Frekari rannsóknar er þörf - allir ættu að geta sammælst um það, eða hvað?

Skýrsla sem hefur verið lögð fram í nafni meirihluta fjárlaganefndar hefur vakið verðskuldaða athygli. Líklega verður þó meirihluti athyglinnar að teljast neikvæður, en það breytir því ekki að skýrslan hefur vakið athygli á nauðsynlegu máli.

Ég hef ekki haft tíma nema til að renna í fljótheitum yfir skýrsluna. Fljótt á litið virðist mér að sú gagnrýni að ekki sé um rannsóknarskýrslu að ræða eigi við rök að styðjast.  Mun nær er að tala um samantekt og jafnvel endurtekningu á því sem hefur komið fra áður.

Það breytir því ekki að þær spurningar sem skýrslan vekur, hefur í fæstum tilfellum verið svarað með viðunandi hætti.

Það er því fyllsta ástæða til þess að Alþingi ákveði að ýtarleg rannsókn fari fram og góðri rannsóknarskýrslu verði skilað.

Nú þegar hefur ítarlegri skýrslu um atburðarásina fyrir bankahrun verið skilað, en það er ekki síður ástæða til þess að rannsóknarskýrsla verði gerð um atburðarásina eftir hrun.

Ekki til þess að efna til "sýndarréttarhalda" í þeim stíl sem stjórn Jóhönnu og Steingríms (með stuðningi nokkurra Framsóknarþingmanna og þáverandi þingmanna Hreyfingarinnar (m.a. núverandi þingmanns Pírata)), efndi til yfir Geir Haarde, heldur til þess að læra af ferlinu og gera komandi kynslóðir betur undir það búnar að takast á við svipuð vandamál, ef til þess kemur.

Því er nauðsynlegt að kryfja ferlið og fara yfir það sem vel var gert og svo hitt sem betur hefði mátt fara.

Sömuleiðis væri æskilegt að gera skýrslu um samskpti Ísland og Alþjóða gjaldeyrissjóðsins.  Hvernig þeim var háttað, hver var ávinningur Íslands, í hverju fólst hann, hver voru neikvæðu áhrifin, hver var kostnaðurinn af aðstoð sjóðsins o.s.frv.

Við eigum að vera óhrædd við að gera upp fortíðina og læra af því sem þá var gert. Bæði hinu góðu og hinu sem verr var staðið að.

Því hygg ég að flestir ættu að geta sammælst um að koma á fót rannsóknarnefnd um árin eftir bankahrun og aðgerðir hins opinbera.

En það hefur líka vakið athygli mína að margir vitna til skýrslu sem Brynjar Níelson vann fyrir fáum árum, og segja að hún sanni að engins ástæða sé fyrir skýrslu meirihluta fjárlaganefndar, eða frekari rannsókn.

Það er að mínu mati hrein rangfærsla, enda segir í skýrslu Brynjars:

 

Nauðsynlegt og eðlilegt er að skoða allt ferlið við endurreisn bankakerfisins og aðgerðir við endurskipulagningu skulda fyrirtækja og einstaklinga í því skyni að styrkja lagaumgjörð, ekki síst heimildir og aðferðir við eignarnám og mat á eignum. Einnig í því skyni að skýra formreglur stjórnsýslunnar og setja skýrari reglur um hlutverk hvers stjórnvalds um sig við aðstæður sem þessar til þess að draga úr tilviljanakenndum ákvörðunum sem óljóst er á hvers sviði eru. Í aðstæðum sem þessum er mikilvægt að skýrt sé hvert er hlutverk hvers og eins og þá er nauðsynlegt að lagarammi sé eins skýr og frekast er unnt. Þá er ekki síður mikilvægt að fram fari endurskoðun á 12. kafla laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sem snýr að endurskipulagningu, slitum og samruna fjármálafyrirtækja, enda gífurlegir hagsmunir alls samfélagsins í húfi að vel takist til ef aðstæður sem þessar koma upp aftur.

Einnig segir í skýrslunni (örlítið framar):

 Jafnframt þyrfti að mati skýrsluhöfundar að skoða betur aðgerðir stjórnvalda í tengslum við aðstoð við minni fjármálafyrirtæki eins og Saga Capital, Verðbréfastofuna og Askar Capital og á hvaða grunni veitt var ríkisábyrgð á skuldabréfi SPRON og Sparisjóðabankans til slitabús Kaupþings.

Það er því ærin ástæða til þess að hvetja Alþingi til þess að efna til frekari rannsókna á ákvörðunum hins opinbera á þessu tímabili.

Það er vert að hafa í huga þegar talað er um að eingöngu sé um endurtekningu á ásökunum Víglundar Þorsteinssonar sé að ræða, að þegar Björn Valur Gíslason og fyrrnefndur Víglundur ræddu þessi mál, eftir að Sigmundur Davíð hafði hvatt til að málið yrði rannsakað frekar, þá sagði Björn Valur í sjónvarpi að ef að ríkisstjórnin efndi ekki til rannsóknar á málinu, myndi Vinstri græn krefjast þess (þetta segir Björn Valur þegar u.þ.b. 1 mínuta er eftir af viðtalinu).

Það getur því varla verið eftir nokkru að bíða, það er nauðsynlegt að Alþingi komi á fót rannsóknarnefnd til þess að fjalla um "seinni einkavæðingu bankanna" og jafnframt um aðgerðir stjórnvald eftir hrun. 

Æskilegt að mínu mati væri að einnig væri skipuð nefnd sem fjallaði um samstarf Íslands og Alþjóða gjaldeyrissjóðsins.

Hvað hefur komið í veg fyrir að Björn Valur og Vinstri græn hafi krafist frekari rannsóknar á málinu ætla ég ekki að fullyrða um.

En ég hvet til þess að til slíkrar rannsóknar verði efnt. Það er allt sem hvetur til þess að málið verði krufið til mergjar.

Staðreynd eins og fundargerðir hafi ekki verið haldnar, gerir slíkt enn mikilvægara.

Við skulum ekki gleyma því að við erum að fjalla um sömu ríkisstjórn og vildi að Alþingi samþykkti IceSave I samninginn án þess að þingmenn fengju að sjá hann.

Það hvetur því allt til frekari rannsóknar.

Því sameinast þingmenn ekki um það?

P.S. Ég hef áður bloggað um þetta efni, það blogg má lesa hér.

 


mbl.is Ætlar ekki að mæta í „sýndarréttarhöld“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband