Að draga fé í dilka

Enn og aftur er bygging mosku í Reykjavík komin í umræðuna, nú vegna loforðs um veglega peningagjöf til uppbyggingarinnar.

Og nú bregður svo við að fjölmargir, sem hafa jafnvel verið fylgjandi byggingunni, rjúka upp til handa og fóta. Finnst þetta óforsvaranlegt og peningarnir "vondir".

Einhvern veginn fannst mér það liggja nokkuð fyrir að peningarnir til byggingar mosku kæmu erlendis frá, því það blasti einhvern veginn við að 1000 manna söfnður eða svo, hefði ekki fjárhagslegt bolmagn til þess á eigin vegum.

Og líklega er þetta hvorki í fyrsta eða síðasta skipti sem erlent fjármagn kemur til byggingu bænahúsa á Íslandi.

Persónulega finnst mér til dæmis afar ólíklegt að Rússesk rétttrúnaðarkirkja verði byggð á Íslandi án stuðnings erlendra aðila. En að svo komnu máli ætla ég ekki að fullyrða slíkt, en vissulega er það nokkuð sem fjölmiðlar gætu kannað.

Það undarlegasta sem ég hef heyrt er krafa borgarstjóra um að "málið verði rannsakað".

Ætlar borgin að fara að "draga fé í dilka"? Útbúa lista yfir ríki og samtök sem mega ekki styrkja starfsemi í Reykjavík? Til hvaða bragða hyggst borgin taka ef komist er að því að peningarnir komi frá "óæskilegum" aðilum?

Staðreyndin er sú, að trúfrelsi ríkir á Íslandi. Það ríkir ekki bann við því að trúfélög (að ég best veit) þiggi peninga frá erlendum aðilum.

Samtök múslima eru því í fullum rétti til að taka við peningunum.

En boltinn er hjá þeim. Vilja þeir taka við þessu fé? Ég efa ekki að það kemur þeim að góðum notum við húsbygginguna. En gæti gert þeim erfiðara fyrir á annan máta.

En enn og aftur komum við að því að fjárframlag sem þetta á sér ótal fordæmi um víða veröld og á ekki að þurf að koma neinum á óvart.

Það sem hefur gerst í "útlöndum" getur gerst á Íslandi. Og gerir það oft.

Þó að einhvern tíma í framtíðinni sé hægt að gera sér vonir um að til verði eitthvað sem gæti kallast "Íslenskt Islam", hygg ég að svo sé ekki í dag.

Það eru allar líkur á því að einhvern daginn komi til Íslands það sem oft er kallað "haturspredikari". Ekki endilega á vegum þessa trúfélags, eða jafnvel nokkurs sem er starfandi í dag.

Það er engin ástæða til þess að fyllast eða ala á ótta, en það er heldur engin ástæða til þess að stinga höfðinu í sandinn.

En það væri þarft að velta því fyrir sér hvernig Íslendingar vilja bregðast við, ef til dæmis grunur leikur á því að starfsemi trúfélags stangist á við lög eða stjórnarskrá?

Og hvernig spilast þá togstreita í stjórnarskránni, milli trúfrelsis og annara mannréttinda?

 

 

 


mbl.is Vissi ekki af fjármagninu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Að sjálfsögðu er rétt að draga fé í dilka. Æ sér gjöf til gjalda.

Gjafir geta skuldbundið eða beitt þiggjandann þrýstingi til að fara út á vafasamar brautir.

Gott dæmi um þetta er þegar fyrirtæki eru að bera stórfé á stjórnmálaflokka í von um fyrirgreiðslu. Það er ekki að ástæðulausu að slíkar gjafir eru háðar takmörkunum.

Salman Tamini, formaður félags múslima, hefur af þessum ástæðum hafnað gjöfinni.

Ásmundur (IP-tala skráð) 6.3.2015 kl. 10:22

2 identicon

Gódan dag, mjög mikilvaegar upplýsingar -> http://en-albafos.blog.cz 

albafos (IP-tala skráð) 6.3.2015 kl. 10:28

3 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Ásmundur  Takk fyrir þetta. Að sjálfsögðu ákveður félag múslima hvort það tekur við þessu fé eður ei.

En það eru engin lög sem banna slíkt. Þess vegna sé ég ekki hvað opinberir aðilar, ríki eða borg eiga eða geta blandað sér í slíkt?

Eru einhver lög sem banna slíkt?

Hefur ekki erlent fé komið til trúfélaga áður? Er ekki líklegt að það gerist aftur?

Auðvitað er hægt að setja lög sem banna slíkt, en það hlyti þá að gilda um öll trúfélög.

En það er rétt að undirstrika að sjálfsögðu liggur þessi ákvörðun hjá múslimum sjálfum.

Það er sjálfsagt og eðlilegt að hvetja þá til að hafna framlaginu. En ég held að það sé eins langt og opinberir aðilar geti gengið.

En hins vegar held ég að flestir skynsamir menn hafi fyrir löngu séð að 1000 manna söfnuður eins múslimar standi ekki undir rísahúsi á eigin spýtur. Því var lang líklegast að erlent fé kæmi til sögunnar.

G. Tómas Gunnarsson, 6.3.2015 kl. 11:07

4 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Í viðtali segist formaður félags múslima á Íslandi ekki hafa fengið bréf eða boð um þetta fé. Gerir reyndar ráð fyrir að heyra í sendiherranum þegar hann kemur til landsins. Formaðurinn er nefnilega staddur í Bretlandi, að vinna hugi manna þar til að styrkja byggingu mosku í Reykjavík.

Hverjir skildu annars vera helstir til að hlusta á hann um slíka bón, þar ytra? Ætli mesta von hans til fjárföflunnar sé ekki hjá trúbræðrum sínum þar? Hver er þá munurinn, að taka við fé beint frá Saudi Arabíu eða taka við því eftir að það hefur viðkomu í Bretlandi?

Hitt er svo annað mál, að staðsetning fyrirhugaðar mosku í Reykjavík er til háborinnar skammar. Af öllu því landsvæði sem borgin býr yfir, er með öllu óskiljanlegt að þessi staðsetning hafi orðið ofaná!!

Gunnar Heiðarsson, 6.3.2015 kl. 12:40

5 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Gunnar Bestu þakkir fyrir þetta. Auðvitað skiptir máli frá hverjum féð er og hvernig það er markað.

Frá hvaða landi er ef til vill síður mikilvægt.

Og vissulega eru til ýmsar gerðir af fylgismönnum Allah, eins og annara trúarbragða. Einhvern veginn virðast þeir sem eru þó frekar harðir á sinni línu hafa meira fé og hafa sig meira í frammi, svona svo að ég taki eftir alla vegna.

En hins vegar finnst mér ótrúlegt þegar menn eru að stíga fram nú og láta eins og þetta komi á óvart.

Þetta er afar algengt í fjármögnunum á moskum, og ekki síður algengt við byggingu bænahúsa víðast um heim.

Trúboð er ekkert sem er nýfundið upp.

En eins og ég sagði áður, er þetta ákvörðun félags múslima, ég get ekki séð að nokkur lagaleg vandkvæði séu fyrir þá að taka við peningunum.

Ef til vill gerði Ólafur Ragnar þeim nokkurn grikk, þegar hann tilkynnti þetta svona opinberlega.

Það  má velta því fyrir sér hvort það er tilviljun?

G. Tómas Gunnarsson, 6.3.2015 kl. 13:26

6 identicon

Að sjálfsögðu munu fyrst og fremst múslímar, ef ekki eingöngu, styrkja byggingu mosku á Íslandi. En það er alls ekki sama um hvaða múslima er að ræða.

Ef byggja ætti kirkju í Reykjavík og það vantaði fé til þess, væri það ekki vel til fundið að þiggja 40% af byggingarkostnaðinum frá Hell's Angels.

Virðingaverðir múslímar vilja ekki gerast þjófsnautar eða þiggja fé ríkja sem hafa orðið uppvís að óverjandi harðræði og mannréttindabrotum.

Það færi betur á því að olíuauði Saudi-Arabíu væri dreift meðal þegna landsins sem flestir búa við mjög slæm kjör og mannréttindabrot þrátt fyrir allan auðinn.

Málið snýst ekki um það hvort það sé löglegt að þiggja illa fengið fé heldur hvort það sé verjandi fyrir þá sem vilja gæta sóma síns.

Staðsetning moskunnar er ágæt í augum þeirra sem vilja að Reykjavík sé frjálslynd borg sem vill leggja áherslu á að hún gerir ekki upp á milli trúarbragða.

Staðsetningin mun ekki keppa við Hallgrímskirkju hæst á Skólavoöruhlolti. Það er því engin hætta á að múslimum verði gert of hátt undir höfði með þessari staðsetningu.

Ásmundur (IP-tala skráð) 6.3.2015 kl. 14:37

7 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Ásmundur Takk fyrir þetta. Og hver ætlar svo að "stimpla" góða múslima og "slæma" múslima?

Ætlar Dagur og Reykjavíkurborg að taka það að sér? Og Endurskoða bóhald í kringum moskuna og sjá til þess að ekkert "slæmt" fé sé þar?

Þú telur svo ef til vill upp þau ríki múslima þar sem jafnrétti allra þegna er haft í fyrirrúmi, óháð trúarbrögðum, kyni, kynhneigð o.s.frv.

G. Tómas Gunnarsson, 6.3.2015 kl. 14:48

8 Smámynd: Jóhann Kristinsson

Ekki veit ég hvaðan Ásmundur hefur þær upplýsingar að þegnar Sádi Arabíu séu illa staddir fjárhagslega.

En um almenn mannréttindi tek ég undir með Ásmundi. 

Kveðja frá Houston

Jóhann Kristinsson, 6.3.2015 kl. 16:04

9 identicon

 Það er ekkert sem bannar lán í erlendum banka, eða?

Islamick Bank of Britain lánar þessa peninga til verksinns og sérstaklega þegar trygging liggur fyrir (arabíska fjármagnið). Þá hafa mussarnir á Íslandi ekki þegið nein lán frá Saudi! Einfalt, enda er Sverrir í London núna, sem er ALGJÖR TILVILJUN, eða hvað?

Valdimar Jóhannsson (IP-tala skráð) 6.3.2015 kl. 21:01

10 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Jóhann. Takk fyrir þetta.

@Valdimar Takk fyrir innleggið. Það er varla nokkuð sem bannar lántöku í erlendum banka, þó að endurgreiðslufyrirkomulag og annað slíkt þurfi líklega samþykki Seðlabanka, vegna gjaldeyrishaftanna.

En ég hef enga trú á því að þeir ætli að taka lán, þeir safna þessu fé erlendis og fara líklega létt með það.

En það er ekkert sem bannar erlent fé til reksturs og uppbyggingar safnaðarbygginga og hefur slíkt fé líklega komið til Íslands um langa hríð.

Íslendingar hafa líklega sömuleiðis oft sent út fé til erlendra safnaða, þó að ég þekki slíkt ekki mjög vel.

G. Tómas Gunnarsson, 6.3.2015 kl. 22:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband