23.1.2015 | 20:54
Þarft að einhver rannsaki
Nú ætla ég ekki að fullyrða neitt um hvað er til í þessum ásökunum Víglundar eður ei.
Ég hef heldur ekki haft tíma til að skoða þessi gögn, hef aðeins lesið "einfaldar fréttir".
En það er óskandi að einhver aðili fari í saumana á þessu máli. Ef ekki nefnd á vegum hins opinbera, þá einhver fjölmiðillinn, nú eða fleiri.
Það væri vel til fundið hjá fjölmiðlum að setja eða ráða menn í slíkt verkefni.
Það versta væri ef máið væri látið "hanga".
En nú er það auðvitað ekki ólöglegt að kaupa lánasafn á afföllum og reyna að innheimta hærra hlutfall. Það er í sjálfu sér eðlilegur "bissness".
Það kaupir engin lán með afföllum til þess að koma þeim sem afslætti til skuldaranna. En hvað matið er á safninu, fer auðvitað eftir því hvernig líkur teljast á heimtum.
En siðferðislega lítur það öðruvísi út, sérstaklega þegar ríkissjóður og fjármálaráðherra eru að véla um málin. Og ef til vill missti "Ísland" af miklum tækifærum þessu tengdu.
Það er líka nokkuð ljóst að væntingar um endurheimtur jukust nokkuð skarpt á ákveðnu tímabili, sem endurspeglaðist í hærra verði á þeim kröfum í þrotabúin, sem gengu kaupum og sölum.
En þótt segi megi að ekki sér ástæða til að rjúka upp til handa of fóta í hvert sinn sem einhver einstaklingur fullyrðir að um lagabrot eða óeðlilega að málum staðið, er þetta það stórt mál og virðist fylgja því mikið af skjölum og vel að verki staðið, að ég tel afar nauðsynlegt fyrir almenning í þetta fáist einhver botn.
Stórfelld svik og blekkingar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkur: Viðskipti og fjármál | Facebook
Athugasemdir
Það er alveg sama hvernig menn velta þessu fyrir sér, Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur var bara töf á brautinni til upprisu. Þar var Steingrímur J. Sigfússon hennar helst hornsteinn.
Þessi Kommúnista eitursveppur sem leifði sér að stela atkvæðum til að sækja um aðild að Evrópusambandinu, átti eftir nægt þrek til að þjóna lund sinni, vitleysu og mikilmennskubrjálæði.
Að ætla að þessi maður hefði ekki vogað sé að virkja allt afi sem honum hlotnaðist, er einfeldni.
Hrólfur Þ Hraundal, 24.1.2015 kl. 00:46
@Hrólfur Takk fyrir þetta. Það er alltaf fleira og fleira að koma í ljós sem orkar tvímælis, ef ekki þrí.
Þess vegna er nauðsynlegt að mínu mati að það verði farið í saumana á málinu eins og kostur er.
Víglundur er búinn að vinna mikið og frábært starf.
Þess vegna væri æskilegt að einhverjir færu yfir það, öfluðu jafnvel frekari gagna ef möguleiki er og kynntu málið frekar.
Mál sem þetta má ekki "hanga" yfir þjóðinni án niðurstöðu.
G. Tómas Gunnarsson, 24.1.2015 kl. 07:22
Þakka þér G. Tómas Gunnarsson, ekki bara fyrir þetta heldur og fyrir svo margt annað skírt mál. Til þess að dagur komi að verklokum, þá þarf að byrja, og heppilegt er að einhver hafi kunnáttu til verksins.
Víglundur á heiður skilinn en það er athyglisvert að hann er ekki rannsóknarblaðamaður. Er það virkilega þannig að Íslenskir rannsóknar blaðamenn og Íslenskir síþvaðrandi háskóla prófessorar geti ekki grafið til vinstri?
Mig grunar að svo sé og mig grunar að Íslenska réttarkerfið sé svo heillum horfið að lendi þetta mál þar inn að þá klúðri það þessu máli á svona tólf til tuttugu árum.
Réttarfarslega er ekki búið að sanna neitt í þessu efni en við sem vinnum á gólfinu og göngum eftir götunni vitum að þær eru viða maðkahrúgurnar.
Hrólfur Þ Hraundal, 24.1.2015 kl. 08:15
Sælir, Hvaða Íslenskur fjölmiðill er því starfi vaxinn að rannsaka svona mál á hlutlausn hátt?
Kristján B Kristinsson (IP-tala skráð) 24.1.2015 kl. 11:51
G. Tómas.
Það er vissulega rétt að kaup á kröfu með afföllum veitir skuldaranum ekki sjálkrafa rétt til samsvarandi lækkunar. Það er eðlilegur bissness, og þar hefur þú alveg rétt fyrir þér
Þeir gjörningar sem lýst er í gögnunum sem hafa nú verið birt, voru hinsvegar enginn eðlilegur bissness, heldur var um stjórnvaldsákvarðanir að ræða sem áttu að forða tjóni í stórfelldu bankahruni, og þar liggur munurinn. Fjármálaeftirlitið er auðvitað stjórnvald og þar sem það skipaði skilanefndirnar og veitti þeim ákvörðunarvald, þá teljast ákvarðanir þeirra vera stjórnvaldsákvarðanir.
Auk þess var þetta gert á kostnað ríkisins sem lagði nýju bönkunum til allt stofnfé þeirra.
Leynimakkið yfir öllu ferlinu hefur verið algjört. Til dæmis hefur upplýsingum um hvaða lán færðust á milli og á hvaða kjörum og hver voru skilin eftir í gamla bankanum, skipulega verið haldið leydnum. Skuldarar geta því ekki einu sinni verið vissir um að nýji bankinn sem nú er að innheimta eigi yfir kröfu á hendur sér. Með þessar kröfur hafa bankarnir svo í óteljandi mörgum tilvikum farið fyrir dómstólana og fengið skuldara dæmda til greiðslu á grundvelli sinna eigin fullyrðingar án þess að styðja það neinum raunverulegum sönnunum. Þannig hafa dómstólarnir sem eiga að verja réttindi fólk, í raun verið beittir blekkingum.
Jafnframt má nefna að fyrirmælum í ákvörðunum Fjármálaeftirlitsins um að skrá eigi nýja bankann sem nýjan kröfuhafa í þinglýsingarbækur hefur annaðhvort ekki verið fylgt, eða engin lán færð yfir. Það sést á því að í öllum tilvikum er gamli bankinn enn skráður í veðbókarvottorði. Engu að síður hafa nýju bankarnir látið selja þúsundir heimila nauðungarsölu á grundvelli veðréttinga sem þeir eiga ekki samkvæmt þinglýsingu.
Þetta síðastnefnda hefur verið látið viðgangast með bæði vitund og vilja stjórnvalda á hverjum tíma, og viðgengst enn, með vitund og vilja núverandi ríkisstjórnar, sem hefur verið gert fulljóst um þetta.
Það væri hægt að að halda lengi áfram að telja upp allt ólögmætið og sukkið sem þessir gjörningar hafa leitt af sér, en ég segi þetta gott í þetta sinn. Góðar stundir.
Guðmundur Ásgeirsson, 24.1.2015 kl. 12:57
@Hrólfur Takk enn og aftur. Við megum þó ekki fara að hljóma eins og við séum í einhverju "skjallbandalagi". LOL
@Kristján Blaðamenn eru í sjálfu sér aldrei hlutlausir þó að margir geri vel. En það eru til margar leiðir fyrir fjölmiðla að taka á málum sem þessu.
Þeir geta sett sína bestu menn í málið. Þeir gætu ráðið utanaðkomandi "tím" í að fara yfir þetta. Þeir gætu látið 2 "tím" skila niðurstðum, þannig að lesendur hefðu fleiri en eitt sjónarhorn til að meta þetta.
Ef viljinn er fyrir hendi er margt hægt. Það mætti til dæmis biðja hópa lógfræði og viðskiptanema að fara yfir dæmið. Gæfi þeim tækifæri til að vinna gott verk og ef til vill vekja á sér svolittla athygli.
Ef við ákveðum að ekkert sé hægt og engin geti, þá gerum við ekki neitt.
@Guðmundur Bestu þakkir fyrir þetta. Ég fagna alltaf þegar ég fæ innlegg sem þetta.
Sjálfur þekki ég ekki til málsins og hef ekki nema "yfirborðssýn" og hana takmarkaða.
Og þar sem ég hef varla tök né tíma til að fara yfir þetta allt, skjal fyrir skjal, fagna ég öllum frekari upplýsingum, en þó enn meira samantektum eða útskýringum á einstaka gjörningum.
Auðvitað er leynimakk illa séð í opnu samfélagi, en andstæða þess getur þó verið enn hættulegri, þegar bankaviðskipti og upplýsingar um þau eru annarsvegar.
En ég hélt að það kæmi alltaf fram á greiðsluseðli hver væri eigandi skuldar.
Ef að bankar selja eignir að kröfu einhvers sem ekkiá skuld, er eitthvað skrýtið að gerast, það er hafið fyir vafa, enda ætti án undantekinga að leggja fram frumrit skuldabréfs, eða sambærilegar sannanir fyrir því að gerðarbeiðandi eigi kröfu á þann sem fyrir gerðinni verður.
En þitt innlegg sannfærir mig enn frekar að rannsóknar er þörf og er alger nauðsyn.
Ef til vill þurfa Íslendingar að efna til hópfjármögnunar ... lol
G. Tómas Gunnarsson, 24.1.2015 kl. 14:11
Sæll aftur.
Ég hef sjálfur orðið persónulega vitni að fjölda tilfella þar sem nauðungaruppboð fara fram á grundvelli ljósrits en ekki frumrits. Í eitt skipti sem ég þekki til var það meira að segja svo gróft að það voru engir pappírar lagðir fram heldur bara boðið upp, meira að segja gegn mótmælum skuldarans. Nokkur svona tilfelli hafa verið tekin upp og myndbönd af þeim sett á YouTube þar sem hægt er að sannreyna að ég er ekki að skálda.
Þú segir að þetta þurfi að rannsaka frekar og upplýsa, og er ég alveg sammála því, enda er það órjúfanlegur hluti af starfi mínu.
Hugmynd þinni um hópfjármögnun tek ég fagnandi, og vil benda þér á að það hefur nú þegar verið efnt til nokkursskonar hópfjármögnunar, með því að stofna samtök sem heita Hagsmunasamtök heimilanna. Tilgangur þeirra er meðal annars að safna fé til að standa straum af vinnu við að rannsaka, upplýsa og greina þessi mál, svo hægt sé að nota þá vitneskju sem þannig fæst sem hjálpartæki til að berjast fyrir réttindum almennings og knýja fram þær leiðréttingar sem eru bæði nauðsynlegar og réttlátar.
Hér eru upplýsingar um hvernig hægt er að leggja þeim lið:
http://www.heimilin.is
Reikningurinn er: 1110-26-5202 kt. 520209-2120
Guðmundur Ásgeirsson, 24.1.2015 kl. 14:58
@Guðmundur Ég er alls ekki að rengja þig. Sjálfur hef ég ekki búið að Íslandi all nokkuð á annan áratug, þannig að ég fylgist með úr fjarlægð, gengum fjölmiðla og frásagnir fjölskyldu og vina.
Hefur einhver reynt að leita réttar síns á þeirri forsendu að gögn séu óljós og frumgögn vanti?
Þó að það sé í sjálfu sér aukaatríði, skil ég þá rétt að þu vinnir hjá HH við að rannsaka þessi mál, eða hvar fer þín rannsóknarvinna fram?
Ég mun vissulega tékka á heimasíðunni, hef reyndar heyrt af samtökunum áður, en aldrei kynnt mér þau sérstakalega.
G. Tómas Gunnarsson, 24.1.2015 kl. 15:19
Hér er svo umfjöllun um útvarpsþáttin "Vikulokin" í DV. Þar er fullyrt að engin gögn styðji fullyrðingar Víglundar.
En samt mál lesa í fréttinni þá skoðun að nauðsynlegt sé að rannsaka málið og það sé í raun ekki síður mikilvægt fyrir þá sem eru ásakaðair.
Ég held að hægt sé að taka undir það.
http://www.dv.is/frettir/2015/1/24/segja-engin-gogn-stydja-thungar-asakanir-viglundar/
G. Tómas Gunnarsson, 24.1.2015 kl. 15:49
Nei, ég tók það alls ekki eins þú værir að rengja mig. :)
Já það er rétt ályktað, ég starfa fyrir HH í 30% starfshlutfalli, auk þess sem ég legg fram talsvert mikla sjálfboðavinnu umfram það fyrir samtökin. Hluti af því starfi eru einmitt rannsóknir og greining, við höfum til dæmis komist yfir og birt umtalsvert magn af gögnum um starfsemi bankanna. Þrátt fyrir að við höfum ávallt og ítrekað reynt að koma þeim gögnum og upplýsingum á framfæri við fjölmiðla en af einhverjum ástæðum hafa þeir sýnt okkur talsvert fálæti. Kannski það fari að breytast núna þegar kemur í ljós að nánast allt sem við höfum haldið fram um þessi mál er rétt.
Þú spyrð hvort einhver hafi reynt að leita réttar síns á grundvelli þess að frumskjöl hafi vantað. Svarið við því er já, einn sem margir kannast við heitir Sturla Jónsson, svo dæmi sé nefnt. Því miður hefur hingað til verið mjög erfitt að fá dómstóla til að taka slík atriði til greina, þeim virðist allt of tamt að líta þannig á að bankar hafi alltaf réttinn sín megin og að skuldarar sem taka til varna séu bara að reyna að komast hjá því að borga sínar skuldir. Þó að svo sé kannski í sumum tilfellum þá er það samt alls ekki í öllum, og með þeim málaferlum sem standa núna um verðtryggðu lánin virðist sem dómarar séu aðeins að byrja að átta sig á því að skuldarar geta átt einhvern rétt líka. Lánið sem um ræðir í máli félagsmanna í HH er til dæmis í fullum skilum og þau eru ekki að andmæla skuldinni heldur vilja einfaldlega fá hana færða í löglega stöðu.
Bara til að sýna hversu arfavitlaust dómaframkvæmdin hefur verið þá féll dómur í Hæstarétti rétt fyrir jól þar sem var beinlínis talið að það skipti ekki máli þó að lægi fyrir í málinu að sá samningur sem um var deilt væri ekki einu sinni til! Einnig féllu tveir héraðsdómar í fyrra þar sem var ekki dæmt eftir lögum heldur því sem stóð á einhverjum pappírum sem banki hafði sjálfur látið prenta og voru óundirritaðir. Stundum fær maður á tilfinninguna að dómstólar telji sér nánast heimilt að taka sér skáldaleyfi í svona málum, en eins og áður sagði er það eitthvað sem þarf að breyta og vonandi tekst okkur það áður en réttarríkið verður ónýtt.
Guðmundur Ásgeirsson, 24.1.2015 kl. 16:39
Takk fyrir ábendinguna um þáttinn Vikulokin.
Athugaðu nú vel úr hvaða átt þessi málflutningur kemur, þar sem er reynt að gera lítið úr málflutningi Víglundar. Það er að segja frá aðilum sem eru beinlínis á móti því að íslensk heimili fái skuldir sínar leiðréttar og vildu í ofanálag láta þau axla ólöglega ábyrgð vegna Icesave.
Það kemur varla á óvart að sömu aðilar skuli núna vilja gera lítið úr þessu máli, að sem er mikilvægt er að fólk myndi sér sjálfstæða skoðun.
Forsætisráðherra hefur þegar lýst því yfir að rétt sé að þetta verði rannsakað, og það er það sem skiptir máli, að upplýst verði um stofnun nýju bankanna. Þannig væri vonandi hægt að komast nær sannleikanum.
Rannsóknarskýrslan um bankahrunið var ágæt, en hún náði hinsvegar bara yfir starfsemi gömlu bankanna fram að hruni og tók því ekki til stofnunar nýju bankanna. Það er jafn brýnt að fá slíka rannsókn á því ferli og vonandi stendur forsætisráðherra við yfirlýsingar sínar um það.
Guðmundur Ásgeirsson, 24.1.2015 kl. 17:03
@Guðmundur Enn og aftur þakkir, ég hef ekki fylgst með máli Sturlu, þó að ég hafi vissulega heyrt af honum.
Er einhver niðurstaða komin í það?
En það er líka rétt að þó að ég fylgist aðeins með úr fjarlægð, þá verð ég óneitanlega var við vaxandi vantrú á dómstólakerfinu.
Og það er óneitanlega óþægilegt vandamál.
Mikið alvarlegra í sjálfu sér en vantraust á þingi eða stjórnmálamönnum. Því þingmenn eru kosnir á fjögurra ára fresti.
En dómstólarnir hreyfast á "hraða snigilsins", eins og þeir eiga raunar að flestu leyti að gera.
En ef "samfélagið" hættir að trúa að réttlætið finnist hjá dómstólum, hverfa undirstöðurnar.
Það er eðilegt að mismunandi sjónarmið séu uppi varðandi ásakanir Víglundar. Og vissulega tengjast menn hver öðrum á mismunandi hátt og hafa mismunandi aðgang að mismunandi sjónarhornum.
Það gildir um alla, líka stjórnmálamenn og ekki síður fjölmiðlafólk.
En einmitt þess vegna er áríðandi að eitthvað verði gert í þessu máli og ekki væri verra að fá fleiri en eitt sjónarhorn.
Það er aldrei til neinn stóridómur, Rannsóknarskýrslan var fín en það gildir einnig um hana.
G. Tómas Gunnarsson, 25.1.2015 kl. 09:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.