Moska eða ekki moska, það er aðal spurningin

Ég get ekki neitað því að mér hefur hálfpartinn verið skemmt yfir umræðu um byggingu mosku í Reykjavík, eða hvort þar eigi yfirleitt að leifa að byggja mosku.

Allt í einu er þetta orðið aðalmálið fyrir borgarstjórnarkosningar og hvort að eigi að byggja leiguíbúðir fyrir ríflega 70 milljarða, eða hvort flugvöllurinn á að vera eða fara, fá lítið pláss í umræðunni. Hvort að stórauka eigi niðurgreiðslur á dagvistun og gera hana gjaldfrjálsa eða ekki, er engin þörf á að ræða.

Engu máli skiptir hvort að frambjóðendur hafa vilja til að lækka útsvar eða ekki.

En moska eða ekki moska, það er málið.

Sjálfur hef ég ekki sterka skoðun á málinu.

Er þó þeirra skoðunar að alger tímaskekkja sé að skylda sveitarfélög til að sjá trúfélögum fyrir ókeypis byggingarlóðum. 

En þar er ekki við Reykjavíkurborg að sakast.  Hún eins og aðrir lögaðilar og einstaklingar eiga að fara að lögum.

Ég ber heldur ekki mikla virðingu fyrir trú múslima, reyndar eru trúfélög mér lítt að skapi.

En ég ber ómælda virðingu fyrir rétti þeirra til að hafa trú sína og fá að iðka hana í friði fyrir afskiptum annara, sem og rétti þeirra til að standa jafnfætis öðrum trúfélögum. Það sama gildir um önnur trúfélög.

Kosning um hvort að múslimar eigi að fá lóð eða ekki lóð, er afleit hugmynd.  Lýðræði snýst ekki um að meirihlutinn geti neitað minnihlutanum um sjálfsögð réttindi.  Það var einmitt einn af mörgum göllum á vinnu stjórnlagaráðs að það hafði ekki hugrekki til að afnema þjóðkirkjuskipan á Íslandi.

Slíkt á ekki að vera komið undir meirihlutaræði, heldur á stjórnarskrá að veita réttindi til allra, sem verða ekki frá þeim tekin, hvort sem þeir eru í minni- eða meirihluta.

Svo er spurningin hvort að lóðin sé "á réttum stað".  Það hef ég ekki hugmynd um, frekar en nokkur annar, slíkt er líklega smekksatriði og hlýtur að einhverju marki að lúta skipulagsmálum.

En lóðaúthlutanir eru ekki þess eðlis að þær eigi að breytast og vera dregnar til baka eftir því hver er í meirihluta.  Festa og eðlilegir ferlar eiga að gilda í þessum málum.

Síðan hef ég séð fullyrðingar um að starfsemi trúfélaga múslima brjóti í bága við Íslensk lög hvað varðar jafnrétti og mismunum.

Um það ætla ég ekki að dæma, enda þekki ég ekki starfsemi trúfélaga múslima nægilega til þess.  

En við verðum að treysta því að yfirvöld, mannréttindasamtök og hópar og aðrir sem láta sig slík mál varða veiti aðhald, vekji athygli á og grípi í taumana ef mannréttindabrot eru framin.

En rétt er að hafa í huga að byggingar fremja ekki mannréttindabrot, hvort sem það eru moskur eða aðrar byggingar.

Mest um vert er að hafa lögin í huga.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Af hverju treystu menn ekki á lögin en ákváðu að snúa við mótorhjólaklúbbmönnum frá Noregi? Áttu þeir ekki að fá að valsa hér um eins og hverjir aðrir en brytu þeir af sér þá tæku lögin á því?

Getur verið að lögin ágæt sem þau nú kanski eru, eigi svolítið erfitt með að fást við skipulöggð glæpasamtök og því sé réttara að byrgja brunninn áður en barnið dettur ofnaí?

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 30.5.2014 kl. 01:26

2 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Ég hef reyndar alltaf verið þeirrar skoðunar að það að banna "ferðafólki" að koma til Íslands sé ákaflega vafasöm framkvæmd.  Það er að segja þeim sem hafa til þess fullgild skilríki/vegabréfsáritanir/samninga.

Eftir því sem ég veit best, hefur "fyrirbyggjandi handtökum" þó ekki verið beitt gegn innlendum meðlimum mótorhjólaklúbba.  Þeir eiga sín félagsheimili og hafa sína starfsemi.

En þeir hafa verið handteknir ef þeir eru taldir hafa brotið lög.

En þó að margar ógeðfelldar fréttir megi lesa um framferði múslima víða um lönd, eigum við ekki sjálfkrafa að færa það upp á trúbræður þeirra sem búa á Íslandi.

Sjálfsagt myndu margir vilja banna raptónlist á Íslandi, vegna þess að henni fylgir oft eiturlyfjaneysla, vopnaburður, skotbardagar og önnur óáran, ef marka má fréttir.

Ég verð aldrei einn af þeim.

Hitt er svo að ef menn telja starfsemi safnaða/klúbba í bága við lög, er rétt að horfa á starfsemina.

En það kemur byggingum lítið við.

G. Tómas Gunnarsson, 30.5.2014 kl. 04:27

3 identicon

Ég vil fá fleiri svona múslimi sem skera snípinn af dætrum sínum, berja þær í klessu ef þær fara ekki að vilja þeirra og drepa þær svo ef þær giftast vitlaust. Það eru karlar í krapinu...☺

GB (IP-tala skráð) 30.5.2014 kl. 05:10

4 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Það er einmitt umræða á þeim nótum sem kemur hér frá GB, sem er líklegust til að skapa sátt og ná niðurstöðu um málin.

Kristnir Bandaríkjamenn eru líklega ekki velkomnir til Íslands, vegna þess að hætta er á að þeir sprengi upp spítala þar sem framkvæmdar eru fóstureyðingar.

Rússar eru ekki velkomnir til landsins, vegna þess að þeir eru líklega flugumenn Putins.

Kínverja viljum við ekki sjá, þeir eru jú allir í leynt og ljóst í Kommúnistaflokknum.

Þjóðverjar og Grikkir eru farnir að senda fasista á Evrópusambandsþingið, þannig að innflytjendur þaðan eru frekar vafasamir.

Svona má lengi telja.

Lausnin gæti verið að halda atkvæðagreiðslu árlega um hverjum skal hleypt inn í land.

Spurningin er aðeins hvort að atkvæðagreiðslan yrði um persónur, þjóðerni, eða trúarbrögð.

G. Tómas Gunnarsson, 30.5.2014 kl. 07:35

5 Smámynd: Halldór Björgvin Jóhannsson

Spurningin er aðeins hvort að atkvæðagreiðslan yrði um persónur, þjóðerni, eða trúarbrögð.

Væri þessi atkvæðagreiðsla ekki um byggingu? Ég hef ekki tekið eftir því að það sé verið að banna múslimum að iðka sína trú, menn eru bara ósáttir við að þetta hús verði kennileiti reykjavíkur. Þetta yrði ekki í fyrsta skipti sem trúarlegri byggingu er mótmælt vegna staðsetningu og því skil ég ekki afhverju það má ekki mótmæla byggingu múslima eins og það má mótmæla byggingu kristinna.

Halldór Björgvin Jóhannsson, 30.5.2014 kl. 10:16

6 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Halldór.  Síðast færsla mín/athugasemd er eingöngu sett fram (í hálfkæringi) sem svar við færslu GB þar á undan, eins og er vísbending um í upphafssetningu hennar.

Það er ekkert að því að mótmæla, það er sjálfsagður réttur allra.  Auðvitað hefði verið best fyrir andstæðinga moskubyggingar, eða staðsetningu hennar að mótmæla hressilega þegar verið var að samþykkja lóðaúthlutunina í borgarstjórn.

En auðvita er ekki of seint að mótmæla og ekkert út á það að setja.  En aðferðin sem GB notar hér að ofan, tel ég hvorki geðfellda eða vænlega til árangurs.

G. Tómas Gunnarsson, 30.5.2014 kl. 10:33

7 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Það var ósköp dapurlegt að lokasprettur kosningabaráttunnar í Reykjavík skyldi fara útí þessa vitleysu.

Hlýtur líka að vera leiðinlegt fyrir skynsamt fólk í Framsóknarflokknum að núna virðist hann orðinn helsta athvarf kjósenda með öfgafullar skoðanir. Eða er sama hvaðan fylgið kemur? Ekki myndi ég vilja hafa svona fylgi.

Málið sjálft, kosningar um mosku, staðsetning mosku og svo framvegis, hefur alveg horfið í skuggann af bjánalegum ofstopa um meinta mannvonsku múslima, eins og þeir séu allir eins.

Þetta mál varð vettvangur fyrir þá sem ekki geta rætt neitt nema hafa það algjörlega svarthvítt, af eða á, allt eða ekkert. Alvont eða algott. Sennilega er þetta þörf fyrir að einfalda hlutina svo að auðveldara verði að skilja þá.

Sem betur fer hafa nú held ég flestir kjósendur látið þetta rugl sig engu varða og bara kjósa sína Samfylkingu (nú eða tvíburaflokk hennar, BF - hefur þér sýnst vera einhver málefnalegur munur á Samfó og BF?).

En hvað er að gerast með Sjálfstæðisflokkinn í Reykjavík? Það er nú kannski merkilegasta málið í þessum kosningum.

Kristján G. Arngrímsson, 31.5.2014 kl. 10:15

8 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Það er ef til vill ekkert nýtt að smáatriði verði aðalatriði í umræðu fyrir kosningar, en ég er sammála því að þetta er frekar dapurlegt.

Persónulega finnst mér trúmál frekar dapurleg, og yfirleitt umræða um þau, en það er önnur saga.

Ég hef ekki séð neinn málefnalegan mun á SF og BF.  En Samfó er það laskað vörumerki, nema í Reykjavík að nægt pláss er fyrir Betri framtíð.  Reyndar dróg Jóhanna SF svo langt til vinstri að mörgum varð nóg um, en ég sé fátt nema sameiningu í spilunum.

En Sjálfstæðisflokknum hefur ekki tekist að still sér fram sem trúverðugum kosti, sem trúverðugu mótvægi við Samfó/Besta/Bjarta.  Ef Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki upp á neitt annað að bjóða en það sama og núverandi meirihluti, því að skipta?

Hitt er svo að ég er líklega ekki besti eintaklingurinn til að fullyrða neitt um kosningabarátttuna, verandi svo langt í burtu, en það sem ég hef séð er ótrúlega bragðdauft og máttlaust.

Það hentar líklega SF og BF.

G. Tómas Gunnarsson, 31.5.2014 kl. 15:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband