Í góðsemi (pólitík) þar vega þeir hver annan

Það hefur verið nokkuð rætt um það að undanförnu að þessi eða hinn flokkurinn ráðist eingöngu á suma flokka og hlífi öðrum, nú eða að einstaka stjórnmálamenn verði fyrir "einelti" og eins og oft áður sýnist sitt hverjum.

Persónulega finnst mér þetta ekkert til að gera veður út af nema síður sé, mér finnst þetta allt svo rökrétt.

Það er til dæmis talað um að VG hamri á Framsóknarflokknum en skjóti ekki mikið á Sjálfstæðisflokkinn.  Ekkert þykir mér í sjálfu sér eðlilegra.  Þó að það hafi reyndar margoft komið fram að VG séu ósammála Sjálfstæðisflokknum í flestu, þá er það einfaldlega svo að möguleikarnir á því að snúa kjósendum Framsóknarflokksins til að kjósa VG eru margfaldir sé miðað við kjósendur Sjálfstæðisflokksins.  Það er einfaldlega staðreynd sem ekki er hægt að horfa fram hjá.

Það er engin tilviljun að VG er stærsti flokkurinn (í nýjustu skoðanakönnunum) í Norð-Austurkjördæminu, þar sem Framsóknarflokkurinn var stærstur áður.

Það sama gildir auðvitað um Sjálfstæðisflokkinn, hann á ekki mikla möguleika á því að heilla til sín kjosendur VG.

Það er eins með það sem sumir ganga svo langt að kalla "einelti" á stjórnmálamönnum.  Samfylkingin talar um slíkt gagnvart Ingibjörgu Sólrúnu. 

Það er einfaldlega svo að menn reyna að "höggva" þar sem þeir halda að það beri árangur.  Ég held að flestir myndu álykta að það hefði gengið bærilega hvað Ingibjörgu varðar.

Nákvæmlega sömu söguna var að segja með Halldór Ásgrímsson, nema hann fékk að mínu mati heldur harkalegri útreið, en hún virkaði.

Davíð Oddsson fékk líka að kenna á þessum meðulum, ekki minna nema síður sé.  Hann var vinsælasti stjórnmálamaður landsins, en líka einn sá óvinsælasti.  Því vissu andstæðingarnir að jarðvegurinn var til staðar.

Þannig gerast kaupin á pólitísku eyrinni, menn sækja þangað og á þá sem þeir þykjast sjá færi í.  Það er eðlilegasti hlutur og lyktar oft af "spuna" þegar verið er að reyna að fullyrða annað.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband