Tilboð frá Costco í tölvupósti

Nú þegar mikið er rætt um hvort að Costco muni opna verslun á Íslandi og svo hvað þar verði á boðstólum, hef ég orðið var við að margir vita ekki hvernig verslun Costo er.

Costco er nokkurs konar blanda af heildverslun og smásöluverslun.  Að hluta til nokkurs konar "gripið og greitt", að hluta til hefðbundin smásöluverslun.

Þar við bætist að flestar verslanir þeirra hafa bensínsölu, dekkjaverkstæði, apótek, gleraugnaþjónustu, ljósmyndaprentun og passamyndatökur, bakarí inni í versluninni sem og kjötvinnslu (þó að megnið af kjötvörum sé að keypt að ég tel).

Bakarí og kjötvinnsla er með þeim hætti að við viðskiptavinurinn getur fylgst með því sem þar gerist.

Til að versla í Costco þarf að gerast meðlimur og borga árgjald. Boðið hefur verið upp á tvenns konar aðild.  Almenn aðild sem í Kanada kostar 55 dollara og svo 110 dollara aðild, innifelur frekari fríðindi, sem og endurgreiðslu upp á 2% af því sem keypt er (einhverjar vörur undanþegnar ef ég man rétt), þó að hámarki 750 dollurum.

Fyrir þá sem kaupa mikið og eru tryggir Costco, er síðari kosturinn álitlegur og gerir oft meira en að borga árgjaldið.

En hvað selur Costco?  Í stuttu máli sagt flest milli himins og jarðar.  Vöruúrval er mismunandi eftir búðum, þó að ákveðinn kjarni sé í þeim öllum.

Costco rekur einnig öfluga netverslun.  Margt sem þar er boðið upp á fæst einnig í verslununum, en annað er eingöngu í netversluninni.  Netverslunin sendir reglulega út tilboð í tölvupósti og má sjá það nýjasta hér.

Rétt er að hafa í huga að þetta er tilboð fyrir Ontario.  Öll verð eru án sölskatts, eins og tíðkast að birta verð í Kanada.  Samanburður við Ísland er líklega í mörgum tilfellum ekki raunhæfur, þar sem tollar, vörugjöld og annað slíkt spilar sína rullu á Íslandi.

Vöruúrval í netverslun má skoða á www.costco.ca eða costco.com  Mismunandi úrval er fyrir Bandaríkin og Kanada.

Hér má svo sjá nýjustu "couponana" eða afsláttarmiðana fyrir Ontario.  Þar gildir það sama, að verð eru án söluskatts, en matvæli bera engan söluskatt í Ontario, eins og víðar í N-Ameríku.

Costco hefur orð á sér fyrir að vera "gott" fyrirtæki.  Borga starfsfólki sínu vel samkeppnishæf laun og vera góður vinnustaður.  Verslanir þess sem ég hef stundað í Kanada, eru t.d. með fleiri "lokunardaga" en margar aðrar verslunarkeðjur og starfsmannavelta þar virðist ekki mikil.  Mörg andilt þar ég hef séð frá því að ég fyrst kom inn í verslunina, fyrir ríflega 12 árum.

Auðvitað eru einstaklingar þó mishrifnir af Costco, og sumum finnst ekki henta sér að kaupa inn í stórum pakkningum.

Ég er þó ekki í minnsta vafa um að fyrir Íslendinga væri mikill akkur í því ef Costco setur upp verslun á Íslandi.

Nú má sjá í fréttum að Reykjavíkurborg virðist hafa fallist á að leyfa fjölorkustöð á Korputorgi og er það vel.

Nú er bara að sjá hvert setur og hvort Costco muni opna Íslandi og ef svo fer hvort það verður í Reykjavík eða Garðabæ.

P.S. Eftir að hafa séð þessa frétt, spái ég að Garðabær verði fyrir valinu ef af verður.  Skilyrði Reykjavíkurborgar eru einfaldlega of íþyngjandi.  Ef skoðað er hvert hlutfall bifreiða notar vistvæna orku og svo aftur "hefðbundna", sést að það er auvitað skrýtið skilyrði að krefjast þess að helmingur dæla sé fyrir vistvæna orku.

Enn eitt dæmið um hvernig skipulagsyfirvöld í Reykjavík virðast vilja þvinga einhverri draumsýn á borgarbúa og fyrirtæki, sem ekki er í takt við raunveruleikann.

Slíkar takmarkanir og skilyrði hindra í raun samkeppni og spilar upp í hendurnar á þeim sem fyrir eru á markaðnum og ekki þurfa að hlýta slíkum skilyrðum.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Þetta dæmi er afar óraunhæft. Það er einfaldlega ekki hægt að beygja reglur fyrir eitt fyrirtæki, þá yrði að breyta öllum reglum, og við myndum ekki vita hvar það endaði. Stundum gleymir fólk að hugsa, þegar gullkálfnum er teflt fram.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 3.7.2014 kl. 17:08

2 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

"Þetta dæmi" er í raun ekki óraunhæft.  Það þarf örugglega ekki að beygja reglur fyrir Costco.

Það er hins vegar óþarfi að reyna að setja hindranir í veg fyrir slíka verslun undir dulargervi "skipulags", eins og rauði meirihlutinn í Reykjavík er að gera.

Það er engin ástæða til þess að veita Costco afslátt af lögum um innflutning af kjöti.  Þeir verða að fara að landslögum eins og allir aðrir.  Það er engin ástæða til þess að gefa Costco afslátt af landslögum um sölu á áfengi eða lyfjum.

En það er full ástæða til þess að velt þvi fyrir sér, hvers vegna það er stór mál að selja bensín, út frá skipulagi í Reykjavík.

Það er sömuleiðis full ástæða til að velta því fyrir sér hverjum er verið að hygla með núverandi fyrirkomulagi á innflutningi á kjöti og öðrum landbúnaðarafurðum.

Og hverjum eru Íslendingar að hygla með núverandi fyrirkomulagi á sölu á lyfjum?

Og er núverandi fyrirkomulag með sölu á áfengi greypt í stein og hvers vegna, er það landsmönnum til hagsbóta?

Og síðast en ekki síst, hvernig stendur á því að fyrsta (að því að ég best veit) alvarlega athugun erlendrar verslunarkeðju, á því að opna verslun á Íslandi kemur frá Ameríku, en ekki Evrópu, þrátt fyrir aðild Íslands að EEA/EES.

Það er vert að velta því fyrir sér, ekki síst í gjaldeyrishöftunum.

G. Tómas Gunnarsson, 3.7.2014 kl. 18:40

3 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Já þetta síðasta er eftirtektarvert.

Það gildir sama um bændur og sjómenn. Skipulögð klíka hefur tekið af þeim réttinn til að vera sjálfs sín herrar. Sláturhúsaverktakar hafa reynt allt sem þeir geta til að koma í veg fyrir að bændur geti selt sjálfir sínar afurðir og slátrað heima. Það er eitur í þeirra beinum og þess vegna með aðstoð stjórnálamanna er dýraníð framkvæmt í stórum stíl þegar gripir smáir og stórir eru fluttir landshorna á milli, eftir að sláturhúsum var fækkað verulega, með allskonar bellibrögðum.

Ég vil sjá meira beint frá býli og ég trúi því ekki að verðið lækki ekki við þá ráðstöfun. Margaði með kjöt, grænmeti og ávexti eins og gert er um alla Evrópu, það er ekki hægt að skýla sér á bak við eitthvað regluverk sem hvergi gildir nema á Íslandi.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 3.7.2014 kl. 20:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband