26.1.2015 | 15:42
Fjölmiðlafólk og stjórnmálaskoðanir
Rakst á blogg Brynjars Níelssonar á Pressunni í dag. Það er mjög fróðlegt og skemmtilegt, eins og reyndar oft áður.
Það fjallar Brynjar um tengsl hinn ýmsu fjölmiðlamanna og eigenda við hinar ýmsu stjórnmálahreyfingar.
Ég vil hvetja alla til að lesa pistilinn, og ég vona að mér fyrirgefist, en ég ákvað að birta hann í heild sinni hér að neðan:
Pólitískir og ópólitískir fjölmiðlamenn
Það var stórfurðulegt að fylgjast með ítrekuðum fréttum af nýjum ritstjóra DV, sem einn fjölmiðlamanna á landinu virðist þurfa að bera járn til að hreinsa sig opinberlega af tengslum við stjórnmálaflokk.
Það er nefnilega alkunna að ýmsir fjölmiðlamenn, blaðamenn og ritstjórar, hafa tengsl við stjórnmálaflokka hér á landi, verið í framboði eða sinnt trúnaðarstörfum fyrir þá. Nú síðast var Heiða Kristín Helgadóttir ráðin til starfa á Fréttastofu 365. Þar mun hún hafa umsjón með vikulegum þjóðmálaþætti fréttastofu, sem hefur göngu sína í febrúar auk þess að sinna fréttaskrifum. Heiða er kunn af störfum sínum fyrir Bjarta framtíð og Besta flokkinn og talin einn helsti stefnu- og hugmyndasmiður flokkanna eða flokksins, hvernig sem menn kjósa að orða það.
Heimir Már Pétursson fréttamaður 365 var framkvæmdastjóri Alþýðubandalagsins þegar Samfylkingin var stofnuð og í framboði til embættis varaformanns Samfylkingarinnar 2005, þar sem hann beið lægri hlut fyrir Ágústi Ólafi Ágústssyni. Nýr fulltrúi ritstjóra DV er Jóhann Hauksson, upplýsingafulltrúi ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna. Það er athyglisvert að þeir sem nú gagnrýna stjórnmálatengsl nýrra ritstjóra DV á þeim grunni að talsmenn stjórnmálaafla megi ekki að hafa ítök í miðlinum skuli ekki hafa horn í síðu opinbers talsmanns núverandi stjórnarandstöðuflokka.Sömu sögu er að segja af eigendum fjölmiðla. Flestir fjölmiðlar hér á landi státa af eigendum sem hafa einhver tengsl við stjórnmálaflokka. Skinhelgi fyrrverandi eigenda og starfsmanna DV heldur t.d. ekki vatni þegar að þessu kemur. Það ágæta blað hefur aldrei verið eins óháð stjórnmálatengslum og margir vilja nú halda fram. Lilja Skaftadóttir, sem lengst af var meðeigandi Reynis Traustasonar að DV, var frambjóðandi Borgarahreyfingarinnar í kosningunum 2009 og sat í stjórn flokksins fram til ágúst 2010. Lilja átti á sama tíma 22% hlut í Smugunni, yfirlýstu flokksmálgagni Vinstri grænna, þar sem Þóra Kristín Ásgeirsdóttir núverandi fréttamaður 365 var ritstjóri. Smugan var meðal annars fjármögnuð af beinum framlögum þingmanna Vinstri grænna. Þau Reynir og Lilja keyptu DV af Hreini Loftssyni sem hefur alkunn tengsl við Sjálfstæðisflokkinn.
Nýir miðlar á markaðnum eru heldur ekki undanskildir tengslum við stjórnmálaflokka. Þannig eru tveir af eigendum Kjarnans þeir Ágúst Ólafur Ágústsson fyrrverandi varaformaður Samfylkingarinnar og Vilhjálmur Þorsteinson núverandi gjaldkeri Samfylkingarinnar og fyrirferðamikill skoðanamiðlari í umræðunni. Ágúst Ólafur var efnahagsráðgjafi ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur. Björt framtíð hefur einnig fyrrverandi meðlimi í fréttamennsku, t.d. þá Atla Fannar Bjarkarson sem ritstýrir Nútímanum var áður framkvæmdastjóri Bjartrar framtíðar og einn frambjóðenda Bjartrar framtíðar er Kjartan Atli Kjartansson fréttamaður 365. Sveinn Arnarsson, blaðamaður Fréttablaðsins, var kosningastjóri Samfylkingarinnar í NA-kjördæmi í síðustu alþingiskosningum.
Og úr því styrinn hefur snúist um DV má nefna að Kolbrún Bergþórsdóttir, hinn ritstjóri DV, var lengi þekkt af stuðningi sínum við Samfylkinguna og á sínum tíma vakti athygli yfirlýsing hennar um að rétt væri að segja sig úr flokknum í tengslum við Landsdómsmálið. Ekki er vitað hvort hún lét verða af því. En að minnsta kosti var hún ekki spurð um sín pólitísku tengsl. Þá má geta þess að Valur Grettisson, nýráðinn fréttamaður DV, er fyrrverandi kosningastjóri Samfylkingarinnar í Hafnarfirði, og María Lilja Þrastardóttir fyrrverandi fréttamaður DV (og áður 365) er fyrrverandi kosningastjóri Samfylkingarinnar í Reykjavík.
Snærós Sindradóttir fréttamaður 365 (og áður Smugunnar) er fyrrverandi formaður Ungra vinstri grænna í Reykjavík. Hún varð þekkt af því að vera einn þeirra aðgerðarsinna sem stóðu fyrir umsátri um ríkisstjórnarfund í Ráðherrabústaðnum í byrjun árs 2009. Aðalsteinn Kjartansson fréttamaður 365 (og áður DV) er fyrrverandi varaformaður ungra jafnaðarmanna í Reykjavík og með honum sat í stjórninni Sólrún Lilja Ragnarsdóttir gjaldkeri, nú blaðamaður á DV.
Ingimar Karl Helgason fyrrum frambjóðandi Vinstri grænna í Alþingiskosningunum 2013 og varaþingmaður flokksins er ritstjóri Reykjavíkur vikublaðs og þeir Björn Bjarnason og Styrmir Gunnarsson sem halda úti Evrópuvaktinni hafa báðir hafa mikil og augljós tengsl við Sjálfstæðisflokkinn. Flestir þekkja líklega líka tengsl eigenda og ritstjóra Morgunblaðsins við Sjálfstæðisflokkinn. Björn Ingi Hrafnsson eigandi Vefpressunnar sem rekur Pressuna, Eyjuna og DV, er fyrrverandi borgarfulltrúi Framsóknarflokksins og aðstoðarmaður Halldórs Ásgrímssonar formanns flokksins. Öfugt við aðra hefur verið fjaðrafok út af umsvifum Björns Inga á fjölmiðlamarkaði. Hvers vegna skyldi það vera?
Þetta er nokkuð langur listi og á honum eru mörg nöfn sem hafa verið áberandi í fréttaumræðunni upp á síðkastið, og sum mjög áberandi í stjórnmálaumræðu síðustu ára. Hér eru þó aðeins nefndir nokkrir þeirra fjölmiðlamanna sem hafa bein tengsl við stjórnmálaflokka, hafa starfað innan þeirra eða gegnt trúnaðarstörfum, og listinn er ekki tæmandi. Þess utan hafa jú allir einhverjar stjórnmálaskoðanir, sumir sterkari en aðrir. Það á eins við fjölmiðlafólk og aðra.Nú er það eitt af grunnatriðum lýðræðisþjóðfélags sé að stjórnmálaskoðanir fólks eigi ekki að ráða því hvar eða hvort það fær vinnu. Þrátt fyrir það virðist nú þykja þörf á sérmeðferð fyrir Eggert Skúlason fyrir alþjóð, krafist er opinberrar afneitunar.
Því liggur beint við að spyrja: Hverra krafa er það, að til þess að teljast trúverðugur blaðamaður á Íslandi þurfi fólk opinberlega að svara þessari spurningu neitandi:
Ert þú núna, eða hefur þú einhverntíma verið, félagi í Framsóknarflokknum?
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkur: Fjölmiðlar | Facebook
Athugasemdir
Xenophobia is the unreasoned fear of that which is perceived to be foreign or strange
Það er greinilega svo óvanalegt að framsóknarmaður komi nærri fjölmiðli að slíkt kveikir upp í mönnum X-Béphobi sem er útgáfa af xenphobiu.
Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 26.1.2015 kl. 17:45
@Bjarni Gunnlaugur Það er í þessu eins og öðru að mörgum þykir æskilegt að "réttsýnir" menn starfi á fjölmiðlum.
Þeir sem eru í öðrum flokkum geta ekki verið að sækjast eftir slíkum störfum nema í annarlegum tilgangi.
G. Tómas Gunnarsson, 27.1.2015 kl. 04:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.