Eru formannsskipti málið í stjórnmálum?

Ekki ætla ég að draga niðurstöður þessarar könnunar í efa, til þess hef ég engan grundvöll, en mér þykja þær frekar merkilegar.

Persónulega set ég þó alltaf stórar spurningar um kannanir á borð við þessa.  Þetta er skrifað með þeim fyrirvara að ég hef ekki séð neinar niðurstöður úr könnuninni sjálfri, en aðeins stuttar fréttir á mbl.is og á vef Viðskiptablaðsins.

Það er alltaf erfitt að meta svona, en spurningin sem ég velti fyrir mér er:  Ef kjósandi er nokkuð ákveðinn í því að kjósa Framsóknarflokkinn, eða t.d. Samfylkingu, hversu trúverðug eru svör hans hvað varðar forystumenn annarra flokkka?

Vissulega snúast kosningar um að ná fylgi frá öðrum flokkum, þannig að því leyti til veita svona kannanir athyglisverðar vísbendingar. 

En það þarf að hafa fleira í huga.  Er trúlegt að "pönkast" sé á Bjarna Benediktssyni, vegna þess að hann er Bjarni Benediktsson, eða vegna þess að hann er formaður Sjálfstæðisflokksins?

Mun sú "pönkun" ekki einfaldlega flytjast yfir á nýjan formann?

Það er margt sem hafa þarf í huga við val á leiðtoga.  Ég hef það á tilfinningunni að á Íslandi vilji sú leit stundum snúast upp í leit að þeim sem ekkert hefur gert, vegna þess að það eru þeir einu sem ekkert hafa gert "rangt".

Persónulega hef ég þá skoðun að þeir flokkar sem kjósa að hlaupa til og frá eftir skoðanakönnunum farnist ekki vel og hafi ekki farnast vel.

En ég hef heldur ekki trú á að þeim forystumönnum farnist vel sem reyna að gera lítið úr landsfundarsamþykktum flokks síns.

En ég er sjálfsagt gamaldags.  Margir myndu sjálfsagt ganga svo langt að kalla mig íhaldssaman. Er það ekki eitthvað hræðilegt?

Ég held reyndar líka að það sé gott fyrir forystumenn fái að ná pólítískum þroska áður en þeir taka við æðstu stöðum.  Ég held að þess hafi sést merki á því kjörtímabili sem er að líða.

Nýjir forystumenn áttu lítt í gamla refi eins og Össur Skarphéðinsson, Steingrím J. Sigfússon og Jóhönnu Sigurðardóttur.  Þess mátti sjá skýr merki framan af kjötímabilinu.  En þeim yngri óx ásmegin eftir því sem tíminn leið.

Endirinn á kjörtímabilinu varð enda allt annar en upphafið.  Stjórnarflokkarnir hnípnir og rúnir tiltrú og trausti.

Og samt eru þeir búnir að skipta um formenn. 

 

 


mbl.is Fylgið myndi aukast ef Hanna Birna væri formaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Nei það blasir náttúrulega við að það eitt að skipta er ekki nóg, það verður að vera eitthvað vit í nýja formanninum.

Ekki er þetta spurning um gamla refi því að Sigmundur er ekki gamall refur - kannski nýr refur?

Kristján G. Arngrímsson, 11.4.2013 kl. 14:19

2 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Nei, Sigmundur er ekki gamall refur.  En hann er þó búinn að sitja á Alþingi í að verða 4. ár.  Búinn að vera formaður í rétt ríflega það.

En ég er nokkuð viss um að dómar um frammistöðu hans framan af kjörtímabilinu eru ekkert sérstakir.  Reyndar ekki langt síðan að efast var um pólítíska framtíð hans, þegar hann barðist við Höskuld Þórhallsson, en hann sigraði nokkuð örugglega.

Þó komu fram skoðanakannanir þar sem sýnt var fram á að hann myndi skíttapa ef kosið væri á meðal Akureyringa og nærsveitamanna.  Nú er hins vegar útlit fyrir að Framsóknarflokkurin fái 5 menn kjörna í því kjördæmi.

Enda má Sigmundur Davíð  eiga það, að hann óx í embætti.

Það hefur mér þótt Bjarni Benediktsson gera einnig.  En það er mín skoðun og sjálfsagt margir á annarri.

En það er engin töfralausn að hlaupa á eftir skoðanakönnunum eða að skipta um formann.

G. Tómas Gunnarsson, 11.4.2013 kl. 15:15

3 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Ég verð að bæta því við hér Kristján, að mig langar til þess að spyrja þig.

Fyrst að fylgisaukning VG og Samfylkingar hefur verið því sem næst engin, eða engin, síðan gömlu lún formmennirnir fóru frá, þýðir það að það sé ekkert vit í nýju formönnum þeirra flokka?

Hvað gömlu refina varðar, má nefna Margaret Thatcher, af því að hún er mikið og verðskuldað í umræðunni þessa dagana.

Hún var fædd árið 1925.  Hún bauð sig fyrst fram árið 1950 (þá í kjördæmi sem var öruggt kjördæmi Verkamannaflokksins).  Hún var fyrst kjörin á þing árið 1959. 

Hún varð ráðherra árið 1970.  Hún varð formaður Íhaldsflokksins árið 1975, þá auðvitað næstum fimmtug að aldri.

Hún varð forsætisráðherra Bretlands árið 1979,  á 54. aldursári, ferskari, staðfastari, ákveðnari og betri en nokkur sinni fyrr.

The rest is history ...  eins og sagt er á Enskunni.

Auðvitað er engin ein leið, eða uppskrift að góðum leiðtoga, en skoðanakannanir og taugaveiklun, er ég nokkurn vegin viss um að er ekki sú rétta.

G. Tómas Gunnarsson, 11.4.2013 kl. 16:23

4 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Nei ég held að nýir formenn Samfó og VG hafi lítið með fylgishrunið að gera. Frekar stafar það af því að Samfó hefur klikkað á kosningaloforðinu um skjaldborgina, vildi semja um IceSave og ganga í ESB - allt fer þetta þvert í kjósendur. Samfó hefur þar að auki ekki það séð verður gert neitt til að létta manni skuldabyrðina, að minnsta kosti finnur maður ekki fyrir því.

VG er náttúrulega hópur katta og Svandís er einhver hörmulegasti ráðherra sem verið hefur, og svo var þetta Jóns Bjarnasonarfíaskó, VG er bara rjúkandi rústir.

Undir það síðasta hefur ríkisstjornin ekki hangið saman á neinu nema sameiginlegu hatri Jóhönnu og Steingríms J á íhaldinu - Allt er betra en íhaldið varð allt í einu að raunveruleika.

Ríkisstjornin klúðraði þaraðauki alveg stjórnarskrármálinu og var algjöru ofurliði borin af LÍÚ og útgerðaraðlinum. Sá aðall hefur lengi verið hið eina sanna stjórnvald Íslands og heldur því áfram, því miður.

Hér á landi gildir hið fornkveðna, might is right - réttlæti er það sem kemur hinum sterka vel. Við getum tekið dæmi Akureyri. Manstu þegar KEA var hið eiginlega yfirvald þar? Núna er það Samherji. Þorsteinn Vilhelmsson er kóngurinn á Akureyri. Hann gerir það sem honum sýnist og dælir út peningum til pöpulsins til að halda honum góðum.

Þetta er ekki huggulegt, en kannski bara er lífið svona. Furstinn e. Machiavelli er forvitnileg bók, og ekki síður Levíataninn hans Hobbes. Báðar þessar bækur veita manni ómetanlega innsýn í veruleika stjórnmálanna og valdsins.

Kristján G. Arngrímsson, 12.4.2013 kl. 08:16

5 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Ef af því að ég er óforbetranlegur ídealisti ætla ég ekki að gefast upp heldur kjósa Bjarta framtíð.

Kristján G. Arngrímsson, 12.4.2013 kl. 08:20

6 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

En formannsskiptin yrðu að koma með eitthvað af viti.  Það virðist ekki hafa gerst í tilfelli Samfylkingar og VG.  Fylgistapið hefur reyndar haldið áfram eftir að Árni Páll tók við.  Samfylkingin mælist nú með minnsta fylgi frá stofnun.  

Ríkisstjórnin hefur aðallega borið sjálfa sig ofurliði.  Ætlaði sér um of og kom því sem næst engu í verk.

Stjórnarskrármálið er reyndar að mínu mati eitthvað sem allir ættu að vera glaðir yfir að klúðraðist á endanum, því tillögurnar voru það slæmar.

Ég held reyndar að völd Samherja séu ofmetin, enda hefur margt breyst frá því á okkar uppvaxtarárum, sem betur fer.

En Furstinn er klassískur og sést víða bregða fyrir á síðustu dögum.

Björt framtíð er þunnar umbúðir um lítið.  Kannski skárra en ekkert.  En ég get ekki sagt að sá kostur þinn komi mér sérstaklega á óvart.

Svo hefjast sameingarviðræðurnar á vinstri vængnum eftir kosningar....   því allir eru vinir, er það ekki?

G. Tómas Gunnarsson, 12.4.2013 kl. 08:38

7 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Jú, ég geri fastlega ráð fyrir að BF sameinist Samfó aftur þegar frá líður. Kannski með því að Guðmundur Steingríms taki við formennsku í Samfó. Það er amk enginn innanbúðar í Samfó sem getur orðið góður formaður.

Kristján G. Arngrímsson, 12.4.2013 kl. 09:54

8 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Já, það hljómar nokkuð líklega, nema að ég hygg að Guðmundur verði varla formaður, en það er önnur saga.

En þú segir sameinist aftur.  

Ég hef stundum sagt að BF sé eins og óþarft bergmál af Samfylkingunni og stundum hlotið skammir fyrir.

En er það ekki merkileg staðreynd, að við skulum þó vera sammála (og margir fleiri þeirrar skoðunar) að fyrrum þingmaður Framsóknarflokksins skuli hafa klofið sig út úr Samfylkingunni og stofnað flokk? (orðalag aðeins fært í stílinn hér, en fram hjá því verður ekki horft að þingmaður Framsóknar klauf Samfylkinguna).

G. Tómas Gunnarsson, 12.4.2013 kl. 11:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband