Að kaupa "dýrari pakkann" í heilbrigðiskerfinu

Allt í einu er umræða um heilbrigðiskerfið í Albaníu út um allt á Íslenska hluta internetsins.

Það sem virðist hafa kveikt þennan mikla áhuga Íslendinga á heilbrigðismálum Albana eru ummæli sem höfð eru eftir Ásdísi Höllu Bragadóttur í Viðskiptablaðinu.  Fréttin á vef blaðsins er reyndar það stutt að ekki er mikið byggjandi á henni, en þar segir m.a.

Albanía er ljósárum á undan okkur í valfrelsi og samkeppni í heilbrigðisrekstri.

Litlu neðar segir síðan:

Ásdís sagði að aðeins væri hægt að velja ríkispakkann þegar kæmi að tiltekinni þjónustu á Íslandi. Í Albaníu væri val milli hefðbundna pakkans, silfurpakkans og gullpakkans þegar ákveðið væri hvaða þjónustu foreldrar vildu fá vegna fæðingar.

Á meðan Ásdís Halla segir að Albanía sé ljósárum á undan Íslendingum í valfrelsi og samkeppni heilbrigðisrekstri, láta margir eins og hún hafi sagt að hún Albanía væri ljósárum á undan Íslendingum í heilbrigðisþjónustu.

En auðvitað er á þessu tvennu orðalagi  mikill munur.

Myndi heilbrigðisþjónustan í Albaníu teljast betri ef þar væri minna valfrelsi og samkeppni?  Myndi draga úr ungbarnadauða í Albaníu ef tekið fyrir fyrir valfrelsi og samkeppni?

Engin hefur útskýrt hvað felst í "venulegum pakka", "silfurpakka" og "gullpakka", við fæðingar í Albaníu, og að gerir Ásdís Halla ekki heldur í þeim ræðubút sem sjá má á vef Viðskiptablaðsins.

Var það framfaraskref fyrir Íslenskt heilbrigðiskerfi, þegar Fæðingarheimilið svokallaða var lagt niður?  Ég hef  ekki hugmynd, hef enga reynslu þar að lútandi, en mér finnst spurningin góð.

En ég hef heldur enga reynslu af heilbrigðiskerfi Albaníu.  Og þó aldrei eigi að segja aldrei, getur það ekki talist líklegt að ég öðlist hana.

Ég hef heldur enga reynslu af því að eignast börn á Íslandi, hef aldrei verið viðstaddur fæðingu þar eða tekið þátt í undirbúningi.

Mín reynsla á þvi sviði er frá Kanada.  Þar fæddust bæði börnin mín.

Sú reynsla sem ég hef af Kanadísku heilbrigðiskerfi er ákaflega góð. Ég held að ég fari heldur ekki með ýkjur, þegar ég segi að þa sé almennt talið í fremstu röð.

Heilbrigðiskerfið þar er mest allt einkarekið (ef ekki allt) en hið opinbera sér að stærstum hluta um greiðslur.  Það kemur ekki í veg fyrir að hinar einkareknu heilbrigðisstofnanir bjóði upp á aukaþjónustu, alla vegna ekki hvað varðar fæðingar.

Og samkeppni er til staðar.

Kona mín hóf ferlið með því að velja sér á hvaða sjúkrahúsi hún vildi eignast barnið.  Það var alfarið hennar val.  Hún valdi sér sömuleiðis hvaða fæðingalæknir hún vildi að stjórnaði fæðingunni og hefði eftirlit með henni á meðgöngunni.  Einu takmörkin hvað varðar val á lækni, eru fjöldinn sem hann getur sinnt.  Vinsælir læknar geta verið "upppantaðir".

Eftirlitið er að ég held nokkuð hefðbundið.  Við fórum yfirleitt bæði og tekin voru blóðsýni og farið í sónar o.s.frv.

Boðið var upp á námskeið og kynntar mismundi hlutir, notkun "jógabolta", öndunaræfingar og ýmislegt annað sem kæmi að notum.

Þegar kom að fæðingunni var boðið upp á "extras".  Það voru engir gull eða silfurpakkar, en val var til staðar.

Myndum við vilja borga aukalega fyrir "einkastofu" fyrir sængurlegu.  Við afþökkuðum það, sáum ekki tilganginn, en mér skilst að slíkt sé afar vinsælt, sérstaklega hjá ýmsum trúarhópum sem finnst ekki tilhlýðilegt að ókunnugir karlmenn (á heimsóknartímum,sem eru mjög frjálslegir) séu að horfa á ókunnugar konur þar sem þær liggja í rúminu.

Myndum við við fá sér síma við rúmstokkinn, eða ef til vill sjónvarp?  Þetta var ekki dýr þjónusta, en bæði var afþakkað, enda alger óþarfi.

Síðan var okkur kynnt að við gætum ráðið okkur "doulah", sem var þó ekki á vegum spítalans, en hópur þeirra var þó viðurkenndur af honum.  Og við réðum "doulah".

Það var ekki síður fyrir mig en konuna.  Ég var á ókunnum slóðum, í fleiri en einum skilningi. Hafði enga reynslu í þessum efnum, og svo hitt að þó að ég telji mig tala ágætis Ensku, óttaðist ég kunnáttuleysi mitt í hugtökum læknisfræðinnar og "læknajargoni".

"Doulan" varð okkur enda mikil hjálp og reyndist okkar, ekki síst mér, afar vel þegar erfiðleikar komu upp.

Ég hef aldrei séð eftir því að ráða hana.

Einnig voru okkur kynntir möguleikar á því á kaupa þjónustu fyrirtækis sem tæki naflastrenginn (eða hluta hans) og frysti hann.  Þannig geymast stofnfrumur, sem margir telja að geti nýst vel fyrir börnin síðar, ef vandamál koma upp.

Þessa þjónustu tókum við fyrir bæði börnin okkar og höfum greitt árgjald fyrir þá þjónustu æ síðan.

Þannig er vissulega hægt að bjóða upp á margvíslega auka þjónustu og ýmsa "pakka", án þess að grunnþjónustan breystist.

Það er sömuleiðis hægt að bjóða upp á mismunandi fæðingaraðferðir, okkur var kynnt notkun á heitum pottum, aðallega þó til notkunar til slökunar fyrir fæðingu og ýmislegt annað smálegt.

Í heild sinni var reynslan afar góð og þjónustan til fyrirmyndar.  Engin reikningur kom frá sjúkrahúsinu.  "Doulunni" greiddum við beint án milligöngu sjúkrahússins og "Frost" fyrirtækinu sömuleiðis.

Hefðum við þegið einkastofu, síma eða sjónvarp, hefði sjúkrahúsið sent reikning fyrir því.

Teldist heilbrigðiskerfi Kanada síðra ef konum væri ekki boðið að velja sér sjúkrahús eða fæðingarlækni?

Telst það löstur á því að boðið sé upp á einkastofur?

Ætti að banna "douluhr"?

Er það ósvífni að hægt sé að kaupa þá þjónustu að frysta naflastrenginn?

Eða ætti þetta allt að vera kostað og staðlað af hinu opinbera?

Öll umræða um heilbrigðismál sem önnur mál er af hinu góða.  Það er jákvætt að ræða málin og velta því fyrir sér hvernig sé best að hafa hlutina.

Eðlilega eru um það skiptar skoðanir.

En ég held að "Albaníuaðferðin" sem mátt hefur sjá nú sé ekki til fyrirmyndar.

P.S.  Það er óneitanlega athyglisvert hvernig umræða um frétt frá Apríl á síðasta ári blossar allt í einu upp nú, 9 mánuðum síðar.  Er það læknaverkfallið sem veldur, eða eru 9 mánuðir einfaldlega meðgöngutími umræðu sem þessarar?

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eggert Sigurbergsson

Það hlýtur að vera rannsóknarefni að einfaldi ríkispakkinn á Íslandi skili lægsta nýburadauða í heimi. Nýburadauði er fimm sinnum minni á Íslandi en í Kanada. Ef Íslenski ríkispakkinn gilti í Kanada þá mundu hátt í 1.500 nýburar lifa af árlega til viðbótar hinum 386 þúsundum nýbura. Spurning er hver axlar ábyrgð á þessum ónauðsynlegu dauðsföllum í Kanada ár hvert og hverju er um að kenna?

Nýburadauði er þrisvar sinnum algengari í Albaníu en í Kanada og fimmtán sinnum algengari en á Íslandi. En þeir eru náttúrulega ljósárum á undan í að velja einkarekin fæðingarpakka.

Heimild OECD, tölur fá 2011.

Eggert Sigurbergsson, 5.1.2015 kl. 11:04

2 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Eggert Eftir því sem mér hefur skilist hefur árangur Íslendinga hvað varðar lágan ungbarnadauða vakið eftirtekst.

En hefur þú trú á því Eggert að stærstu breyturnar í þeirri baráttu hafi verið spurningin um hvort gefa ætti verðandi foreldrum eitthvað val, eður ei?

Að lítið val sé grundvöllur árangursins?

Að ungbarnadauði í Albaníu sé vegna þess að foreldra hafi eitthvað val?  Að til að framfarir geti orðið i heilbrigðisþjónustu þar, sé nauðsynlegt að afnema valið?

En það er ekki svo að Kanadamenn hafi ekki áhyggjur af því hvernig þeim gengur í þessari baráttu.

Staðreyndin er sú að ungbarnadauði er mismunandi eftir fylkjum eins og sjá má hér. Hér fann ég þó ekki nýrri tölur en frá 2011  http://www.statcan.gc.ca/tables-tableaux/sum-som/l01/cst01/health21a-eng.htm

En hér er smá umfjöllun um málið frá Kanadísku sjónarmiði og hvað geti skýrt munin að hluta til (en ekki allan).   http://www.conferenceboard.ca/hcp/details/health/infant-mortality-rate.aspx

Tölur frá Alþjóðabankanum 2013, gefur töluna 2. fyrir Ísland, 5 fyrir Kanada og  13 fyrir Albaníu.   http://data.worldbank.org/indicator/SP.DYN.IMRT.IN

Inn í umræðuna blandast m.a. mismunandi skilgreiningar á ungbarnadauða, mismunandi skilgreiningar á "stillborn", og svo er líka talað um mismunandi fjölda og hlutfall fóstureyðinga ef vandkvæði eða sjúkdómar fósturs koma upp á meðgöngu.

Einföld tölfræði segir gjarna takmarkað og gefur takmarkaða mynd.

Með því er ég alls ekki að reyna að gera lítið úr góðum árangri Íslenska heilbrigðiskerfisins hvað varðar baráttuna við ungbarnadauða.

En ég hygg að þar spila ótal aðrir þættir inn í og vegi jafnvel þyngra en takmarkað val við fæðingu.

Tölurnar sem þú vitnar til segja enda ekki til um hvernig fæðingar  ganga fyrir sig.

G. Tómas Gunnarsson, 5.1.2015 kl. 12:01

3 Smámynd: Eggert Sigurbergsson

 Aðferðafræðin fyrir, á meðan og svo fyrsta árið eftir fæðingu er líklega það sem skiptir máli eins og reyndar er nefnt í einum tenglinum frá þér. Ég hef reynslu af fyrirburafæðingu og vökudeild mánuðum saman (2 mánuðir) sem er langdýrasti póstur fæðinga sem hugsast getur en fær líklega það fjármagn sem þarf til að ná árangri vegna ríkiskerfisins og eins ríflegra framlaga einstaklinga og félagasamtaka á Íslandi. Staðlaði pakkinn í einkarekstri t.d. í Kanada og USA gerir kannski ekki alveg ráð fyrir gríðarlegum útgjöldum sem felst í því að þurfa að vera með barnið sitt á fyrirburagjörgæslu vikum eða mánuðum saman og því gæti sá ófyrirséði óyfirstíganlegi kostnaður útskýrt slakan árangur án þess að ég geti bent á rannsóknir því til stuðnings.

Ef ég man rétt þá var ekki fyrir svo löngu frétt um konu frá Kanada sem eignaðist óvænt barn fyrir tíman í fríi í USA (Hawaii minnir mig). Reikningurinn hljóðaði uppá rúmar 100 milljónir sem hún og maðurinn hennar höfðu ekki efni á að greiða og urðu því að gera sig gjaldþrota.

Eggert Sigurbergsson, 5.1.2015 kl. 13:36

4 identicon

Takk fyrir málefnalegt innlegg í umræðuna. Allt of lítið um slíkt.

Það er rannsóknarefni hvað veldur með mismun á ungbarnadauða en vonandi að menn fari nú ekki að tala þann árangur okkar Íslendinga niður eins og allt annað og telja til þjóðrembu ;-) 

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 5.1.2015 kl. 14:00

5 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Eggert Ég er alveg sammála því að heildarpakkinn skiptir miklu máli. Persónulega hef ég enga reynslu af fyrirburafæðingum, en hún er til staðar í fjölskyldu minni, öll frá Íslandi og er frábær.

Þú mátt ekki rugla saman einkarekstri og þvi að einstaklingurinn beri sjálfur ábyrgð á kostnaðinum.

Kanadíska kerfið er eiginlega allt einkarekið, en hið opinbera borgar lang stærstan hluta af kostnaðinum og oftast nær 100%.  Fyrirburagjörgæsla er að ég tel að fullu greidd í Kanada og eins og ég sagði kostaði fæðingarnar okkur ekkert.

Það kemur ekki í veg fyrir að við áttum val, um sjúkrahús, um lækni, og gátum keypt auka þjónustu.

Mig rámar í þetta tilfelli sem þú talar um.  Það gæti í sjálfu sér gerst hvar sem er í heiminum og ég veit til dæmis ekki hvað Íslendingar í sömu sporum ættu mikinn rétt til aðstoðar.  Ef einhver veit það væri vissulega fengur að því að það yrði sett hér inn.

Svipað gildir auðvitað ef Kanadísk hjón myndu lenda í slíkum kringumstæðum á íslandi.  Ég er ekki að segja að kostnaðurinn yrði sá sami, en eigi að síður gríðarlegur.

En ef þú hefur skoðað tölurnar frá Kanada hefur þú séð að munurinn á milli fylkja er gríðarlegur og Nunavut sker sig úr.  Ég veit ekki hvað veldur.

@Bjarni Gunnlaugur  Takk fyrir það.  Ég reyni mitt besta, en stundum hef ég auðvitað "fallið" í Íslenska "umræðuhefð".  Hvernig má það öðruvísi vera, ég ólst við hana LOL.

En þennan pistil skrifaði ég vegna þess að mér fannst umræðan svo skringileg.  "Toppurinn" var svo "Albaníu Ásdís", ég meira að segja sá fyrirverandi þingmann nota það í "kommentakerfi". 

Ljómandi fyrirmynd hvað varðar kurteisi og umræðutaktík.

En Íslenskt heilbrigðiskerfi er gott, þó alltaf megi gera betur.  En það er sjálfsagt að ræða hvar það stendur í alþjóðlegum samanburði ekki bara launalega, heldur gæðalega, bæði "almennt"  og "bang for the buck".

En slík umræða verður að geta farið fram án upphlaupa og uppnefna.

P.S.  Það hlýtur einnig að verara rannsóknarefni (stjórnmálafræðilegt) hvernig kommúnistalöndin blandast inn í umræðuna.

Íslendingar eru alltaf að blanda Kúbu, N-Kóreu, og nú síðast Albaníu, inn í umræðuna.

G. Tómas Gunnarsson, 5.1.2015 kl. 15:49

6 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Æi, þetta er nú stormur í vatnsglasi. Við vitum öll að Ásdís Halla vill bara fá að græða á sínum rekstri og besta leiðin til þess er að geta selt eingöngu þeim sem eru ríkir. Hún hefur þvi eðlilega engan áhuga á kanadíska módelinu, sem mér skilst að sé líka útbreitt í Svíþjóð, þar sem bara ríkið borgar.

Þessi ummæli hennar vöktu held ég aðallega athygli vegna þess hvað þau voru eitthvað absúrd - mér fannst þetta minna á Vigdísi Hauks eða Söru Palín og alveg með ólíkindum að Ásdís Halla skyldi komast svona óheppilega að orði.

Það eru ýkjur að hérlendis sé eitthvað mikið að fara að breytast í heilbrigðisþjónustu, mikill meirihluti landsmanna vill hafa hana áfram opinbera og meirihluti þingmanna er held ég sömu skoðunar. Það er bara þröngur hópur ungra manna og kvenna í Sjálfstæðisflokknum sem er svo heittrúaður á einkarekstur að engar rannsóknaniðurstöður fá haggað þeim.

Þetta var bara fyndið, ekki alvarlegt mál.

Kristján G. Arngrímsson, 5.1.2015 kl. 20:08

7 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Bara til að hafa það á hreinu þá hef ég ekkert á móti því að einkaaðilar sjái um rekstur svo fremi sem hið opinbera borgar brúsann og þess er gætt að aðgangur sé jafn fyrir alla og enginn geti keypt sig framfyrir röðina. Það þarf að forðast svokallað tvöfalt kerfi. Hver nákvæmlega er rekstraraðilinn er ekki aðalatriðið.

Kristján G. Arngrímsson, 5.1.2015 kl. 20:10

8 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján Þó að ég hafi ekki stúderað Kanadískt heilbrigðiskerfi ofan í grunninn, þá hefur mér skilist að finna megi flest rekstrarform þar.  Stofnanir sem skila hagnaði o.s.frv.

Þetta er misjafnt eftir "sviðum".

En margar "non profit" stofnanir skila auðvitað stundum rekstrarhagnaði, en borga hann ekki út.  Margar "non profit" stofnanir reka líka umfangsmiklar "fjársafnanadeildir", því þær geta í raun ekki haldið út þeirri starfsemi sem þær vilja með framlagi hins opinbera.  Ekkert nema gott um það að segja. Spítalinn þar sem börnin okkar fæddust hefur samband við okkur árlega og við höfum látið eitthvað þangað, þó að það geti ekki talist stórt.  Það sama gilti reyndar um skólann sem börnin voru í, þó að hann væri auðvitað 100% í eigu or rekstri borgarinnar.

En svo voru t.d. aðeins vandræði með fæturna á drengnum mínum.  Þar fór ég til "einkafyrirtækis", enda þátttaka hins opinbera engin í slíku.  Hvort að læknirinn sem átti þá stofu, var með "hagnað", eða bara "góð laun" hef ég ekki hugmynd um.  Í sjálfu sér skiptir það mig engu máli.  Sum árin gæti hann jafnvel hafa tapað, hver veit?

Ég fór einfaldlega eftir þeim ráðleggingum sem læknir barnanna gaf mér og fór þangað sem hann taldi ráðlegast og best.

En í heildina er Kanadískt heilbrigðiskerfi gott, en rétt eins og flest önnur er það ekki án vandræða.  Það sem ég hef mest heyrt talað um undanfarin ár, er skortur á því sem kallast "basic", þ.e. þjónusta heimilislækna.  Talað er um að erfitt sér fyrir u.þ.b. helming Kanadabúa að komast að hjá heimilislækni og ca 15% hafi engan. 

Mér finnst ég reyndar hafa heyrt svipaðar kvartanir frá Íslendingum.

Hvers vegna kemur þessi skortur?  Er það "glamúrleysi" stöðunnar?  Eða það að hið opinbera metur hana ekki mikils og borgar eftir því mati?  Er mat hins opinbera á stöðu heimililækna, lægra en mat skjólstæðinganna?

Ég þekki ekki svörin, bara spurningarnar, en það er vissulega skrýtið, ef það er auðveldara að fara á neyðardeils sjúkrahúsa, en komast til heimilislæknis.

Hvað varðar "Albaníuumræðuna", þá get ég tekið undir það að Ásdís Halla hefði getað tekið öðruvísi til orða.  Ef hún hefði gefið gaum af Gylfa Magnússyni og Þórólfi (man ekki föðurnafn), þá hefði hún vitað að það borgar sig ekki að blanda kommúnistaríkjum (gömlum og nýjum) í umræðuna.

Ég held reyndar að margir geri sér ekki grein fyrir hvað mikið af heilbrigðiskerfum er einkarekið, jafnvel eftir því sem mér skilst í auknum mæli inn á opinberum spitölum.  Slíkt á líklega aðeins eftir að aukast í framtíðinni.

Það er hins vegar oftast sem hið opinbera borgar fyrir sjúklinginn, rétt eins og í Kanada.

Ég hef nú ekki umgengist mikið af Sjálfstæðifólki í fjöldamörg ár, en það sem ég hef fyrst og fremst heyrt þaðan, er vilji fyrir frekari einkarekstri í heilbrigðiskerfinu, ekki að kostnaðurinn sé færður til einstaklinga.  En ég heyri líklega ekki í sama fólki og þú Kristján.

Hins vegar held ég að eins og þú segir að Íslendingar vilji almennt hafa kerfið eins og það er í dag, með sínum kostum, göllum og vefkföllum.

En það breytir því ekki, að það er aðeins nokkurra stunda flug til þess að "kaupa sig fram fyrir röðina", ef menn hafa áhuga á slíku.

En mér þótti þessi "Albaníu umræða" samt stórmerkileg, 9 mánuðum eftir að fréttin sem vitnað er til birtist í Viðskiptablaðinu.  Uppfull af stóryrðum, uppnefnum og persónulegum aðdróttunum.

Er það ekki eins og hún gerist "best"?

G. Tómas Gunnarsson, 6.1.2015 kl. 05:52

9 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

http://www.visir.is/apps/pbcs.dll/article?AID=2015150109563

Hér svarar Ásdís og gerir aþð ágætlega.  En eins og oft áður reikna ég með að þetta fái  mun minni athygli, en upphlaupið.

Gamla trikkið að taka "sándbæt" "tvista" það aðeins til og taka úr samhengi, helstt ef mögulegt er gera viðkomandi upp "illan" tilgang, virkar enn.

Og Íslendingar eru ekki síður framlega á því sviði en mörgum öðrum.

G. Tómas Gunnarsson, 6.1.2015 kl. 06:53

10 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Það sem mér gengur yfirleitt erfiðast að skilja í svona umræðu er hvers vegna virðist ekki hlustað á niðurstöður rannsókna sem eindregið benda til að heilbrigðisþjónusta sé verri í einkarekstrarkerfi eins og í USA heldur en í opinberu kerfi, sbr. frétt á Rúv í gær eða fyrradag.

Ég held að markaðshyggjusannfærðir bara vilji ekki horfast í augu við þessar niðurstöður. Hvers vegna ekki?

http://www.ruv.is/frett/felagsleg-heilbrigdiskerfi-komi-best-ut

Kristján G. Arngrímsson, 6.1.2015 kl. 07:13

11 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Þessi átrúnaður á markaðinn minnir helst á Sovét-átrúnað sannfærðra hér í den tíð, eins og Halldórs Laxness, sem lokaði bara augunum fyrir öðru en því sem hentaði hans eigin skoðun.

Kristján G. Arngrímsson, 6.1.2015 kl. 07:15

12 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján  Mætti ekki allt eins segja að trúin á sósíalisman og einn "ríkispakka" fyrir alla, sé illskiljanleg lol

Það má finna alls kyns upplýsingar og rannsóknir út um víðan völl.  Margar vísa í mismunandi áttir.

Eins undarlega og það hljómar eru meira að segja til rannsóknir sem sýna að rannsóknir hafa tilhneygingu til að komast að svipaðri niðurstöðu og þeir sem rannsóknirnar framkvæma töldu líklegat áður.  En ef til vill var sú niðurstaða aðeins vegna þess að þeim sem framkvæmdu rannsóknina höfðu grun um slíkt.

En það sem vekur athygli mína í þeirri frétt sem þú visar til, er fyrst og fremst tvennt.  Mælingin virðist fyrst og fremst hafa mælt aðgengi, en ekki árangur eða skilvirkni.

Hitt er að höfundur virðist ekki tala um Ísland sem blandað kerfi, eins og þó margir aðrir gera.  En það er ekki ólíklegt að einstaklingar hafi mismunandi skilgreiningar á því.

Aðrir vilja meina að meira eigi að leggja upp úr því að mæla t.d. biðtíma og árangu og týna til önnur atriði.

Dæmi um slíkt má sjá hér:  http://www.medicalprogresstoday.com/2012/08/health-outcomes-united-states-the-leader.php

Þetta er þó þröngt sjónarhorn.  En það er þó athyglisverður punktur hve lífslíkur Bandaríkjamann hækkar og verður hærri en margra annara þjóða, ef morð og "óábyrg hegðun" er tekin út  úr samanburðinum.  Sjálfsagt erfitt að reikna með 100% nákvæmni, en sýnir vel hve slíkur samanburður og ályktanir dregnar út frá því, geta verið varasamar.  Þó sjálfsagt sér að notfæra sér slíkar vísbendingar.

Hér er lögð meiri áhersla skilvirkni: http://www.bloomberg.com/visual-data/best-and-worst//most-efficient-health-care-2014-countries

Hér að ofan er Ítalía talin merð besta heilbrigðiskerfið í Evrópu.  Breltand í 10 sæti.

http://www.independent.co.uk/news/uk/uks-healthcare-ranked-the-best-out-of-11-western-countries-with-us-coming-last-9542833.html

Hér er ítalía reyndar ekki með, En Bretland talið með lang besta kerfið.

Hér er Frakkland á topnum.  http://www.businessinsider.com/best-healthcare-systems-in-the-world-2012-6?op=1

Í þessari niðurstöður standa "blönduðu kerfin" sig hvað best.  En mér finnst áberandi hvað lítil lönd koma vel út.

Hér er frétt sem setur Íslenskt heilbrigðikerfi sem hið þriðja besta í Evræopu, á eftir Hollandi og Danmörku.

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2009/09/28/islenska_heilbrigdisthjonustan_su_thridja_besta/

Sama skýrsla fyrir 2013 http://www.healthpowerhouse.com/files/ehci-2013/ehci-2013-report.pdf

Þar er sagt um Holland sem talið er með besta heilbrigðiskerfi í Evrópu: The NL is characterized by a multitude of health insurance providers acting in competition, and being separate from caregivers/hospitals. Also, the NL probably has the best and most structured arrangement for patient organisation participation in healthcare decision and
policymaking in Europe.

Er ástæða til að hlusta á þetta?

En Ísland stendur sig mjög vel þarna, er enn í þriðja sæti yfir heildina, sem er frábær árangur.

En það er ekki síður athyglivert að skoða "bang for the buck" listann sem þarna má finna... Þar stendur Ísland sig einnig mjög vel, er í öðru sæti, á eftir.... (drumroll) nema hvað Albaníu.

En þar er Holland dottið niður í 9 sæti eða svo.

 

G. Tómas Gunnarsson, 6.1.2015 kl. 10:08

13 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Það eru ekki góð rök fyrir andstöðu við rannsóknarniðurstöður að segja að það sé nú ekkert að marka rannsóknir og þær sýni bara það sem rannsakandi vill fá fram. Samkvæmt þessu viðhorfi eru allar umræður tilgangslausar og í rauninni ekki annað en retorískur fætingur með það markmið að fá sitt fram. Og samkvæmt þessu eru vísindi marklaus og tilgangslaus. Ætlarðu að halda því fram?

Ég skil ekki af hverju það er svona mikið mál að horfast í augu við það að bandaríska heilbrigðiskerfið er það versta sem fyrir finnst í hinum siðaða heimi. Og ástæðan er einkarekstrarfyrirkomulagið.

Þeir sem streðast við að líta framhjá þessu eða reyna með einhverjum mælskubrögðum að grafa undan þessari niðurstöðu fjölda rannsókna eru í rauninni ekki viðræðuhæfir í þessum málum. Það er eins og að tala við einhvern sem heldur því fram að jörðin sé flöt.

Og nei, trúin á einn ríkispakka er ekki samskonar "trú" - einmitt vegna þess að hún er studd rannsóknarniðurstöðum sem benda til þess að slíkur pakki skili í heildina betri útkomu en einkarekstur.

Kristján G. Arngrímsson, 6.1.2015 kl. 12:28

14 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Krisján Ég setti þetta hér inn, vegna þess að ég las um rannsókn sem benti til þess að um fylgni væri að ræða. En ég bætti við, eins og þú hefur sjálfsagt lesið.  En ef til vill var sú niðurstaða aðeins vegna þess að þeim sem framkvæmdu rannsóknina höfðu grun um slíkt. 

Sagði með öðrum orðum að slík niðurstaða "æti skottið á sér".

Bandaríska kerfið hefur svo gott sem alls staðar fengið slaka dóma. En það tengist auvðitað ýsmu öðru líka, og að hluta til Bandarísku dómskerfi.

En eins og ég benti á koma þó margar mismunandi rannsóknir og kannanir með mjög misvísandi niðurstöður um hvaða kerfi er best.  Það var tilgangurinn með því að setja inn hlekki á allar þessar mismunandi niðurstöður.

Finnst þér það sem sagt er um Holland að það bendi til þess að aðeins sé um "einn ríkispakka" að ræða? 

he NL is characterized by a multitude of health insurance providers acting in competition, and being separate from caregivers/hospitals. Also, the NL probably has the best and most structured arrangement for patient organisation participation in healthcare decision and
policymaking in Europe.

Holland talið í þeirri rannsókn með besta heilbrigðiskerfið í Evrópu, Sviss í 2. sæti.  Er bara einn ríkispakki í Sviss?

Þar er skylda að kaupa "basic" tryggingu.  Ríkispakka ef þú vilt kalla það svo, en ....The compulsory insurance can be supplemented by private "complementary" insurance policies that allow for coverage of some of the treatment categories not covered by the basic insurance or to improve the standard of room and service in case of hospitalisation. This can include complementary medicine, routine dental treatments, half-private or private ward hospitalisation, and others, which are not covered by the compulsory insurance.

Er þetta bara "einn ríkispakki"?  Samt þykir Svissneskt heilbrigðiskerfi til fyrirmyndar.

Eða heldurðu að "valfrelsið" sé að eyðileggja það?

G. Tómas Gunnarsson, 6.1.2015 kl. 13:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband