Hvaðan koma "falskar fréttir"?

Það hefur mikið verið rætt um "falskar fréttir" undanfarnar vikur. Það má ef til vill segja að "falskar fréttir" séu af fleiri en einnar gerðar.

Ein tegund, og hún er vissulega verulega hvimleið, er hreinlega uppspuni frá rótum, oft um þekktar persónur, en einnig um "undarlega" atburði eða svokallaðar "samsæriskenningar".

Oft eru slíkar fréttir eingöngu settar fram til að afla "smella" og þannig höfundum þeirra tekna.  Slíkt var nokkuð algengt fyrir nýafstaðnar forsetakosningar í Bandaríkjunum. Mikið af "fréttunum" mátti rekja til ungs fólks í A-Evrópu og Balkanskaga sem aflaði sér umtalsverðra tekna með þeim.

Þó að fréttirnar séu misjafnar að gerð, eru margar þeirra þess eðlis að lesendum reynist ekki erfitt að gera sér grein fyrir því að trúverðugleikinn sé ekki mikill, þó að fyrirsögnin hafi verið þess eðlis að freistandi væri að skoða málið nánar.

Afbrigði af þessu má sjá víða, þar á meðal á íslenskum miðlum, en oftar er þó látið nægja að veiða með fyrirsögn, sem er tvíræð, eða leynir því hvort að um íslenska eða erlenda frétt er að ræða, en beinar "falsanir" eru lítt þekktar (nema ef til vill þegar þær eru teknar beint úr erlendum miðlum).  Músasmellir eru peningar.

En fréttir þar sem "sérfræðingar" láta gamminn geysa hafa líka aukist stórum undanfarin ár. Þar má oft lesa stórar fullyrðingar og vafasamar spár sem án efa eru mikið lesnar, en reynast oft hæpnar og beinlínis rangar.

Af þessum meiði eru t.d. þær spár frá Englandsbanka sem er fjallað um í viðhengri frétt. Þær spár fengu að sjálfsögðu mikið pláss í fjölmiðlum. Slíkt enda ekki óeðlilegt.

Spá breska fjármálaráðuneytisins af sama tilefni hefur einnig þótt langt frá lagi og verið harðlega gagnrýnd. Slíkar fréttir sem áttu margar uppruna sinn innan stjórnkerfisins voru sameiginlega kallaðar "project fear".  Þegar starfsmenn fjármálaráðuneytisins hafa reynt að klóra í bakkann eftir á, hefur komið fram að ein af forsendum útreikninganna hafi verið að Englandsbanki myndi ekki grípa til neinna ráðstafanna, yrði Brexit ofan á í þjóðaratkvæðagreiðslunni.

Geri nú hver upp við sig hversu líklegt væri að Englandsbanki brygðist á engan hátt við?

Það er rétt að það komi fram að þeir sem börðust fyrir jái, í Brexit atkvæðagreiðslunni gerðu sig einnig seka um að kasta fram ýmsum fullyrðingum, sem voru í besta falli misvísandi og reynast ekki réttar séu allar forsendur teknar með í reikninginn. Einhverra hluta vegna hafa þær þó fengið mun meiri athygli en fullyrðingar þeirra sem börðust fyrir nei-i.

Það má ef til vill að hluta til útskýra með því að það sé síður ástæða til að staðreyndareyna fullyrðingar þeirra sem bíða lægri hlut. En það er ekki eftir að úrslitin eru ljós sem slíkar fullyrðingar hafa áhrif, heldur í kosningabaráttunni.

Íslendingar þekkja ágætlega af eigin raun "fréttir" af slíkum toga. Hvað skýrast komu þær fram í Icesave deilunni, þar sem flestir fjölmiðlar voru fullir af "sérfræðingum" og öðrum álitsgjöfum sem kepptust um að lýsa þeim hörmungum sem myndu dynja á Íslendingum ef samningarnir yrðu ekki samþykktir.

Hvort við segjum að skoðanir "sérfræðinganna" hafi reynst rangar (falskar) eða að fréttirnar hafi verið það er líklega skilgreiningaratriði.

En það er ljóst að fjölmiðlarnir gerðu ekkert til þess að staðreynda kanna fullyrðingarnar, enda ef til vill erfitt um vik, því mér er ekki kunnugt að mikil rök hafi fylgt þeim.

Hvort skyldi svo vera hættulegra lýðræðinu, uppspuni unglinga í A-Evrópu og Balkanskaga eða "fimbulfamb" svo kallaðra "sérfræðinga"?

En eitt er víst að hvort tveggja framkallar músasmelli.

Þriðju uppspretta "falskra frétta" sem nefna má (þær eru vissulega fleiri) eru fréttastofur sem kostaðar eru af stjórnvöldum hér og þar í heiminum.

Ýmsar einræðisstjórnir (eða næstum því einræðisstjórnir) sjá sér vitanlega hag í því að fréttir séu sagðar út frá þeirra sjónarmiðum og hagsmunum.

Slíkt er orðið tiltölulega einfalt og hefur internetið gert alla dreifingu auðveldari og jafnframt ódýrari.

Á meðal slíkra stöðva má nefna sem dæmi RT og Sputnik sem eru kostaðar af Rússneskum stjórnvöldum og svo fréttastöðvar frá Kína, N-Kóreu og fleiri löndum.

Hér og þar á Vesturlöndum má verða vart við vaxandi áhyggjur af slíkum miðlum og æ ákafari áköll um að hið opinbera skerist í leikinn og reki "gagnmiðla" og skeri upp herör gegn ósannindum og "fölskum fréttum".

Persónulega er ég þeirrar skoðunar að góðir og öflugir fjölmiðlar verði seint ofmetnir.

Það er því ótrúlegt ef þeirri skoðun vex stöðugt fylgi að að hinir öflugu fjölmiðlar á Vesturlöndum fari halloka gegn miðlum "einræðisríkjanna".

Ef svo er hljótum við að spyrja okkur að því hvernig stendur á því að þeir hafi tapað svo miklu af trúverðugleika sínum?

Ef það er raunin.

En ég hef líka miklar efasemdir um "sannleiksdómstól" hins opinbera, ég held að slíkt geti aldrei talist lausn. Þó er víða kallað eftir slíku og beita þurfi sektargreiðslum gegn miðlum sem slíkt birta.

Með slíkum rökum hefðu íslenskir miðlar líklega verið sektaðir fyrir að birta fleipur "sérfræðinga" sem fullyrtu að Ísland yrði eins og N-Kórea eða Kúba norðursins.

Það er engin ástæða til þess að feta þann veg.

Það er hins vegar næsta víst að fjölmiðlar muni um ókomna framtíð birta fréttir sem reynast rangar (sumir vilja meina að nokkuð hafi verið um það nú, af stjórnarmyndunarviðræðum) og alls kyns vitleysa líti dagsins ljós. Það er sömuleiðis næsta víst að einhverjir fjölmiðlar sleppa því að birta einhverjar fréttir þegar það hentar ekki einhverjum sem þeir styðja.  New York Times baðst nýverið afsökunar á slíku. CNN rak fjölmiðlamann sem lak spurningum til forsetaframbjóðenda.

Fjölmiðlar hafa aldrei, eru ekki og munu líklega aldrei verða fullkomnir.

Þess vegna eigum við öll að lesa eins marga af þeim og við komumst yfir og höfum tíma til. Það er líka æskilegt að við látum í okkur heyra ef okkur er misboðið.

En ég held að engin lausn felist í því að ríkisvæða "sannleikann", eða að koma á fót "fréttalögreglu".  Sektir fyrir rangar fréttir munu ekki heldur leysa vandann.

En við þurfum að gera okkur grein fyrir því að fréttir eru ekki alltaf réttar, þær eru líka sagðar frá mismunandi sjónarhornum.

Ef 20 manns horfa á sama atburðinn, er líklegt að lýsingar þeirra séu býsna mismunandi, jafnvel hvað snertir það sem talið væri grundvallaratriði.

Við verðum líka að gera okkur grein fyrir því að "sérfræðingar" hafa skoðanir.

 


mbl.is Hafði rangt fyrir sér um áhrif Brexit
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Þetta er bara "meme" sem á uppruna sinn hjá tapsárum Demókrötum og hefur þann tilgang einan að hjálpa til við að setja skorður á tjáningafrelsið, enda runnið undan rifjum cultural Marxista í háskólum USA.

Að sjálfsögðu er fólki treystandi til að efast og athuga sannleiksgildi frétta nú sem áður. Núna hefur það reyndar aldrei verið auðsóttara.

Ég hef það sjálfur sem þumalfingursreglu að trúa engu við fyrstu sýn, sem birtist í stæstu fjölmiðlum hér sem úti. Flestar fréttir eru að reka eitthvað agenda eða áróður, hannaðan og straumlínulagaðan af almannatenglum. Þar ræður tilgangurinn meðalinu. Restin eru óendurskoðaðar tilkynningar frá ráðuneytum og þrýstihópum. 

Að skapa hugtök og gefa þeim grípandi nafn er leið til að búa til skotmark eða óvin sem kljast má við og kæfa. "Falskar fréttir" er gott dæmi um slíkt. Besta leiðin til að forðast þetta er að éta þetta ekki upp og bergmála. Þetta er afstætt og merkingalaust bull, blásið upp í annarlegum tilgangi undir niðri.

Jón Steinar Ragnarsson, 11.1.2017 kl. 02:41

2 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Blaðamennska eins og hún hefur verið skilgreind og unnin í gegnum tíðina er deyjandi fyrirbrigði.

Dauðateygjurnar má meðal annars sjá af kapphlaupi heilagrar hneykslunnar um ekki neitt í fyrirbrigði sem ég kýs að kalla :OMG! He tweeted, she tweeted, blaðamennsku. Þar er réttur dagsins það heimskulegasta, forddómafyllst eða dónalegasta, setning sem einhver sendi frá sér einhverstaðar frá, einhverntíma þann daginn.

Malefnaumræða, krufning, afhjúpanir og lágmarks veraldarspeki er horfin. Nú er þetta spurningin um hver hefur stærsta upphrópunarmerkið á sölu þann daginn. Hver kallar fram dýpstu andköf heilagrar hneykslunnar þann daginn.

Hvað er að frétta af Kardashian fólkinu í dag annars? Maður hefur sárar ahyggjur af því að heyra svona sjaldan frá þeim. Þessar eilífu loftárásir flóttamannagrátur og hugsanleg 3ja heimstyrjöld eru alveg að stela senunni frá þeim þessi dægrin. Tweetin frá tinseltown heyrast varla fyrir þessu. ;)

Jón Steinar Ragnarsson, 11.1.2017 kl. 03:03

3 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Jón Steinar Þakka þér fyrir þetta. Það eru margir góðir punktar sem þú setur inn.

Kardashian og "tweetfréttamennskan" eða "Facebookfréttamennska" er "músasmellaveiðar" í nokkuð tærri mynd.  En það er rétt að hafa í huga að slíkt væri ekki til ef það skapaði ekki "lestur" og tekjur.

Og ekkert bendir til þess að slíkt sé að hverfa.

Persónulega læt ég það ekki fara svo mikið í taugarnar á mér. Það er ekki svo erfitt að leiða það hjá sér.

Ég hef meiri áhyggjur af alls kyns hugmyndum sem eru að koma fram undanfarnar vikur um hvernig eigi að sía "sannleikann" frá "hisminu" og tryggja almenningi "sannar og réttar" fréttir.

Þar hef ég ekki mestar áhyggjur af stöðu mála í Bandaríkjunum, heldur til hvaða ráða, ef einhverra, verður gripið í Evrópu og sértaklega Evrópusambandsríkjunum.

Þar verða á árinu kosningar m.a. í Hollandi, Frakklandi og Þýskalandi. Líklega hefur sjaldan eða aldrei verið meira áríðandi að "sannleikurinn" nái til fólksins, eða þannig.

Það þarf ekki mikið til að "sannfæra" stjórnlynda stjórnmálamenn um að nauðsynlegt sé að vernda almenning fyrir "loddurum" og "erlendum agentum".

"Handhafar sannleikans" eru gjarna með hættulegustu einstaklingum.

Það þýðir ekki að alls kyns aðilar séu á ferðinni með tilraunir til að móta "sannleikann" í sér þóknalega mynd.  Það eru líka fullt af einstaklingum víða um lönd með meiri tölvuþekkingu en skynsemi ef svo má að orði komast.

Nú var víst verið að handtaka ítalskan frímúrara fyrir tölvuglæpi og upplýsingasöfnun.  Ef það er ekki efniviður í góða samsæriskenningu um "heimsyfirráð" veit ég ekki hvað er.  Það vantar bara að finna tengingu við mafíuna og Putin.  Aðrir munu sjálfsagt frekar vilja nota Bilderberg og gyðinga.  :-)

Í sjálfu sér er fæst ef nokkuð af þessu nýtt, en internetið hefur gefið þessu nýja vídd og fært þetta undir nefið á flestum okkar.

En æ háværari áköll um ritskoðun og hömlur á tjáningarfrelsi sem nú heyrast er vissulega nokkuð sem vert er að hafa áhyggjur af.

G. Tómas Gunnarsson, 11.1.2017 kl. 08:04

4 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Ég held að almenningur í evrópu sé löngu farinn að sjá í gegnum spunann. Í Brexit átti stay fylkingin senuna hjá öllum helstu fjölmiðlum og dældu út endalausum fregnum um ragnarrök í tvö ár fyrir kosninguna.

Hræðsluároðurinn varð svo yfirgengilegur á köflum að hann varð nánast kómískur undir lokin. (Jaws plakat Icesave sinna var bara hjóm í samanburði)  Það dugði ekki til og nú eru meira að segja prédíkararar sambandsvistar farnir að draga í land og skipta alveg um skoðun eins og í viðtengdri frétt. 

Almenningur lýtur ekki neinum Páfdómi nú um algilda umboðsmenn sannleikans. Það var hægt hér á miðöldum, en með upplýstum heimi er það engin leið.

Nálgun við frettir er alltaf í auga sjáandans. Hægt er að sjá sama hlut frá andstæðum pólum og matreiða samkvæmt því. Svona eins og skósölumaðurinn sem fór til afríku og sagði engan markað fyrir skó þar sem enginn notaði skó og svo hinn sem sendi skeyti um að þar væri endalaus markaður því enginn notaði skó.

En við getum verið sammála um að það er uggvænlegt ef eitthvað Orwellískt sannleiksráðuneyti fengi umboð og einkaleyfi á sannleikanum og réði fréttamiðlun.

Hægt að sjá að það er ekki svo surrealískt þegar við minnumst þess að stórblaðið Pravda þýddi einmitt "sannleikurinn" upp á íslensku.

Jón Steinar Ragnarsson, 11.1.2017 kl. 18:42

5 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Sá nú tvær skrýtnar fréttir, sem eru dæmigerðar spunafréttir. Önnur var um meintan aðstoðarmann Eichman, sem ku hafa talinn látinn en svo á lífi og svo aftur látinn og svo enn á lífi um nírætt, þar sem hann faldi sig og er sagður í óstaðfestum heimildum hugsanlega, kannski mögulega kennt Assad og legátum hans pyntingaraðferðir nasista.

Þetta er náttúrlega vitnisburður um andleysi Assads, að geta ekki hugsað upp góðar leiðir til að pynta fólk og hafa þurft að leita ráða níræðs nasista, auk þess sem hann hlýtur að minnsta kosti að vera jafn vondur og Hitler og því eðlilega réttdræpur.

Maður spyr sig á hvaða efnum er fréttaritari sem diktar upp svona þvælu? Hversu vitlausa telur pressan pöbulinn vera? Ég verð að segja að ég akellti uppúr.

Önnur frétt er um það að Penthouse bjöði milljón dollara fyrir myndir af mellum í "golden shower" sem Trump borgaði þeim fyrir að framkvæma.

Enginn kannast við málið. Varla orðrómur til um þetta. Trump veit ekkert, rússar vita ekkert og enginn annar veit neitt, en verðlaunin eru þarna og vegleg mjög.

Öllu þessu klastra kranablaðamenn Mbl. óskoðað og ógrundað. 

CNN og NYT fjasa mest yfir fölskum fréttum, en spáðu Clinton 95% sigurlíkum fram á elleftu stundu og hamra enn á því að DNC lekinn hafi verið af völdum rússa og ástæða þess að Madame president tapaði, þegar vitað er að Assange fékk þetta frá Seth Rich, sem var innanbúðarmaður demókrata og galt fyrir með lífi sínu. Það er ekki talað um innihald lekans og hvaða svínaríi hann fletti ofanaf. Fæstir hafa hugmynd um það, því það rataða hreilega ekki í fréttir. Mottoið er "shoot the messanger, ignore the message"

Þeir ganga jafnvel svo langt að kenna rússum um emailskandalann, sem uppgötvaðist fyrir tilviljun þegar Trey Gowdry var að rannsaka viðbjóðinn í Bengazi.

Er von að þessir sömu fjölmiðlar hafi áhyggjur af "fölskum fréttum" :D 

Jón Steinar Ragnarsson, 11.1.2017 kl. 19:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband