Eurokrísan hverfur ekki - Er ekki kominn tími til að hætta að trúa á "töfralausnir"?

Var það ekki Jón Baldvin sem talaði um "Sambandið" sem brennandi hús? Hús sem ekki væri vit í að leita skjóls í.

En það er ljóst að Eurokrísan hefur aldrei verið leyst, og reyndar ekki fyrirsjáanlegt að hún leysist á næstunni. Nú er 7 ára afmælið að nálgast, en það er fátt sem bendir til þess að hún nái ekki í það minnsta "táningsaldrinum".

Ójafnvægið í efnahag Eurolandanna og í raun "Sambandsins" alls, minnkar ekki og virðist ef eitthvað er, frekar aukast.

Nokkuð hratt gengissig eurosins hjálpar vissulega löndum á svæðinu, en það er eins og svo oft áður, að sá sterkasti nýtur mest góðs af slíku, þ.e. Þýskaland.

Verðhjöðnun hefur fest rætur á svæðinu, það er hægt að binda vonir við að yfirvofandi peningaprentun leysi það vandamál, í það minnsta hjálpi til, en það er þó ekki gefið.

Skuldastaða einstakra ríkja er afleit og svæðisins í heild ekki góð. Það er þó aðeins hluti vandans, því einstök sambandsríki, svæði og sveitarfélög eru oft ekki síður skuldum vafin en ríkiskassarnir.

Hér er rétt að hafa í huga að staða einstakra ríkja með eigin seðlabanka er nokkuð önnur en ríkja í myntbandalagi.

Það er ekki bara Grikkland sem á í erfiðleikum, þó að vissulega sé það líklega verst statt og sé eðlilega mest í fréttum.

Staðan er verulega erfið í Portúgal, á Ítalíu, á Spáni, og hefur legið stöðugt niður á við í Frakklandi.

Finnland hefur einnig átt undir högg að sækja, og fjármálakerfið í Austurríki finnur fyrir erfiðleikunum í A-Evrópu og á Balkanskaganum.

Svona má lengi áfram telja.

Það brestur í samstöðunni, enda finnst fátækum ríkjum í A-Evrópu, erfitt að "selja" íbúum sínum þá visku að það þurfi að aðstoða ríki sem halda uppi mun hærri lífsstandard.

Stríð er háð á jaðri "Sambandsins", sem hefur afhúpað gríðarlega veikleika hjá "Sambandinu", jafnt í orkustefnu, varnarstefnu sem utanríkis og "útþennslustefnu".

Það er ekki að undra að sjá megi að "tvær grímur" séu að renna á ýmsa stuðningsmenn "Sambandsaðildar" á Íslandi.

Auðvitað á Ísland ekkert erindi í slíkt "Samband".

Æ fleirum verður ljóst að vera í "Sambandinu" og euroið hefði ekki orðið Íslandi til hjálpar í aðdraganda bankahrunsins, eða eftirleik þess.

Mun líklegra er að slíkt hefði orðið myllusteinn, sem hefði dregið landið niður.

Æ fleirum verður ljóst hve mikil takmörk "Sambandsaðild" setur á sjálfstæði og lýðræði hvers "Sambandslands".

Æ fleiri gera sér grein fyrir að umsókn, eða aðild að "Sambandinu" er ekki sú "töfralausn" sem ýmsir pólítíkusar hafa lofað.


mbl.is Fórnarlömb sjúks fjármálakerfis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vésteinn Valgarðsson

Ef Samfylking og VG virðast vera að taka sönsum í ESB-málinu, þá er það í besta falli svikalogn. Samfylking hefur lagt of mikið undir til að geta nokkurn tímann bakkað, nema þá með taktískt og tímabundið undanhald. Og VG eygja ekki annan möguleika á ríkisstjórnarsamstarfi heldur en með Samfylkingunni og munu því ekki halda þessu máli til streitu. Það er merkilegt hvað Evrópusambandssinnum - og hægrisinnuðum ESB-andstæðingum - hefur tekist að selja þá hugmynd að ESB sé málstaður sem vinstrimenn eigi að fylkja sér um en hægrimenn að forðast. Vinstriandstaðan gegn ESB er allt annars eðlis en hægriandstaðan gegn því. Ég var að reifa málið stuttlega í pistlinum "Aðild að þrotabúi". Lesið hann.

Vésteinn Valgarðsson, 5.3.2015 kl. 00:27

2 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Vésteinn Takk fyrir þetta. Ég held að þú hafir ekki rétt fyrir þér þegar þú segir hægrisinnaðir "Sambandsandstæðingar" ýti undir þá hugmynd að allir vinstri menn eigi að vera "Sambandssinnar".

En "Sambandssinnar" með Jóhönnu, Steingrím, Össur og Björn Val í fararbroddi settu dæmið að mörgu leyti upp þannig að það væru í raun svik við fyrstu "tæru" vinstri stjórnina að setja sig upp á móti "Sambandsaðild", eða nokkru öðru sem hún tók upp á sína arma.

Þaðan eru slíkar hugmyndir komnar að mínu mati.

Ég held að VG vanmeti möguleika sína á stjórnarsamstarfi, en slíkt fer þó vissulega eftir hvernig haldið er á málum.

Með því að "líma" sig við SF í mörgum málum, eins og t.d. "Sambandsaðild" aukast þeir hins vegar varla. Enda var passað upp á að ekki væri minnst á aðild á síðasta flokkráðsfundi (eða hvað það heitir).

En enn eru fjölda margir vinstrisinnar andsnúnir aðild og þarf ekki að leita langt til að finna þá, sem betur fer.

G. Tómas Gunnarsson, 5.3.2015 kl. 06:08

3 identicon

Þó að ýmislegt megi finna að því að ganga inn í ríkjabandalag eins og ESB þá er ekkert vit í slíkum aðfinnslum nema hinn kosturinn - að standa þar fyrir utan - sé um leið veginn og metinn.

Þegar það er gert er einsýnt að Ísland eitt á báti með krónu sem gjaldmiðil er framtíðarsýn sem gengur ekki lengur upp. Allavega ekki nema með því að taka nokkur skref tilbaka með viðvarandi mikilli lífskjaraskerðingu. Þjóðin er ekki tilbúin til þess né þeirrar einangrunar sem slíku fylgir.

Það er mjög greinilegt að ríkisstjórnin ræður ekki við þann vanda sem við er að etja. Flestir taka þó ekki eftir því vegna þess að vandinn er undirliggjandi og honum haldið niðri þangað til það er ekki hægt lengur og hrun blasir við - miklu verra en 2008.

Allt frá því að ríkisstjórnin tók við hefur losun hafta verið á næsta leyti en nú nærri tveim árum síðar hefur ekkert gerst. Nú fyrst kvartar ríkisstjórnin yfir hinu augljósa að gjaldeyrisforðinn sé allt of lítill til að hægt sé að losa um höft.

Gjaldeyrisforðinn verður ekki efldur nema með því að taka erlend lán á svimandi háum vöxtum. Slík lántaka mun gera Ísland að skuldugasta ríki heims. Vegna hárra vaxta verður greiðslubyrðin þó miklu þyngri en skuldirnar gefa tilefni til.

Hugmyndir manna um útgönguskatt eru jafnóraunhæfar og annað í sambandi við losun hafta. Það er að sjálfsögðu enginn tilbúinn til að greiða útgönguskatt upp á marga tugi prósenta. Þeir munu frekar bíða þangað til höftum hefur verið aflétt og útgönguskatturinn ekki lengur við lýði.

Einhver útgönguskattur er þó raunhæfur enda er hætt við að gengi krónunnar verði lægra en núna þegar höftum hefur verið aflétt. Breytilegur útgönguskattur gæti etv að hluta gegnt sama hlutverki og gjaldeyrisforði, að draga úr sveiflum á gengi.

Kannski á Ísland ekkert erindi í ESB. En það er þá vegna molbúaháttar, þjóðrembu, minnimáttarkenndar og vænisýki. Þjóðir sem eru illa haldnar af slíkum eðlisþáttum þrífast illa í samvinnu við aðrar þjóðir og sjá ekki nauðsyn á að aðlaga sig þeim veruleika sem felst í slíkri samvinnu.

ESB-aðild gagnast ekki síður smáríkjum en stórum ríkjum. Eina sem þarf til að njóta góðs af aðild er að lifa ekki um efni fram og nota einföld hagstjórnartæki til að bregðast við aðsteðjandi vanda. Það er mikill fengur í að losna undan skaðsemi gengisfellinga.

Ásmundur (IP-tala skráð) 5.3.2015 kl. 08:35

4 Smámynd: Tómas Ibsen Halldórsson

Þakka þér nafni fyrir ágæta grein þína nafni.

Það hefur sýnt sig og sannað að aðvaranir andstæðinga ESB-aðildar hafa haft á réttu að standa.  Enn eru ýmsir sem eiga erfitt með að viðurkenna staðreyndirnar sem við blasa.

Ásmundur talar niður til krónunnar, eins og margir hafa gert á undanförnum árum.  Það er eins og menn haldi að krónan hafi sjálfstæðan vilja og framkvæmi illvirki til að koma sér niður á þjóðinni.

Fyrst ber þess að geta að enginn gjaldmiðill er fullkominn og jafnvel þó við tækjum upp nýjan gjaldmiðil þá er ekki þar með sagt að sveiflur muni heyra sögunni til.  Sveiflur eru í öllum efnahagskerfum, jafnt stórum sem smáum.

Hin "STERKA" evra hefur valdið miklum sveiflum í Evrópu og mikilli lífskjaraskerðingu, sem Ásmundur vill komast hjá hér á landi með því að yfirgefa krónuna.  Að halda því fram að allt yrði gott ef við köstuðum krónunni fyrir róða er hreinasti barnaskapur.

Ásmundur hefur áhyggjur af öðru hruni, verra en það sem varð 2008.  Ég verð að viðurkenna að ég hef einni áhyggjur af slíku, en það kemur krónunni ekkert við eða efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar. 

Efnahagshrun sem ég sé framundan á ekki rætur sínar að rekja til krónunnar eða íslenskrar efnahagsstefnu, öllu heldur það sem er að gerast í hinum stóra heimi s.s. Bandaríkjunum, Evrópu, Kína, Rússlandi og víðar, þar eru hinar raunverulegu blekkingar að eiga sér stað og þar vita menn ekki sitt rjúkandi ráð, en eru að reyna að klóra í bakkann.  Það er aðeins tímaspursmál hvenær hrunið, alheimskreppan skellur á og verður hrunið sem átti sér stað 2008 barnaleikur í samanburði við það sem framundan er.  Króna eða engin króna mun ekki hafa þar nokkuð um að segja.

Tómas Ibsen Halldórsson, 5.3.2015 kl. 11:39

5 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Ásmundur Takk fyrir þetta. Það er í sjálfu sér orðið nokkuð langt síðan Íslenska krónan hefur beinlínis verið felld, en hún hefur vissulega sigið niður og jafnvel hægt að tala um að hún hafi fallið, eða hrapað eftir bankahrunið.

En hvenær sígur mynt og hvenær fellur hún?

Hefur þú skoðað hvernig gengisþróun eurosins hefur verið undanfarið ár, gagnvart dollar og til dæmis Svissneskum franka?

Ég hugsa reyndar að all margar þjóðir á Eurosvæðinu hafi fagnað þessu "gengisfalli", þær þurftu svo sannarlega á því að halda.

Og að lifa ekki um efni fram, það væri vissulega þörf lexía fyrir margar þjóðir.  Hvað skyldu þær nú vera margar þjóðirnar á Eurosvæðinu sem uppfylla skilyrðin til að vera þar?

En hvað varðar gjaldeyrishöftin, þá hygg ég að flestir vilji þau á brott sem fyrst. En þó að vissulega séu ýmis skilyrði hagstæð um þessar mundir, s.s. greiðslujöfnuður ríkissjóðs, gjaldeyrisjöfnuður, lágir vextir víðast í Evrópu, vegna bágs efnahagsástands, og gjaldeyrisjóður sem eign að styrkjast, er betra að fara varlega, því það þýðir ekki að ætla að gera slíkt nema einu sinni.

Aðstæður á gjaldeyrismörkuðum eru þó varasamar, eins og Danir og Svisslendingar hafa kynnst.

Hvað varðar eflingja gjaldeyrisforða, þá keypti Seðlabankinn u.þ.b. 110 milljarða á síðasta ári ef ég man rétt. Það er nokkuð vel að verki staðið.

Og stærri og öflugri gjaldmiðill tryggir ekki einn og sér fljótari losun gjaldeyrishafta. Kýpur sýnir okkur það. Þeir urðu að grípa tilþess að hafa höft, jafnvel innanlands.

En þeirra dæmi sýnir (sem og önnur) að því miður standa gjaldeyrishöft ávallt lengur en ætlað er.

Það er ef til vill tímanna tákn nú, að þú skulir fara að tala um að Íslendingar séu ekki "nógu góðir og þróaðir" fyrir "Sambandið".

Það er eitt að eiga samvinnu við önnur ríki, en annað að undirrita "opin" samning, meðal annars um sjávarútvegsmál, fyrir þjóð eins og Íslendinga.

Það er eins og að hefja rússíbanaferð,á meðan enn er verið að byggja brautina.

G. Tómas Gunnarsson, 5.3.2015 kl. 11:43

6 identicon

Hvar í heiminum eru 3-4 ríki af 28 ekki í vandræðum? Hvar kemur ekki upp kreppa öðru hvoru? Hvergi. Það er af og frá að það hafi sýnt sig og sannað að ESB-andstæðingar hafi haft rétt fyrir sér.

Evrusamstarfið er mjög merkileg tilraun. Byrjunarerfiðleikar voru auðvitað fyrirsjáanlegir strax í upphafi. Í ljósi þess er merkilegt að langflestum evruríkjanna hefur vegnað mjög vel þrátt fyrir áfallið 2008.

Það má líkja evrusamstarfinu við erfiðan skóla. Þeir sem standa sig er ríkulega umbunað, hinir lenda í vandræðum þangað til þeir taka sig á. Ekki er nokkur vafi á að mörgum Íslendingum er treystandi til að leiða ESB-samstarfið fyrir okkar hönd með góðum árangri.

Spurningin er hins vegar sú hvort við berum gæfu til að kjósa rétta fólkið, hvort ekki sé eins líklegt að við myndum kjósa afglapa sem myndu leiða okkur fram af bjargbrúninni.

Miðað við þá framtíðarsýn sem blasir við utan ESB með krónu sem gjaldmiðil er svarið þó einfalt: Já við ESB og upptaka evru eins fljótt og hægt er.

Hver heilvita maður, sem er ekki í afneitun, sér að krónan er ónothæfur gjaldmiðill sem veldur okkur gífurlegu tjóni. Þetta sáu Sigmundur Davíð, Bjarni Ben og Steingrímur, svo að fáeinir séu nefndir, þó að nú séu þeir hrokknir á afneitunargírinn vegna skorts á hugrekki til að grípa til aðgerða.

Á nokkrum mánuðum fyrir hrun hafði gengi krónunnar lækkað um næstum helming. Þetta olli nærri tvöföldun á skuldum ríkisins við útlönd og á erlendum skuldum fyrirtækja og einstaklinga. Krónan gerði þannig erfiða stöðu vonlausa.

Eftir bankahrunið var ríkið og þjóðarbúið í raun gjaldþrota. Með neyðarlögunum og lánum frá AGS og nágrannaþjóðum á mun hagstæðari kjörum en annars buðust var gjaldþroti þó afstýrt.

Þannig varð skuldakreppan miklu verri hér en annars staðar og átti það einnig við um lán við innlendar fjármálastofnanir. Þó að fasteignaverð hafi lækkað annars staðar og tekjur jafnvel minnkað hækkuðu ekki lánin upp úr öllu valdi eins og hér.

Það er vissulega rétt að mikil hætta er á alvarlegri heimskreppu. En Ísland án bandamanna með ónýta krónu mun augljóslega fara miklu verr út úr þeim hildarleik en nágrannaþjóðirnar. Það er óvarlegt að treysta á að okkur verði bjargað vegna smæðar. Okkur gæti eins verið fórnað vegna smæðar.

Það er undarlegt að við skulum ekki spyrja okkur hvers vegna við sjáum okkur ekki hag í ESB-aðild úr því að flestar ESB-þjóðirnar gera það. SDG hefur þó sagt að aðstæður hér séu allt aðrar og þess vegna henti ESB-aðild okkur ekki.

Vissulega er sérstæða okkar mikil. En hún er þess eðlis að við höfum meiri þörf fyrir aðild en flestrar ef ekki allar ESB-þjóðirnar. Þeirra gjaldmiðill var nógu stór til að vera nothæfur.

ESB-aðild er hins vegar eina leiðin fyrir okkur til að fá nothæfnn gjaldmiðil sem verður okkar eiginn með öllu því sem því fylgir.

Vegna gengdarlauss áróðurs ESB-andstæðinga halda enn margir að við missum fiskimið og aðrar náttúruauðlindir með ESB-aðild. Reglan um hlutfallslegan stöðugleika tryggir okkur hins vegar allar aflaheimildir í íslenkri landhelgi. Og náttúruaðlindrnar verða áfram okkar skv lögum ESB.

Það er auðvelt að færa rök fyrir því að ESB aðid leiði til betri samkeppnishæfni, fleiri og fjölbreyttari atvinnutækifæra, meiri stöðugleika, miklu lægri vaxta, engrar verðtryggingar og betri lífskjara. Hvað er þá að óttast?

Ásmundur (IP-tala skráð) 5.3.2015 kl. 17:00

7 Smámynd: Vésteinn Valgarðsson

Gallinn við íslensku krónuna er að annarri hverri krónu er jafnharðan stolið af okkur, beint og óbeint, í vexti til fjármálaauðvaldsins.

Það getur verið að íslenskir kjósendur kjósi afglapa, og afglapar hafa vissulega leitt okkur fram af nokkrum bjargbrúnum, en það þýðir ekki að betra sé að láta ólýðræðislegar stofnanir í útlöndum leiða sig fram af bjargbrún. Svarið er auðvitað að Íslendingar fari að velja sér gæfulegri forystumenn.

Eins og mig. cool

Vésteinn Valgarðsson, 6.3.2015 kl. 00:20

8 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Ásmundur Takk fyrir þetta. Það eru nú reyndar fleiri en 3 -4 ríki í "Sambandinu" í vandræðum. Á Eurosvæðinu eru aðeins 19 ríki, og af þeim hafa 5 þurft stórtæka aðstoð og eitt þeirra er með "gjaldmiðilshöft".

En það þýðir ekki að fleiri ríki eigi ekki í vandræðum.

Það eru "allir" (ég hef það innan gæsalappa, vegna þess að ég er ekki viss um þig) sammála um að Ítalíu á í miklum erfiðleikum, að hlutirnir horfi stöðugt til verri vegar í Frakklandi, Slovenia hefur átt í stórum vandræðum með fjármálageirann, slíkar áhyggjur aukast í Austurríki og Finnland hefur sömuleiðis átt í vaxandi erfiðleikum. Skuldastaða Belgíu þykir einnig mikið áhyggjuefni. Eystrasaltslöndin hafa einnig öll átt í erfiðleikum, en þau hafa ekki verið lengi á Eurosvæðinu, en voru fastgengislönd.

Hvað eru þau mörg löndin á Eurosvæðinu sem glíma ekki við verðhjöðnun? 2 eða 3? (ég man ekki töluna nákvæmlega).

Atvinnuleysi á Eurosvæðinu er á milli 11 og 12% og skelfilegar tölur í einstaka löndum.

Það er óskandi að QE "blitsið" virki til að koma efnahagslífinu af stað. Ef það gengur ekki veit ég ekki hvað á til bragðs að taka.

20% gengisfall eurosins ætti sömuleiðis að hjálpa upp á ástandið og veitir löndunum svo sannarlega ekki af. Þó styður fallið mest við Þýskaland, sem þurfti síst á því a halda, en þannig er það innan myntbandalags.

Lágir vextir í "Sambandslöndum" (og sum staðar neikvæðir), eru til komnir vegna þess hve efnahagsástandið er bágborið. Það er ekkert sem þjóðir sækjast eftir.

Möntrurnar þínar hljóma ágætlega, en þær endurspegla ekki raunveruleikann víðast um "Sambandið". Atvinnuleysi þýðir ekki betri lífskjör, né hefur stöðugleiki einkennt "Sambandið". Forystumenn þar tala enda um að ráðast þurfi gegn "óstöðugleika" innan "Sambandsins" og sérstaklega Eurosvæðisins.

Það er ekki tilviljun að Eurosvæðið er gjarna talið mesta ógn í efnahagslíf heimsins alls.

Íslenska ríkið var alls ekki gjaldþrota, enda skuldir þess ekki svo miklar við hrun. En staðan á þjóðarbúinu í heild var auðvitað langt frá því góð, en það er í sjálfu sér allt önnur saga.

Og þegar talað er um allar skuldirnar þá verður líka að líta til þess hvað mikið hefur verið notað af lánunum. Og þegar talað er um vaxtagreiðslurnar, verður líka að líta til vaxtanna sem Íslendar fá af fé sem þeir borga vexti af.

Við höfum oft rætt um "hlutfallslega stöðugleikann" áður og óþarfi að endurtaka það. Þú veist það jafn vel og ég að það er ekkert sem bakkar hann upp til framtíðar. Hann er í raun orðin tóm og hluti af "rússibanaferðinni" sem ég minntist á.

Euroríkin standa sum ágætlega. En það er þarft að hafa í huga að þau voru áður á meðal best stæðu og ríkustu þjóða heims. Hefur euroið bætt stöðu þeirra?

Hefur t.d. Frakklandi vegnað betur en Bretlandi? Ég hygg að flestir myndu segja nei.

Viðskipti á milli t.d. Bretlands og Þýskalands hafa vaxið hraðar en á milli Frakklands og Þýskalands. Efnahagur Bretlands hefur vaxið hraðar en Frakklands.

Það er ekki nema einni þjóð sem hefur verið ríkulega "umbuanað" í "Euroskólanum" og það er Þýskalandi.

Eins og ég hef áður sagt, ef allar þjóðir breyta sér í Þýskaland, á euroið ekki í neinum vandræðum.

G. Tómas Gunnarsson, 6.3.2015 kl. 08:54

9 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Vésteinn Takk fyrir þetta. Lán eru dýr, bæði fyrir þjóðir og einstaklinga. Það hefur kostið þjóðir heims alltof mikið fé að lifa um efni fram.

Það er merkilegt að það sem þú og Ásmundur virðist eiga sameiginlegt er hve lítið álit þið virðist hafa á almenningi og kjósendum.

Þeir kjósi helst "fífl og hálvita", eða þaðan af verra.

Og báðum þykir ykkur stórskrýtið að ykkar leiðsögn skuli vera hafnað.

Hér kemur svo Glitnisbroskall til að létta skrifin :-)

G. Tómas Gunnarsson, 6.3.2015 kl. 08:56

10 identicon

G. Tómas, svona er hægt að tala um flest önnur lönd. Þar er ástandið jafnvel mun verra þó að það sé ekki jafnmikið í umræðunni vegna skorts á gegnsæi þar og vegna þess að ESB er undir smásjá.

Það segir hins vegar sína sögu að þau þrjú lönd þar sem atvinnuleysi er mest í Evrópu eru öll utan ESB og að þau fjögur lönd þar sem atvinnuleysið hefur verið minnst i ESB eru öll á evrusvæðinu.

Staða Íslands er svo algjörlega sér á parti. Fjármagnshöftin á Kýpur eru barnaleikur í samanburði við gjaldeyrishöftin hér. Greiðslubyrði af skuldum er langmest hér auk þess sem Ísland er eina EES-landið sem er enn með miklu lægri landsframleiðslu í evrum en fyrir hrun (2005).

Ásmundur (IP-tala skráð) 6.3.2015 kl. 10:00

11 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Ásmundur Takk fyrir þetta. Það er alveg rétt að ástandið í efnahag heimsins er langt í frá gott.

Þegar þú talar um atvinnuleysi ertu þá að hrósa þér af því að það sé minna í hæstu "SambandslönduM", heldur en Kosovo, Bosníu og Makedóníu, eða hvaða lönd erut að tala um? Gott ef að Serbía er ekki líka yfir "Sambandslöndum" í atvinnuleysi.

Fjármagnshöftin á Kýpur voru harðari en á Íslandi, enda voru takmörk fyrir því hvað mætti taka út úr hraðbanka af lögeyri eyjarinnar og önnur takmörk sett á innalandsnotkun.

Það að bera saman framleiðslu í erlendum gjaldeyri hefur sín takmörk. Framleiðsla Eurolandanna er t.d. ekki að minnka á nýliðnu ári, þó að hún hafi líklega minnkað í dollurum. Eins og við höfum oft rætt þá ætti það líklega frekar að hjálpa Eurolöndunum og styrkja samkeppnishæfi þeirra.

P.S. Þeim fjölgar með hverjum deginum sem lýsa yfir efasemdum með "Sambandið" og euroið.

Nú síðast Árni Páll. Verður þú ekki að bjóða þig fram til formanns SF til að halda á loft merkinu?

G. Tómas Gunnarsson, 6.3.2015 kl. 11:38

12 identicon

Gjaldeyrishöftin á Íslandi eru kerfislæg og því mikli alvarlegri en fjármagnshöftin Kýpur.

Meðan krónan er gjaldmiðillinn verða alltaf að vera gjaldeyrishöft í einhverri mynd. Nú er stefnt að því að afnema höftin. Það verður hins vegar ekki gert nema með nýjum höftum. Útgönguskattur er ein tegund hafta.

Höftin á Kýpur stafa hins vegar af að Kýpurbúar lokkuðu til sín vafasamt fé sem gat horfið þegar minnst varði. Þeir geta því sjálfum sér um kennt.

Höftin þar hafa ekkert með evruna að gera nema að því leyti að það þurfti traustan gjaldmiðil til að lokka féð til landsins.

Meðan Kýpurbúar hafa smám saman verið að aflétta höftum hefur staðan bara versnað hér enda safnast upp sífellt meira fé sem vill út.

Afstaða Árna Páls til ESB-aðildar hefur nákvæmlega ekkert breyst. Hann lagði aðeins áherslu á að málið væri í stöðugri skoðun hjá honum og niðurstaða hans væri alltaf sú að "langflest mæli með því að aðild að ESB sé farsæl leið fyrir Ísland" svo að orðrétt sé haft eftir honum.

Stærsta ástæða Árna fyrir því að hann aðhyllist ESB-aðild er að Ísland væri skelfilegur staður án ESB-aðildar.

Þetta er einmitt það ég hef verið að leggja áherslu á og færa rök fyrir hér undanfarið.

Ásmundur (IP-tala skráð) 6.3.2015 kl. 15:30

13 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Ásmundur Takk fyrir þetta. "Vafasamt" fé hefur alltaf átt sér nokkurn samastað á Kýpur, löngu áður en landið gekk í "Sambandið" eða tók upp euro. En innstreymið þangað jókst mikið með "uppgangi" í Rússlandi, vegna þess hve greiðan aðgang að Kýpur Rússar áttu. Meðal annar vegna þess að Kýpur var eitt af fáum löndum lengi vel sem veitti Rússum aðgang án visa.

En það er alls ekki útséð um hvort að krónan verði aftur án hafta eður ei.

Og það er ekki rétt að "snjóhengjan" hafi aukist, Seðlabankinn segir hana hafa minnkað, en þó er í raun engan veginn hægt að fullyrða hvað mikið fé vill út.

Það kemur ekki í ljós fyrr en byrjað verður að létta á höftum.

Og auðvitað er útgönguskattur ákveðin tegund hafta, enda líklega hugsuð sem tímabundin aðgerð ef af verður.

En Kýpur hefur vissulega verið að aflétta höftum, það má til dæmis nota ávísanir innanlands án takmarkana og takmörkunum á kredit og debet kortum hefur verið aflétt.

Nokkuð sem var í raun aldrei á Íslandi, alla vegna ekki svo ég heyrði af.

En gjaldeyrishöftin hafa heldur ekki verið svo svakalega ströng á Íslandi, þó að vissulega séu þau bagaleg.

En hvernig er atvinnuleysið á Kýpur?

Hvernig gengur Kýpur að rífa sig af stað?

G. Tómas Gunnarsson, 6.3.2015 kl. 16:00

14 identicon

Kýpur er auðvitað illa sett ekki bara vegna fjármagnshaftanna heldur einnig vegna mjög náinna tengsla við Grikkland. Það er því fjarri því að vera dæmigert ESB-land.

Það er rétt að telja það fé, sem færi út ef ekki væru höft, sem sjóhengju. Þetta er td mörg hundruð milljarðar sem lífeyrissjóðirnir hefðu varið í kaup á erlendum verðbréfum og munu verja til þess eftir að höftum hefur verið aflétt.

Ástandið er því dæmt til að versna með hverju árinu. Fjárfestingarleið Seðlabankans vegur ekki upp á móti þessari viðbót.

Það gengur ekki að hafa krónu án hafta. Vegna smæðar krónunnar fara vogunarsjóðir létt með að keyra gengi hennar niður til þess eins að græða á því. Þeir eru engar góðgerðarstofnanir sem láta slík tækifæri sér úr greipum ganga.

Fáeinum vikum eða mánuðum fyrir hrun var haft eftir fulltrúa amerísks vogunarsjóðs, sem hér var staddur, að hann ætlaði að verða frægur fyrir að hafa lagt íslenskt efnahagslíf í rúst með því að keyra gengi krónunnar niður.

Ásmundur (IP-tala skráð) 6.3.2015 kl. 17:57

15 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Ásmundur Þakka fyrir þetta.  Og dæmigerða Eurolandið er?

Það er einmitt málið, öll þessi ólíku lönd eiga í slíkum vandræðum með að deila gjaldmiðli, að það mun alltaf verða vandræði.

Sem hafa nú verið í u.þ.b. 7 ár, og langt í að sjáist fyrir endan á þeim.

Það er í sjálfu sér engin leið að vita hvað mikið fé vill út, þegar slakað verður á höftunum.

Það fer ekki síst eftir því hvernig fjárfestingum og atvinnuuppbyggingu verður háttað á Íslandi á næstu árum, hvað mikið verður um erlendar fjárfestingar, hvernig fjárfestingar bjóðast og hvernig viðskiptajöfnuði verður háttað.

Sagan sem þú vitnar til, er ágætis "flökkusaga", sem er sögð hafa heyrst á bar í Reykjavík. Það gerir hana í sjálfu sér ekkert verri.

Þú mannst þá líklega hvað hann heitir, fyrst hann varð svona "frægur"?

En Kýpur er svo langt frá því að vera eina landið sem á í verulegum vandræðum.

Eins og Juncker minnti Spánverja á, þá væri rugl að tala um að kreppan væri horfin, þegar atvinnuleysi væri í kringum 25%.

Það er alveg rétt.

Það er alveg ljóst að Íslenskt efnahagslíf á við marga erfiðleika að stríða, en það er engin lausn að ganga inn í "Samband" sem stríðir við það sem lítur út fyrir að ætla að verða "endalaus" kreppa.

G. Tómas Gunnarsson, 6.3.2015 kl. 18:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband