræddur hópur greiðir nú 46,24 prósenta tekjuskatt."
Og litlu neðar:
"Taka skal fram að í útreikningunum er ekki gert ráð fyrir að fólk bregðist með einhverjum hætti við skattheimtunni, svo sem með því að draga úr vinnuframlagi, greiða lægri laun út úr eigin rekstri eða flytja einfaldlega af landi brott. Slík viðbrögð yrðu vitanlega til þess fallin að draga úr heimtum af skattahækkununum."
Ég vil líka minna á þegar við heyrum um að afgangur ríkissjóðs sé alltof mikill og nær sé að eyða þeim í þarflegri hluti, aðj ef ég man rétt hefur hið opinbera eytt undanfarin ár mun hærri fjármunum í vaxtagreiðslur en til samgangna.
Minnki afgangur af fjárlögum, mun slíkt ástand vara mun lengur en ella. Það er vissulega valkostur að hið opinbera sé áfram verulega skuldsett, en það verður þá að gera sér grein fyrir því að framkvæmdir, eða velferðarmál sem þannig er staðið er, eru fjármögnuð með skuldum.
En nóg um það, enn og aftur hvet ég alla til þess að lesa umfjöllunina á Vísi, það er líklega besta umfjöllunin sem ég hef séð fyrir þessar kosningar (verður þó að taka með í reikningin að ég fylgist ekki grimmt með Íslenskum fjölmiðlum akkúrat núna.).
En það er rétt að enda á léttu nótunum og stíga dans með Skatta Kötu. Hér er þó ekki um að ræða Íslenska stjórnmálakonu, heldur Indónesíska hljómsveit sem ber einmitt nafnið Skatta Kata. Ég tók mér að bessaleifi að fallbeygja nafnið eins og það væri Íslenskt og hér að neðan má sjá myndband við lag þeirra "Dancing With Skatta Kata".
Mér þótti nafnið skondið þegar ég rakst á þetta myndband fyrir nokkrum mánuðum, en þykir það enn skondnara í dag.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Fjölmiðlar, Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 05:19 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.