24.1.2013 | 17:14
Að framselja ekki strandríkisréttinn
Nú þegar ég sá þessa frétt, dreif ég mig á vef BBC og hlustaði á viðtalið við Steingrím J.
Og það verður hver að eiga það sem hann á. Í þessu viðtali Steingrímur stóð sig vel. Hann varði málstað Íslands af hörku, en hélt ró sinni og svaraði spurningum ákveðið, en af fullri kurteisi.
Steingrímur féll ekki í þá gryfju, eins og Össur Skarphéðinsson, að kenna Norðmönnum einum um vandræðin í samningaviðræðum. Steingrímur benti réttilega á að vandræðin væru ekki Íslendingum og Færeyjingum að kenna, heldur ekki síður þeirri ákvörðun "Sambandsins" og Norðmanna að taka sér 90% af kvótanum.
Steingrímur kom réttilega að þeim rétti Íslands sem strandríkis, að veiða úr stofnum sem koma inn í lögsöguna og nýta sér æti sem þar finnst, í samkeppni við aðra stofna.
Það mátti vel brosa út í annað að heyra Steingrím fara í smiðju Miltons Friedman og segja að makríllinn (eða í raun "Sambandið" og Norðmenn) fengi ekki ókeypis hádegisverð á Íslandsmiðum.
Það er í raun með eindæmum að sá hinn sami Steingrímur og talaði í þessu viðtali, skuli hafa látið hafa sig út í það að standa í vriðræðum við Evrópusambandð, þar sem þessi réttur strandríkisins Íslands skuli framseldur.
Það er nákvæmlega það sem má aldrei gerast.
Það þarf ekkert að velkjast í vafa hvernig þetta deilumál hefði verið höndlað, hefði Ísland þegar verið aðili að "Sambandinu".
Íslendingar ættu ekki að hundsa þessa aðvörun sem makríllinn sendir þeim.
Makríllinn fær ekki ókeypis hádegisverð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Evrópumál, Utanríkismál/alþjóðamál | Facebook
Athugasemdir
Þetta var ágætt hjá SJS. Þó ég sé ekki sannfærður um harða stefnu Íslendinga, eins og ég er ekki sannfærður um harða stefnu hinna þjóðanna, þá fær hann prik hér. Þú nefnir að Össur hafi fallið í einhverja gryfju, það er ekki svo, hann veit alveg hvað hann er að gera. Það á ekki að hlusta á Össur þegar hann talar um eitthvað varðandi Ísland á alþjóðavettvangi. Allur hans málflutningur byggir á því að rýra traust Íslands svo hann fái meira ESB-fylgi. Já, allur hans málflutningur. Hann beitir Sálfræði 101 í einu og öllu, þar sem lokatakmark hans er ESB-aðild og röksemdarfærslur sem halda velli munu ekki færa honum það fylgi. Versti utanríkisráðherra sem Ísland hefur átt.
Flowell (IP-tala skráð) 24.1.2013 kl. 23:08
Varðandi athugasemd Flowells hér að ofan, þá verð ég að taka ofan húfuna fyrir hæfileikum Össurar, hann er trúlega einn mesti áróðurs og blekkingameistari okkar Íslendinga í seinni tíð. (ekki það að ég hafi ekki skömm á slíkri iðju en hæfileikarnir út af fyrir sig eru aðdáunarverðir)
Ef við skoðum gerðir Samfylkingarinnar síðustu ár þá er með ólíkindum hve henni hefur tekist að snúa á réttlætistilfinningu almennings og eigin afglöpum inn á þá braut sem hún sækir helst að fara, sem er innganga íslendinga í ESB. Það er að sjá að potturinn og pannan í þessu sé Össur Skarphéðinsson. sbr. t.d. þetta úr skýrslu hans á sínum tíma til ESB.
"Legislation to elect an advisory constitutional assembly was adopted in June. The task of the assembly is to prepare a proposal to parliament for a new constitution. Among the issues to be addressed is delegation of powers by the State to international organisations. "
Eftir að hafa leitt landið fram af brúninni ásamt Sjálfstæðisflokki verandi í ríkisstjórn með honum síðustu ár fyrir hrun, þá tekst Samfylkingunni að sannfæra fjölda fólks um að hún sé hinn rétti aðili til að leiða þjóðina út úr vandanum og þar sé aðeins ein leið, innganga í ESB.
Sá eini flokkur (4flokkanna) sem sannanlega átti ekki aðild að Hruninu er notaður eins og hver önnur gólftuska og látin kokgleypa sínu helsta kosningamáli þ.e. andstöðunni við aðild.
Úlfúð og óánæga fólks með efnahagsmálin og stjórnmálin sem leiddu til hruns er beint í þann farveg að hér þurfi nýja stjórnarskrá (þó enginn hafi bent á að sú gamla hafi verið þar einhver orsök) , þar sem næstum hið eina sem ætlunin er að tryggja með henni er að gera valdaframsalið til ESB, mögulegt. (sjá tilv. að ofan) Eða dettur nokkrum heilvita manni í hug að ESB umsóknarkjarninn geri nokkurn skapaðan hlut með einhverjar almennar athugasemdir í stjórnarskrá um að "öll dýrin í skóginum eigi að vera vinir" þegar sæluríkið bíður með sínar hundrað og eitthvað þúsund síður af reglum um það hvernig eigi að haga sér í stóru sem smáu.
Síðan er öllum mistökunum,glötuðu tækifærunum og klúðrinu sem stafar af ESB trúboðinu snúið upp á þá hlið að það séu vandamál sem stafi af skorti á ESB aðild. Skuldavandi heimilanna,snjóhengjann og gjaldeyrishöftin vegna hans, þetta á allt að leysast á einhvert ótrúlgan hátt við inngöngu og þess vegna hefur ekkert,nákvæmlega ekkert verið gert af hálfu ríkisstjórnarinnar til að leysa þennan vanda, þvert á móti hefur hann verið dýpkvaður vegna hræðslunnar við að styggja fjármagnseigendur og svo náttúrulega þennan dásamaða klúbb sem verið er að reyna að komast inn í. Hið rétta í málinu er svo náttúrulega þvert á móti það að við inngöngu yrði skuldavandandum endanlega komið yfir á herðar þjóðarinnar með því að láta hana taka á sig þær skuldir sem þarf til að blása lífi í allar ónýtu krónurnar áður en þeim yrði skift í evrur.
Sú staðreynd að í klúbbnum þeim sé allt á skakk og skjön með efnahagsstöðugleikann og réttsýnu reglurnar sem verndi fólkið, er túlkuð eins og þegar skrattinn les úr biblíunni á þann veg að aldrei hafi verið mikilvægara enn nú fyrir Ísland að komast þarna inn.
Mikið væri nú gaman ef Össur og Samfylkingin hefðu notað þó ekki væri nema brot af þessum hæfileikum til að berjast fyrir réttindum og málstað Íslendinga sem þjóð á meðal þjóða.
Svona eins og Steingrímur sá er í björgin gekk, gerði þó ekki væri nema í þetta eina sinn varðandi makrílinn!
Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 25.1.2013 kl. 08:02
Bestu þakkir fyrir innleggin.
Ég er sammála því að Össur hefur fært "klækja" stjórnmál í nýjar hæðir á Íslandi og efast ég um að þau hafi verið rismeiri í aðra tíð.
Og vissulega má dást að þeim hæfileikum, þó að þeir séu ef til vill ekki um of hugnanlegir.
Það er líka rétt að Samfylkingin hefur fátt fram reitt til lausna, nema "töfralausnina", "Sambandsaðild".
Því miður eru þeir enn of margir sem kjósa að trúa á slíkar lausnir.
En það styttist í kosningar og því hægt að leyfa sér bjartsýni. Að kjósendur ákveði að hafna slíkum lausnum og slíkum boðberum.
Kjósenda er og verður valið.
G. Tómas Gunnarsson, 25.1.2013 kl. 08:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.