8.11.2014 | 13:40
Lúxus borgar skattur
Uppljóstranir um skattasamninga ýmissa alþjóðlegra fyrirtækja við hertogadæmið í Luxemborg hafa eðlilega vakið mikla athygli. Vissulega eru þetta ekki nýjar fregnir, en nú voru lagðar fram býsna viðamiklar sannanir fyrir því sem áður hefur aðeins verið "talað um".
Áður en lengra er haldið, verður að taka það fram að ekki er talið að um nein lögbrot sé um að ræða af hálfu fyrirtækjanna. Hvað Luxemborg varðar er heldur ekki um bein lögbrot að ræða, ESB hefur ekki lögsögu í skattaákvörðunum, en líklegt er talið að gjörðirnar gætu stangast á við reglugerðir um ríkisaðstoð innan Evrópusambandsins.
Þetta flokkast líklega frekast undir það sem oft er kallað á Íslensku, "löglegt en siðlaust".
En þó að fáum hafi líklega komið það á óvart að Luxemborg aðstoðaði við "skapandi skattframtöl", hygg ég að hve langt hafi verið seilst hafi komið mörgum á óvart. Það að fyrirtæki hafi greitt allt niður í 1% skatt af þeim tekjum sem þau "veittu" í gegnum Luxemborg og hægt hafi verið að semja um fastar upphæðir er nokkuð sem ég held að fáir hafi ímyndað sér.
Að sjálfsögðu vekur það einnig mikla athygli að megnið af þessum samningum er gerðir í valdatíð Jean Claude Juncker, fyrrverandi forsætisráðherra Luxemborgar og leiðtoga Eurohópsins, og núverandi forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Ekki er að efa að margir aðrir leiðtogar "Sambandsríkja" hugsa honum þegjandi þörfina og í raun er ekki ólíklegt að þetta eigi eftir að gera honum erfitt fyrir.
Það er eitt að vera með lága skatt% fyrir fyrirtæki, en annað að gera leynilega samninga langt þar fyrir neðan.
En með þessu hefur Luxemborg náð sér í mikið af "money for nothing", ef svo má að orði komast, peninga sem ríkisstjórnir annara ríkja telja sig hafa átt að fá og hefðu haft full not fyrir.
Það er líka vert að taka eftir því að einungis er um að ræða gögn frá einu endurskoðunarfyrirtæki, Price Waterhouse Cooper. Það bendir til þess að annað hvort hafi gögnum aðeins verið lekið frá því fyrirtæki, og eiga megi von á því að annað eins hafi farið í gegnum önnur endurskoðunarfyrirtæki, eða þá hitt að PWC, hafi haft gríðargóð og í raun óeðlileg tengsl við yfirvöld í Luxemborg.
Það verður því að teljast í alla staði líklegt að ekki hafi heyrst það síðasta frá þessu máli.
Það er líka vert að hafa í huga að þó að sé talað um Karabískar eyjar og sjóræningjaslóðir þegar rætt er um "skapandi skattframtöl", þá virðast þrjú lönd Evrópusambandsins, Luxemborg, Írland og Holland, vera hvað vinsælust þegar alþjóðleg fyrirtæki þurfa að "hagræða" í framtalinu hjá sér. Ég bloggaði fyrir stuttu um skattalegt samkeppnishæfi og vel þekktar fléttur.
Hvort að þessar uppljóstranir verði til þess að "Sambandið" geri eitthvað í málunum á eftir að koma í ljós, verður raunar að teljast frekar ólíklegt. En það þarf alla vegna ekki að leita langt yfir skammt, ef vilji verður til þess.
Hver veit, ef til vill man Juncker símanúmerið á gömlu skrifstofunni sinni?
Milljarðar sparaðir í skattaskjóli | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Evrópumál, Utanríkismál/alþjóðamál, Viðskipti og fjármál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.