22.2.2013 | 09:14
Hvað er eign og hvers virði er hún?
Ég sé að hér og þar um netið er verið að ræða þessi ummæli Bjarna Benediktssonar um að það þurfi að afskrifa eignir erlendra aðila tengdum þrotabúum bankanna.
Eins og oftast, og eðlilegt er, sýnist sitt hverjum í þessum efnum.
Sumir ná varla upp í nef sér af hneysklun og tala um eignaupptöku og væntanlega einangrun Íslands vegn þess hve illa sé talað í garð erlendra fjármagnseigenda.
Öðrum finnst þetta það eina rétta.
En hvað er eign og hvers virði er hún.
Ef ég sé hús sem er auglýst til sölu á 100 milljónir króna, en tilboði mínu upp á 65 milljónir er tekið, hvers virði er þá húsið?
Ef ég kaupi skuldabréf sem er að nafnvirði milljón dollarar, en borga fyrir það 17.000 dollara, hvers virði er skuldabréfið?
Í stuttu máli má segja að verðmæti eigna séu samkomulagsatriði. Eign er þess virði sem einhver vill borga fyrir hana.
Þegar skuldabréf á hina föllnu Íslensku banka voru seld fyrir hrakvirði, vissu bæði seljendur og kaupendur að á Íslandi giltu gjaldeyrishöft. Þeir hafa líklega líka vitað að horfur í efnahagsmálum landsins voru ekki of bjartar.
Þess vegna voru þessar kröfur seldar á frá 2 til 3 % af nafnvirði og upp í ríflega 15% af nafnvirði. Þegar kröfur eru seldar á slíku verði gera sér flestir grein fyrir að ekki er um öruggar eignir að ræða.
Þessir kröfuhafar eiga rétt á fá greitt í hlutfalli við kröfur sínar og afkomu þrotabús bankanna. Síðan vilja þeir auðvitað skipta þeim krónumm, eða hlutabréfum sem þeir fá í erlendan gjaldeyri. Flytja hagnaðinn til síns heima.
En þar strandar á gjaldeyrishöftunum.
Auðvitað njóta þeir einskis forgangs þar. Þar gefst kostur á að semja. Þar gefst kostur á að semja um lægri gengi en almennt er, gegn því að gata viðkomandi verði að einhverju leiti gerð greiðfærari úr landi.
Er það ósanngjarnt? Er það eignaupptaka?
Það ekki að efa að viðkomandi sjóðir hafa á launaskrá sinni fjölda lögfræðinga sem eru reiðbúnir að leggja fram álit þess sem styðja þá skoðun.
Sjálfsagt má finna fullt af einstaklingum sem segja að auðvitað eigum við að virða rétt þessara kröfufhafa og greiða þeim fullt verðgildi í gjaldeyri.
Sjálfsagt má finna bæði hagfræðinga og háskólaprófessora sem segja að Ísland einangrist frá alþjóðaviðskiptaheiminu og breytist í "Kúbu norðursins, ef þessir aðilar fá ekki sitt fram.
Það eru sjálfsagt til heimspekingar og siðfræðingar sem segja að Íslendingum beri siðferðisleg skylda til þess að aðstoða viðkomandi sjóði við að koma eignum sínum úr landi.
Sjálfsagt eru þeir til sem telja að það geti kennt börnum Íslendinga verðmæta lexíu að hleypa þessum verðmætum úr landi án frekari refja.
En gleymum ekki að eign er þess virði sem einhver vill borga fyrir hana. Að selja eign ódýrt í dag, kann að vera betra en að selja eign mun dýrara, eftir 10 ár.
Það er sjálfsagt að fara í samningaviðræður við hina erlendu kröfuhafa um að þeir færi niður kröfur sínar, það er ekkert óeðlilegt eða ólögmætt við það.
Það gæti þess vegna verið besta tilboðið sem þeir fá.
Fái þeir hinss vegar betra tilboð, t.d. ef einhver erlendur aðili býður þeim betra verð í beinhörðum gjaldeyri, þá líklega ganga þeir að því.
En það er engin ástæða til þess að tala niður möguleika Íslendinga í hugsanlegum samningaviðræðum. Ég held að þeir séu nokkuð góðir.
Eigendur vilja ná þeim úr landi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkur: Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 19:48 | Facebook
Athugasemdir
Það er rétt að undirstrika að verð og virðimeru ekki sami hlutur. Skilningsskortur á þessu, meðvitaður eða ómeðvitaður er einmitt ástæða hrunsins hérna. Þetta veit Bjarni og því fæ ég hroll þegar hann talar á þessum nótum.
Jón Steinar Ragnarsson, 22.2.2013 kl. 17:51
Það er eins og margt annað umdeilanlegt.
Er eitthvað meira virði akkúrat nú, en einhver vill borga fyrir það?
Áætlað virði, eða ímyndað virði er ekki mikils virði ef enginn er reiðubúinn til þess að reiða það af hendi.
Stundum er hins vegar borgað fyrir hluti yfir því sem talið er virði þeirra. Það er yfirleitt vegna þess að einhver sér verðmæti í þeim sem aðrir sjá ekki.
Eða hægt sé að nota umrædda hluti til "verðmætasköpunar" sem aðrir hafa ekki hugmyndaflug til að sjá.
Þa'ð er vissulega önnur saga, en þó ekki síður athygliverð.
En eins og áður er þörf fyrir að Íslenskir ráðamenn standi fastir fyrir og hugsi um hag Íslands og Íslendinga. Á það hefur vissulega skort nokkuð á köflum.
G. Tómas Gunnarsson, 22.2.2013 kl. 20:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.