"Sambandið" er ekki hlaðborð

Það yrði vissulega verulegt áfall fyrir "Sambandið", ef niðurstaðan verður sú að Bretland ákveði að ganga úr því.

Það er vel skiljanlegt að Bretar vilji breyta áherslum í "Sambandinu", endurheimta völd heim til London og leggja fyrst og fremst kraft í "innri markaðinn", en snúa við samrunaferlinu og snúa af þeirri leið að til verði "Bandaríki Evrópu".

En fyrir því er ekki meirihluti í "Sambandinu".  Þar liggja allar leiðir til Brussel og jafnt og þétt er spægipylsan skorin, í átt að ríki "Sambandsins".

Og eins og frú Merkel bendir réttilega á, er "Sambandið" ekki hlaðborð, þar sem aðildarríki geta valið aðeins þá "rétti" sem þeir telja henta sínum bragðlaukum.

Bretar geta ekki skotið sér undan reglunum og haldið aðild.

Í raun er auðvelt að skilja sjónarmið frú Merkel og hinna aðildarríkjanna.  Ef öll aðildarríkin vilja breyta sáttmálum "Sambandsins", eða fá viðamiklar undanþágur frá þeim, verður "Sambandið" allt annað, en það sem stefnt er að.

Það er því í raun eðlileg krafa að Bretar aðlagi sig að "Sambandinu", eða yfirgefi það ella.

Í raun má segja að Íslendingar hafi rekið sig á með líkum hætti.  Þess vegna var rýniskýrslan um sjávarútveg aldrei afhent.  Skilyrði þau sem Alþingi setti, voru með þeim hætti að "Sambandinu" var ljóst að Íslendingar ætluðu ekki að aðlaga sig að "Sambandinu".  Því var viðræðum svo gott sem sjálfhætt.

Þess vegna þurfti stjórn Jóhönnu og Steingríms, að setja viðræðurnar við "Sambandið", undir stjórn Össurar, í saltpækil.   Þar hafa þær verið síðan.

Íslendingar komust að því, rétt eins og Bretar eru að komast að nú, að "Sambandið" er ekki hlaðborð.

Þess vegna er löngu tímabært að hella pæklinum af umsókninni og slíta henni formlega.

P.S.  "Samband" án Breta, ef þeir svo segja sig úr því, er enn síðri kostur fyrir Íslendinga.


mbl.is Merkel ræðir mögulegt brotthvarf Breta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband