Er það skelfileg tilhugsun að íslendingar kaupi sér frekar heilbrigðisþjónustu innanlands en utan?

Nú birtast í fjölmiðlum fréttir þess efnis að fyrirhugað sé að reisa stórt einkarekið sjúkrahús og hótel á Íslandi.

Flestir virðast koma af fjöllum þegar rætt er um framkvæmdina og svo virðist sem hún eigi sér fremur skamman aðdraganda.

En þetta er í sjálfu sér ekki í fyrsta sinn sem slíkar hugmyndir heyrast og fljótt á litið virðast viðtökurnar ósköp svipaðar.

Flestir virðast hafa allt á hornum sér hvað varðar rekstur einkasjúkrahúss á Íslandi og það vantar ekki hrakspárnar og "heimsendaspádómana".

Rekstur slíks sjúkrahúss mun kollvarpa og eyðileggja íslenskt heilbrigðiskerfi að margra mati og það er erfitt að skilja það á annan veg en að barist verði hart á móti því á flestum vígstöðvum að slíkt sjúkrahús geti risið.

Ekki síst á hinum pólítíska vettvangi.

En það er nokkuð merkilegt að ekki fyrir svo löngu var það samþykkt á hinum pólítíska vettvangi, nánar tiltekið Alþingi, að íslendingar ættu fullan rétt á því að sækja sér heilbrigðisþjónustu yfir landamæri (á EEA/EES svæðinu) og hið opinbera myndi endurgreiða kostnaðinn með sömu upphæð og sambærileg aðgerð kostaði á Íslandi. Annan kostnað yrði hins vegar sjúklingurinn að bera.

Þetta er enda allt samkvæmt Evrópusambandstilskipun.

Nú hafa forsvarsmenn hins nýja sjúkrahúss reyndar sagt að þeir muni ekki sækjast eftir viðskiptum íslendinga, en ekki neita þeim um þjónustu ef þeir sækjast eftir henni.

En er það ekki merkilegt ef tilhugsunin um að íslendingar kaupi sér þjónustu innanlands, er pólítíkusum mun skelfilegri en ef þeir fara yfir "Evrópusambandslandamæri" til þess að kaupa hana?

Ekki síður er það merkilegt ef þeir stjórnmálamenn dásama hvað mest frjálst flæði fólks, fjármagns, vöru og þjónustu hafa ekki skilið að heilbrigðisþjónusta fellur einmitt undir síðasta liðinn og það er gert ráð fyrir því að hið frjálsa flæði virkir í báðar (eða allar) áttir.

Án þess að ég hefi hugmynd um það, þykir mér líklegt að að rekstraraðilar hins væntanlega spítala (ef af verður) ætli sér einmitt að sækja á þann markað sem íbúar "Sambandsins" eru, sem og að ná samningum við bandarísk tryggingafélög.

Síðan hefur mátt sjá áhyggjur margra vegna hugsanlegrar samkeppni hins nýja sjúkrahúss um starfsfólk.

Það er reyndar mjög líklegt að svo verði, alla vegna að einhverju leiti. En hafa ekki flestir þeir sem að heilbrigðismálum hafa komið undanfarin ár, sagt að Ísland sé í samkeppni við stærstan hluta heimsins þegar kemur að heilbrigðisstarfsfólki?

Er verra að sú samkeppni komi til sögunnar innanlands?

Hefur ekki íslenskt heilbrigðistarfsfólk í hundraða tali, ýmist flutt á brott eða starfað á erlendum heilbrigðisstofnunum um lengri eða skemmri tíma?

Ef til vill flytur einhver þeirra heim og aðrir hætta að fljúga reglulega til Noregs?

Er það hræðileg tilhugsun?

Mátti ekki lesa í fréttum nýverið að margir hjúkrunarfræðingar störfuðu sem flugfreyjur. Ef til vill snúa þær aftur til í þau heilbrigðisstörf sem þær hafa menntun til?

Það er ekkert undarlegt þó að stór áform eins og í Mosfellsbænum veki einhvern ugg og fjöldan allan af spurningum.

Það er enda bæði þarft og gott að umræða fari fram um málið.

EN það er nauðsynlegt að umræðan sé skynsamleg og horft sé bæði til tækifæranna og hugsanlegra neikvæðra hliða.

Reynt sé að grípa tækifærin og draga eins og mögulegt er úr hugsanlegum neikvæðum áhrifum, helst koma í veg fyrir þau.


mbl.is Heyrði fyrst af áformunum í fréttum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband