26.11.2014 | 11:39
Þjóðfylkingin slær lán hjá Rússneskum banka
Það hefur vakið athygli víða um lönd að í ljós kom að FN, Þjóðfylkingin Franska hefur fengið lán að upphæð 9 milljónir euroa hjá Rússneskum banka, First Czech Russian Bank (FRCB).
Þó að varla sé um einsdæmi að ræða, er það líklega ekki algengt að pólítískir flokkar taki lán í erlendum bönkum. Erlent fé er þó gjarna litið hornauga í pólítískri baráttu, ekki síst ef það er talið koma frá "vafasömum löndum".
En slíkt er þó algengara en oft er látið og skemmst að minnast að Sarkozy er sakaður um að hafa þegið fé frá Gaddafi. Í Bandaríkjunum koma slíkar ásakanir reglulega upp og lönd eins og Kína,Kanada og Kazakhstan (og þá erum við bara að nefna lönd sem byrja á K) og fleiri hafa verið sökuð um að bera fé á stjórnmálaflokka og menn.
En er ástæða til þess að hafa áhyggjur af því að flokkar eins og Þjóðfylkingin Franska fái lán hjá Rússneskum banka?
Já, ég held að það sé fyllsta ástæða til þess. Ef til vill er ekki ástæða til að hlaupa upp til handa og fóta, en það er rétt að hafa áhyggjur. "Lókal" stjórnmál og erlent fé er að öllu jöfnu ekki heillavænleg blanda.
Það er vissulega betra þegar slíkt er opinbert, heldur en þegar það gerist bak við tjöldin, en engu að síður óæskilegt.
En uppi hefur verið þrálátur orðrómur um stuðning Rússa við alls kyns hópa víða um Evrópu. Meðal annars hafa þeir verið taldir styðja eða fasíska hópa í Ukraínu, sem og aðra hópa, víðsvegar í Evrópu, utarlega á hægra litrófi stjórnmálanna, ef svo má að orði komast.
Og vitanlega eru til fleiri leiðir til að öðlast áhrif og koma "boðskapnum" á framfæri. Stjórnarsetur, afmælisveislur og aðrir bitlingar og fríðindi hafa oft reynst vel og geta haft áhrif og rekið fleyga á milli samherja. Fyrrum leiðtogar hafa oft áhrif og hafa áhrif á bæði almenningsálit og stjórnmálamenn.
En það verður líka fróðlegt að sjá hvort að lán Rússnesks banka komi til með að hafa neikvæð áhrif á fylgi FN. Það er að mínu mati alsendis óvíst.
Frakkar eru alls ekki óvanir því að þarlendir stjórnmálaflokkar séu á "Moskvulínunni" og má segja að Kommúnistaflokkurinn þarlendi hafi verið trúr fram að "andláti" Sovétsins. NATO hefur heldur ekki verið sérlega hátt skrifað hjá Frönskum almenningi, hvað þá Bandaríkin.
Svo er spurningin hvernig afhending á herskipunum til Rússa mun blandast þessu og svo má auðvitað ekki gleyma Depardieu.
En það er ekkert nýtt að Rússar komi fé til stjórnmálasamtaka og manna á "Vesturlöndum", það hafa þeir gert áratugum saman og oft með "góðum" árangri.
En rétt eins og áður er fyllsta ástæða til þess að hafa af því áhyggjur.
Líkega stendur engin þjóð Rússum framar í því sem oft er kallað "áróðursstrið", þar standa þeir á gömlum merg og búa yfir gríðarlegri þekkingu.
Þegar má sjá að samstaða gegn Rússum innan Evrópusambandsins er byrjuð að molna. Akkúrat núna er það líklega eingöngu Angela Merkel sem heldur henni saman.
En "kalda stríðið" verður æ líflegra.
Umfjöllun Evrópuvaktarinnar, sem að ég best veit er eini Íslenski miðilinn sem hefur fjallað um þessa lánveitingu.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Evrópumál, Utanríkismál/alþjóðamál, Viðskipti og fjármál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.