29.10.2014 | 14:14
Íhaldið lifir góðu lífi
Kunningi minn vakti athygli mína á bloggi Egils Helgasonar, þar sem hann fjallar um horfið íhald. Það er að segja að hann talar um að Íhaldið (með stórum staf) sé horfið úr Sjálfstæðisflokknum.
Það er auðvitað svo að það er fátt tilgangslausara (að mínu mati) að rífast um en skilgreiningar á stjórnmálastefnum og stjórnmálaflokkum. Þar sýnist sitt hverjum og rökræður snúast í ótal hringi án þess að hilli undir niðurstöðu. Það hafa enda komið út fjöldinn allur af hátimbruðum fræðibókum sem eru með fleiri mismunandi niðurstöður en hönd verður fest á.
Nú er það til dæmis mjög algengt að útmála Sjálfstæðisflokkinn á Íslandi sem grimman, óvæginn og hreint skelfilegan frjálshyggjuflokk. Rétt eins og Egill tala margir á þann veg að þar sé ekker "íhald" að finna lengur.
Fyrir mér persónulega hefur Sjálfstæðisflokkurinn aldrei verið frjálshyggjuflokkur, heldur má segja að hann hafi alltaf komið mér fyrir sjónir sem nokkurs konar kristilegur íhaldsflokkur með jafnaðarívafi.
En eins og áður sagði fer skilgreiningar á slíku líklega mest eftir einstaklingnum og þeim sjónarhóli sem hann stendur á.
En að mínu áliti er það íhaldið í Sjálfstæðisflokknum sem stendur (ásamt íhaldi úr öðrum flokkum) vörð um landbúnaðarkerfið á Íslandi.
Það er sömuleiðis íhaldið (eða öllurheldur hluti þess) í Sjálfstæðiflokknum sem stendur vörð um þjóðkirkjuna og reynir að troða inn gildum hennar hvar sem þeir telja sig geta.
Stór hópur íhaldssamra Sjálfstæðismannna styður t.d. ríkisútvarpið dyggilega og hefur engan áhuga á að draga úr ríkisstyrkjum til menningar eða að draga úr ríkisútgjöldum yfirleitt. Ég hygg að sagan sýni það.
Íhaldssamir Sjálfstæðismenn eiga það til að draga dulítið lappirnar gagnvart lagasetningum sem fela í sér frelsis eða lýðræðisskerðingu, en gera yfirleitt ekkert í því að afnema þær, er þær hafa verið samþykktar. Nýlegt dæmi um það er t.d. kynjakvóti í stjórnum fyrirtækja.
Þetta er auðvitað ekki heildar upptalning, eða ýtarleg skilgreining á pólítískri stefnu Sjálfstæðisflokksins (í verki, en ekki riti), aðeins nokkur dæmi.
Ég hugsa að þeir væru margir sem teldu frjálshyggju mun vandfundnari í Sjálfstæðisflokknum, en íhaldssemi.
Vissulega hafa ýmsir frjálshyggjumenn starfað innan Sjálfstæðisflokksins, en ég held að áhrif þeirra hafi því miður ekki verið eins mikil og oft er af látið.
Íhaldið lifir góðu lífi, í Sjálfstæðiflokknum og raunar fleiri flokkum.
Nema við förum svo aftur að ræða muninn á í- og afturhald?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:16 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.