21.11.2014 | 08:16
UKIP tryggir sér annan þingmann, sigrar í Rochester og Strood
Breski Sjálfstæðisflokkurinn (UKIP) sigraði, eins og flest benti til nokkuð örugglega í aukakosningum í Rochester og Strood í gær.
Flokkurinn hefur því tryggt sér annan þingmann sinn á Breska þinginu.
Sigurinn er sætur fyrir UKIP og eykur spennu fyrir hinar almennu þingkosningar sem fara fram í maí á næsta ári.
Það er ýmislegt sem vekur athygli, að sigri UKIP frátöldum. Tap Verkamannaflokksins í prósentustigum er næstum eins mikið og Íhaldsflokksins. Það kann þó að eiga sér þá skýringu að kjósendur Verkamannaflokksins hafi kosið UKIP til að tryggja þeim sigur og þannig auka óróann í Íhaldsflokknum. Þeirra frambjóðandi var enda ekki talinn eiga mikla möguleika. Fyrir einskæran klaufaskap eins þingmanns þeirra, kemur Verkamannaflokkurinn svo enn verr út úr þessum kosningum, en efni stóðu til.
Hræðileg útkoma Frjálslyndra demókrata vekur sömuleiðis athygli, enda líklega versta útkoma sem "einn af stóru flokkunum" hefur hlotið í Bretlandi. 349 atkvæði eða 0.87%. Það getur ekki talist annað en hrein skelfing og flokkurinn situr í ríkisstjórn. Þeirra tap í %stigum er stærra en Íhaldsflokksins, þeir tapa yfir 15 %stigum.
En sigur UKIP er heldur minni en margar skoðanakannanir höfðu gefið til kynna, en það sýnir þó einnig að UKIP vann, þrátt fyrir að Íhaldsflokkurinn hafi lagt allt í sölurnar til þess að halda sætinu.
En það er næsta víst að þessi úrslit eiga eftir að hafa umtalsverð áhrif á Bresk stjórnmál á næstu mánuðum.
Umræðan um bæði Evrópusambandið og innflytjendamál hefur þegar breyst, en á líklega eftir að gera það enn frekar. Nú þegar tala margir fjölmiðlamenn um að hinir flokkarnir séu að "Out UKIP, UKIP", í viðleitni sinni til að ná til baka kjósendum sínum.
En það er ljóst að UKIP stefnir hraðbyri á að verða "þriðja aflið" í Breskum (frekast þó Enskum) stjórnmálum. En breytingin er einnig sú að Skoski þjóðarflokkurinn eflist með hverjum deginum og sömuleiðis Græningjar (sem náðu 4ja sætinu í þessum aukakosningum).
Hvað verður um Frjálslynda demókrata er svo einnig spurning.
En það hriktir æ meir í tveggja flokka kerfinu í Bretlandi, og ef svo fer sem horfir gæti staðan orðið sú að hvorugur stóru flokkana nái hreinum meirihluta tvö kjörtímabíl í röð.
UKIP fær annað þingsæti | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Það er skemmtilegt að fylgjast með því hvernig allir þrír aðalflokkarnir eru í algjörum vandræðum og ráðaleysi gagnvart UKIP.
Þeir geta ekki einu sinni veifað sinni gömlu stefnuskrá og fyrri afrekum. Þeir eru í algjörri vörn.
Snorri Hansson, 24.11.2014 kl. 16:38
Að hluta til er þetta partur af þeirri þróun sem á sér stað í mörgum Evrópuríkjum.
Almenningur er að missa trúnna á hina "pólítísku stétt". Þeim finnst og oft réttilega að "stjórnmálastéttin" standi með og eigi ríkari hagsmuni með hinni "pólítísku stétt" í öðrum löndum (sértaklega "Sambandsins"), heldur almenningi.
Þess vegna er hreyfingin á fylginu eins og hún er.
G. Tómas Gunnarsson, 24.11.2014 kl. 18:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.