28.10.2014 | 08:45
John Tory - Nýr borgarstjóri Toronto
Í gær, mánudag gengu íbúar Toronto að kjörborðinu og völdu sér nýjan borgarstjóra og borgarstjórn.
Það kom fæstum á óvart (skoðanakannanir höfðu bent til þess í nokkurn tíma) að John Tory varð fyrir valinu sem borgarstjóri
John Tory hlaut 40% atkvæða, Doug Ford (sem tók við keflinu eftir að bróðir hans Rob, fráfarandi) borgarstóri, dró sig í hlé) hlaut 34% atkvæða og Olivia Chow 23%.
Þátttaka í kosningunum var góð á Kanadískan mælikvarða, eða um 60%, u.þ.b. 980.000 manns greiddu atkvæði, sem er aukning um u.þ.b. 150.000. Þátttakan í síðustu kosningum var u.þ.b. 53%, sem þótti gott, en í tveimur kosningum þar á undan hafði þátttakan verið undir 40%.
Það má því ef til vill segja að Torontobúar láti sig í vaxandi mæli varða hver stjórnar borginni og veit það vissulega á gott.
En ég fagna kjöri John Tory og ég held að hann sé líklegastur af frambjóðendunum að ná að sameina borgina að baki sér, en hans bíður erfitt verkefni. Borgarstjóraembættið getur ekki talist "sterkt" í Toronto, hann þarf að treysta á atkvæði 44 borgarfulltrúa (sem eru ekki kosnir listakosningu) og svo gott samstarf jafnt við fylkisstjórn Ontario og ríkisstjórn Kanada. Að segja má eini tekjustofn borgarinnar eru fasteignagjöld og verður hún því að treysta á framlög frá fylkis og ríkisstjórn. Mun meira þó á fylkisstjórnina.
En John Tory þekkir vel til í bæði borgarstjórn og Fylkisstjórninni. Hann hefur starfað mikið innan borgarkerfisins og bauð sig fram til borgarstjóra árið 2003, en tapaði þá fyrir David Miller. Hann var leiðtogi Framsækinna Íhaldsmanna (Progressive Conservative Party) til fylkiskosninga árið 2007, en náði ekki kjöri. Hann náði heldur ekki að vinna sigur í aukakosningum (í öðru kjördæmi) árið 2009. Þá sem nú stjórnar Frjálslyndi flokkurinn Ontario.
Það má því segja að leið Tory´s í borgarstjórastólinn hafi verið nokkuð krókótt og erfið.
Það sem vekur athygli í þessum kosningum, að sigri Tory slepptum, er sterk staða Ford "fjölskyldunnar", og lélegur árangur Oliviu Chow.
Þó að Doug Ford hafi ekki náð borgarstjórasætinu, er hann þó aðeins 6 %stigum á eftir Tory, og Rob Ford var kjörinn borgarfulltrúi með tæplega 60% atkvæða í sínu umdæmi. Árangur Doug er vissulega athygliverður, en margir eru þó þeirrar skoðunar (merkilegt nokk, miðað við hvað er á undan gengið) að Rob hefði náð betri árangri. Eins og mátti lesa í einu blaðanna, Torontobúar bera virðingu fyrir Doug, en þeir elska Rob Ford (það er þó næsta víst að ekki myndu allir taka undir það).
Framan af bjuggust flestir við mun betri árangri hjá Olivu Chow. Hún hefur verið vinsæll stjórnmálamaður á vinstri væng (meðlimur NDP) um langa hríð og setið í borgarstjórn og nú síðast á þingi (sagði sig frá þingmennsku til að bjóða sig fram til borgarstjóra). Hún er ekkja Jack Layton, sem var formaður NDP og átti farsælan stjórnmálaferil, en andaðist langt um aldur fram.
Þegar hún tilkynnti um framoð sitt til borgarstjóra í mars síðastliðnum, tók hún fljótlega forystu í skoðanakönnunum og virtist stefna á sigur.
En hún missti kraftinn yfir sumarið og John Tory tók forystuna. Hvað veldur er erfitt að fullyrða, en margir nefna að hún hafi verið of langt til vinstri, og Tory hafi tekist að ná miðjunni. Einnig er það nefnt að eftir að Rob fór í meðferð hafi kjósendur áttað sig á því að valið stæði á milli Chow og Tory og eftir það hafi valið verið þeim auðvelt. Þeir hafi valið þann sem væri öruggur með að fella Ford.
Enn aðrir benda á það að það sé orðum aukið, hve vinstrisinnaðir íbúar Toronto séu. Vinstri mönnum hafi gengið vel á meðan kjörsóknin var slök, en "hinn þögli meirihluti" halli sér til hægri.
Þess má svo geta hér að lokum, að í nágrannaborg Toronto, Mississsauga var einnig skipt um borgarstjóra. Hin 93 ára Hazel McCallion, sem hafði verið borgarstjóri í 36 ár, gaf ekki kost á sér til endurkjörs. Hún hvatti hins vegar kjósendur til að fylkja sér um Bonnie Crombie, sem er fyrrverandi þingmaður og borgarfulltrúi fyrir Frjálslynda flokkinn. Crombie sigraði með yfirburðum.
En kosningaþátttaka í Mississauga var aðeins 32% (þó örlítil aukning frá þeim síðustu), sem undirstrikar hve góð þátttakan í Toronto, með sín 60%, er.
P.S. Set hér inn kökurit sem sýnir hvaðan Toronto borg hefur "tekjur".
Valdatíð Ford lokið í Toronto | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.