Hvers vegna flytur fylgið sig? Borgar samheldnin sig? 1. hluti

Þegar kosningar nálgast og skoðanakannanir gefa til kynna miklar fylgisbreytingar, er óhjákvæmilegt að áhugamenn um stjórnmál fari að velta því fyrir sér hvers vegna fyggið er að flytjast og hvernig það flyst á milli flokka.

Þær skoðanakannanir sem birst hafa hafa undanfarnar vikur hafa í meginatriðum verið sammála.

Þær gefa til kynna að Framsóknarflokkurinn sé i mikilli sókn, að Samfylkingin og Vinstri græn séu að tapa miklu fylgi, að Sjálfstæðisflokkurinn vinni litillega á miðað við síðustu kosningar, en tapi verulega á við hvað skoðanakannanir hafa sýnt á kjörtímabilinu.  Að Björt framtíð hafi náð góðu fylgi og virðist ætla að festa sig í sessi sem 5. flokkurinn, þó að fylgið hafi dalað upp á síðkastið. Að "litlu framboðin" nái ekki inn manni.

En hvað veldur þessum fylgisbreytingum?

Auðvitað er varasamt að fullyrða nokkuð um það, enda eru uppi um það margar og mismunandi skoðanir, sem sjálfsagt hafa flestar geyma einhvern sannleik.

En lítum á Sjálfstæðiflokkinn.  Hann mældist lengi vel með fylgi á biliu 35% til 40%.  Nú er hann kominn níður í kringum 25%, sem þó að það sé örlítil aukning frá síðustu kosningum, getur ekki talist annað en afhroð, ef það kæmi upp úr kjörkössunum.

Margir tala um að fylgistapið sé forystunni að kenna.  Persónulega kaupi ég ekki þá skýringu.  Flokkurinn mældis eins og ég sagði áður lengi í ríflega 35% fylgi, undir stjórn Bjarna Benediktssonar.  Síðan hefur verið kjörinn nýr varaformaður, en Hanna Birna reytir ekki fylgið af Sjálfstæðisflokknum, það tel ég næsta víst.

Síðan er talað um "Sjálfstæða Evrópu(sambands)menn", og að ályktanir landsfundar flokksins séu að fæla þá frá flokknum.  Persónulega tel ég það ekki standast skoðun.  Síðasta könnun sem ég hef séð og sýnir fylgi við "Sambandsaðild" eftri flokkum, sýndi að rétt um 7%  fylgismanna Sjálfstæðisflokks vildi ganga í "Sambandið".  Það er rétt að undirstrika að þessi könnun var birt ca. 2. vikum fyrir landsfund.

En hvers vegna hverfur fylgið á brott?

Það verður ekki litið fram hjá því að fylgistapið (miðað við skoðanakannanir) byrjaði í kringum landsfund flokksins.  Ég hef áður skrifað um það að ég tel að flokkurinn hafi tapað fjölmiðlaumfjölluninni eftir landsfund.

En landsfundurinn var líka varla liðinn þegar engu líkara var en að flokkurinn væri klofinn eða í það minnsta verulega ósamstæður.  Fjölmiðlar voru uppfullir af einstaklingum úr Sjálfstæðisflokknum sem fullyrtu að flokkurinn væri á kolrangri leið.  Talað var eins og "Sambandssinnar" væru 30% eða meir af stuðningsmönnum, en ekki þau ríflega 7% sem skoðanakannanir gefa til kynna.

Það sem meira var, það liðu ekki margir dagar, áður en ýmsir af forsytumönnum flokksins sátu eins og titrandi lauf fyrir framan fréttamenn og álitsgjafa og lýstu sig ósammála ýmsum af samþykktum landsfundar og drógu úr þeim eftir mætti.

Slíkt virkar einfaldlega ekki sem heilsteyptur trúverðugur flokkur.   Það virkar heldur ekki eins og flokkurinn meini það sem hann (landfundur hans) segir.

Það er vinsælt að segja að fyrir kosningar þurfi að þétta raðirnar.  Sjálfstæðisflokkurinn virðist ekki hafa náð að þétta raðirnar á landsfundi.  Þvert á móti virðast þær hafa gliðnað.  

Því má auðvitað halda því fram að það hefði verið betra fyrir Sjálfstæðisflokkinn að samþykkja óljósar og loðmæltar ályktanir, með það að markmiði að halda öllum ánægðum, líka þeim 7% af stuðningsmönnum sem vilja ganga í "Sambandið".  En til lengri tíma litið er það ekki vænlegt til árangurs að mínu mati.

En það er ljóst að ef Sjálfstæðismenn ná ekki að snúa vörn í sókn, blasir við þeim afhroð aðrar kosningarnar í röð.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Það er ljóst að Sjálfstæðisflokkur geldur fyrir ístöðuleysi flokksforustunnar, geldur fyrir að þeir sem eru í forsvari fyrir flokkinn þora ekki að tala fyrir þeirri stefnu sem landsfundur markaði.

En það er fleira sem kemur til og það er sú ótrúlega uppákoma þegar efnahags og viðskiptanefnd landsfundarins lagði fyrir fundinn ákveðnar tillögur um lausn vanda heimila og fjölskyldna landsins. Þessar tillögur tóku þingmenn og forusta flokksins stinnt upp og töluðu gegn henni. Að lokum tók formaðurinn sig til, sjálfsagt undir leiðsögn annara þingmanna og þynnti þessar tillögur svo að þær urðu hvorki fugl né fiskur. Eins og vant er þá samþykktu meirihluti fundarmanna tillögur formanns, þó margir hafi gert það gegn betri vitund.

Og jafnvel þessa málamyndunartillögu hefur svo forustan ekki þorað að standa á í fjölmiðlum, heldur reynir að fegra hana í ætt við þá tillögu sem fyrst var lögð fyrir landsfund.

Þessi boð landsfundar, með afskiptum þingmanna flokksins, eru ekki þau boð sem kjósendur vildu heyra, allra síst frá þingmönnum og formanni flokksins, sem margir hverjir hafa orð á sér að hafa fengið miklar afskriftir sjálfir, með réttu eða röngu. Þetta á stæðstann þátt í fylgistapi Sjálfstæðisflokks.

Það er ljóst að landsfundur Sjálfstæðisflokks skilaði ekki því sem ætlað var. Það sem þó kannski kemur mest á óvart var hvernig forustan og ýmsir málsmetandi menn innan flokksins töluðu eftir þessa samkomu, allir voru á einu máli um að fundurinn hafi verið vel heppnaður og árangursríkur. Verið getur að form fundarins hafi heppnast vel en árangurinn varð enginn, reyndar verri en enginn. Kannski væri staða þessa flokks betri í dag ef landsfundurinn hefði aldrei verið haldinn.

Gunnar Heiðarsson, 2.4.2013 kl. 09:13

2 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Ég held að þú hafir í flestu rétt fyrir þér Gunnar.

Það sem ég líklega vanmat í pistlinum hér að ofan eru IceSave áhrifin.  Ég held að kjósendur hafi áttað sig á því að þar lét Sjálfstæðisflokkurinn blekkjas og sá sem hefur einu sinni látið blekkjast..   er líklegur til þess aftur.

Það er gamla máltækð að almenningur þurfi fyrst að vera hræddur þegar stjórnmálamenn eru almennt sammála um eitthvað.

En það er ákveðið vinguls og hræðsluyfirbragð yfir Sjálfstæðisflokknum og flokkur sem er of hræddur við álitsgjafa/fréttamenn, eða lætur skoðanakannanir um einstök málefni hafa of mikil áhrif á sig, mun ekki njóta hylli til langframa.

En svo er spurningin með uppbyggingu landsfundar og hvernig haldið er á málum í kringum hann.  Þar hlýtur Sjálfstæðisflokkurinn að þurfa að taka sér tak.

G. Tómas Gunnarsson, 3.4.2013 kl. 12:07

3 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Vandi Sjalló er formaðurinn. Sjálfstæðisflokkurinn er formannsflokkur, þar vilja menn geta litið á foringja sinn sem sterkan leiðtoga sem hægt er að líta upp til og mæra. Bjarni Ben býður bara ekki upp á þetta.

Þess vegna fara formannshollir flokksmenn annað og finna sér forystusauðinn Sigmund Davíð sem sýndi hreinlega Davíðstakta í IceSavemálinu, tók einarða afstöðu gegn vondum útlendingum og sagði að við Íslendingar gerðum bara það sem okkur kæmi best.

Kristján G. Arngrímsson, 3.4.2013 kl. 14:16

4 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Staðreyndin er sú að fylgi Sjálfstæðisflokks mældist fast að 40% í mörgum könnunum, og þá var Bjarni Ben formaður.

Það stemmir því ekki að hann sé í raun að fæla fylgi frá Sjálfstæðisflokknum sem persóna.  Hugsanlega eitthvað sem hann hefur sagt, en ég man þó ekki eftir neinu.

Hins vegar er það rétt, að ég held, að IceSave málið varð vendipunktur í kosningabaráttunni.

Sigmundi til framdráttar en Bjarna ekki, þar sem hann hafði þar á endasprettinum gengið "í björg" stjórnarandstöðunnar.

En það eru ekki mest "Sjálfstæðismenn" sem hafa yfirgefið flokkinn og ætla ekki að kjósa hann, heldur er það auðvitað lausafylgið sem hefur haft "tilhneygingu" til þess að kjósa Sjálfstæðisflokkinn.

Foringjadýrkun hefur verið og er líklega meiri í mörgum öðrum flokkum en Sjálfstæðisflokknum, er það er líklega rétt hjá þér að Sjálfstæðismenn hafa verið hollir í gegnum tíðina.  Það er enda af hinu góða.

G. Tómas Gunnarsson, 3.4.2013 kl. 14:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband