Viðskipti - hvar sem er - við hvern sem er?

Mér hefur fundist nokkuð fróðlegt að fylgjast með umræðum um hvort að Íslendingar eigi að draga til baka viðskiptaþvinganir sem þeir hafa sett á Rússland, í samfloti við aðrar Vestrænar þjóðir.

Eins og oft áður er málið ekki svart og hvítt og hafa báðir málsaðilar rök sem eru ágæt.

Viðskiptabönn eru tvíbennt tæki og oft bitna þau harðast á almennum borgurum. Því verður þó varla haldið fram hvað varðar þau höft sem Vesturlönd hafa sett á Rússland, því þau beinast fyrst og fremst gegn forkólfum í stjórnmála og viðskiptalífi, sem og reyndar olíufyrirtækjum.

Að mörgu leyti völdu Vesturlönd auðveldustu leiðina, enda ekkert sett á bannlista sem kæmi þeim sjálfum illa, enda halda þau áfram að kaupa olíu og gas af Rússum og vilja selja þangað matvæli og bíla svo dæmi séu nefnd.

Þannig kaupa lönd Evrópusambandsins ennþá stóran part af olíu og gasi sem þau þarfnast frá Rússlandi, og engin vandamál eru að kaupa Mercedesa, BMWaffa eða Audia í Rússlandi (fyrir þá sem eiga nóg af aurum).

Reyndar munu Rússar hafa velt fyrir sér að banna influtning á bílum frá þeim löndum sem hafa beitt þá viðskiptaþvingunum, en ekkert hefur orðið af því. En sala á lúxusbílum hefur þó skroppið verulega saman, í réttu samhengi við samdrátt í efnahag Rússa.

En það er sá samdráttur í efnahag Rússa, samhliða þeim viðskiptahömlum sem Rússar sjálfir hafa ákveðið að svara með, sem segja má að hitti Rússnesskan almenning fyrir, sem og Íslensk fyrirtæki.

Það er reyndar ekki óeðlilegt að ætla að minnkandi kaupmáttur Rússnesks almennings, og því samhliða minnkandi greiðslugeta Rússneskra fyrirtækja sem sé jafn mikil eða meiri ógn Íslenskum útflutningshagsmunum, eins og hugsanleg innflutningshöft.

En hvoru tveggja á sér fyrst og fremst skýringar í Rússneskri innanlandspólítík.

En hvers vegna eru Íslendingar þátttakendur í þeim viðskiptahömlum sem ýmis Vesturlönd hafa sett á Rússa?

Hafa þeir gert eitthvað sem klagar upp á Íslendinga?

Vissulega má halda því fram að Íslendingar séu og hafi verið í viðskiptum við lönd sem síður hafi verið eða sé ástæða til þess að vera í viðskiptum við en Rússa.

Það þarf ekki að leita langt yfir skammt.

Íslendingar áttu um áratuga skeið viðskiptasambandi (sem þótti ágætt) við forvera Rússa, Sovétríkin, sem ef eitthvað er átti enn verri sögu hvað varðaði mannréttindi og yfirgang gegn nágrannaríkum sínum.

Það er heldur ekki langt síðan ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna undirritaði (með stuðningi allra stjórnmálaflokka ef ég man rétt) fríverslunarsamning við Kína, sem seint mun þykja kyndilberi mannréttinda eða umburðarlyndis, hvað þá að þeim þyki sjálfsagt að nágrannaríki þeirra eins og Tíbet, njóti sjálfstæðis.

Það er því ekkert sjálfgefið, eða svart og hvítt í þessum efnum.

En það er heldur ekki hægt að segja að Íslendingar eða Vesturlönd hafi gripið til verulega harkalegra aðgera gegn Rússlandi, þó að mótaðgerðir Rússa hafi komið nokkuð harkalega við nokkur Vesturlanda og komi hugsanlega til að gera það fyrir Ísland.

En það verður ekki hjá því komist að líta á framferði Rússlands alvarlegum augum (svo notað sé vinsælt stjórmála orðalag frá síðustu öld). Þeir réðust með hervaldi gegn nágrannaríki og notuðu vald til að breyta landamærum sem voru alþjóðlega samþykkt.

Valdbeiting þeirra stendur enn yfir og síauknar ögranir þeirra gegn grannríkjum eiga sér stað á hverjum degi.

Er það eitthvað sem skiptir Íslendinga engu máli?

Enn sem komið er hafa þeir aðeins ráðist gegn Georgíu og Ukraínu. En hvað ef Rússar ráðast gegn Lettlandi, Litháen, Eistlandi, nú eða Finnlandi með sama hætti?

Myndu það ekki breyta neinu fyrir Íslendinga? Myndu þeir einfaldlega halda áfram að selja Rússum síld og makríl, en geta skipað upp í Tallinn, Riga og Helsinki?

Eiga Ukraínumenn síður stuðning skilið?

Stundum verður að taka afstöðu, jafnvel þó að hún kosti.

Engar þjóðir eiga meira undir því en smáþjóðir, að alþjóða samningar og landamæri séu virt, en ekki háð hervaldi.

 

 


mbl.is Ísland móti sína eigin stefnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Þórhallsson

Á endanum þarf alltaf  einhver að höggva á hnútinn og segja já /nei í öllum málum hveru erfið sem þau eru.

Hvar er þín stefna í málinu?

Jón Þórhallsson, 7.8.2015 kl. 18:42

2 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Jón Þórhallsson Þakka þér fyrir þetta. Það er rétt, að oftast nær þarf að taka afstöðu, og það sýnir ákveðið hugleysi að gera slíkt ekki.

Íslendingar hefðu getað komist upp með það að taka ekki þátt í viðskiptahömlum á Rússland, vegna yfirgangs þeirra í Ukraínu.

En það er að mínu mati fyllilega út í hött að ætla að draga þátttökuna til baka, nú þegar Rússar sýna klærnar lítillega.

En eins og segir í endann á upphaflega pistlinum, þá eiga engar þjóðir meira en smáþjóðir undir því að alþjóðlegar samþykktir og landamæri séu virt.

Persónulega styð ég því þátttöku Íslendinga í viðskiptahömlum á Rússa.

G. Tómas Gunnarsson, 7.8.2015 kl. 19:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband